Á föstudag hófst kunnuglegt ferli. Vísa átti barni sem hafði komið hingað til lands burt vegna þess að saga fjölskyldu hans þótti ekki nægilega agaleg til að leyfa þeim að vera. Barnið, sjö ára drengurinn Muhammed, hefur aldrei komið til landsins sem átti að vísa honum til (Pakistan), hafði búið á Íslandi í rúm tvö ár, talaði tungumálið reiprennandi og hafði tengst nærsamfélaginu sínu sterkum böndum.
Það nærsamfélag, drifið áfram af foreldrum barna í skóla Muhammed, reis upp gegn þeim tíðindum að hann ætti að klára skóladaginn sinn í dag (mánudag) en verða svo vísað úr landi. Við blasti öllum með vott að skynsemi að aðstæður Muhammed yrðu mun verri þangað sem átti að senda hann en þær sem hann býr við hér.
Undirskriftasöfnun var sett af stað á föstudegi þar sem ríkisstjórnin var hvött til þess að leyfa Muhammed og fjölskyldu hans að vera áfram á Íslandi. Á mánudagsmorgni voru undirskriftirnar orðnar tæplega 19 þúsund.
Þessi mikli þrýstingur virkaði. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra brást við með því að fresta brottvísunum barna í þeim málum þar sem málsmeðferð hefur farið yfir 16 mánuði, en sá frestur var áður 18 mánuðir. Þeir sem fá ekki niðurstöðu sína fyrir þann setta tímafrest geta fengið dvalarleyfi hérlendis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Þar með voru Muhammed og fjölskylda hans hólpin.
Mannfjandsamlegt kerfi og framkvæmd
Þessi breyting er þó ekki kerfisbreyting, heldur kerfisaðlögun. Plástur til að komast yfir erfiða umræðu. Henni svipar til þess sem gerðist í fyrrasumar, þegar mál Sarwary- og Sarfari-fjölskyldnanna voru í hámæli, og þáverandi dómsmálaráðherra breytti reglugerð sem gerði Útlendingastofnun heimilt að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem hefur fengið vernd í öðru ríki, ef meira en tíu mánuðir liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum, í stað þess að sá tímarammi væri tólf mánuðir.
Á undanförnum árum höfum við séð þessa stöðu koma upp aftur og aftur. Við höfum fylgst með því þegar hælisleitendur eru dregnir með lögregluvaldi út úr kirkju til að senda þá til annars lands. Við höfum séð hælisleitendur sem voru með atvinnu- og dvalarleyfi og í vinnu vera samt sem áður handtekna og flogið til Ítalíu. Við höfum séð ákvarðanir teknar um að vísa manni úr landi sem hafði hlotið dauðadóm í heimalandi sínu fyrir að hafa tekið upp kristna trú. Fjölskyldu sem flúði ofsóknir og árásir talibana hefur verið vísað burt. Við ætluðum að vísa úr landi farlama föður og ellefu ára dóttur hans. Og annarri stúlku á svipuðu reki á sama tíma. Við höfum ætlað að senda úr landi börn sem hafa fengið taugaáfall af kvíða, og aftur í yfirfullar flóttamannabúðir í Grikklandi, þar sem aðstæður eru algjörlega óboðlegar. Við höfum sent burt barnshafandi konu sem komin var 36 vikur á leið þrátt fyrir að fyrir lægi læknisvottorð þess efnis að hún ætti alls ekki að fljúga. Og nú átti að vísa burtu sjö ára dreng og fjölskyldu hans sem hefur dvalið hér og aðlagast vel í meira en tvö ár.
Í sumum tilvikum hefur upprisa efri millistéttarsamfélagsins í nærumhverfi barnanna, fólks með góðar tengingar inn í fjölmiðla og stjórnmál, dugað til að þau fái að vera. En ekki alltaf.
Staðreyndir málsins eru þær að við vísum börnum sem hafa fæðst hér á landi á brott og við sendum fjölda barna sem komið hafa hingað annað hvort fylgdarlaus eða með foreldrum sínum burt. Í svari þáverandi dómsmálaráðherra við fyrirspurn á þingi, sem veitt var í september í fyrra, kom frá að á tímabilinu 13. mars 2013 til 10. apríl 2019 hafi 62 börnum verið synjað um efnislega meðferð og 255 börnum synjað um vernd, viðbótarvernd og mannúðarleyfi í kjölfar efnislegrar meðferðar. Alls eru það 317 börn.
Fylgdarlausum börnum borgað fyrir að fara
Í gildi á Íslandi er reglugerð sem þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, setti 2018 og fól í sér að Útlendingastofnun fékk heimild til þess að greiða enduraðlögunar- og ferðastyrk til umsækjenda um alþjóðlega vernd í tilteknum tilvikum. Þau tilvik sem um ræðir eru þegar flóttamaður hefur annað hvort dregið umsókn sína um vernd hérlendis til baka eða hann hefur fengið synjun og ákvörðun hefur verið tekin um að veita aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar. Íslenska ríkið var að búa til fjárhagslegan hvata fyrir flóttamenn að fara annað.
Einn þeirra hópa sem hvatakerfið nær til eru fylgdarlaus börn frá völdum ríkjum. Þau geta fengið allt að eitt þúsund evrur, um 137 þúsund krónur, samþykki þau að draga verndarumsókn sína til baka eða að það sé þegar búið að synja þeim um alþjóðlega vernd. Það er því stefna íslenskra stjórnvalda, samkvæmt reglugerð sem var samþykkt og tók gildi í tíð sitjandi ríkisstjórnar, að borga fylgdarlausum börnum til að fara annað.
Þessi stefna er hörð og beygir ekki af leið nema í undantekningartilvikum þegar málin rata í fjölmiðla og kveikja í mennskunni í samfélaginu.
Innleiddum barnasáttmála en hunsum hann svo
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var leiddur í lög á Íslandi 20. febrúar 2013. Það eru sjö ár síðan í þessum mánuði. Samkvæmt honum ber stjórnvöldum skylda að meta það sem barni er fyrir bestu í öllum ákvörðunum sem varða börn.
Í þriðju grein hans segir að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda „er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.“
Ísland hunsar þessar skuldbindingar sem landið hefur undirgengist með stefnu sinni í útlendingamálum. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Rauði krossinn á Íslandi hafa margbent á þetta og að íslenskum stjórnvöldum beri að líta á málefni barna og barnafjölskyldna, sem leita alþjóðlegrar verndar eða sækja um dvalarleyfi af mannúðarástæðum, fyrst og fremst út frá réttindum barnanna. Stjórnvöldum ber, samkvæmt lögum, að taka allar sínar ákvarðanir er varða börn í slíkum aðstæðum með það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi.
Einn flokkur farið með framkvæmdina
Þannig er málum einfaldlega ekki háttað. Það er ekki regla að beita þeirri heimild sem er í lögum um málefni útlendinga að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, heldur algjör undantekning. Nær allar breytingar sem gerðar eru á framkvæmd fela í sér að þrengja nálaraugað sem þarf að þræða sig í gegnum til að fá að vera áfram hér.
Sú framkvæmd hefur að öllu leyti verið í höndum kvenna úr Sjálfstæðisflokknum. Raunar hafa konur úr honum stýrt útlendingamálum sleitulaust frá árinu 2013. Fyrst Hanna Birna Kristjánsdóttir, svo Ólöf Nordal, þá Sigríður Á. Andersen, síðan Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (áður aðstoðarmaður Ólafar) og loks Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um það að skiptar skoðanir eru um útlendingamál innan Sjálfstæðisflokksins. Þar eru þingmenn sem vilja mæta hluta hælisleitenda með „hörðum stálhnefa“. Þar eru þingmenn sem hafa haldið því fram að hingað til lands gætu komið 58 þúsund hælisleitendur á einu ári, sem myndu kosta okkur 220 milljarða króna á ári, þegar raunveruleikinn er sá að þeir eru um 800 árlega og kostnaðurinn tæpir fjórir milljarðar króna. Þeim hefur fækkað frá því sem mest var á árinu 2016.
Sagði heiminn eiga að rétta hjálparhönd
En innan Sjálfstæðisflokksins eru líka frjálslyndari öfl. Helsta birtingarmynd þeirra hefur hingað til verið Áslaug Arna. Hún gagnrýndi til að mynda þingmann Sjálfstæðisflokksins fyrir að velta því fyrir sér hvort að bakgrunnur múslima sem búa á Íslandi verði kannaður. Áslaug Arna sagði þá að það væri „vægast sagt átakanlegt“ að vera í sama flokki og sá þingmaður, Ásmundur Friðriksson, og bætti við að fordómar og fáfræði einkenndu ummæli hans sem pössuðu engan veginn við „þær frelsis og frjálslyndishugmyndir sem ég trúi að meirihluti Sjálfstæðismanna standi fyrir“.
Á myndbandi sem hún talaði inn á fyrir Akkeri, samtök áhugafólks um starf í þágu fólks á flótta, árið 2016, sagði Áslaug Arna að Ísland þyrfti að taka ábyrgð. „Ef allt færi á versta veg í mínu heimalandi, hér á Íslandi, myndi ég vilja geta treyst því að heimurinn myndi rétta mér hjálparhönd. Heimurinn er ekki svarthvítur og það er staðreynd að fullt að fólki, bæði menn, konur og börn, geta ekki búið í sínum heimalöndum. Sýnum bræðrum og systrum okkar virðingu og leggjum okkar af mörkum.“
Í gær bætti hún svo við, í stöðuuppfærslu á Facebook, að vilji löggjafans og stjórnvalda væri skýr. „Taka ber sérstakt tillit til hagsmuna barna við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd.“
Nú reynir á hvort að alvara fylgi þessum orðum.
Flóttamannaflokkurinn
Þar getur Áslaug Arna sótt stuðning til þess flokks sem leiðir ríkisstjórnina, og skilgreinir sig út frá flóttamannapólitík í orði, en hefur á borði leyft Sigríði Á. Andersen að móta stefnu ríkisstjórnar í honum það sem af er kjörtímabili. Hægt er að vísa í ályktun landsfundar Vinstri grænna frá því í október 2019 um „málefni flóttafólks og umsækjendur um alþjóðlega vernd“ því til stuðnings.
Þar sagði að fundurinn lýsti yfir „áhyggjum af stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd og skorar á ríkisstjórnina að ráðast í markvissar aðgerðir til að tryggja mannréttindi og reisn þess hóps, sérstaklega barna. Samhliða áréttar landsfundur mikilvægi þess að Ísland taki á móti fleira flóttafólki og að þjónusta við flóttafólk og réttindi þess séu sambærileg óháð því hvort það kemur til landsins í boði stjórnvalda eða sem umsækjendur um alþjóðlega vernd.“
Landsfundurinn taldi enn fremur að endurskoða þurfi útlendingalögin og framkvæmd þeirra „með það að markmiði að tryggja öryggi og aðstæður þeirra sem sækja um vernd á Íslandi og þá sérstaklega barna. Stórauka þarf fjármagn til málaflokksins til að tryggja réttláta og skilvirka málsmeðferð og tryggja að umsækjendur um alþjóðlega vernd geti unnið eða leitað sér menntunar meðan þeir bíða niðurstöðu máls síns.“
Samfylkingin, Viðreisn og Píratar tala á sömu nótum og í viðtali við Fréttablaðið í gær sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, að flokkarnir þrír muni leggja mikinn þunga á að vinna þverpólitískar nefndar sem skipun var í upphafi kjörtímabils um endurskoðun útlendingalaga, en var í skötulíki á meðan að Sigríður Á. Andersen var dómsmálaráðherra, verði sett í forgang.
Kosið um mennsku
Það er allt til staðar nú til að breyta málum þeirra sem leita til Íslands eftir vernd og betra lífi til frambúðar. Eina sem þarf er vilji og dugur til að standa upp í hárinu á þeim sem líta á mennsku sem veikleika. Að hverfa inn í skelina sína þegar hávær íhaldsmaður kallar einhvern snjókorn eða öskrar af torgum að það sé barnalegt að loka ekki landið af fyrir sem allra flestum. Það þarf að taka yfirvegaða ákvörðun um að ætla ekki á atkvæðaveiðar þar sem kjósendur hafa sýnt að það sé „augljós markaður“ fyrir kynþáttahyggju og útlendingaandúð.
Ríkisstjórnin hefur haft næstum heilt kjörtímabil til að laga framkvæmd laga um útlendinga. Hún hefur mjög augljóslega brugðist í þeim málum. Nú hefur hún nokkra mánuði til að bregðast skarpt við. Ef hún gerir það ekki núna þá verður mennskan einfaldlega kosningamál eftir rúmt ár, þegar kosið verður næst.
Þá mun koma að skuldadögum fyrir þá sem kusu að líta undan.