Það er mikið talað um samstöðu þessa dagana. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra talaði til að mynda um það á Alþingi í gær að hún væri „gríðarlega ánægð með þá samstöðu sem maður hefur skynjað í samfélaginu í því að takast á við veiruna. Bæði fyrirtæki og fólk hafa þar sýnt mikla ábyrgð. Flokkar á Alþingi hafa sýnt mikla ábyrgð. Þetta er dýrmætt.“
Síðan skipti hún um gír og vék að þeim sem hún taldi að væru ekki að taka þátt í samstöðunni. Forsætisráðherra sagði að vegna þeirrar miklu samstöðu sem hún skynjaði, yrði hún reið þegar nokkrar útgerðir gerðu kröfur á ríkið upp á rúmlega tíu milljarða króna vegna þess að þeim fyndist þær snuðaðar um kvóta sem þó væri úthlutað án endurgjalds. Útgerðirnar vildu auk þess fá hæstu mögulegu vexti greidda, sem gætu numið nokkrum milljörðum króna.
„Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum þetta ferðalag sem við erum stödd í. Þó ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli þá finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi það að draga þessar kröfur á til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra,“ sagði Katrín.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sló sama tón í ræðu sinni nokkrum mínútum síðar. Hann sagði að reikningurinn vegna kröfu útgerðanna yrði ekki sendur á skattgreiðendur. Bjarni bætti því við að hann teldi einsýnt að þegar yrði hafinn undirbúningur að því að „taka af öll tvímæli um að makrilútgerðirnar sjálfar beri kostnaðinn af þeim bótum sem krafist er.“
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bættist svo á vagninn í samtali við Fréttablaðið þar sem hann sagði að krafan væri taktlaus. Framferði útgerðanna bæri „vitni um algeran skort á auðmýkt gagnvart þeim réttindum sem fyrirtækin hafa fengið úthlutað og um leið gagnvart almenningi. Því er ég þeirrar skoðunar að þessi fyrirtæki ættu að draga þessar kröfur til baka og skora raunar á þau að gera það.“
Sérkennilega tímasett reiði
Nú er það svo að þótt hin harða afstaða helstu ráðamanna þjóðarinnar gagnvart ótrúlegri græðgi og tilætlunarsemi útgerðarstéttar sé tímabær þá eru nær engar líkur á því að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafi fyrst frétt af málinu um liðna helgi.
Stefnur fimm útgerðar af sjö sem krefjast skaðabóta úr ríkissjóði voru nefnilega lagðar fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. júní 2019. Hinar tvær útgerðirnar lögðu fram sínar stefnur annars vegar 10. september og hins vegar 10. desember í fyrra.
Í kjölfarið kærði Kjarninn þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á þeim grundvelli að augljósir almannahagsmunir væru af því að fjölmiðlar og almenningur mundi fá upplýsingar um það þegar fyrirtæki stefni ríkinu til greiðslu himinhárra bóta vegna úthlutunar á gæðum sem samkvæmt fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða séu sameign íslensku þjóðarinnar.
Ef ráðherrar í ríkisstjórn Íslands – þeirra sömu og settu í fyrra í lög að úthluta makríl á grundvelli veiðireynslu en án endurgjalds að mestu til stórútgerða – vissu ekki um umfang kröfu útgerða á hendur skattgreiðenda strax og þegar þær voru settar fram, þá áttu þeir að gera það. Málið hefur ítrekað verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og þess utan eru þau gæslumenn ríkissjóðs, þess sem er stefnt í málinu.
„Ólympískar veiðar“ tryggðu kvótagrundvöll
Nú skulum við samt aðeins bakka í tíma. Makríllinn sem við erum að veiða fór að ganga í auknum mæli inn í íslenska fiskveiðilögsögu árið 2005. Það ár voru veidd 360 tonn af makríl. Árið eftir voru veidd 4200 tonn og veiðarnar fóru að hefjast af einhverri alvöru 2007 þegar veidd voru 36,5 þúsund tonn. Það var þó einungis þriðjungur þess sem veitt var árið 2008 þegar 112 þúsund tonn af makríl voru dregin upp úr sjó af íslenskum útgerðum.
Þessi fyrstu ár, fram til ársins 2008, var veiðunum ekkert stjórnað. Þau skip sem fengu leyfi til að veiða gátu veitt óheft og með því myndað veiðireynslu. Augljóst ætti að vera hverjum sem er að stórar útgerðir sem stunda uppsjávarveiðar voru í yfirburðarstöðu til að stunda þessar veiðar.
Slíkar veiðar eru oft kallaðar „ólympískar veiðar“. Þessi veiðireynsla, sem aflað var í algjöru stjórnleysi, varð svo grunnurinn að þeim úthlutunum á makríl sem stjórnvöld stóðu síðar fyrir á grundvelli reglugerða. Það var gert að kröfu hagsmunasamtaka stórútgerðanna sem vildi tryggja þeim makrílkvótann til framtíðar.
Í byrjun árs 2019 voru svo samþykkt lög, lögð fram af Kristjáni Þór, þar sem makríll var færður í kvóta á grundvelli ofangreindrar veiðireynslu þar sem aflaheimildir, eða kvótar, voru að mestu færðar til stórútgerða. Hringum var lokað og óformlegt eignarhald á náttúruauðlind komið á.
Ekki var greitt fyrir þann kvóta heldur hann afhentur endurgjaldslaust. Makrílkvótinn hefur verið talinn vera 65 til 100 milljarða króna virði. Afar líklegt er að virðið sé nær efri mörkum en þeim neðri.
Stundin hefur greint frá því að 14 útgerðir fái 98 prósent þessara verðmæta, sem samkvæmt lögum eru í eigu íslensku þjóðarinnar. Á meðal þeirra eru þær sjö sem stefnt hafa íslenska ríkinu. Hinar sjö eru á meðal þekktustu stórútgerða landsins. Fyrirtæki á borð við Brim, Samherja, Síldarvinnsluna, Þorbjörn í Grindavík og FISK-Seafood, í eigu Kaupfélags Skagfirðinga.
„Lögboðinn réttur“ til verðmæta í eigu þjóðarinnar
Þrátt fyrir að hafa fengið þessa gjöf án endurgjalds þá fannst sumum útgerðum þær snuðaðar þegar Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra, setti reglugerð sem átti að miða að því að minni útgerðir gætu veitt makríl í meiri mæli. Til grundvallar átti að liggja annað en veiðireynsla, sem aflað var með áðurnefndum hætti.
Stórútgerðirnar sættu sig ekki við þetta og fóru í mál. Hæstiréttur sagði að úthlutun kvóta á öðrum grundvelli en veiðireynslu væri ólögmæt með dómum sem féllu í desember 2018. Á grundvelli þeirra dóma vilja umræddar sjö útgerðir, sem hafa fengið gefins kvóta upp á 50 milljarða króna frá íslenska ríkinu, stefna skattgreiðendur og fá 10,2 milljarða króna í bætur auk vaxta.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sagði við Morgunblaðið, sem er að uppistöðu í eigu útgerðarfyrirtækja eða aðila þeim tengdum, að útgerðirnar hafi verið beittar rangindum. Þær væru frumkvöðlar í makrílveiðum og gætu ekki verið gerðar að sökudólgum í málinu þótt þær væru að krefja skattgreiðendur um greiðslu á rúmlega tíu milljörðum króna, auk vaxta, vegna þess að þær fengu ekki nógu mikinn kvóta gefins. Útgerðirnar ættu einfaldlega „lögboðinn rétt“ til þessara verðmæta.
Hvers virði er kvóti sem veð í dag?
Það er öllum með augu ljóst að forsvarsmenn stórútgerða hafa haft óeðlilegt tak á íslensku samfélagi árum saman í krafti þess að þeir hafa getað haft mikil áhrif á stjórnmál og viðskiptalíf með auðæfum sínum. Auðæfum sem þeir hafa tryggt sér með því að fá gefins nýtingarheimildir á takmörkuðum náttúruauðlindum og svo með því að fá að veðsetja þær auðlindir í bönkum fyrir margfaldan árlegan hagnað sjávarútvegsfyrirtækja. Veð í kvóta við bankahrunið var til að mynda þannig að heildarvirði kvótans hefði þurft að vera tvö þúsund milljarðar króna til að standa undir því.
Það væri áhugavert að vita hvernig íslensku bankarnir eru að meta virði þess kvóta sem er veðsettur í þeim í dag, nú þegar sum þessara fyrirtækja telja sig vera svo illa stödd að þau þurfa að velta launakostnaði yfir á íslenska ríkið með því að setja starfsfólk sitt á hlutabætur. Það er úrræði sem er í boði fyrir fyrirtæki sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti þriðjungssamdrætti í rekstrartekjum. Eitt þeirra fyrirtækja er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Samherji. Sú samstæða á eigið fé upp á að minnsta kosti 111 milljarða króna, og líklega umtalsvert meira.
Ef rekstrarstaða þessara fyrirtækja hefur hrakað svona rosalega vegna COVID-19 faraldursins þá hlýtur virði veðsetts kvóta að hafa hríðfallið samhliða. Og möguleg tækifæri til að innkalla kvótann til ríkisbanka fyrir hendi.
Er þjóðin til fyrir útgerðina?
Oft hefur hegðun útgerða gengið fram af þjóðinni. Framferði þeirra eftir bankahrunið, þegar flotanum var siglt í land til að mótmæla veiðigjöldum og auglýsingar voru keyptar í dagblöðum þar sem sjómönnum og fjölskyldum þeirra var beitt fyrir þær var eitt slíkt tímabil.
Annað var árið 2015 þegar útgerðirnar vildu láta taka viðskiptahagsmuni þeirra fram yfir afstöðu með mannréttindum og öllum öðrum hagsmunum íslenskrar þjóðar með því að Ísland hætti að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna innlimunar Krímskagans.
Það þriðja var á árinu 2017 þegar útgerðirnar vildi að ríkið myndi taka þátt í að greiða laun sjómanna með því að gefa eftir skatt af fæðispeningum og dagpeningum vegna ferða- og dvalarkostnaðar.
Fjórða tímabilið var í nóvember í fyrra þegar opinberað var um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í Namibíu.
Enn eitt tímabilið stendur nú yfir. Þegar efnahagslegum veruleika íslenskrar þjóðar hefur verið stefnt í voða vegna fordæmalausrar heilsuógnar. Fyrir dyrum er mesti efnahagssamdráttur í heila öld. Yfir 50 þúsund manns, fjórðungur íslensks vinnumarkaðar, eru annað hvort á atvinnuleysisbótum að öllu leyti eða hluta. Þúsundir fyrirtækja eru að berjast fyrir lífi sínu. Stórkostlegar frelsishömlur hvíla á þjóðinni allri. Og samstaðan er gríðarleg. Það eru flestir að leggja sitt að mörkum með einum eða öðrum hætti. Við erum flest öll í sama bát og það eina sem fleytir okkur í gegnum þessa stöðu er samtakamátturinn.
Við þessar aðstæður reyndu hagsmunagæslusamtök útgerðanna að losna við greiðslu veiðigjalda, að losna við gjöld á fiskeldi og að láta draum sinn um að losna við stimpilgjald af fiskiskipum verða hluta af neyðaraðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar. Ofan á það bætist að ofurríkar stórútgerðir eru að láta skattgreiðendur greiða laun starfsfólksins í landvinnslu til að verja eigið fé hluthafa sinna og sjö útgerðir vilja að skattgreiðendur borgi þeim skaðabætur vegna þess að þær fengu ekki nægilega mikið af makríl gefins.
Hér er um stétt að ræða þar sem örfáir einstaklingar ráða öllu sem þeir vilja. Frekir og fyrirferðamiklir einstaklingar sem hafa vanist því að geta gengið um íslenskt samfélag eins og þjóðin sé til fyrir útgerðina, en ekki öfugt. Stétt sem á mörg hundruð milljarða króna í eigið fé. Sem á fjölmiðla. Sem hefur teygt anga sinna inn á fjölmörg önnur svið íslensks atvinnulífs og styrkt þannig tangarhald sitt á samfélaginu.
Þessi ofurstétt ætlar sér ekki að vera saman í þessu öllu með okkur hinum. Hún er í þessu fyrir sig sjálfa, ekki okkur hin.
Það þarf að segja hátt og skýrt við hana að nú sé komið nóg. Og beita öllum tiltækum tólum til að koma þeim skilaboðum til skila.