Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sendi út skýr skilaboð um stöðu mála í íslensku samfélagi í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 á þriðjudag. „Ég hef stungið upp á því við stjórnvöld að settur verði á laggirnar samstarfsvettvangur um hvernig við ætlum að hafa þetta næstu mánuði og ár. Núna er þetta meira en bara sóttvarnamál. Það eru fleiri sem þurfa að koma að borðinu og það þarf að taka tillit til ýmissa sjónarmiða. Mín sjónarmið eru fyrst og fremst sóttvarnasjónarmið og ég mun áfram halda þeim á lofti en þetta er pólitískt mál, þetta er efnahagslegt mál og alls konar viðhorf.“
Síðar um daginn, á reglulegum upplýsingafundi, endurtók hann þessa afstöðu og sagði „komið að stjórnvöldum“ að taka ákvarðanir.
Instagramráðherrar
Hingað til hafa íslensk stjórnvöld hlotið lof fyrir að hlíta tilmælum sérfræðinga og leyfa þeim að mestu að vera andlitin sem tilkynna erfiðar ákvarðanir. Þegar kemur að því að útdeila fjármunum úr opinberum sjóðum, eða öðrum tilkynningum sem hafa á sér jákvæðan blæ, er sagan hins vegar önnur. Þá er oftar en ekki vart þverfótað fyrir ráðherrum sem vilja fá að taka þátt í fundunum, og birta tilfallandi myndir af sér á Instagram við úthlutunariðjuna. Niðurstaðan er oft vandræðaleg og nokkuð augljóst að hluti ráðherranna er þar fyrst og síðast staddur til að reyna að láta hluta ljóss sem þeir telja eftirsóknarvert skína á sig, án þess að viðvera þeirra þjóni neinum eiginlegum tilgangi.
Vegna þessa hefur þríeykið svokallaða, sem samanstendur af yfirlögregluþjóni, landlækni og sóttvarnarlækni, og hefur skýrt afmarkað almannaþjónustuhlutverk, oftar en ekki legið undir gagnrýni vegna efnahagslegra og samfélagslegra áhrifa af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til í baráttunni við kórónuveiruna. Aðgerða sem hafa bein áhrif á frelsi landsmanna til athafna og tækifæri þeirra til að afla lífsviðurværis. Ráðamenn hafa verið í vari þrátt fyrir að verksvið sóttvarnalæknis, sem setur fram tilmæli um aðgerðir til að hemja veiruna út frá sóttvarnarsjónarmiðum, sé mjög skýrt það að skipuleggja og samræma sóttvarnir, ekki að huga að gangverki efnahagsmála.
Viðvarandi ástand
Með tillögu sinni á þriðjudag var Þórólfur, sem hefur sýnt að hann er yfirburðamaður í þeim aðstæðum sem hann hefur verið í síðustu mánuði, að gera tvennt. Í fyrsta lagi að gera landsmönnum það ljóst að núverandi ástand, er viðvarandi ástand. Því muni ekki ljúka í nánustu framtíð heldur verði það til staðar næstu mánuði, jafnvel ár. Því þurfi að hugsa heildrænar lausnir, sem taki mið af fleiri þáttum en sóttvörnum, til lengri tíma. „Nú erum við að sjá aðeins betur fram í tímann og það er algjörlega ljóst að við þurfum að lifa með þessari veiru. Hún er í sókn alls staðar í heiminum. Í vor var maður að vona að það væri farið að sljákka í henni alþjóðlega séð í haust en það er alls ekki að gerast. Við erum ekki að fá bóluefni, einhverja lausn á því að búa til ónæmi hérna í samfélaginu,“ sagði Þórólfur í á þriðjudag.
Í augnablikinu er það ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem verður að móta þær. Það verður áhugavert að sjá hvort sú ríkisstjórn, sem forsætisráðherrann sjálf sagði í viðtali um liðna helgi að hefði verið mynduð til að ná fram því meginmarkmiði að skapa „stöðugleika í stjórnarfari“ og byggir á því að fólk sem skilgreinir sig sjálft sem pólitískar andstæður líki persónulega vel við hvort annað, geti brotið sig út úr þægindaramma kerfisvarna og auðnast að hugsa hlutina upp á nýtt landsmönnum til heilla.
Takist henni það ekki er dauðatækifæri fyrir þá flokka sem ekki eiga aðild að ríkisstjórn að bjóða upp á skýra möguleika og framtíðarsýn, án íhaldsflokkanna þriggja, eða með einhverjum þeirra í nýrri vegferð. Enginn flokkanna virðist þó vera að nýta sér þá stöðu eins og er.
Þörfin til að viðhalda hinu kunnuglega
Það er hægt að mynda kyrrstöðuríkisstjórn þegar það er meðvindur í samfélaginu. Ríkisstjórn sem hefur fyrst og síðast það hlutverk að eyða peningum og verja kerfi.
Það gerðist 2007, þegar Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur hoppuðu saman í eina sæng, með ofurmeirihluta á þingi (43 af 63 þingsætum), og mynduðu ríkisstjórn um fátt annað en meðvirkni gagnvart ósjálfbæru bankakerfi. Stefnuyfirlýsing hennar var sögulega stutt og fjallaði um markmið á borð við „kraftmikið atvinnulíf“, „hvetjandi skattaumhverfi“ og markvissan ríkisrekstur“. Tryggja átti að fjármálastarfsemi gæti „áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi.“
Skýrasta birtingarmynd þessarar stefnu var ákvörðun forsvarsmanna hennar að ætla að ferðast um heiminn á árinu 2008 til að tala upp getu og gæði íslensku bankanna. Þeir hrundu síðan, líkt og þekkt er orðið, með gríðarlegum hvelli og samfélagslegum afleiðingum í október sama ár og um leið lauk meðvindi ríkisstjórnarinnar. Hún hrökklaðist frá völdum snemma árs 2009 þegar fyrir lá að hún gat ekki tekist á við afleiðingar hrunsins með trúverðugum hætti, enda hluti af vandamálinu, ekki lausninni.
Núverandi ríkisstjórn var mynduð um kyrrstöðu. Þótt hún sé leidd af flokki með umbótasinnaða stefnuskrá þá berst ríkisstjórnin mjög skýrt gegn kerfislegum umbótum á samfélaginu. Hún stendur til að mynda varðstöðu um sjávarútvegskerfið og fáveldið sem það leiðir af sér og virðist ætla sér að knýja í gegn útvatnaðar og ónógar breytingar á stjórnarskrá sem munu hvorki leysa deilur né auka traust. Efnahagslegar aðgerðir hennar vegna COVID-faraldursins hafa flestar miðast að því að dæla fjármagni til stórfyrirtækja, sérstaklega í ferðaþjónustu, eða setja hag þeirra fyrirtækja ofar almannaheill, og vona síðan það besta.
Kreppur opinbera kerfislega veikleika
Raunveruleikinn er sá að íslenska samfélagskerfið er ekki sjálfbært. Það treysti um of á ferðaþjónustu til að afla tekna á síðastliðnum tæpa áratug, alveg eins og það gerði með banka árin á undan, og vanrækti að nota sýnilegt tækifæri til að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf.
Atvinnulíf sem tekur meira mið af væntingum landsmanna til starfa og þeirrar menntunar sem við erum að eyða gríðarlegum fjármunum sem heild í að veita íbúum landsins. Afleiðingin var sú að stærsta stoð efnahagslífsins, sem nú er að mestu horfin, að minnsta kosti um fyrirsjáanlega framtíð, var mönnuð með tugum þúsunda erlendra ríkisborgara sem fluttu hingað til lands til að leita tækifæranna og starfa í láglaunuðum þjónustustörfum.
Betur borguðu störfin í ferðaþjónustu, t.d. flugfreyjur og -þjónar, voru mörg hver mönnuð af fólki með hjúkrunarfræðimenntun, lögfræðingum eða meistaragráður í annarri sérhæfingu. Það er ekki góð nýting á fjármunum eða fólki að mennta það til fjölbreyttra sérfræðistarfa en reyna svo ekki með neinum hætti að búa til umhverfi sem sú sérfræðiþekking nýtist.
Spekilekinn
Þessi staða hefur leitt til þess að fleiri Íslendingar hafa flutt frá Íslandi en til landsins á síðustu árum. Ástæður þeirrar þróunar hafa ekki verið kannaðar sem neinu nemur, vegna þess að stjórnvöld hafa einfaldlega ekki viljað það.
Núverandi seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, lýsti þeirri skoðun sinni fyrir nokkrum árum að auknir starfsmöguleikar annars staðar og dýrt íbúðarhúsnæði væru að ýta undir brottflutning menntaðra Íslendinga. „Ferðaþjónustan hefur ekki endilega mikla þörf fyrir menntað fólk né höfðar hún heldur til allra. Við höfum verið að sjá það að ákveðnar stéttir með háskólamenntun eru ekki að fá starf við sitt hæfi,“ sagði Ásgeir í viðtali við Fréttablaðið 2016.
Mennta- og menningarmálaráðherra boðaði í fyrravor frekari söfnun upplýsinga um menntunarstig þeirra Íslendinga sem flytja annað, en síðan hefur ekkert heyrst af því máli.
Gríðarlegur framfærsluvandi framundan
Veruleikinn sem blasir við í haust, þegar afleiðingar af atvinnumissi vegna kórónuveirunnar skella á af fullum þunga, er að þúsundir, ef ekki tugþúsundir, Íslendinga, verða í framfærsluvanda. Þegar uppsagnarfrestir klárast mun kaupmáttur margra dragast verulega saman.
Almennt atvinnuleysi var 7,5 prósent í júní (og var svipað í júlí) og að teknu tilliti til þeirra sem voru á hlutabótaleiðinni var það 9,5 prósent. Samtals eru þetta 22.907 manns. Og þeim mun líklega fjölga frekar en hitt. Langmest atvinnuleysi er á meðal þess hóps sem knúði ferðaþjónustuvélina áfram, erlendra ríkisborgara. Þar mælist það 21,5 prósent. Engar forsendur eru til þess að ætla að þessi hópur, sem hefur auðgað okkar samfélag svo mikið á síðustu árum, sé að fara burt í fyrirsjáanlegri framtíð. Á síðasta ársfjórðungi fækkaði þeim einungis um 260 talsins, en alls eru erlendir ríkisborgarar sem búa hérlendis yfir 50 þúsund. Þeim hefur fjölgað um 30 þúsund á átta árum. Og eru 13,9 prósent íbúa landsins.
Þá eru ótaldir þeir þúsundir einstaklinga sem sækjast eftir starfsendurhæfingu hjá VIRK (3.308 beiðnir um þjónustu bárust VIRK á síðasta ári og 2.092 hófu þjónustu) en eru ekki með atvinnulíf sem er tilbúið til að taka á móti þeim, með t.d. hlutastörfum, þegar endurhæfingin hefur skilað árangri. Viðbúið er að efnahagsáfallið nú muni fjölga þeim sem sækjast eftir slíkri þjónustu, og fái þá endurhæfingarlífeyri á meðan. Þeir sem þiggja slíkan fá ekki atvinnuleysisbætur á meðan.
Fjölgar í hópi jaðarsettra
Búast má við að hin miklu ferðalög landsmanna innanlands í sumar, þar sem landsmenn eyddu að minnsta kosti tugum milljarða króna sem þeir vanalega eyða erlendis, hafi frestað endalokunum hjá sumum rekstraraðilum, og viðhaldið tilveru einhverra starfa umfram það sem búist var við. Óumflýjanlegt er hins vegar að gjaldþrotahrina muni ríða yfir á síðustu mánuðum ársins, með tilheyrandi aukningu á atvinnuleysi. Fátt er í pípunum til að takast á við stöðuna.
Þar bætist sístækkandi hópur atvinnulausra við hóp annarra jaðarsettra hópa í því kerfi sem við höfum byggt upp. Hópa á borð við öryrkja sem hafa upplifað gríðarlega kjaragliðnun á undanförnum árum með þeim afleiðingum að framfærsla þeirra hefur setið eftir og slakar aðstæður flestra þeirra sem treysta á hana til að hafa í sig og á hafa versnað. Sömu sögu má segja um hluta eldri borgara. Og ýmsa aðra hópa.
Það þarf ný kerfi, ekki uppfærslu á þeim gömlu
Það þarf ekki kerfislegan stöðugleika í núverandi ástandi, heldur dug, þor, vilja og frjóa hugsun. Markmiðið á að vera að tryggja mannvirðingu, sæmandi framfærslu, boðlegt húsnæði og nýtingu á hugviti fyrir sem flesta með nýjum lausnum, bæði til að takast á við núverandi stöðu en ekki síður til að mæta breyttum veruleika fjórðu iðnbyltingarinnar. Þegar kerfi virkar ekki fyrir stóran hluta þjóðarinnar, þá þarf að breyta þeim kerfum í grundvallaratriðum. Það á að vera úrlausnarefni stjórnmálamanna að kynna nýja, betri og réttlátari valkosti. Ráði þeir ekki við það, þá eiga þeir að víkja.
Það þarf að hætta að spila eftir leikreglum ráðandi afla og búa til nýjar sem byggja á eigin væntingum um hvað sé gott samfélag.
Venjulegt fólk getur risið upp i samfélögum hvar sem er og sagt að skipulagið sé ekki réttlátt. Það sé hægt að gera betur. Það er hægt að breyta og bæta.
Eftir rúmt ár verður kosið um þetta. Hvort að til standi að gera litlar uppfærslur á þeim hugbúnaði sem Ísland er rekið á, í „Ísland 2.0“.
Eða hvort vilji sé til þess að innleiða nýjan hugbúnað þannig að kerfin gagnist fleirum.