„Ég segi bara, reynum að koma út úr þessu öllu saman með Ísland í uppfærslu 2.0.“ Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í apríl síðastliðnum. Þar var hann að tala um þær efnahagslegu aðgerðir sem grípa þurfi til vegna áhrifa kórónuveirunnar hérlendis.
Þegar hann var spurður um það, í viðtali við Kjarnann í maí, hvernig þessi uppfærsla gæti verið sagði Bjarni að í henni felist að þurfa að horfa djarft til margra sviða samfélagsins. Hann hafi verið að hugsa til einkageirans, og að við myndum hætta að gera það þar sem ekki gekk upp, en líka að horft yrði til verðmætasköpunar á fleiri sviðum en gert hafi verið til þessa. Í því felist meðal annars að setja aukin kraft í stuðning við rannsóknar- og nýsköpunarumhverfið í landinu.
Bjarni sagði líka að mörg tækifæri væru til hagræðingar í opinbera geiranum. „Ég finn það svo sterkt úr mínu ráðuneyti hvað við gætum verið að gera marga hluti með skilvirkari hætti.“
Bjarni er ekki eini ráðamaðurinn sem hefur eytt undanförnum mánuðum í að tala um að einfalda, umbylta eða breyta almannaþjónustu þannig að hún gagnist betur, eða að áherslan þurfi að vera á að „fjölga eggjunum í körfunni“ með því að auka áherslu á rannsóknir, þróun og nýsköpun til að skapa störf framtíðar.
Minna hefur hins vegar verið um efndir í þeim efnum.
Hljóð og mynd fara ekki saman
Ísland hefur að uppistöðu verið með þrjár stoðir undir efnahag sínum undanfarin ár. Sú sem skapar mestar gjaldeyristekjur er ferðaþjónusta. Þar á eftir kemur sjávarútvegur og loks álframleiðsla, sem er drifin áfram af nýtingu á íslenskri orku. Síðan hefur verið hægt að þjappa öllu hinu saman í eina stoð sem mætti kalla „allt hitt“.
Þrátt fyrir þessa einföldu gjaldeyristekjusköpun þá hefur menntakerfið verið byggt upp til að framleiða allskyns sérfræðinga, á margháttuðum sviðum. Þegar þeir svo ljúka námi, eftir að hið opinbera hefur fjárfest tugum milljónum sérhæfingu þeirra, hefur beðið margra þeirra atvinnulíf sem gerir ekkert sérstaklega ráð fyrir þeim. Hljóð og mynd hafa ekki farið saman.
Í kreppum gefst hins vegar oft ráðrúm til að stokka upp spilin. Það hefði verið hægt eftir að bankabólan sprakk, með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenska þjóð, haustið 2008. Og það var reynt.
Vegferðin sem var ekki farið í
Á grunni hinnar stórmerkilegu McKinsey-skýrslu um möguleika Íslands til eflingar langtímahagvaxtar, sem kom út haustið 2012, var myndaður Samráðsvettvangur um aukna hagsæld. Helsta niðurstaða skýrslunnar var að það ætti að stefna að sjálfbærum hagvexti á Íslandi til lengri tíma litið með því að auka framleiðni í hagkerfinu. Þar ætti að vera forgangsmál að auka verulega hugvitsdrifinn útflutning, hinn svokallaða alþjóðageira. Við gætum ekki lengur treyst á að auðlindageirinn – sem nýting á náttúru, veiðar á fiski og virkjun á orku tilheyra – gæti staðið undir þeim vexti sem nauðsynlegur er til að viðhalda og jafnvel bæta lífsskilyrði á Íslandi.
Samráðsvettvangurinn var þverpólitískur og þverfaglegur vettvangur sem var ætlað að koma þessum markmiðum til leiðar. Ótrúlega merkilegt starf var unnið innan hans framan af. Fyrirtæki, aðilar vinnumarkaðar, stjórnmálamenn og margir fleiri lögðu sín lóð á vogaskálarnar.
Eftir kosningarnar vorið 2013 var þessari vinnu hins vegar ýtt til hliðar og ákveðið að horfa frekar til skammtímaávinnings af stóraukinni ferðaþjónustu sem hagvaxtarhvata en að leggja í það langtímaverkefni að raunverulega fjölga stoðunum undir íslensku efnahagslífi og búa til störfin sem við erum að mennta fólk í.
Þessi skammsýni, að leggja allt undir á auðlindadrifnu atvinnuvegina, á sinn þátt í því að kreppuhöggið nú verður jafnt hart og raun ber vitni.
Búið að velja sigurvegara
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, lýsti þessari stöðu ágætlega í viðtali við Kjarnann í síðustu viku. Þar sagði hann það vera skoðun sína að ferðaþjónusta hafi á árunum eftir hrun fengið of mikla athygli stjórnvalda á sama tíma og önnur vaxtartækifæri hafi farið forgörðum. Það sama megi ekki gerast nú. „Það eru mjög stórar ákvarðanir og strategískar sem bíða þess að vera teknar, um það á hverju við ætlum að byggja verðmætasköpunina,“ sagði Sigurður.
Hann telur það einfaldlega löngu tímabært að stjórnvöld móti hér atvinnustefnu sem byggi á að auka samkeppnishæfni með umbótum. Aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna kórónuveirufaraldursins sýni hins vegar „svart á hvítu“ að stjórnvöld séu með atvinnustefnu af öðrum toga en þá sem æskileg væri. „Sú atvinnustefna gengur út á það að velja sigurvegara og þar er raunar einn sigurvegari sem er á blaði og það er ferðaþjónustan. Aðgerðir stjórnvalda miða fyrst og fremst við að bjarga ferðaþjónustunni.“
Þetta er rétt hjá Sigurði. Skýrasta dæmið er að sitjandi ríkisstjórn var tilbúin að setja 27 milljarða króna í að hjálpa fyrirtækjum til að segja upp fólki – þótt sú aðgerð hafi á endanum kostað ríkissjóð um átta milljarða króna – en hefur aukið fjárfestingu í nýsköpun um tæpa fimm milljarða króna eftir að COVID-19 faraldurinn skall á.
Ekki fyrstu sigurvegararnir sem eru valdir
Íslensk stjórnvöld hafa áður valið sigurvegara. Það gerðu þau til að mynda þegar alþjóðlegum auðhringjum sem eiga hér álver fengu að kaupa rafmagn á hrakvirði og var gert kleift að taka út allan hagnað að mestu óskattlagðan í gegnum milliverðlagningu og þunna eiginfjármögnunarfimleika.
Eða þegar þau ákváðu að leyfa sjávarútvegsfyrirtækjum að veðsetja aflaheimildir sem þau eiga ekki fyrir mörg hundruð milljarða króna lánum og greiða einungis smánarleg veiðigjöld fyrir.
Samkvæmt tölum úr sjávarútvegsgrunni sem geirinn lætur taka saman fyrir sig þá er staðan þessi: Hagnaður sjávarútvegsins (eftir fjárfestingu, gjöld og afskriftir) á árunum 2011 til 2019 var 390 milljarðar króna. Greidd veiðigjöld á sama tímabili voru 69,9 milljarðar króna. Af þeim 460 milljörðum króna sem sátu eftir í hagnað fóru því 18 prósent til eigandans (þjóðarinnar) en 82 prósent varð eftir hjá vörslumanninum (útgerðinni).
Á einum áratug eru eigendur útgerðanna, að mestu nokkrar fjölskyldur, búnir að greiða sér út rúmlega 100 milljarða króna í arð út úr þessu kerfi. Enginn þarf að velkjast í vafa um hver sigurvegarinn er í þessari jöfnu.
Allt of mörg sveitarfélög
Í McKinsey-skýrslunni var líka fjallað um að auka skilvirkni opinberrar þjónustu. Það felur einfaldlega í sér að þeir fjármunir sem við setjum í hana séu betur nýttir. Að minna sé sóað í óþarfa og meira sé nýtt í að bæta þjónustu við íbúa landsins, hvort sem um sé að ræða úr hendi ríkis eða sveitarfélaga.
Ýmislegt var talið til. Meðal annars frekari sameining stofnana, skilvirkari þjónustusamningar og aukið rafrænt þjónustuframboð. Einhver þróun hefur átt sér stað á öllum þessu vígstöðvum, en fjarri því nægilega mikil.
Lykiltillaga var síðan að fækka sveitarfélögum úr þeim 74 sem þá voru í tólf. Þau eru nú 72 og fækkar um nokkur til viðbótar þegar sameining nýs sveitarfélags á Austurlandi gengur að fullu í gegn. En þetta ferli gengur allt of hægt. Og ástæðan fyrir því eru einungis pólitískir hagsmunir þeirra sem sækja sér vald eða matarholur í þetta ofvaxna og óhagkvæma kerfi.
Þetta er eðlileg umræða að taka, í ljósi þess að á Íslandi búa rúmlega 364 þúsund manns. Það er gjörsamlega fjarstæðukennt að halda úti öllum þessum sveitarfélögum, allri þessari stjórnsýslulegu yfirbyggingu og öllum þessum illa ígrunduðu og óskilvirku þjónustusamningum sem í gildi eru. Með því erum við að sóa fjármunum og draga úr gæðum þjónustu. Þær tillögur sem hafa verið lagðar fram ganga og skammt og taka of langan tíma að komast í framkvæmd.
Einfaldara Ísland
Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur, skrifaði afar athyglisverða grein um þessi mál í janúar síðastliðnum. Hún bar heitið „Einfaldara Ísland“.
Þar sagði Héðinn að það gæti falist mikil tækifæri í einfaldara stjórnkerfi fyrir svona fámenna þjóð. Markmiðið væri þríþætt: Í fyrsta lagi að bæta þjónustu við íbúa og færa hana nær þeim. Í annan stað að nýta betur þá tæpu 1.300 milljarða króna af almannafé sem við greiðum árlega til samneyslunnar og að síðustu að jafna, einfalda og styrkja stjórnkerfi framkvæmdavaldsins. „Framtíðarsýnin er að hér yrði fjölskipað stjórnvald með níu ráðuneytum á fyrsta stjórnsýslustiginu. Á seinni stiginu, nú þegar öll „jarðarbönd“ trosna og þjónusta á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar færist í rafrænt form sem er án allra sveitarfélagamarka, væri skynsamlegt að átta til tólf sterk sveitarfélög tækju við málaflokkum á borð við málefni aldraðra, hjúkrunarheimili heilsugæslu og framhaldsskóla frá ríkinu. Slík einföldun og tilfærsla verkefna þýddi ekki einungis að ofangreindri framtíðarsýn yrði náð heldur byði þetta einnig upp á meiriháttar hagræðingartækifæri hvað varðar endurskoðun á stofnanakerfi ríkisins. Stofnunum yrði breytt, þeim fækkað og þær styrktar. Einfaldara Ísland.“
Stjórnmálamenn ættu að hlusta meira á Héðinn.
Ljósrit eða uppfærsla?
Það að móta alvöru atvinnustefnu og stórauka framlög til nýsköpunar, með það að markmiði að bæta og styrkja íslenskt efnahagslíf, er risaákvörðun. Að gjörbreyta stjórnsýslu landsins þannig að hún gagnist landsmönnum sem best er það líka. Margir munu missa spón úr aski sínum. Valdanet, sem ofið hefur með áratugaáhrifum í tugum sveitarfélaga og innsetningum á flokkshestum í stofnanir, stjórnir og nefndir, mun rakna upp. Erfiðara verður að útdeila almannafé eða gæðum til sérhagsmunaafla og vildarvina.
En þetta eru ákvarðanir sem þarf að taka.
Ísland í uppfærslu 2.0 mun hvíla á alvöru pólitík sem þorir. Samhliða ofangreindu mætti auðvitað takast á við önnur mál sem tekist hefur að þæfa árum og jafnvel áratugum saman. Þar ber helst að nefna sanngjarnari gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda og hvert megininnihald stjórnarskrár lýðveldisins eigi að vera. Þar skiptir mestu máli að viðurkenna algjörlega eignarrétt þjóðar á auðlindum og að vörslumenn geti ekki veðsett eignir. Að jafnræði atkvæða allra landsmanna verði tryggt. Að kaflinn um forsetaembættið verði aðlagaður að veruleikanum og skýr ákvæði sett um hvernig þjóðin geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Þá væri ekki úr vegi að uppfæra stjórnarskrá þannig að hún taki að fullu mið af alþjóðavæddum heimi 21. aldarinnar og þátttöku í alþjóðasamstarfi, ekki stöðu mála eins og hún var á fimmta áratug síðustu aldar. Ekkert í framlögðum og útvötnuðum tillögum forsætisráðherra um stjórnarskrárbreytingar nær þessum sjálfsögðu markmiðum.
Ekki væru heldur úr vegi að eiga vitræna umræðu um það hvort að landsmönnum finnist það ásættanlegt áfram að krónurnar í vasa þeirra rýrast um tugi prósenta að virði í alþjóðlegum samanburði alltaf þegar mótvindur er í íslensku efnahagslífi. Það gerist á sama tíma og flest fyrirtæki í alþjóðlegum rekstri hafa þegar kastað gjaldmiðlinum vegna þessarra sveiflna og fjármagnseigendur stunda það að stórauka eignir sínar með því að færa fjármuni út úr krónunni í aðdraganda niðursveiflu, en aftur inn í hana eftir gengisfall til að kaupa eignir á brunaútsölu, með tilheyrandi ágóða. Þessa umræðu þarf að eiga á öðrum forsendum nú en áður, þar sem gengisfellingin kemur ekki í lengur í veg fyrir að aðlögun sé tekin út í atvinnuleysi. Um það getur á þriðja tug þúsunda landsmanna sem er án atvinnu vitnað.
Það er ekki eftir neinu að bíða. Tíminn er núna. Ísland 2.0 bíður. Spurningin er bara hvort það eigi að vera lélegt ljósrit af frumútgáfunni eða alvöru uppfærsla á helstu undirliggjandi kerfum.
Yfir til ykkar.