Fyrir stuttu tísti ég á Twitter. Í tístinu bað ég fólk um að deila því með mér, hvaða borg væri sú glataðasta sem það hefur komið til. Það stóð ekki á svörum. Eftir einn dag voru komin 73 svör.
Hvað er glataðasta borg sem þú hefur komið til?
— Eirikur Ragnarsson (@eikonomics_eiki) November 24, 2020
Myndir (og smá útskýringu), takk https://t.co/pxYQALeuTL
Leiðinlegustu borgirnar voru flestar í Bretlandi. Þessar post-Thatcher-sleggju borgir, þaðan sem ekkert er að frétta. Spánn fór líka illa út úr þessari könnun, en ekki eins illa og Mónakó, sem virðist þó ekki vera með eins slæmt orðspor á sér og Minsk.
Minsk átti þó ekkert í Pisa, en það sáu ansi margir eftir ferð sinni þangað. Þessir klukkutímar – sem flest okkar eiga ekki nema um 744 þúsund af á lífsleiðinni – sem eytt var í Pisa eru óendurkræfir, tapaðir. Koma aldrei aftur. Og allt fyrir einhvern illa byggðan turn.
Annað tíst sendi ég út stuttu áður, þar sem ég bað fólk um að nefna uppáhalds borgirnar sínar. Það voru reyndar aðeins færri sem sendu inn tillögu þar, en þó slatti. París og Róm voru fyrirsjáanlega – og réttilega – á toppnum, þó aðeins rétt á undan hinni undurfögru Porto.
Íslands-twitter, sama spurning?
— Eirikur Ragnarsson (@eikonomics_eiki) November 23, 2020
Hvaða borg er besta borg þú hefur komið til?
Myndir, takk. https://t.co/uLBJibU7kh
Eitt svar, eða öllu heldur endurtíst, stóð þó upp úr í öllu þessu stuði. Það var svar Katrínar Atladóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Katrín skrifaði að hún þráði svo „mikið að fara til útlanda að“ hún gæti ekki „með nokkru móti fundið eina slæma minningu frá borg erlendis.“
Ég þrái svo mikið að fara til útlanda að ég get ekki með nokkru móti fundið eina slæma minningu frá borg erlendis. https://t.co/P5xhToUEjX
— Katrín Atladóttir (@katrinat) November 25, 2020
Þetta skil ég vel, þó ég sé tæknilega séð búsettur erlendis. (Sama hversu lengi ég bý í Þýskalandi, hversu þýskur sonur minn verður, hversu þýsk konan mín er, hversu vel ég aðlagast, þá er Ísland alltaf mitt „Heimat“.) COVID hefur takmarkað getu okkar til að ferðast, sem er, fyrir marga, mikill velferðarskaði.
Þeim mun lengur sem líður frá síðustu útlandaferð, þeim mun meira rómanserum við útlönd. Þið vitið hvað skáldin segja um fjöllin og fegurðina. Flestir muna eftir ferðinni niður rennibrautina, en færri vista minninguna um röðina sem þeir biðu í til að fá að renna sér.
Þetta er eitt af þeim fjölmörgu vandamálum sem félagsfræðingar, og ekki síður sálfræðingar, fást við þegar þeir hanna spurningalista, til þess að reyna að meta virði ýmiskonar afþreyingar, eftir að fólk hefur neytt hennar. Það er að segja, minnið blekkir okkur. Tíminn og minnið bjagar svör okkar, oft þannig að við ýkjum, án þess þó að ætla okkur að það.
Ef mér leyfist að nota orðaforða hagfræðinnar: Katrín, rétt eins og flest okkar, ofmetur líklega fórnarkostnað sinn af því að vera föst á eyjunni ágætu.
En þessi bjögun sem tíminn og minnið skapar er þó ekki það eina sem taka þarf inn í fórnarkostnað Katrínar. Því í dag er Ísland eflaust einn minnst leiðinlegi staður í heimi til að vera á. Fyrir utan reyndar Nýja Sjáland, þar er sumar, sól, engir ferðamenn og COVID er bara eitthvað sem lesið er um á erlendum vefsíðum.
Á Spáni er ekkert opið á kvöldin. Í Þýskalandi er ekki hægt að skella sér á Brauhaus og fá sér Haxe (eða Himmel und Äd, í Köln, Bjössi Borko). Í Frakklandi er allt lok-lok og læs. Í Kína er þér stungið vikum saman í stofufangelsi ef einhver í hverfinu þínu fellur á COVID-prófi. Bandaríkin eru Vífilsstaðir. Og ef þú reynir að sækja Norður Kóreu heim, þá skjóta þeir þig fyrst og brenna svo.
Því má segja að fórnarkostnaður Katrínar sé enn minni en hún gerir sér kannski grein fyrir. Því útlandaferðin sem hún færi í dag, væri einfaldlega ekki eins mikið fjör og þær sem hún fór í áður.
Þess vegna er ég viss um það, að ef Katrín endurreiknar fórnarkostnað sinn af því að vera heima – og leiðréttir verðmæti utanlandsferða eins og þær eru í dag og gefur minningum sínum smá afslátt líka – þá á hún eftir að reikna sig niður á lægra velferðartap sem orsakast af útivistabanninu. Og mögulega getur hún þá fundið, í það minnsta eina glataða utanlandsferð, sem hún getur sagt mér frá á Twitter.