Stjórnarliðar, lobbíistar og klappstýrur þeirra í fjölmiðlum keppast við að selja nýafstaðið hlutafjárútboð Íslandsbanka sem mikla sigurför. Það er rökstutt með ýmsum hætti. Verðið hafi verið í efri mörkum, nýi hluthafahópurinn sé breiður og að tekist hafi að laða erlenda fjárfesta að íslenskum hlutabréfum.
Forsætisráðherra lét meira að segja í það skína í viðtali við RÚV að áhugi á útboðinu sjálfu hafi hækkað verðmiðann á Íslandsbanka. Hún taldi „aðgerðina vera vel heppnaða“.
Það velkist líkast til enginn í vafa um það lengur að hlutabréf í Íslandsbanka voru seld á undirverði. Það að níföld eftirspurn hafi verið eftir bréfunum í stærsta frumútboði Íslandssögunnar gaf það strax til kynna. En auðveldara hefði einfaldlega verið að lesa uppgjör bankans og bera hann saman við eina skráða kerfislega mikilvæga bankann sem var fyrir á markaði, Arion banka.
Báðir eru byggðir á brunarústum fyrirrennara sinna sem féllu í bankahruninu. Báðir hafa verið „þrifnir“ af vandræðaeignum, með miklum samfélagslegum kostnaði. Báðir starfa nær einvörðungu á Íslandi og þjónusta nær einvörðungu íslensk fyrirtæki og báðir njóta þeirrar sérstöðu að vera einu viðskiptabankar í heimi sem eru skráðir á markað en notast við íslenska krónu sem gjaldmiðil.
Svipaðir bankar, afar ólíkt verð
Það er hægt að fara dýpra í þennan samanburð.
Arion banki setti sér það markmið sumarið 2019, eftir skráningu á markað, að ná arðsemi eiginfjár yfir tíu prósent og að rekstrarkostnaður yrði undir 50 prósent af rekstrartekjum. Bankinn náði arðsemismarkmiðinu á síðasta ársfjórðungi í fyrra og kostnaðarhlutfallið er komið undir 50 prósent, meðal annars vegna umfangsmikilla uppsagna á fólki. Arion banki greiddi út 14,8 milljarða króna út til hluthafa í arðgreiðslur og í endurkaup á bréfum á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021. Í lok mars var umfram eigið fé bankans enn 41 milljarðar króna og yfirlýstur vilji er til staðar að tappa því af til hluthafa sem allra fyrst.
Eignir Arion banka voru metnar á 1.181 milljarð króna í lok fyrsta ársfjórðungs og eigið fé bankans var 189,5 milljarðar króna. Markaðsvirði Arion banka er nú 244 milljarðar króna. Það þýðir að fyrir hverja krónu af eigin fé eru fjárfestar tilbúnir að borga 1,29 krónur.
Þá stefnir Íslandsbanki að því að lækka kostnaðarhlutfall sitt niður í 45 prósent áður en árið 2023 gengur í garð. Það verður væntanlega aðallega gert með fækkun starfsfólks. Yfirlýst markmið bankans er svo að greiða út 50 prósent af hagnaði hvers árs í formi hefðbundinna arðgreiðslna. Þá ætlar hann auk þess að nýta umfram eigið fé bankans til frekari arðgreiðslna eða kaupa á eigin bréfum. Umfram eigið fé Íslandsbanka var 58 milljarðar króna í lok september síðastliðins. Útgreiðanlegt umfram eigið fé var metið á rúmlega 30 milljarða króna af greinendum í aðdraganda útboðs.
Íslandsbanki er stærri banki en Arion banki, eignir hans í lok mars voru 1.385 milljarðar króna og heildar eigið fé var nánast það sama, eða 185 milljarðar króna. Markaðsvirði Íslandsbanka við skráningu var 158 milljarðar króna. Það þýddi að þeir sem tóku þátt í útboðinu voru að greiða 0,85 krónur fyrir hverja krónu af eigin fé.
Semsagt: 35 prósent hlutur í Íslandsbanka, sem er að uppistöðu nánast eins og Arion banki nema aðeins stærri, var seldur á verði sem er 34 prósent undir markaðsvirði Arion banka. Engar vitrænar skýringar hafa verið gefnar á þessu. Einhverjir hafa bent á að víða um hinn vestræna heim sé ekki óeðlilegt að félög séu skráð á markað á verði sem er líklegt til að hækka jafnvel um einhver prósent skömmu eftir skráningu. Afslátturinn er til að auka áhugann. En þar er að uppistöðu um að ræða félög sem eru að sækja sér fé til vaxtar, ekki nýþrifinn ríkisbanka sem er ekki að fara að stækka neitt að óbreyttu, né í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er því beinlínis hlægilegt að bera skráningu þjónustufyrirtækis á Íslandi saman við til dæmis skráningu hugvitsfyrirtækis í Bandaríkjunum. Og eiginlega ekki hægt að draga aðra ályktun en að slíkt sé sett fram í einhverri tilraun til afvegaleiðingar.
Fáið ykkur 250 þúsund krónur
Þegar þetta lá ljóst fyrir, að hlutur í bankanum yrði seldur á miklu undirverði, gátu flestir reiknað sig niður á að það væri hægt að taka út skjótfenginn gróða með þátttöku. Þeim skjótfengna gróða var meðal annars beint gegn einstaklingum sem áttu sparnað þar sem það skilyrði var sett að þeir sem keyptu fyrir milljón eða undir myndu ekki skerðast. Fyrir vikið keyptu alls um 24 þúsund aðilar í bankanum, að uppistöðu einstaklingar sem keyptu fyrir lágar fjárhæðir. Þarna er um að ræða um 6,5 prósent þjóðarinnar eða 12 prósent þeirra sem eru á vinnumarkaði.
Sá sem keypti fyrir milljón krónur gat selt þann hlut með 250 þúsund króna hagnaði viku síðar. Miðað við fjölda viðskipta fyrstu tvo daganna eftir skráningu Íslandsbanka á markað þá seldu margir úr þessum hópi strax. Þeir keyptu eign af ríkinu, héldu á henni í viku, og tóku svo út 20-25 prósent ávöxtun.
Fyrir þessa uppstillingu greiddi ríkissjóður og ríkisbankinn nokkrum erlendum fjárfestingabönkum, íslenskum bönkum og fjármálasjoppum rúma tvo milljarða króna í þóknanir.
Tilfærsla á fjármunum til þeirra sem betur hafa það
Leiða verður líkur að því að þarna sé um fólk sem á sparnað eða umfram eignir að ræða. Þ.e. sem er annað hvort með tekjur sem skilja eftir afgang þegar búið er að greiða framfærslu og húsaskjól í hverjum mánuði eða á eignir. Þegar tölur um hlutfallsdreifingu eigna eru skoðaðar þá kemur í ljós að þau 20 prósent landsmanna sem eru með hæstu tekjurnar eiga 67 prósent innlána. Sú tíund landsmanna sem er tekjuhæst á svo 86 prósent allra verðbréfa í eigu einstaklinga. Það þarf ekki að vera með doktorsgráðu í hagfræði til að sjá að þessi hópur er langlíklegastur til að hafa myndað uppistöðuna í kaupendahópnum sem keypti í Íslandsbanka. Sá hluti sem við bættist er sennilegast úr því mengi sem fór efnahagslega vel út úr kórónuveirufaraldrinum, meðal annars vegna aðgerða stjórnvalda sem juku kaupmátt þeirra. Og er líklegastur til að hafa fengið 21 milljarð króna skattaafslátt á undanförnum árum fyrir að nota séreign til að borga niður húsnæðislánið sitt.
Þetta er líka fólkið sem fékk mest úr ríkissjóði síðast þegar ákveðið var að gefa vel stæðu fólki peninga úr honum undir hatti „Leiðréttingarinnar“. Í þeirri aðgerð fóru 30 prósent þeirra 72,2 milljarða króna sem greiddir voru til hóps sem hafði verið með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009 til tekjuhæstu tíundar landsmanna, alls 21,6 milljarð króna. Til samanburðar fékk tekjulægri helmingur þjóðarinnar 14 prósent heildarupphæðarinnar.
Í könnun sem Gallup gerði fyrr á árinu fyrir ASÍ kom fram að kjósendur eins flokks, Sjálfstæðisflokks, væru fylgjandi sölu Íslandsbanka á þessu ári. Kjósendur allra annarra flokka voru að meirihluta á móti henni. Um 56 prósent landsmanna voru á móti henni og 23 prósent þeirra fylgjandi. Það kemur kannski ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn er langvinsælasti stjórnmálaflokkur landsins hjá tekjuhæstu einstaklingunum á Íslandi. Heilt yfir mælist þessi flokkur, sem kom sölu á Íslandsbanka inn í stjórnarsáttmála og hefur allan veg og vanda að sölu hans, með stuðning 23,5 prósent þjóðarinnar í síðustu könnun Gallup á fylgi flokka.
Útlendingar sem fóru inn og út
Mikið var látið með það að erlendir fjárfestar hafi keypt um ellefu prósent af heildarhlutafé Íslandsbanka. Fyrir utan tvo sjóði, sem gerðust svokallaðir hornsteinsfjárfestar, þá þurftu þessir erlendu aðilar ekki að binda sig til neins tíma.
Í ljósi þess að þarna er um fjárfestingarsjóði sem hafa það eina markmið að græða mikið af peningum þá ætti það ekki að koma neinum á óvart að þeir hafi hoppað á að kaupa í banka á útsöluverði. Viðskiptablaðið greindi svo frá því í gær að nokkrir stórir erlendir sjóðir sem tóku þátt í útboðinu hafi þegar selt megnið af bréfum sínum í Íslandsbanka og leyst út 20-25 prósent hagnað sinn. Þeir voru því í eigendahópnum í viku. Til málamynda skulum við gefa okkur að þessir sjóðir hafi keypt fyrir einn milljarð króna og selt með 250 milljón króna hagnaði. Þá hefur tekist að auka útflæði úr íslensku efnahagskerfi um þá upphæð á einni viku. Án sýnilega vitrænnar ástæðu.
Í frétt Viðskiptablaðsins kom einnig fram að íslenskir lífeyrissjóðir hafi verið áberandi á kauphliðinni fyrstu daganna eftir að bréfin voru tekin til viðskipta. Flestir þeirra voru skertir verulega í útboðinu, fengu að kaupa minna á tombóluverði en þeir vildu. Það þýðir að almenningur, eigandi lífeyrissjóðanna, hefur verið að kaupa bréf sem voru fyrir rúmri viku síðan í eigu almennings í gegnum ríkissjóð aftur af erlendum fjárfestingarsjóðum og vel stæðu fólki á Íslandi með 20-25 prósent álagi.
Fréttablaðið greindi svo frá því að sjóðir í stýringu hjá Íslandssjóðum, sjóðsstýringarfyrirtæki Íslandsbanka, hafi verið skertir miklu minna en samkeppnisaðilar þeirra. Á meðal þeirra sem fjárfesta í sjóðum Íslandssjóða eru helstu einkabankakúnnar Íslandsbanka. Þeir, ásamt öðrum hlutdeildarskírteinishöfum, fengu því óbeint að græða mun meira en aðrir í sambærilegri stöðu. Og Íslandssjóðirnir sem keyptu bréfin í Íslandsbanka munu skila ægilega fínum ávöxtunartölum eftir árið.
En útboðið heppnaðist vel segja stjórnvöld.
Af hverju þarf að selja hlut í ríkisbanka?
Við allt þetta vaknar enn og aftur upp spurningin um af hverju það þurfti að selja hlut í ríkisbanka? Rökin um að það sé svo mikil áhætta fyrir ríkið að eiga í banka halda auðvitað ekki, enda liggur fyrir að það er óformleg ríkisábyrgð á öllum þessum bönkum sem gera upp í íslenskum krónum. Hrunið sýndi það svart á hvítu.
Í ljósi þess að það tók einungis fimm ár frá fullri einkavæðingu ríkisbanka síðast, ferli sem hófst að mörgu leyti á svipaðan hátt og það sem nú stendur yfir, þangað til að þeir féllu yfir þjóðina, má færa sterk rök fyrir því að meiri áhætta sé fólgin í að einkavæða banka en að gera það ekki. Einkavæðingin hvetur til frekari áhættusækni vegna þess að kaupréttirnir og bónusarnir sem starfsmenn og stjórnendur fá eru bundnir við frekari gróða.
Búið er að hrekja fullkomlega þá fjarstæðukenndu skýringu að það þurfi að selja til að eiga fyrir COVID-19 reikningnum. Vextir á skuldum ríkissjóðs hafa verið að lækka hratt og mjög sennilegt er að arðgreiðslur sem ríkið verður af við að selja banka og greiða upp skuldir séu hærri en sá vaxtakostnaður sem sparast. Það er ekki skortur á fjármagnseigendum sem vilja lána Íslandi á skaplegum kjörum. Það sást vel í janúar þegar ríkið sótti sér 117 milljarða króna erlenda fjármögnun á núll prósent vöxtum. Eftirspurn var fjórföld.
Svo hefur ríkisstjórnin ráðist í umfangsmiklar skattalækkanir, sem draga úr tekjum ríkissjóðs. Varla væri hún það gera að ef tekjusamdrátturinn sem af hlýst leiðir til þess að ríkið þurfi að ráðast í eignasölu til að láta enda ná saman.
Hverjir eru heppilegir eigendur?
Í Hvítbók sem unnin var fyrir ríkisstjórnina um framtíð fjármálakerfisins fyrr á kjörtímabilinu sagði að heilbrigt eignarhald væri mikilvæg forsenda þess að bankakerfi haldist traust um langa framtíð. „Í því felst að eigendur banka séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi.“
Tilraunir voru gerðar til að fá erlenda banka til að kaupa í Íslandsbanka. Það hefur þótt heilbrigðasta leiðin til að selja ríkisbanka. Þar var að venju mest horft til Noregs og sumir stærstu bankarnir þar skoðuðu útboðsgögnin. Enginn þeirra ákvað að vera með. Alveg eins og í aðdraganda einkavæðingarinnar sem hófst 2002.
Erfitt er að sjá hvaða eigendur sem komu inn í eigendahópinn núna hafa langtímasjónarmið að leiðarljósi, að minnsta kosti sem virkir eigendur. Einstaklingarnir sem keyptu og hafa ekki selt geta ekki haft nein áhrif með sína litlu hluti. Erlendu fjárfestarnir sem löðuðust að útboðinu gerðu það að hluta til með það fyrir augum að leysa út lottóvinning á viku. Íslenskir lífeyrissjóðir eru ekki virkir eigendur í neinum félögum sem þeir eiga í, enda eiga þeir í þeim flestum.
Það er ljóst að ef næsta ríkisstjórn ákveður að selja stóran hlut í Íslandsbanka til viðbótar, líkt og til dæmis formaður Sjálfstæðisflokksins hefur boðað, þá munu skapast aðstæður fyrir hóp íslenskra einkafjárfesta að mynda kjarna sem getur orðið stefnumótandi fyrir bankann. Á sama hátt og gerðist með Landsbankann og Búnaðarbankann á árunum 2002 og 2003, með vel þekktum afleiðingum. Við blasir að þeir sem eru í bestri stöðu til að mynda þann hóp tengjast íslenskum sjávarútvegi.
Það virðist því vera að stjórnvöld hafi yfirgefið það markmið að fá eigendur með langtímasjónarmið að leiðarljósi sem séu „traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs.“
Nú er markmiðið eitthvað allt annað.