Það er öllum ljóst að staðan á stjórnarheimilinu er þung. Hún hefur aldrei verið þyngri. Ríkisstjórn sem hvílir að mestu á góðu vinnusambandi og trausti milli Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar glímir nú við mikil innanmein og ósætti. Hingað til hefur að mestu tekist að halda því ósætti innanhúss. Svo er ekki lengur.
Bankasalan, sem allir nema forstjóri Bankasýslunnar, þeir sem sáu um að selja og þeir sem fengu að kaupa eru á að hafi verið algjört klúður, étur upp pólitíska inneign hjá bæði Vinstri grænum og Framsóknarflokknum. Forvígismönnum þeirra flokka svíður mjög að þurfa enn og aftur að axla afleiðingar af pólitískum axarsköftum Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra.
Áhugaverð könnun Maskínu, um þróun fylgis stjórnarflokkanna eftir að Búnaðarþingsskandalar Framsóknar og dekkri hliðar bankasölunnar komu fram í dagsljósið sýndi að það fjarar fljótt undan þeim og sú staða var að teiknast upp, í fyrsta sinn í mörg ár, að frjálslyndu miðjuflokkarnir í stjórnarandstöðu mældust með meira sameiginlegt fylgi en ríkisstjórnin.
Augljóst er að það þarf að grípa til einhverra aðgerða til að reyna að laga traustið á bankasöluferlinu. Eða réttara sagt lágmarka skaðann. Ef staðan verður látin óhreyfð þá situr þessi ríkisstjórn eftir með þann stimpil að hafa staðið fyrir – og með – ferli sem gaf ríkasta fólki landsins, fólki í virkri lögreglurannsókn, dæmdum glæpamönnum, fyrrverandi eigendum fallinna banka, spákaupmönnum sem tóku snúning og starfsmönnum þeirra sem falið var að selja, ágóða á kostnað skattgreiðenda.
Slíkt þrífst ekki auðveldlega af. Spyrjið bara ráðherrana sem seldu ríkisbanka á árunum 2002 og 2003.
Ábyrgðin er stjórnmálamanna
Andstaðan við skipun rannsóknarnefndar hefur þegar dýpkað holu ríkisstjórnarinnar. Stjórnsýsluúttekt sem fjármála- og efnahagsráðherra biður ríkisendurskoðun án réttkjörins ríkisendurskoðanda um að framkvæma dugar að sjálfsögðu ekki til. Rökstuddar ásakanir hafa komið fram um að söluferlið sé ekki í samræmi við lög um hvernig eigi að selja banka, fara þarf í saumana á því hvernig þátttakendur voru valdir, hvernig söluráðgjafar höguðu sér og hvort hægt sé með einhverjum vitrænum hætti að réttlæta mörg hundruð milljóna króna þóknanir sem greiddar voru af fjármunum ríkissjóðs fyrir að hringja í helstu viðskiptavini og kunningja sína á nokkrum klukkutímum og bjóða þeim ríkisbankahlut á afslætti.
Ef ráðist er í slíkar aðgerðir, og jafnvel skipun rannsóknarnefndar á síðari stigum, er verið að gangast við því formlega að salan á 22,5 prósent hlutnum í Íslandsbanka hafi mislukkast. Á því þarf einhver að bera ábyrgð. Líkt og Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra bankamála, sagði í viðtali við Morgunblaðið á mánudag, þegar hún opinberaði skýrt ágreininginn sem er til staðar: „Ábyrgðin hlýtur að vera stjórnmálamanna sem tóku ákvörðun í málinu.“
Sá stjórnmálamaður er Bjarni Benediktsson. Ef hann axlar ekki ábyrgðina þá situr öll ríkisstjórnin uppi með hana. Sérstaklega ráðherrar Vinstri grænna og Framsóknar þar sem óþol fyrir svona stjórnarháttum er mun meira hjá þeirra kjósendum en í baklandi Bjarna og Sjálfstæðisflokksins.
Gervibrosið
Líkurnar á því að Bjarni, sem hefur staðið af sér fleiri hneykslismál og sjálfskapaðar krísur en sennilega nokkur annar stjórnmálamaður í Íslandssögunni, víki af stjórnmálasviðinu við þessar aðstæður til að bjarga ríkisstjórninni eru hins vegar sáralitlar. Sjálfstæðisflokkurinn hverfist í kringum formanninn sem setið hefur í rúm 13 ár. Hann hefur ekki gengið í gegnum neina hugmyndafræðilega endurnýjun í formannstíð Bjarna og er því fullkomlega mótaður af hans pólitíska persónuleika. Í honum felst aðallega að breyta ekki kerfunum sem hann er búinn að fullmanna af sínu fólki og finna nýjar leiðir til að koma almannafé til vel settra í gegnum skattaívilnanir, styrkjagreiðslur, lagabreytingar og sölu ríkiseigna. Enginn innan Sjálfstæðisflokksins er nægilega sterkur til að ógna þessari stöðu Bjarna. Því þarf að bíða eftir að Bjarni kjósi að yfirgefa sviðið. Á sínum forsendum.
Fyrir vikið standa samstarfsflokkarnir frammi fyrir þeirri stöðu að lafa í ósætti og súrleika. Og í skugga hótana úr ranni sjálfstæðismanna í garð varaformanns annars þeirra, haldi hún sig ekki á mottunni héðan í frá. Eða einfaldlega slíta stjórnarsamstarfinu.
Sennilegast er að fyrri valkosturinn verði ofan á. Stjórnin mun lafa og setja upp gervibrosið, eins og fórnarlamb heimilisofbeldis sem veit að allir eru að horfa á glóðaraugað sem enginn trúir að hafi verið slys.
Það er þó þannig að þegar þrír flokkar sem eiga fátt annað sameiginlegt á pappír en íhaldssemi og viljann til að stjórna mynda ríkisstjórn, þá munu ágreiningsmálin koma upp við hverja beygju. Þau munu því þurfa að endurtaka þetta stöðumat aftur og aftur og aftur.
Það sem gæti breytt þessari stöðu hratt eru komandi sveitastjórnarkosningar. Ef grænu stjórnarflokkunum tveimur verður refsað illilega á lykilstöðum eins og í Reykjavík þá er erfitt að draga aðra ályktun en að sú refsing sé afleiðing af því sem gerst hefur í landsmálunum.
Að græða peninginn
Sem stendur er áferð ríkisstjórnarinnar sú að hún sé að reyna að standa í vegi fyrir því að almenningur fái tæmandi upplýsingar um hvernig kerfislega mikilvægt fyrirtæki í hans eigu var selt með vafasömum hætti.
Söluferlið er holdgervingur þeirrar græðgi sem einkennir íslenskt fjármálakerfi og hefur birst í endurkomu fjárfestingafélaga sem sérhæfa sig í að kreista eins mikla peninga og hægt er út úr rekstrarfélögum á fákeppnismarkaði til að fóðra vasa hluthafa sinna.
Hún hefur birst í endurkomu kaupaukakerfa sem nú eru farin að teygja sig í að einstakir menn fá samninga sem eru metnir á meira en milljarð króna. Hún birtist í skyndilegum áhuga allra í Borgartúninu og Valhöll á orkuskiptum, sem eru næsta peningamatarholan til að tæma. Hún hefur birst í því að jafnvel fólk sem á tugi milljarða króna í eigið fé gat ekki látið tækifærið um að taka snúning á Íslandsbankasölunni framhjá sér fara.
Hér hefur engin siðbót orðið og hjá þeim sem græða peninginn er enginn peningur of lítill til að græða hann. Svo horfir þessi hópur framan í restina af þjóðinni eins og þau séu fávitar fyrir að skilja ekki að um þetta snúist lífið, kerfin og hamingjan. Að græða peninginn.
Ríkisstjórn Íslands stendur nú frammi fyrir því hvort hún ætli að vera ríkisstjórn þessa litla hóps. Eða ríkisstjórn allra hinna.