Af tveimur ræðum sem fluttar voru um helgina af sama manninum að dæma má ætla að allt gott sem hefur gerst á Íslandi síðustu ár sé aðallega honum og staðfestu hans að þakka en allt sem miður fór ytri aðstæðum sem ekkert var við ráðið að kenna.
Sami ræðuhaldari lofaði stöðugleika í lágvaxtaumhverfi án verðbólgu fyrir síðustu kosningar en segir nú ríkja stöðugleika, sem holdgervist í honum persónulega, þrátt fyrir að stýrivextir hafi verið hækkaðir níu sinnum í röð úr 0,75 í 5,75 prósent. Þrátt fyrir að verðbólga hafi tvöfaldast á einu ári, sé næstum tíu prósent og fari hækkandi.
Afleiðingar þessara breytinga eru meðal annars þær að sú kaupmáttaraukning sem flest heimili upplifðu er nú að étast upp í verðbólgu og auknum afborgunum af óverðtryggðum lánum sem hafa hækkað hjá mörgum um vel á annað hundrað þúsund krónur á mánuði, vel á aðra milljón króna á ári. Kaupmátturinn hefur ekki verið minni síðan 2020.
Seðlabanki Íslands hefur sagt það upphátt að lífskjör fólks á Íslandi ráðist nú af stöðu fólks á fasteignamarkaði. Um þriðjungur fullorðinna landsmanna hefur aldrei átt eigið húsnæði. Þegar horft er á fullorðið fólk undir fimmtugu þá kemur í ljós að um helmingur hópsins hefur aldrei átt húsnæði. Ef horft er á aðra jaðarsetta, eins og til dæmis innflytjendur og öryrkja, verður staðan enn ójafnari. Í nýlegri frétt var greint frá því að sumir öryrkjar séu að meðaltali 3.500 krónur í mínus um hver mánaðamót eftir að hafa greitt föst útgjöld.
En hér á samt sem áður að ríkja einhverskonar stöðugleiki.
Sumir eru jafnari en aðrir
Ísland er stéttlaust samfélag, heyrðist í annarri ræðu mannsins um helgina, á fundi sem kostaði 15 þúsund krónur inn á og bauð upp á áfenga bólusetningu gegn kommúnisma. Jöfn tækifæri allra gera það að verkum. Þau leiða af sér það eina sem er nokkurs vert, aukinn kaupmátt og vöxt. Allir vinna.
Þetta sagði hann þrátt fyrir að allar hagtölur sýni að hinn aukni kaupmáttur lendi mjög misjafnlega, og étist mun hraðar upp hjá flestum en sumum. Það liggur til að mynda fyrir að hröð aukning fjármagnstekna í fyrra gerði það að verkum að ráðstöfunartekjur þeirrar tíundar landsmanna sem höfðu hæstu tekjurnar, og hafa helst tekjur af fjármagni, jukust um tólf prósent á föstu verðlagi á einu ári. Restin af landsmönnum, 90 prósent, juku sínar ráðstöfunartekjur á raunvirði um fjögur prósent. Því jukust ráðstöfunartekjur, laun að frádregnum sköttum og öðrum lögbundnum gjöldum, efstu tíu prósentanna þrefalt á við aðra þegar þær eru reiknaðar á föstu verðlagi.
Þessi kjaragliðnun milli launafólks og fjármagnseigenda hefur verið að eiga sér stað frá 2011, þótt hún hafi verið ýktust á síðasta ári.
En samt erum við stéttlaust samfélag. Sennilega vegna þess að 90 prósentin voru ekki nægilega dugleg að nýta tækifærin sem ræðumaðurinn færði þeim, en tíu prósentin, og sérstaklega efsta lagið í þeirri tíund, gerði það sannarlega.
Stéttleysi eða einsleitni?
Ræðumaðurinn stéttlausi er af mestu valdaætt landsins. Hann fæddist inn í stjórnmálalega valdastöðu og atvinnulífsáhrif. Hann hefur alltaf haft aðgengi að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra sem nýtast við eigin framgang sem fæstum landsmönnum bjóðast á lífsleiðinni. Hann hefur alið manninn í því sveitarfélagi höfuðborgarsvæðisins, Garðabæ, sem er hlutfallslega með langfæsta íbúa af erlendu bergi brotnu, en alls eru 5,6 prósent íbúa þess þannig á meðan að hlutfallið er næstum 20 prósent í Reykjavík og landsmeðaltalið er 16,3 prósent.
Hann stýrir flokki sem hefur haft hreinan meirihluta í tveimur sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um áratugaskeið, sem auk Garðabæjar er Seltjarnarnes (hlutfall erlenda ríkisborgara: 9,6 prósent). Meðaltalsfjármagnstekjur íbúa á Seltjarnarnesi og í Garðabæ voru umtalsvert hærri á síðasta ári en í öðrum stærri sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Á Seltjarnarnesi voru þær 1.585 þúsund krónur á hvern íbúa í fyrra en 1.556 þúsund krónur í Garðabæ. Á sama tíma voru þær 679 þúsund krónur á hvern íbúa Reykjavíkur, 746 þúsund krónur á íbúa í Kópavogi, 554 þúsund krónur á íbúa í Mosfellsbæ og 525 þúsund krónur í Hafnarfirði. Alls var meðaltal fjármagnstekna á landinu 709 þúsund krónur.
Af þessum tölum er augljóst hvaða stétt er líkleg til að hreiðra um sig í einsleitninni í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Það eru ekki brúnt og svart fólk og ekki fólk sem glímir við félagslega erfiðleika. Það er sent yfir til nágrannasveitarfélaganna á þeirra kostnað.
Varla er nokkur að velkjast í vafa hvaða stétt ræðumaðurinn tilheyrir. Hann sér kannski stéttleysi út um eldhúsgluggann hjá sér. En sú ranghugmynd á sér enga stoð í raunveruleikanum.
Af „þykjustuflóttamönnum“ og „boðflennum“
Það eru allskonar aðrar stéttir á Íslandi sem búa við allt annan veruleika. Ein þeirra er fólk á flótta. Aðfaranótt fimmtudags voru 15 úr þeirri stétt flutt burt með valdi og miklum tilkostnaði, í fylgd 41 lögreglumanns. Einn var dreginn með valdi upp úr hjólastól og borinn út í bíl, til að keyra hann á flugvöll og fljúga með hann til Grikklands svo hann gæti, ásamt fjölskyldu sinni, sofið á götu og ekki fengið þá heilbrigðisþjónustu sem hann þarf. Í þessari aðgerð endurspeglaðist ákveðin tegund stéttleysis. Sú að ákveðið fólk er ekki velkomið, og telst þar af leiðandi ekki með. Það er ekki reiknað inn í stöðugleikann. Því býðst ekki jöfnu tækifærin. Þau eru fyrir útvalda.
Þetta gerðist í kjölfar þess að núllsummuleikjafræði (e. zero-sum) skaut enn og aftur upp kollinum í íslenskri umræðu. Á Íslandi er mikið framboð af stjórnmálamönnum sem eru tilbúnir að hræra í kynþáttahyggjupottum og stilla upp viðkvæmum hópum sem andstæðingum. Sem hundaflauta um að ef íslenskir öryrkjar og jaðarhópar vilji hafa það betra þarf að spara í þjónustu við fólk á flótta. Í stéttlausa samfélaginu. Þar sjá þeir atkvæði og þess vegna er reglulega gripið í sleifar. Markmiðið er að hræða fólk. Búa til strámenn sem það geti kennt um aðstæður sínar svo það kenni ekki stjórnvöldum um þær.
Á síðustu vikum hefur þessi leikjafræði opinberast í upphrópunum um nauðsyn lokaðra flóttamannabúða, lygum um fjölda falsaðra vegabréfa, lygum um að Schengen-samstarfið væri í hættu ef ekki yrði beitt meiri hörku gagnvart fólki á flótta og óljósum dylgjum um tengsl skipulagðrar glæpastarfsemi við fólk á flótta sem áttu að vera einhverskonar rökstuðningur fyrir því að draga úr þjónustu við það.
Öllu þessu hefur verið pakkað inn og fylgt eftir af fjölmiðli. Þar er ekki um að ræða þá fjölmiðla eða blaðamenn sem ræðumaðurinn sagðist um helgina hafa gefist upp á vegna þess að honum fyndist þeir gerðir út til að koma á framfæri við landsmenn „einhverri skoðun sem er kannski andstæð okkar.“
Þar er auðvitað um ræða Morgunblaðið, sem kemur á hverjum degi fram skoðun sem er ekki andstæð flokki ræðumannsins. Sem skrifaði í ritstjórnargrein í síðasta mánuði um „þykjustuflóttamenn“ og í Reykjavíkurbréfi um helgina að „ekkert land er skuldbundið til að taka við boðflennum.“
Ísland er eftirbátur í móttöku flóttafólks
Stöldrum aðeins við þessar ætluðu „boðflennur“. Samkvæmt flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna voru 103 milljónir manna á flótta í heiminum um mitt þetta ár. Alls 72 prósent þeirra koma upphaflega frá fimm löndum: Sýrlandi, Venesúela, Úkraínu, Afganistan og Suður-Súdan. Fimm lönd taka við 36 prósent þessa hóps. Tyrkland, með sinn samning við Evrópusambandið um að hleypa ekki flóttamönnum frá Miðausturlöndum inn, hýsir flesta, eða 3,7 milljónir alls. Af ríkjum Evrópusambandsins stendur Þýskaland með höfuð og herðar yfir aðra og hefur tekið við 2,2 milljónum, eða næstum sex íslenskum þjóðum. Stór nágrannaríki landa sem mikilli flótti er frá; Kólumbía, Úganda og Pakistan, eru svo hin þrjú sem draga vagninn í þessum efnum. Að Þýskalandi undanskildu eru þetta alls ekki rík lönd.
Haldi einhver að Ísland hafi sögulega tekið á móti mörgum flóttamönnum þá er það mikill misskilningur. Hér hefur vissulega orðið mesta samfélagslega breyting sem nokkru seinni hefur orðið í Íslandssögunni síðastliðinn áratug þegar erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað úr rúmlega 20 þúsund í tæplega 63 þúsund. Flestir þeirra hafa þó komið hingað til að vinna og starfa á grundvelli EES-samningsins og með því búið til góðærið sem skall á með ferðamennsku og makríl eftir hrunið sem ræðumaðurinn stórhenti fullyrti að væri fyrst og síðast sér að þakka.
Til hliðar við það erum við með fólk á flótta.
Uppblásin umræða um fjölda flóttamanna
Fólk á flótta skiptist í tvo hópa. Annar er svokallað kvótaflóttafólk sem kemur hingað í boði stjórnvalda. Frá því að Ísland byrjaði að taka á móti slíkum og til ársins 2018 tókum við á móti samtals 695 kvótaflóttamönnum á 62 árum, eða 12,2 að meðaltali á ári. Árið 2019 ætluðum við að taka á móti 85 en þeir urðu 74 á endanum. Þrátt fyrir stórkostlega aukningu í móttöku kvótaflóttamanna samkvæmt fréttatilkynningum stjórnarráðsins, en til stóð að þeir yrðu 100 árið 2020, var ekki tekið á móti neinum það árið. Vísað var í kórónuveirufaraldurinn sem ástæðu. Hann stöðvaði þó ekki nágrannaþjóðir okkar sem tóku á móti sínum kvótum. Í ágúst í fyrra hafði einungis verið tekið á móti broti þeirra sem búið var að lofa móttöku á því ári. Tölur um kvótaflóttamenn hafa ekki verið uppfærðar á vef stjórnarráðsins síðan fyrir árið 2019. Samandregið er þó enginn vafi að við erum við til skammar í samanburði við önnur velmegandi ríki þegar kemur að móttöku kvótaflóttamanna.
Frá byrjun árs 2003 og til loka október hafa umsóknir um vernd á Íslandi verið 10.272.
Frá lokum árs 2012, þegar hin mikla aukning á erlendum íbúum landsins hófst, og til síðustu áramóta, voru umsóknir um vernd hérlendis tæplega 6.200 talsins. Hluta þeirra var vitaskuld synjað og viðkomandi sendur annað. Þetta er ekki sá hópur sem hefur fengið að vera til langdvalar, heldur hefur haft einhverja viðveru á Íslandi sem flóttamaður. Hann er ekki stærri en þetta.
Ákvarðanir stjórnvalda
Það sem af er þessu ári hefur hins vegar orðið sprenging og á fyrstu tíu mánuðum þess komu hingað 3.467 og sóttu um vernd. Alls 1.999 þeirra eru frá Úkraínu og 764 frá Venesúela. Átta af hverjum tíu eru því frá þessum tveimur löndum.
Það byggir á því að árið 2018 var ákveðið að Útlendingastofnun veitti umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Venesúela viðbótarvernd með vísan til almennra aðstæðna í heimaríki óháð einstaklingsbundnum aðstæðum hvers umsækjanda. Reynt var að breyta þessari framkvæmd frá 1. janúar 2022 til að draga úr komu þessa fólks. Kærunefnd útlendingamála felldi hins vegar úrskurð í júlí síðastliðnum þar sem stóð að ástandið í Venesúela hefði ekkert lagast frá því að upphaflega ákvörðunin var tekin, og raunar farið versnandi „og að umfang og alvarleiki glæpa gegn mannkyni hafi aukist.“ Bætt ástand í Venesúela gat því ekki verið rökstuðningur fyrir því að synja umsækjendum um viðbótarvernd hér á landi.
Þann 4. mars á þessu ári ákvað Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að virkja ákvæði útlendingalaga sem fól í sér að móttaka flóttamanna frá Úkraínu hérlendis myndi ná til sömu skilgreindu hópa og þeirra sem Evrópusambandið hafði ákvarðað. „Þessi aðferð er fyrst og fremst til þess að geta veitt þeim sem flýja Úkraínu skjóta og skilvirka aðstoð, nánar tiltekið tímabundna vernd, án þess að móttakan og aðstoðin verði verndarkerfi Íslands ofviða.“
Fyrir þá sem halda að við séum að taka við mörgum frá Úkraínu er vert að velta eftirfarandi fyrir sér hvað Eistland, Tékkland, Pólland, Litháen, Lettland, Slóvakía, Þýskaland, Írland, Austurríki, Sviss, Finnland, Danmörk Ísrael, Noregur, Portúgal, Belgía, Svíþjóð og Holland eigi sameiginlegt? Allt eru þetta lönd innan OECD sem taka við fleiri flóttamönnum frá Úkraínu á hverju þúsund íbúa en Ísland. Hversu mörg þessara ríkja voru með hærri landsframleiðslu á mann en Ísland í fyrra? Fjögur. Það þýðir að samkvæmt þeim mælikvarða taka 14 OECD-lönd sem eru fátækari en við á móti fleiri flóttamönnum vegna stríðsins í Úkraínu.
Fyrir utan þá sem koma frá þessum tveimur ríkjum hafa komið hingað 704 flóttamenn það sem af er ári. Það eru færri en komu hingað árin 2016, 2017, 2018, 2019 og 2021.
Buðum í mat en elduðum ekki
Almennt er talið að innflæði flóttafólks leiði af sér skammtímakostnað vegna húsnæðis, matar og þjónustu en til lengri tíma leiði þeir af sér aukinn hagvöxt og hafi margfeldisáhrif á hagkerfið. Það er því efnahagslega hagkvæmt að taka vel á móti flóttafólki, sérstaklega fyrir land eins og Ísland þar sem gríðarleg vöntun er á fólki til að standa undir áframhaldandi vexti.
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdaráðs Sósíalistaflokks Íslands, orðaði þetta ágætlega í Silfrinu í síðasta mánuði þegar hann sagði: „Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir og flóttafólkið er það að ríkisstjórnin bauð fólki frá Úkraínu og Venesúela að koma hingað en gerði ekkert til þess. Þau eru eins og fólk sem að býður fólki í mat en það er ekki eldað og ekki einu sinni keypt í matinn. Þar af leiðandi er gríðarlegt álag á grunnkerfin.“
Sú staða sem nú er uppi er afleiðing pólitískra ákvarðana.
Hægt að sækja gríðarlegar viðbótartekjur
Ríkið hefur margar leiðir til þess að sækja sér aukið fé og setja það fé í velferðarþjónustu. Það er pólitískt val að gera það ekki.
Það hefði til að mynda verið hægt að sækja 5,3 milljarða króna í nýjar tekjur ef fjármagnstekjuskattur í fyrra hefði verið hækkaður úr 22 í 25 prósent. Ríkustu tíu prósent landsmanna hefðu greitt 87 prósent þeirrar upphæðar, eða 4,6 milljarða króna. Þar er um að ræða hóp sem var með 147 milljarða króna í fjármagnstekjur á síðasta ári, að mestu vegna bólumyndunar á eignamörkuðum sem var tilkomin vegna aðgerða ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og Seðlabanka Íslands til að bregðast við efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins.
Það hefði líka verið hægt að hækka bankaskatt upp í það sem hann var áður en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ákvað að lækka hann vorið 2020 til að hjálpa bönkum að takast á við kórónuveirufaraldurinn. Það hefði skilað ríkissjóði 9,4 milljörðum króna í aukatekjur. Þess má geta að helsti rökstuðningurinn fyrir því að lækka bankaskatt var að það myndi draga úr vaxtamun, og þar af leiðandi vaxtakostnaði heimila og fyrirtækja. Vaxtamunur hefur hins vegar hækkað eftir ákvörðunina og er nú mestur 3,2 prósent. Sem er miklu hærra en tíðkast hjá norrænum bönkum af sambærilegri stærð.
Þá hefði verið hægt að sleppa því að kaupa monthús undir ráðuneyti varaformanns Sjálfstæðisflokksins – en ráðuneytin eru nú tólf til að tryggja stöðugleikann – á sex milljarða króna á dýrasta stað á landinu af ríkisbanka sem byggði umrætt hús í bullandi andstöðu við vilja nær allra kjörinna fulltrúa.
Hundruð milljarða í vasa útgerðaraðals
Sennilega hefði skilvirkasta aðgerðin þó verið að leggja sanngjarnt, réttlátt og eðlilegt gjald á sjávarútvegsfyrirtæki sem fá að nýta sér þjóðarauðlind. Methagnaður var í sjávarútvegi í fyrra, þegar geirinn halaði inn 65 milljörðum króna eftir skatta og gjöld. Alls jókst hagnaðurinn um 124 prósent milli ára. Á sama tíma greiddu sjávarútvegsfyrirtækin 22,3 milljarða króna í öll opinber gjöld. Veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjöld. Það þýðir að rúmlega fjórðungur af kökunni sem var bökuð úr nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar í fyrra varð eftir hjá eiganda hennar en tæplega 75 prósent fór til þess sem fær að nýta hana. Ef þessi kökuskipting væri til dæmis til helminga hefðu tekjur hins opinbera aukist um 21,5 milljarða króna á síðasta ári. Og hagnaður útgerða bara verið 43,5 milljarðar króna, eða 14,5 milljörðum krónum meiri en árið 2020.
Ef helmingaskiptin hefðu verið viðhöfð frá árinu 2009 hefði ríkissjóður haft úr 158 milljörðum króna til viðbótar að spila úr sem hefðu til dæmis getað nýst til að fullfjármagna heilbrigðiskerfi, hækka barna- og vaxtabætur, afnema skerðingar, byggja upp þjónustu fyrir komufólk svo það geti fundið fæturna, aðlagast og orðið að mikilvægum skattgreiðendum í landinu. Nú eða bara að borga fyrir ÍL-sjóð.
Þess í stað fóru þessir peningar að uppistöðu til fámennrar klíku í eigendahópi útgerðarfyrirtækja sem hafa notað þá í að kaupa sig inn í flest alla aðra geira á landinu. Með þeim afleiðingum að hér er hægt og örugglega að verða til fáveldi.
Frasar í baði
Það þarf að breyta ýmsu í málefnum flóttafólks á Íslandi. Efst á þeim lista ætti að vera að fullfjármagna þá þjónustu sem fólkið sem hingað kemur þarf að standa til boða og dreifa byrðunum af því að veita þá þjónustu á öll burðug sveitarfélög landsins, í stað þess að láta Reykjavík, Hafnarfjörð og Reykjanesbæ bera þær að mestu ein.
Það má sannarlega breyta kerfinu þannig að hægt verði að flýta afgreiðslu umsókna öllum til hagsbóta og veita öllum sem hingað sækja vernd skilyrðislaust leyfi til að vinna. En lausnirnar mega ekki verða lokaðar flóttamannabúðir og stanslausar endursendingar til Grikklands þar sem fólk lendir á götunni án nokkurra möguleika á boðlegu lífi. Það má alveg innleiða mannúð í þennan málaflokk og líta á nýja Íslendinga sem tækifæri frekar en vandamál. Við höfum allt til þess að gera það. Næga peninga, næga þekkingu, næga innviði. Eina sem vantar er pólitískur vilji og langtímahugsun.
Það er ekki Útlendingastofnun, Kærunefnd útlendingamála eða stoðdeild ríkislögreglustjóra að kenna að þessi staða er uppi. Þar reynir fólk að vinna sína vinnu eftir þeim lögum og reglum sem gilda í landinu.
Það eru stjórnmálamenn með völd sem bera ábyrgðina, og halda á lyklinum að lausninni. Þeir kjósa bara að snúa honum ekki.
Sama má segja um stöðu margra aðra jaðarsettra hópa á Íslandi, til dæmis láglaunafólks, erlendra verkamanna og öryrkja. Það er val að halda þeim í fjötrum óöryggis og fátæktar. Val að láta þau búa við allt of háan húsnæðiskostnað fyrir allt of lélegan húsnæðiskost. Pólitík á að vera list hins mögulega. Hér á landi er hún orðin að einhverskonar uppgjafargjörningi sem hverfist í kringum ímyndaðan pólitískan ómöguleika.
Í stað aðgerða og stefnu fáum við innihaldslausa frasa, upphugsaða í baði í einbýli í Garðabæ, um stéttleysi og jöfn tækifæri.
Frasa sem allir með sæmilega dómgreind og lesskilning sjá að eru án allrar innistæðu.