Mikið hefur farið fyrir Nýja-Sjálandi á samfélagsmiðlum og í fréttum undanfarnar vikur. Annars vegar af því að Nýja-Sjáland hefur staðið sig afbragðsvel í baráttunni við COVID-19 og hins vegar vegna skammlifaðar tilraunar ríkisstjórnar Íslands til að leika það eftir því, með því að skikka fólk sem kemur erlendis á sóttkvíarhótel.
Með því að senda ferðalanga í sóttkví við komu til landsins er verið að reyna koma í veg fyrir að veiran komi inn í landið óséð. Draumurinn yfirvalda var líklega að útrýma veirunni af Íslandi og halda landinu veirufríu með strengri reglum á landamærunum. Hefði það tekist hefði auðveldlega verið hægt að draga úr sóttvarnarráðstöfunum innanlands, heimamenn hefðu getað yljað sér í heitum pottum, tekið á því í ræktinni og skellt sér á djammið og mögulega komist á séns.
Scotty, Bronnie og Taika Waititi
Þar sem ég lærði hagfræði – í Dunedin á Nýja-Sjálandi – kynntist ég tveimur af mínum allra bestu vinum, Scotty og Marty. Eftir útskrift fluttum við til London saman en Marty elti ástina heim til Nýja-Sjálands og Scotty og konan hans, hún Bronnie, settust að hinu megin við Tasman-sundið, í Sydney.
Það er nokkuð merkilegt að þrátt fyrir tímamun sem gæti ekki verið meiri – 12 tímar – þá tölum félagarnir þó reglulega saman og flesta daga skiptumst við á skilaboðum í Messenger-grúppunni okkar. Og hefur það gefið mér einstakt tækifæri til að fylgjast með því hvernig lífið í Aotearoa er í raun og veru á tímum COVID-19. Þar á meðal hef ég fengið að kynnast því hvernig lífið er á sóttvarnarhóteli.
Eins og aðrir Nýsjálendingar eru Scotty og Bronnie, miklir heimalningar. Ef einhver giftir sig þá fljúga þau heim. Um jól (sem er á sumrin í þessum heimshluta) gera þau það líka. Þau fljúga heim einfaldlega ef tilefni og löngun er til. Eða þau gerðu fram að árinu 2020.
Þetta þurftu þau að taka inn í útreikninginn þegar þau mátu það hvort það væri þess virði að koma heim um jólin 2020.
Þegar Scotty tilkynnti okkur Marty ákvörðun sína, að fara heim og eyða tveimur vikum á hóteli í sóttkví héldum við þau hefðu endanlega misst vitið. Hver velur að læsa sig inni á hóteli í tvær vikur? Við skildum það að fólk var frjálsara á Nýja-Sjálandi en í Sydney, en tvær vikur í sóttkví þótti okkur ansi hátt verð.
En Scotty og Bronnie voru ákveðin og létu neikvæðni okkar Marty eins og vind um eyru þjóta, þau ætluðu heim þó það kostaði tvær vikur á sóttkvíarhóteli.
Þegar Scotty og Bronnie voru komin á hótelið báðum við Scotty að um að halda dagbók og meta andlega heilsu sína, á skalanum 1-10. Sem Scotty gerði samviskusamlega. Hann sendi okkur uppfærslur á hverjum degi, myndir af mat og tásumyndir úr litla garðinum sem þau höfðu aðgang að og skjáskot af hlaupaleiðinni sinni.
Lápunktinum var náð eftir viku í einangrun, þá sendi Scotty okkur mynd af Bronnie þar sem hún vann í því að reyna að víkka vinahring sinn með því að teikna andlit á, og tala við, ávextina sem þau fengu senda sem snakk á milli máltíða.
Skýrslan sem Scotty skilaði okkur Marty eftir að tveggja vikna dvöl hans á sóttkvíarhóteli í Auckland lauk
Ef skýrslan hans Scotty er skoðuð nánar, ásamt Messenger-spjallinu okkar (sem ég birti ekki hér) er nokkuð skýrt hvað skiptir mestu máli til að gera dvöl fólks á sóttvarnarhóteli bærilega:
- Fólk verður að vita hvað bíður þeirra. Einstaklingur sem veit að kostnaður þess að fara til útlanda er að dvelja á sóttkvíarhóteli, getur tekið ákvörðun um utanlandsferðir með þann kostnað í huga.
- Fólk verður að fá að fara út. Flesta daga talar Scotty um útiveruna og veðrið. Það er ekkert verra en að vera læstur inni á sólríkum degi og horfa á aðra leika sér.
- Maturinn og internettengingin verður að vera í lagi.
Hringurinn sem Scotty skokkaði þegar hann var í tveggja vikna sóttkví á hóteli í Auckland
Fyrsti punkturinn að ofan er að mínu mati mikilvægastur. Scotty og Bronnie tóku þessa ákvörðun. Þau bjuggu um rúmið og lögðust svo í það, í tvær ömurlegar vikur. Og þau eru ekki einu Nýsjálendingarnir sem gerðu það. Nokkrum vikum á undan Scotty og Bronnie flaug óskarsverðlaunahafinn Taika Waititi heim frá Hollywood. Eins og aðrir nýsjálenskir ríkisborgarar og dvalarleyfishafar eyddi stjarna kvikmyndarinnar Scarfies tveimur vikum á sóttkvíarhóteli ásamt dætrum sínum tveim.
Þessa dagana eru um 3.000 einstaklingar á sóttkvíarhóteli á Nýja-Sjálandi, af því að þeim langar heim í frelsið á bak við hótelin sem halda COVID-19 í burtu.
Skammtímaspá yfir fjölda einstaklinga í sóttkví næsta mánuðinn
Samningurinn sem ríkisstjórn Jacindu Ardern gerði við þegna sína var sú að þeim yrði gefið algjört frelsi innanlands í skiptum fyrir 14 daga sóttkví á hóteli ef þau vilja fara til útlanda eða koma heim. Taika Waititi, Scotty og Bronnie mátu kosti og galla þessa samnings og skrifuðu undir. Ég veit ekki með Taika en ég veit fyrir víst að Scotty og Bronnie flugu sátt aftur til Sydney rúmlega 90 dögum seinna. Frelsið á Nýja-Sjálandi var þess virði og leiðindin á hótelinu eru þeim horfin úr minni, eins og önnur leiðindi sem mannfólkið blessunarlega vistar sjaldnast í langtímaminninu.
Hvaða frelsi er yndislegt?
Sérfræðingar í stjórnsýslufræðum við Oxford háskólann í Bretlandi hafa frá upphafi heimsfaraldursins fylgst kerfisbundið með sóttvarnaraðgerðum 180 ríkisstjórna um allan heim. Úr þessum rannsóknum hafa þeir unnið svokallaða ríkisstjórnarstrangleikavísitölu – grípandi, ekki satt?
Vísitalan byggir á 9 undirvísitölum sem mæla skólalokanir, vinnustaðalokanir, landamæratakmarkanir o.s.frv. Vísitalan nær frá 0 upp í 100. Ef vísitalan mælist 0 Þýðir það að engar aðgerðir séu í því landi og ef hún mælist 100 eru þær eins strangar og þær geta orðið. Grafið að neðan teiknar upp þróun vísitölunnar frá 1. febrúar 2020 til 1. mars 2021.
- Bleika línan sýnir strangleika nýsjálensku ríkisstjórnarinnar og
- bláa línan sýnir strangleika íslensku ríkisstjórnarinnar.
Grafið segir okkur hversu ströng ríkisstjórn Íslands hefur verið í gegnum heimsfaraldurinn, samanborið við ríkisstjórn Nýja-Sjálands og eins og sjá má gekk ríkisstjórn Nýja-Sjálands gekk talsvert harðar fram en ríkisstjórn Íslands í upphafi faraldsins.
Nýja-Sjáland lokaði öllu, sagði fólki að vera heima og takmarkaði ferðalög innanlands. Á Íslandi var einnig tekið fast á hlutunum, þó máttu enn 20 manns koma saman sem var harðbannað á Nýja-Sjálandi.
Vorið 2020 (haust á suðurhveli jarðar) var svo gott sem búið að útrýma veirunni á Nýja-Sjálandi. Því gaf nýsjálenska ríkisstjórnin löndum sínum nánast algjört frelsi (innanlands). Ríkisstjórn Íslands gat ekki verið viss um að veiran væri farin – og vissi að hún kæmi að öllum líkindum aftur til landsins, í gegnum landamærin – og neyddist hún því til að halda aðgerðum áfram.
Síðan þá hefur Nýja-Sjáland þrisvar sinnum farið á svokallað viðvörunarstig 2 sem svipar mikið til takmarkananna eins og þær voru á Íslandi síðasta sumar. Auckland, stærsta borg Nýja-Sjálands, fór þó á viðvörunarstig 3 sem er ansi strangt og felur meðal annars í sér takmarkanir á ferðalögum innanlands. Eins og grafið sýnir þá entust Þessar takmarkanir þó aldrei lengi. Lokuð landamæri og harðar, en stuttar, aðgerðir dugðu til að kæfa niður veiruna.
Scotty, Bronnie og Taika voru skikkuð í sóttkví af því að ríkisstjórn Nýja-Sjálands mat frelsi innanlands meira virði en frelsi á landamærunum. Ríkisstjórn Íslands fannst frelsi á landamærum meira virði en frelsi innanlands þó íbúar landsins virðist vera því ósammála, allavega ef marka má netpanel Félagsvídindastofnunar Háskóla Íslands.
Íbúar Aotearoa fannst frelsið undir langa hvíta skýinu vera þess virði að greiða fyrir það með takmörkunum á landamærunum. Þetta staðfestu þeir þegar þeir verðlaunuðu ríkistjórnarflokk Jacindu og bættu við hann 13% fylgi í kosningum sem haldnar voru í október á síðasta ári. Og lítið hefur breyst í þeirra viðhorfi síðan, síðast þegar Nýsjálendingar voru spurðir um hvort þeir væru sáttir við sóttvarnarráðstafanir svöruðu 80% aðspurðra því játandi.
Eitt frelsi kostar annað frelsi
Scotty og Bronnie losnuðu úr sóttkví um miðjan nóvember. Þau nutu sumarsins í faðmi fjölskyldunnar, bókstaflega. Þau fóru í búðir, ræktina, á tónleika og duttu reglulega í það í heimahúsum og á pökkuðum knæpum. Í raun lifðu þau algjörlega eðlilegu lífi og fundu svo gott sem ekkert fyrir heimsfaraldrinum. Svipaða sögu er að segja af Taika og stelpunum hans, þau tóku sér frí frá heimsfaraldri og borguðu fyrir það með tveimur vikum af frelsi.
Jacinda tók varkára ákvörðun. Ákvörðunin var sú rétta fyrir hennar þjóð. Allavega enn í dag. Ákvörðun Íslands var önnur og ríkisstjórnin stendur á bak við sínar ákvarðanir, þó hún reyni oft að skýla sér á bak við Þórólf. Og kannski var sú ákvörðun rétt. Kannski metum við frelsi á landamærunum meira eyjaskeggar í suðri, kannski ekki. Við komumst kannski ekki að því fyrr en í september.