Stórtíðindi birtust í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup á miðvikudag. Þar kom fram að 47 prósent landsmanna styðji aðild Íslands að Evrópusambandinu en að einungis 33 prósent eru henni mótfallnir. Fimmtungur hafði ekki mótað sér skýra afstöðu.
Ástæða þess að þetta eru stórtíðindi er sú að það hefur ekki mælst meirihluti fyrir aðild að Evrópusambandinu hérlendis frá árinu 2009. Ekki nóg með það heldur hefur það hlutfall sem mælst hefur hlynnt inngöngu Íslands í sambandið ekki mælst meira en rúmlega 37 prósent í mánaðarlegum könnunum sem MMR framkvæmdi frá 2011 og út síðasta ár. Í síðustu könnun fyrirtækisins, sem var gerð í desember í fyrra, mældist stuðningurinn 30,4 prósent en 44,1 prósent voru á móti.
Á þessu ári einu saman hefur því stuðningur landsmanna við inngöngu í Evrópusambandið því aukist um meira en helming, á meðan að staðfest andstaða við hana hefur dregist saman um þriðjung.
Sýnilegasta ástæðan fyrir þessum aukna stuðningi eru ytri aðstæður, sérstaklega innrás Rússa í sjálfstæða og fullvalda Úkraínu. Viðbúið er að vestrænt og herlaust lýðræðisríki eins og Ísland horfi til þess að auka alþjóðlegt samstarf við vinaþjóðir þegar slíkur veruleiki teiknast upp. Evrópusambandið er enda friðarbandalag, stofnað og stækkað til að tvinna saman hagsmuni landa sem höfðu verið meira og minna í stríði í árhundruð og tryggja stöðugleika og lífskjarasókn í álfunni.
Brexit-vegferðin hefur líka sýnt að grasið er sannarlega ekki alltaf grænna hjá þeim sem kjósa að standa einir. Stjórnmál landsins hafa verið undirlögð af úrlausn málsins árum saman og önnur brýn málefni fyrir vikið á hakanum. Efnahagslegar afleiðingar útgöngu Breta úr sambandinu hafa svo verið hörmulegar. Ný greining sýnir að viðskipti með vörur og þjónustu hafa dregist saman um 14,9 prósent vegna Brexit. Og að útflutningur Breta hafi dregist meira saman en innflutningur þeirra á vörum annarra ríkja.
Orkufullveldi áfram í okkar höndum
Einhverjir hafa ályktað sem svo að miklar hækkanir á orkuverði innan Evrópu síðustu misseri hefðu átt að gera Íslendinga fráhverfari aðild en ella. Fyrir þá er niðurstaða Þjóðarpúls Gallup mikið áfall, enda hefur sá hópur reynt að klæða orkumál í einhverskonar fullveldisbaráttubúning á síðustu árum.
Sú nálgun kristallaðist í súrrealískri umræðu og átökum um hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins á árinu 2019. Alþingi Íslands var tekið í gíslingu og valdir fjölmiðlar hömuðust á þjóðinni með innistæðulausum hræðsluáróðri. Á þeim tíma sem er liðinn frá því að málið var loks afgreitt á Alþingi hefur ekkert af því hræðilega sem boðað var ræst. Forræði á auðlindum, virkjunum og orkufyrirtækjum er enn að öllu leyti eins enda snerist innleiðingin fyrst og fremst um aukna neytendavernd og virkari samkeppni. Orkuverð til heimila og fyrirtækja er áfram sem áður lágt hér í öllum samanburði og hefur ekki hækkað í neinum takti við það sem gerst hefur á meginlandi Evrópu.
Útgerðarmenn farnir að tala fyrir tollaleysi
Þetta vitum við vegna þess að Ísland hefur auðvitað áður sótt um aðild að Evrópusambandinu. Það var gert árið 2009, í kjölfar bankahrunsins og þess að fyrsta tveggja flokka vinstristjórn lýðveldissögunnar, undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur, tók við völdum. Þá var ekki gerð nein krafa um tengingu við evrópskan orkumarkað og hún yrði ekki heldur gerð nú.
Undanþágukröfur okkar þá snéru að uppistöðu að því að tryggja sérlausnir fyrir sjávarútveg. Óttanum við að einhverjir aðrir en íslenskir kvótakóngar, sem greiða sér árlega meira í arð en í skatta og gjöld, fengu að veiða fisk var haldið að þjóðinni og lýst sem martraðakenndri stöðu sem hvert íslenskt mannsbarn ætti að missa svefn yfir.
Í dag blasir við að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru stórleikendur í evrópskum sjávarútvegi og ekkert bendir til annars en að þau myndu styrkja þá stöðu frekar en hitt við inngöngu. Enda er forysta greinarinnar farin að kalla eftir því að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir tollaívilnunum inn á Evrópusambandið. Það gerði Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, á uppgjörsfundi á fimmtudag. „Það er mikil neysla á makríl og síld á þeim mörkuðum en við búum við tolla sem skerða okkar samkeppnishæfni þar,“ sagði Gunnþór og kallaði eftir því að barist yrði fyrir því að þeir yrðu felldir niður.
Stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji, stærsta sjávarútvegsamstæða landsins. Stjórnarformaður hennar er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og einn helsti eigandi Samherja. Gunnþór myndi aldrei tala með þeim hætti sem hann gerði án þess að það hugnaðist Þorsteini Má.
Þeir tollar sem Gunnþór kallar eftir að losna við myndu hverfa ef gengið yrði í Evrópusambandið.
Sveigjanleikinn skilar okkur engu
Stóra málið fyrir venjulega Íslendinga og stærstan hluta atvinnulífsins eru þó gjaldmiðlamál. Krónan rýrir lífsgæði og tækifæri þeirra umfram það sem þau gætu verið.
Elskendur krónu halda því fram að sjálfstæður gjaldmiðill veiti okkur mikinn og æskilegan sveigjanleika. Að hægt sé að taka út hagsveiflur með öðrum hætti en atvinnuleysi. Á mannamáli þýðir það að þegar við höfum gert efnahagsleg mistök er hægt að láta krónuna veikjast og láta venjulegt launafólk og fyrirtæki sem gera alfarið upp í krónum bera þann kostnað.
Þetta fyrirkomulag hefur hvorki nýst til að verja okkur fyrir atvinnuleysi né verðbólgu sem leiðum til að taka út efnahagslega aðlögun. Atvinnuleysi var þegar komið í hærra hlutfall fyrir kórónuveirufaraldurinn en það hafði verið síðan 2012 og reis hæst upp í 12,8 prósent á meðan að á faraldrinum stóð. Nú er það 5,2 prósent sem er hærra en það var áður en faraldurinn skall á. Á sama tíma er verðbólgan 6,2 prósent og hefur ekki verið meiri í áratug. Hún mun án nokkurs vafa aukast enn frekar.
Þess utan má benda á að í faraldrinum var blásin upp mun stærri hlutabréfabóla hérlendis en annarsstaðar vegna sértækra aðgerða Seðlabanka Íslands, sem nýttist aðallega fjármagnseigendum til að verða enn ríkari. Á baki hennar á að greiða út hátt í 300 milljarða króna í arð og endurkaup á bréfum vegna síðustu tveggja ára úr, að mestu, þjónustufyrirtækjunum sem mynda Kauphöll Íslands. Erfitt er að sjá hvaða hag venjulegt launafólk eða þorri atvinnulífs á Íslandi hefur af þeirri vegferð.
Samandregið er ávinningurinn af því að vera með örgjaldmiðil enginn fyrir flesta Íslendinga. Hann gagnast helst strokusamfélagi hagsmunaafla og hluta fjármagnseigenda sem hefur umfram aðgengi að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra til að hagnast á gjaldeyrisbraski með tilfærslu á peningum inn og út úr landinu á réttum tímapunktum.
Þess utan er hægt að meta beina kostnaðinn af krónunni á hundruð milljarða króna á ári, aðallega vegna þess að háu vextirnir sem hún útheimtir gera allt fjármagn dýrara en annarsstaðar fyrir ríkissjóð, sveitarfélög, heimili og fyrirtæki.
Lítil erlend fjárfesting vegna krónu
Vart er hægt að halda því fram að atvinnulífið njóti góðs að því að vera utan Evrópusambandsins og því að halda í krónuna. Öll stærstu fyrirtæki landsins hafa fyrir löngu yfirgefið hana og gera upp í öðrum myntum til að fá betri kjör og meiri stöðugleika. Það á við um sjávarútveg, stærsta flugfélagið, skipafélög og þau íslensku hugvitsfyrirtæki sem náð hafa mestum árangri á alþjóðavísu.
Erlendir langtímafjárfestar setja krónuna það mikið fyrir sig að þeir fjárfesta lítið sem ekkert hérlendis, utan þeirra sem eru nú að kaupa upp þjóðhagslega mikilvæga innviði í fjarskiptum og þeirra sem fengu að kaupa græna orku fyrir stóriðjuna sína á spottprís til margar áratuga.
Flestir erlendu fjárfestarnir sem koma hingað eru spákaupmenn, sem veðja á ákveðna þróun til skamms tíma. Þeir voru margir hverjir fastir í höftum sem voru loks afnumin 2019. Í lok árs 2020 og í byrjun árs 2021 pökkuðu nokkrir slíkir, sem höfðu hagnast á eftirhreytum bankahrunsins, saman og fóru með 115 milljarða króna úr landi. Veðmáli þeirra var lokið. Eignastaða erlendra aðila hérlendis var í fyrrahaust sú lægsta sem mælst hafði í átta ár. Í síðasta birta fjármálastöðugleikaríki Seðlabanka Íslands sagði einfaldlega: „Hrein nýfjárfesting fyrir erlent fjármagn hefur verið meira og minna neikvæð síðan á fyrri hluta árs 2020 en verið nálægt núlli sl. tvo mánuði.“
Ef íslensk fjárfesting væri einfaldlega evrópsk fjárfesting án gengisáhættu væri aðdráttarafl fjárfestinga allt annað og betra.
Atvinnulífinu skortir þjónustu
Þá verður seint sagt að íslenskt fjármálakerfi sé að styðja atvinnulífið með boðlegum hætti. Útlán til fyrirtækja landsins hafa, svo vægt sé til orða tekið, staðið á sér á undanförnum árum. Í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands sagði að samdráttur væri í útlánum til „fyrirtækja í nær öllum atvinnugreinum“. Stóru viðskiptabankarnir eru einfaldlega ekki að miðla fjármagni út til fyrirtækjanna í landinu. Það er yfirlýst stefna þeirra að einhverju leyti. Athygli einkabanka er fyrst og fremst á því að vinda sig niður og skila peningum til fjármagnseigenda.
Upptaka evru, aðgengi að evrópsku styrkjakerfi og innkoma erlendra banka á íslenska markaðinn myndi gjörbreyta þessari stöðu. Og laða að erlenda fjárfesta.
Þá er óræddur sá ávinningur neytenda sem myndi hljótast af því að fá virka samkeppni um daglega nauðsynlegar vörur og þjónustu með innkomu erlendra aðila á uppskipta fákeppnismarkaði. Hann yrði gríðarlegur í fjölbreytni, gæðum og verði.
Hvað stendur í vegi?
Ísland er þegar með nokkurs konar aukaaðild að því í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem tók gildi fyrir rúmum 28 árum, án áhrifa á ákvörðunartöku. Hann tryggir Íslandi aðgengi fyrir vörur sínar og þjónustu að 450 milljón manna innri markaði Evrópu án flestra hindrana gegn því að við aðlögum regluverk og lagaumhverfi að gangverki þess markaðar.
Með þeim aðlögunarkröfum höfum við fengið stjórnsýslulög, upplýsingalög, mannréttindi, neytendavernd, neytendaúrbætur og alveg ótrúleg viðskiptatækifæri. Mesta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar byggir á þessu aðgengi sem EES-samningurinn tryggir okkur. Og full Evrópusambandsaðild er rökrétt framhald af honum.
Þegar allt ofangreint er talið saman þá blasir við að spyrja: Af hverju erum við ekki löngu gengin í Evrópusambandið?
Stutta svarið er vond ákvörðun í fortíðinni, sérhagsmunir og gamaldags valdapólitík.
Ferli sem skorti stuðning og trúverðugleika
Vonda ákvörðunin var sú að sækja um aðild að Evrópusambandinu árið 2009. Hún eyðilagði meira fyrir möguleikum Íslands á að ganga í Evrópusambandið en nokkuð annað.
Vandamál Íslands á þessum tímapunkti voru víðtæk, og landið stóð veikt. Það átti ekki að vera forgangsatriði að ganga í Evrópusambandið á þeim tíma, heldur eyða öllum kröftum í að takast á við önnur fyrirliggjandi vandamál. Ríki eru í bestu samningsstöðunni þegar staða þeirra er sterk, ekki þegar þau eru á barmi gjaldþrots.
Ákvörðun um að fara ekki í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrst um hvort sækja ætti um og svo um hvort samþykkja ætti fyrirliggjandi samning, var líka afleit. Slík leið hefði gefið ferlinu trúverðugleika sem erfitt hefði fyrir sérhagsmunaöflin að berja niður.
Hagsmunirnir sem verið er að verja
Ljóst má vera að sérhagsmunaöflin sem ráða flestu á Íslandi beittu sér hart gegn aðild. Það birtist meðal annars í kaupum útgerða og Evrópusambandsandstæðinga á Morgunblaðinu árið 2009, sem var svo beitt miskunnarlaust með miklum árangri til að grafa undan ferlinu og verja hagsmuni útgerðarfyrirtækja. Blaðið hafði þá mikinn slagkraft enda á þeim tíma lesið af um 40 prósent landsmanna. Því afli var beitt miskunnarlaust. Sá slagkraftur er nú horfinn, lesturinn kominn niður í 18,6 prósent og blaðið aðallega vettvangur fyrir innihaldslaus sífellt fyrirsjáanlegri gífuryrði hræddra karla í tilvistarkreppu.
Fyrir kosningarnar 2013 lofaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, því að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um aðildarviðræðurnar áður en þeim yrði hætt. Það gerði hann til að friða stóran hóp Evrópusinna innan síns flokks. Þegar á hólminn kom sveik Bjarni það loforð með þeim rökum að það hefði verið „pólitískur ómöguleiki“ að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem ráðamenn beggja stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, væru á móti aðild. Það varð til þess að lykilmenn úr ranni Evrópusinna yfirgáfu Sjálfstæðisflokkinn. Og stofnuðu Viðreisn.
Á hinu gráa svæði milli stjórnmála og atvinnulífs á Íslandi hefur verið þögult samkomulag um að verja fákeppni, völd og einokun. Hagur neytenda og samkeppnissjónarmið eru þeim sem þar þrífast ekki ofarlega í huga. Á flestum mörkuðum starfa þrjú eða fjögur stór fyrirtæki sem er stýrt af „rétta“ fólkinu og eiga í flestum tilfellum í samkeppni sem er að uppistöðu til málamynda. Þannig er hægt að tryggja ítök á samfélaginu og stýra því hvar arðurinn af rekstri kerfanna lendir.
Vandi lífeyrissjóða
Þá var lífeyrissjóðakerfinu beitt á síðustu árum til að tryggja ítök einkaaðila í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum sem þeir eiga ekki nema að litlum hluta. Sjóðirnir voru látnir endurfjármagna íslenskt viðskiptalíf eftir bankahrunið og borga fyrir endurreisn hlutabréfamarkaðar. Ströng fjármagnshöft gerðu það að verkum að þeir gátu ekki annað. Það var fátt annað sem þeir gátu keypt fyrir sívaxandi sjóði sína, peninga launafólks. Fyrir vikið eiga þeir meira og minna um helming af öllum hlutabréfum í skráðum fyrirtækjum, án þess að ráða neinu um hvernig þau eru rekin.
Þegar þeim var loks hleypt úr höftum voru lífeyrissjóðirnir fljótir að reka sig langleiðina upp í lögbundið þak á slíkum fjárfestingum, sem er helmingur eigna þeirra. Sumir eru komnir upp í 43-45 prósent og þora ekki að fara hærra vegna þess að litlar sveiflur á gengi krónu gæti gert þá að lögbrjótum. Stjórnendur sjóðanna hafa kallað eftir því að þetta þak verði afnumið en það stendur ekki til. Að hluta til vegna þess að lífeyrissjóðirnir eiga 6.550 milljarða króna og hröð útför þeirra úr krónuhagkerfinu myndi óhjákvæmilega veikja örgjaldmiðilinn gríðarlega.
Í nýjum drögum að frumvarpi sem fjármála- og efnahagsráðuneyti Bjarna Benediktssonar hefur kynnt til leiks á að hækka þakið í 65 prósent á 15 árum, frá 2024. Það myndi gulltryggja áframhaldandi ítök litlu einkafjárfestanna í bakpoka lífeyrissjóðanna yfir íslensku atvinnulífi út þann tíma. Þeir myndu áfram þurfa að eiga stóran hlut í skráðum félögum hérlendis, en áfram engu ráða um hvernig þau eru rekin, hvernig laun stjórnendur þeirra greiða sér eða hvernig bónuskerfi eru sett upp.
Upptaka evru með inngöngu í Evrópusambandið myndi leysa þennan vanda lífeyrissjóðanna samstundis. Hann yrði einfaldlega ekki lengur til staðar.
Pólitiskur ómöguleiki er ekki lengur til staðar
Helsta pólitíska afrek varðmanna gamla Íslands, sem fyrst og síðast berjast gegn kerfisbreytingum og því að viðhalda eigin ítökum, var þó að láta þá sem raunverulega trúa á umbætur, breytingar, frjálslyndi og alþjóðasamstarf nánast skammast sín fyrir að ræða hluti eins og Evrópusambandsaðild opinberlega. Evrópusambandsaðild sem pólitískt umfjöllunarefni hefur virkað eins og boðflenna í samkvæmi sem er stýrt og skipulagt af þeim sem ráða. Það sást til að mynda í síðustu kosningum þegar Viðreisn bauð upp á illa ígrundaða tillögu um tvíhliða samning við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónu við evru, sem engin fordæmi eru fyrir né enginn sýnilegur áhugi á hjá mótaðilanum.
Fyrir vikið hafa umbótasinnaðir flokkar tapað sjálfinu og litið út fyrir að hafa ekki boðlega efnahagslega stefnu. Verið beinlínis ráðvilltir og fest í narratívi andstæðinga. Verið of uppteknir af því að rífast á samfélagsmiðlum en sinnt því minna að boða skýra valkosti við stöðnun af sjálfstrausti og dýpt.
Það hefur leitt til þeirrar niðurlægingu að tapa ítrekað, og illa, fyrir flokkum sem hafa lítið annað fram að færa annað en sniðug slagorð og kyrrstöðu.
Nú liggur fyrir, samkvæmt könnun Gallup, að í fyrsta sinn í mörg ár er til staðar mun meiri vilji hjá almenningi til að ganga í Evrópusambandið en andstaða. Þeir flokkar sem hana styðja eiga nálgast þá stöðu með kassann úti, móta sér skýra stefnu um hvenær setja eigi málið formlega á dagskrá og gera það að lykilatriði í íslenskri stjórnmálaumræðu. Ytri aðstæður, stríðsrekstur í Evrópu, kalla á það. En það gera líka ískaldir hagsmunir íslenskrar alþýðu sem er búin að fá sig fullsadda af endalausri undirgefni íhaldsflokkanna sem stýra landinu við fjármagnseigendur á sinn kostnað.
Pólitíski ómöguleikinn er ekki lengur til staðar. Í stað hans er kominn möguleiki til að taka frekari þátt í alþjóðasamstarfi til að tryggja frið, tækifæri og frekari lífskjarasókn og samliða brjóta upp úr sér gengin valdakerfi sem þjóna hinum fáu frekar en fjöldanum.
Nýtum þann möguleika.