Fyrir viku var á það bent á þessum vettvangi að svokallaður pólitískur ómöguleiki gagnvart frekari þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi með aðild að Evrópusambandinu væri dauður. Ástæða skrifanna var ný könnun Gallup sem sýndi fram á stóraukin stuðning þjóðarinnar við slíkt skref. Alls 47 prósent landsmanna styðja nú aðild Íslands að Evrópusambandinu en einungis 33 prósent eru henni mótfallnir. Þetta er í fyrsta sinn sem meirihluti hefur mælst fyrir aðild í könnun hérlendis síðan 2009. Augljóslega eru þetta stórtíðindi og fyrir þeim eru margar ástæður, sem hægt er að lesa um hér.
Viðbrögðin við könnuninni hafa verið athyglisverð. Á laugardagsmorgun hélt formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, ræðu sem gæti markað vatnaskil fyrir þann flokk verði innihaldi hennar fylgt eftir. Í ræðunni fór fram óvenjulega heiðarlegt og gagnrýnið uppgjör á ástæðum þess að flokkurinn hefur verið í eyðimerkurgöngu í landsmálunum frá því að hann beið afhroð í þingkosningunum 2013 og hrökklaðist frá völdum. Hann talaði um að Samfylkingin væri of týnd í bergmálshellum samfélagsmiðla sem blindi stundum sýn og gefi afmörkuðum málum vigt, langt umfram tilefni eða áhuga þorra almennings.
Logi kallaði eftir því að breikka skírskotun Samfylkingarinnar með því að flokksmenn myndu sammælast um grundvallarstefnu en vera umburðarlynd gagnvart því að þeir gætu haft ólíkar skoðanir á ýmsum öðrum úrlausnarefnum. Logi sýndi á hverju hin nýja nálgun flokks hans muni hvíla með því að segja að það væri kominn tími til að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu aftur rækilega á dagskrá.
Skýrir pólitískir valkostir gætu teiknast upp
Þótt Samfylkingin hafi frá stofnun haft aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá sinni hefur það mál ekki, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, verið ofarlega á baugi hjá flokknum í undanförnum þremur kosningum. Það er vart tilviljun að í þeim kosningum hefur flokkurinn ekki viðhaft trúverðugan málflutning í efnahagsmálum og fengið þrjár verstu niðurstöður sínar. Það hefur virst sem að Samfylkingin hafi ekki haft sjálfstraust til að standa fullkomlega með þeirri sannfæringu sinni að íslenskum almenningi væri betur borgið í sterku friðar- og viðskiptabandalagi vinaþjóða. Mögulega er ástæðan vonin um að Vinstri græn, sem eru á móti aðild, væru meira eins og umbótaaflið sem þau segjast vera í aðdraganda kosninga frekar en íhaldsflokkurinn sem þau eru í reynd. Í ræðu sinni viðurkenndi Logi að þetta hefði verið „barnaleg tiltrú“ og gaf þannig til kynna að þau mistök yrðu ekki endurtekin. Horfa þyrfti annað eftir mögulegu stjórnarsamstarfi.
Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skrifaði stöðuuppfærslu á Facebook í vikunni til að undirstrika þetta og sagði: „Hagsmunir okkar eru samofnir hagsmunum Evrópusambandsins og umbætur hafa oftar en ekki borist hingað að utan. Hvort sem litið er til mannréttinda, neytendaverndar, samkeppnismála eða loftslagsmála. Það hefur reynst okkur happadrjúgt þegar stjórnvöld hafa verið helsta fyrirstaðan til framfara og hafa borið fyrir sig pólitískan ómöguleika eða dregið lappirnar í hverju málinu á fætur öðru.“ Hún hvatti svo til þess að Evrópumálið yrðu látin í hendur þjóðarinnar. „Niðurstöður síðustu þingkosninga ættu ekki að binda hendur okkar í þeim efnum. Nú er heimsmyndin breytt og verulegar viðhorfsbreytingar átt sér stað meðal almennings. Þegar um svo stórt mál er að ræða þá er enginn skaði skeður með því að eiga samráð við þjóðina. Stundum þarf slíkt samráð að eiga sér stað oftar en á fjögurra ára fresti.“
Píratar hafa líka verið mjög opnir fyrir aðild og sagt að það sé mikilvægt að stjórnvöld fylgi vilja almennings í þeim efnum. Nú liggur fyrir samkvæmt könnunum að vilji almennings til að ganga í Evrópusambandið hefur stóraukist og séu Píratar samkvæmir sjálfum sér þá munu þeir standa með þeim valkosti.
Hræðsla við vilja þjóðar
Að sama skapi hefur verið stórmerkilegt að fylgjast með viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins við því að verið sé að segja orðið Evrópusamband upphátt í íslenskum stjórnmálum á ný.
Hver þingmaður flokksins á fætur öðrum hefur stigið fram og talað um að það sé ósmekklegt að ræða um slíkt grundvallarmál opinberlega, sérstaklega þegar stríð geisi í álfunni. Allir eiga þessir þingmenn – sem er tíðrætt um lýðræðisveislur þegar flokkurinn þeirra heldur prófkjör – það þó sameiginlegt að skauta algjörlega framhjá þeim breytta þjóðarvilja sem birtist í áðurnefndri könnun Gallup. Enginn þeirra hefur minnst á þá staðreynd að á þessu ári einu saman hafi stuðningur landsmanna við inngöngu í Evrópusambandið aukist um meira en helming, á meðan að staðfest andstaða við hana hefur dregist saman um þriðjung. Og að stuðningurinn mælist nú 14 prósentustigum meiri en andstaðan. Án þess að nokkur raunveruleg pólitísk umræða hafi átt sér stað innanlands um aðild í aðdragandanum.
Viðbrögðin bera þess merki að þar fari hópur stjórnmálamanna sem er hræddur við þjóð sína. Og beri ekki nægilega mikla virðingu fyrir henni til að treysta því að skoðanir hennar gætu verið vel ígrundaðar. Að friðarbandalag með vinaþjóðum sem hefur auk þess stórkostlega jákvæðar efnahagslegar afleiðingar fyrir þorra almennings, en gæti dregið úr arðsemi pilsfaldarkapitalista og sívaxandi fáveldið sem krónuhagkerfið var hannað utan um, gæti verið eitthvað sem viti bornu fólki finnist aðlaðandi.
Morgunblaðið hefur svo staðfest, enn og aftur, stöðu sína sem hnignandi áróðursfyrirbæris með því að segja einfaldlega ekki beint frá niðurstöðu könnunar Gallup, hvorki á prenti né á vef. Þar á bæ var ákveðið að láta eins og það hafi ekki gerst að stórtíðindi hafi orðið í afstöðu þjóðar gagnvart grundvallarmálefni, einfaldlega vegna þess að sú afstaða rímar ekki við pólitík þeirra sem stýra miðlinum.
Tilraun til að drepa umræðu með valkvæðri sögukennslu
Áhugaverðustu viðbrögðin komu þó frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Hann skrifaði langa færslu á Facebook um málið. Hún bar þess merki að þar færi stjórnmálamaður sem hefði áhyggjur og vildi því reyna sitt besta til að drepa umræðu áður en hún næði fótfestu. Það gerði Bjarni með rökum sem byggja á ansi valkvæðri útgáfu af sögunni.
Uppistaðan var sjálfshól um góða efnahagsstjórnun og gagnsemi krónu sem á litla innistæðu þegar betur er að gáð. Efnahagsleg endurreisn Íslands byggði á fordæmalausum neyðarlögum, höftum, aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og afnámi sólarlagsákvæðis sem festi eignir erlendra kröfuhafa inni og neyddi þá til að gefa stóran hluta þeirra, mörg hundruð milljarða króna, eftir. Þau vandamál sem kölluðu á þessar risastóru aðgerðir urðu öll til vegna þess að við höldum úti eigin örgjaldmiðli.
Færa má góð rök fyrir því að stærilæti ríkisstjórnarinnar sem tók við völdum 2013, og viðhengja hennar, hafi valdið meiri skaða en gagni. Má þar benda á áhugaverða skýrslu sem núverandi seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, skrifaði ásamt Dr. Hersi Sigurgeirssyni árið 2015 því til stuðnings.
Að öðru leyti byggði efnahagsleg endurreisn Íslands annars vegar á því að við ákváðum einhliða að ráðast í gríðarlegar makrílveiðar og gefa stórútgerðum svo þann kvóta endurgjaldslaust. Og hins vegar á ferðamönnum sem fóru að streyma hingað vegna bankahruns, eldgoss og veikrar krónu, ekki vegna sértækra aðgerða stjórnvalda.
Þegar bakslag kom í hömlulausa ferðamennskuna var rekstur ríkissjóðs strax kominn í baklás, áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Það er öll snilldin.
Þótt efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldurs hafi náð að viðhalda atvinnustigi, verja hlutafé fjármagnseigenda í fyrirtækjum og blása upp bólu á fasteigna- og hlutabréfamarkaði, þá höfðu þær líka mikil neikvæð áhrif fyrir stóra hópa. Verðbólgudraugurinn sem nú geisar, og er sá feitasti sem við höfum séð í áratug, er til merkis um það.
Stórsigur er teygjanlegt hugtak
Önnur valkvæð söguleg staðreynd sem Bjarni setur fram í færslu sinni er sú að íslenska þjóðin hefði hafnað Evrópusambandsaðild í kosningunum 2013. „Flokkar sem höfðu það á sinni stefnuskrá að halda Íslandi utan ESB unnu stórsigur og aðildarviðræðum og viðtöku styrkja var í kjölfarið hætt og samninganefndin leyst upp,“ skrifaði ráðherrann.
Vandamálið við þessa tilraun Bjarna er að kosningarnar 2013 snerust alls ekkert um Evrópusambandsaðild. Þær snerust um skuldavanda heimila. Einn flokkur vann stórsigur í þeim kosningunum 2013. Það var Framsóknarflokkurinn undir stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og ástæðan fyrir þeim sigri var loforð hans um að greiða milli- og efri stéttinni í landinu tugi milljarða króna í skaðabætur úr ríkissjóði fyrir að hafa haft verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009, sem kostaði á endanum 72,2 milljarða króna, og að afnema verðtryggingu húsnæðislána, sem hefur reyndar enn ekki verið gert.
Sjálfstæðisflokkurinn var því sannarlega ekki sigurvegari kosninganna 2013. Í aðdraganda þeirra gaf Bjarni auk alþjóðlega þenkjandi flokksmönnum vilyrði um að ef þeir myndu kjósa flokkinn áfram þá myndi hann láta fram fram þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður um Evrópusambandsaðild. Það loforð ýkti niðurstöðu flokksins á fölskum forsendum. Svo var það svikið eftir kosningar og þegar Bjarni bar fyrir sig að það væri „pólitískur ómöguleiki“ á að standa við gefin loforð þegar honum langaði ekkert til þess. Hann sendi líka bréf til eldri borgara fimm dögum fyrir kosningar þar sem lofað var að bæta hag þeirra verulega kæmist Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn, meðal annars með afnámi tekjutengingar ellilífeyris. Það er skýrt mat þrýstihópa eldri borgara að þessi loforð hafi ekki verið efnd.
Hugleiddi afsögn tveimur vikum fyrir kosningar
Það má líka rifja upp að pólitískt líf Bjarna hékk á bláþræði á þessum tíma. Rúmum tveimur fyrir kosningarnar gerðu stuðningsmenn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, með aðstoð Viðskiptablaðsins, atlögu að formennsku hans með því að láta gera könnun sem sýndi að fleiri myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef hún leiddi hann en ef Bjarni gerði það. Í þættinum Forystusætinu á RÚV sama dag var Bjarni spurður hvort hann væri að hugsa um að segja af sér formennsku vegna þessa og veikrar stöðu flokksins samkvæmt könnunum. Svarið var: „Í dag verð ég að játa, í þessari krísu sem flokkurinn er í, að ég get ekki útilokað neitt."
Viðkvæmni hans í viðtalinu bjargaði formennsku Bjarna en flokkurinn fékk á endanum næst verstu kosningu sína frá upphafi og bætti einungis við sig þremur prósentum, þótt það hafi dugað inn í ríkisstjórn með Framsókn. Taka verður með að þetta var áður en frjálslyndir alþjóðasinnar klufu sig út úr flokknum og stofnuðu Viðreisn og áður en hluti helstu afturhaldsafla landsins sameinaðist í Miðflokknum.
Næstu kosningar á eftir, 2016 snerust um Panamaskjölin og veru helstu ráðamanna þjóðarinnar í þeim. Kosningar 2017 voru tilkomnar vegna þess að faðir formanns Sjálfstæðisflokksins skrifaði upp á uppreist æru fyrir dæmdan barnaníðing og ráðamenn innan Sjálfstæðisflokksins reyndu að leyna almenning því. Kosningarnar 2021, sem fóru fram í kórónuveirufaraldri, snerust eiginlega ekki um neitt nema slagorð og yfirborðsmennsku, og enduðu með því að stóraukinn hópur fólks ákvað að það væri líklega best að kjósa Framsókn vegna þess að auglýsingarnar þeirra voru sniðugar og að Ásmundur Einar Daðason var málaður upp sem bjargvættur barna.
Í engum kosningum frá 2009 hafa Evrópusambandsmál því verið efst á baugi. Það er raunveruleg söguleg staðreynd.
Klókur en án lýðhylli
Það er vert að benda á að almennt nýtur Bjarni Benediktsson ekki mikillar lýðhylli. Hann er þvert á móti frekar óvinsæll stjórnmálamaður með almennt þrönga skírskotun. Bjarni hefur leitt stærsta flokk Íslandssögunnar í gegnum fimm af sex verstu kosningum hans. Í könnun sem MMR gerði í desember kom fram að 44 prósent landsmanna vantreysta honum. Einungis Jóni Gunnarssyni, afar umdeildum dómsmálaráðherra, var vantreyst meira. Í könnun sem birt var skömmu eftir síðustu kosningar kom fram að einungis 7,6 prósent landsmanna vildu sjá Bjarna sem forsætisráðherra. Tæplega þriðjungur kjósenda hans eigin flokks vildi sjá hann leiða ríkisstjórn.
Þetta er vitnisburður um hversu klókur stjórnmálamaður Bjarni er. Sennilega sá klókasti af sinni kynslóð. Honum tekst að vinna þrátt fyrir að hann sé eiginlega alltaf að tapa. Sem er pólitískt afrek.
Tækifæri í því að hlusta á þjóðina
Þeim flokkum sem eru opnir fyrir Evrópusambandsaðild hefur ekki gengið vel í síðustu fjórum kosningum, þar sem málið hefur ekki verið stórt kosningamál. Í fyrrahaust fengu þeir 26,8 prósent atkvæða, og stóðu sig heilt yfir illa við að sannfæra almenning um erindi sitt.
Skýrari sameiginleg stefnumál, umburðarlyndi fyrir því sem gerir flokkana ólíka, og skörp skil í efnahagsmálum gagnvart íhaldsflokkunum sem nú ráða geta vart skilað verri niðurstöðu. Þar má horfa til þess að 47 prósent landsmanna vilja nú ganga í Evrópusambandið. Hjá þeim hópi eru mikil tækifæri til fylgisaukningar. Logandi hræðsla andstæðinga aðildar við að ræða málið staðfestir þetta.
Uppleggið þarf að vera skýrt: hér eru flokkar sem munu halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu, fái þeir til þess umboð. Verði það samþykkt mun umsókn Íslands, sem hefur ekki formlega verið dregin til baka heldur stungið í frystikistu, verða endurvakin og aðildarsamningur gerður. Hann verður svo borin undir þjóðina.
Þetta eru raunverulegt lýðræði. Svona nær þjóðarvilji fram að ganga.
Við hann eiga stjórnmálamenn ekki að vera hræddir.