Viðtal Stundarinnar við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, sem birtist á föstudag, hefur vakið mikla athygli. Frá því að Ásgeir tók við embættinu síðsumars 2019 hafa flest stærri viðtöl við hann í íslenskum fjölmiðlum verið á forsendum hagsmunahópa.
Það er ekki honum að kenna, heldur hafa spurningarnar í flestum tilvikum verið um aðstæður fjármagnseigenda eða sérhagsmuna í atvinnulífinu og á forsendum þess að aukin velferð þeirra leiði til þess að brauðmolar geti hrunið af nægtaborðinu til hinna.
Spurningarnar sem blaðamaðurinn Ingi Freyr Vilhjálmsson lagði fyrir Ásgeir voru af öðrum meiði. Þær voru á forsendum heildarhagsmuna. Ekki hvað kerfin geti gert betur fyrir afmarkaða hópa heldur hvað sé að í kerfunum þannig að þau virki ekki fyrir samfélagið í heild.
Í ljós kom að Ásgeir hefur sterkar meiningar um flest og er óhræddur við að svara tæpitungulaust.
Fyrir vikið er viðtalið við Ásgeir í Stundinni eitt mikilvægasta viðtal sem birst hefur lengi á Íslandi.
Ekki vinstrivillingur eða öfundarmaður
Þar segir Ásgeir meðal annars að Íslandi sé „að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá.“
Með þeirri yfirlýsingu er Ásgeir að enduróma að hluta orð sem annar áhrifamaður á Íslandi áratugum saman, Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, lét falla í viðtali við rannsóknarnefnd Alþingis fyrir meira en tíu árum síðan. „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Ástæða þess að staðhæfing Ásgeirs um þessi mál er svona mikilvæg er meðal annars sú að það verður seint hægt að afskrifa hann sem vinstrivilling eða öfundarmann sem geti ekki sofið vegna þess að einhverjir séu að græða peninga. Þar fer maður sem sér allt sem hann vill í kerfinu. Sem er í nær daglegum samskiptum við flest valdamesta fólkið í landinu.
Hann er einn æðsti embættismaður Íslands og gegnir einu af mikilvægustu störfunum í samfélagslegu gangverki okkar.
Ofurstéttin sem er að eignast Ísland
Með orðum sínum staðfestir Ásgeir það sem hagtölur og önnur opinber gögn sýna svart á hvítu, og flestir sem kynna sér sjá: Að á Íslandi hefur orðið til nokkurs konar ofurstétt.
Forsætisráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær, þegar hún var spurð út í orð Ásgeirs, að hún hefði saknað þess að blaðamaðurinn hefði beðið um dæmi um hagsmunahópana sem stjórni landinu að miklu leyti. Það er auðvelt að verða við þeirri ósk forsætisráðherra.
Þá er ótalin aðkoma þeirra að fjölmiðlum, en með henni hafa þeir miskunnarlaust komið áróðri fyrir sínum hagsmunum á framfæri gegn því að niðurgreiða milljarðatap. Hliðaráhrif af þessu brölti er algjör markaðsbrestur á samkeppnismarkaði fjölmiðla, sem leitt hefur til þess að fjölmiðlafrelsi á Íslandi hefur fallið eins og steinn á örfáum árum án þess að stjórnvöld hafi gert nokkuð til að sporna við.
Svo eru aðrir umsvifamiklir fjármagnseigendur, með grunn í fákeppnis- eða einokunargeirum á Íslandi, sem tilheyra líka því hagsmunahópamengi sem Ásgeir talar um. Þar er um að ræða, í mörgum tilfellum, fólk sem hagnast aðallega á grundvelli betra aðgengis að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra sem það fær á gráa svæðinu milli viðskipta og stjórnmála hérlendis.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra; eldklári, reynslumikli og hæfileikaríki stjórnmálamaðurinn sem hún er, þekkir auðvitað öll þessi dæmi. Þau blasa við henni daglega í hennar störfum.
Vill ekki mógúla við stjórn landsins
Ásgeir sagði líka í viðtalinu að það væri mjög erfitt að fá Íslendinga til að hugsa um heildarhagsmuni. Það eigi til dæmis við markaðsaðila eins og banka og lífeyrissjóði.
Þá afstöðu hlýtur hann að byggja á eigin reynslu af samskiptum við þessa aðila. Sú staða er afar sérkennileg í ljósi þess að lífeyrissjóðir eru í eigu almennings og þorri bankakerfisins er það líka. Ef þessi fyrirbæri eru ekki fáanleg til að huga að hagsmunum heildarinnar, eigenda sinna, í rekstri sínum þá þarf að ráðast í verulegar breytingar á starfsemi þeirra og lagaumhverfi.
Ásgeir, sem starfaði hjá Kaupþingi fyrir bankahrun, talaði einnig um það í viðtalinu að það sé alveg skýrt að á meðan að hann gegnir starfi seðlabankastjóra þá fái fjármálakerfið aldrei að fara í þá átt aftur sem það fór þá. „Að við séum að sjá að stjórn landsins sé komin í hendurnar á einhverjum svona mógúlum.“ Á meðal þess sem hann kallar eftir í því samhengi er aukning á heimildum fyrir fjármálaeftirlitið til að sinna eftirliti með fjármálakerfinu. Það þurfi að vera miklu harðara.
Þessi skoðun hans er í andstöðu við stefnu stjórnvalda og þorra atvinnulífsins á Íslandi undanfarin misseri, þar sem sífellt er talað fyrir veikara eftirliti.
Opnaði flóðgáttir
Ásgeir gerði annað í viðtalinu sem aðrir ráðamenn hafa ekki gert af festu hingað til. Hann gagnrýndi framferði Samherja gagnvart fimm starfsmönnum Seðlabankans vegna rannsóknar sem bankinn réðst vegna gruns um brot Samherja á gjaldeyrislögum eftir bankahrunið. Hægt er að lesa um þá herferð, sem fól meðal annars í sér kröfu um að fyrirrennari Ásgeirs í starfi yrði dæmdur í fangelsi, hér.
Öllum sem það gera ætti að vera ljóst að forsendur voru fyrir rannsókn Seðlabanka Íslands. Í ljós kom, eftir að málið var kært til sérstaks saksóknara að lagastoð reyndist ekki fyrir að kæra fyrirtæki í sakamáli fyrir gjaldeyrisbrot. Undirskrift ráðherra hafði vantað á reglugerð um gjaldeyrismál sem gefin var út í desember 2008 sem gerði þetta að verkum. Samherjamálið var á endanum fellt niður á þessum grundvelli. Á tæknilegri ástæðu. Dómstólar tóku það aldrei til efnislegrar meðferðar eða skáru úr um hvort Samherji hefði gert það sem Seðlabankinn taldi að fyrirtækið hefði gert.
Ásgeir sagði í viðtalinu að það sé ótækt að einkafyrirtæki eins og alþjóðlegi útgerðarrisinn Samherji geti ráðist persónulega að ríkis- og embættismönnum með þeim hætti sem hann telur að hafi átt sér stað. „Það má alveg berja á þessari stofnun, hún er virki, en það má ekki gera þetta svona persónulega gegn fólki.“
Ástæða þess að þetta var mikilvæg yfirlýsing er áframhaldandi stríðsrekstur Samherja gagnvart fólki sem hefur opinberað fyrirtækið og starfshætti þess. Undanfarið eitt og hálft ár hefur sá stríðrekstur beinst gegn blaðamönnum sem fjölluðu um athæfi Samherja í Namibíu og víðar. Athæfi sem grunur er um að hafi falið í sér mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti.
Hér var víst eitthvað að sjá annað en meint ósmekklegheit
Ásgeir gagnrýndi fleira tengt mögulegu peningaþvætti í viðtalinu. Hann sagði til að mynda að hann væri sammála gagnrýni sem sett hefur verið fram á fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem gerði meðal annars Íslendingum sem höfðu komið fjármunum fyrir í aflandsfélögum kleift að flytja þá aftur til Íslands með virðisaukningu og fá fjármunina lögmæti. „Þetta myndi aldrei gerast á minni vakt. Aldrei. Ég er sammála, það hefði mátt fylgjast mun betur með því hvaðan peningarnir komu.“
Málflutningur þeirra, þar á meðal undirritaðs, var kallaður „ósmekklegur“ af fjármála- og efnahagsráðherra. Afstaða íslenskra stjórnvalda hefur enda alltaf verið sú að ef þau sleppa því einfaldlega að skoða hluti, þá séu þeir ekkert að eiga sér stað.
Orð Ásgeir ættu að ýta við Alþingi að ráðast í að skipa rannsóknarnefnd um fjárfestingarleiðina sem allra fyrst, og láta hana skila niðurstöðum fyrir komandi kosningar. Þingsályktunartillaga þess efnis var lögð fram í nóvember 2019. Hún sofnaði í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eftir að forseti Alþingis setti sig upp á móti innihaldi hennar.
Loksins stigið upp
Í kjölfar þess að viðtalið við Ásgeir birtist er eins og flóðgáttir hafi opnast. Sérstaklega eftir að söluhæsti tónlistarmaður þjóðarinnar fyrr og síðar og mikilvægasta alþýðuskáld hennar, Bubbi Morthens, setti fram sambærilega skoðun í stöðuuppfærslu á Facebook.
Fólk allstaðar að hefur tekið undir að það megi ekki gera „svona persónulega gegn fólki“ líkt og Samherji hefur gert gagnvart opinberum embættismönnum og blaðamönnum. Mikil og þörf umræða hefur sprottið upp um kerfið sem leiðir af sér nokkra fyrirferðamikla hagsmunahópa sem stjórni Íslandi með frekju, yfirgangi og einhverju sem er erfitt að lýsa öðruvísi en sem ofbeldi. Og hvað það þýði fyrir fólk og fyrirtæki að lenda upp á kant við þessa hópa. Hráefnið í þeirri umræðu eru ekki ný tíðindi fyrir okkur á Kjarnanum, enda höfum við helgað stórum hluta af tæplega átta ára tilveru miðilsins í að draga fram staðreyndir um það spillta strokusamfélag hagsmunaafla sem hér þrífst á gráu svæði milli atvinnulífs, stjórnmála og stjórnsýslu.
Það er því ánægjulegt að sjá allan þann fjölda sem nú stendur upp og bendir á þetta sama. Meira að segja stjórnarþingmenn eru mættir í alvöru umræðu um aðför Samherja gegn blaðamönnum og hagsmunahópanna sem stýra Íslandi. Þar með taldar forsætisráðherra og ráðherra fjölmiðlamála.
Einu sem tala á móti, að minnsta kosti enn um sinn, eru menn sem hafa fyrir löngu dæmt sig úr leik með lélegum gaslýsingum, affærslum á staðreyndum og ófyndnum karlakarlabröndurum þar sem þolendur eru iðulega teiknaðir upp sem gerendur og öfugt. Og Morgunblaðið auðvitað, sem skrifar nafnlausa níðpistla um kollega sína fyrir hönd Samherja og birtir auglýsingu um nýjasta af þrettán áróðursþáttum Samherja þar sem ráðist er að blaðamönnum.
Kveðjum fáveldið svo samfélagið allt þrífist
Það er kominn vísir að vilja til að takast á við fáveldi örfárra fjármagnseigenda og þá augljósu lýðræðislegu ógn sem blasir við okkur vegna þess. Ógn sem birtist annars vegar þegar stærstu ákvarðanir um gangverk samfélagsins eru of oft teknar með þeirra hagsmuni í huga, ekki okkar hinna. Og hins vegar þegar þeir nota auð sinn til að hundelta fólk sem opinberar þá.
Það er hægt að takmarka skaðann sem af þessu kerfi hlýst, með því að breyta lögum um fiskveiðistjórnun þannig að samþjöppuð völd hópsins verði takmörkuð og að mun stærri sneið af arðseminni sem hlýst af nýtingu náttúruauðlindar lendi hjá raunverulegum eigendum hennar. Það er hægt að gera upp strokuspillingu fyrri tíma með almennilegum rannsóknum. Það er hægt að auka eftirlit, skerpa á lögum og draga verulega úr áhrifum lobbíista sérhagsmunahópa á gerð leikreglna samfélagsins.
Stór ástæða þess glugga sem nú hefur opnast, og er mikilvægt að nýta, er ákvörðun Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra að tala tæpitungulaust um það sem blasir við honum í starfi í viðtali við Stundina.
Vonandi mun þessi vísir að vilja lifa, að minnsta kosti fram að næstu kosningum. Þá fá landsmenn vonandi skýra valkosti í kjörklefanum.