„Ég hef áhyggjur af þessari miklu samþjöppun í sjávarútvegi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið í gær. „Mín skoðun er að það þurfi að gera úrbætur er kemur að kvótaþakinu, til dæmis skilgreiningu á tengdum aðilum [...] Það þarf að ræða gjaldtökuna, ekki síst þegar við sjáum þennan tilflutning á auðmagni milli aðila. […] Aukin samþjöppun eykur ekki sátt um greinina“.
Fyrir um einum og hálfum mánuði lét Svandís Svavarsdóttir, ráðherra sjávarútvegsmála, hafa eftir sér í tilkynningu að í sjávarútvegi ríki djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti. „Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt. Markmiðið með þessari vinnu er því hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag.“
Tilefni tilkynningarinnar var að Svandís hafði skipað einhverja fjölmennustu nefnd Íslandssögunnar (í starfshópum, verkefnastjórn og samráðsnefnd sitja hátt í 50 manns) til að „greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi“. Þessi hópur, sem meðal annars telur fullt af fólki sem hefur beinan hag af núverandi kerfi í sjávarútvegi, á að taka sér eitt og hálft ár til að greina vandamál sem allir vita þegar hvað er. Hann kemur í kjölfar fjölmargra annarra hópa sem skipaðir hafa verið til að endurskoða kerfið, en hafa engu skilað.
Í mars sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, að hann hefði áhyggjur af ofurhagnaði einstakra sjávarútvegsfyrirtækja og sífellt auknum ítökum þeirra í öðrum geirum. Mánuði áður hafði varaformaður hans sagt að hún vildi skattleggja ofurhagnað sjávarútvegs.
Frá útgerðarforeldrum til útgerðarbarna
Allt hefur þetta fólk setið samfleytt í ríkisstjórn í næstum fimm ár án þess að nokkrar breytingar sem einhverju skipta hafi verið gerðar á sjávarútvegskerfinu.
Á meðan hefur kerfi sem mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti, og tveir af hverjum þremur landsmönnum telja að sé beinlínis ógn við lýðræðið, fest sig í sessi.
Það er enn þannig að af gríðarlegum hagnaði fer rúmlega 70 prósent til útgerðaraðals og undir 30 prósent til eigenda auðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar. Það er enn þannig að aðallinn greiðir sér meira í arð árlega en þeir greiða í heild í opinber gjöld. Þetta gerist þrátt fyrir að 77 prósent þjóðarinnar telji að greiða eigi markaðsgjald fyrir aðgang að auðlindinni en einungis sjö prósent hennar er andvígt slíkri breytingu.
Ástæðan fyrir því að ekkert gerist er sú að einn stjórnmálaflokkur ræður ferðinni í þessum málum, sem og flestum öðrum, á Íslandi. Hann heitir Sjálfstæðisflokkurinn, fékk 24,4 prósent atkvæða í síðustu kosningum og mælist nú reglulega með um fimmtungsfylgi.
Formaður þess flokks hefur engar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi og telur marga „ala á sundrungu vegna kerfisins.“ Sú samþjöppun innan þess sé af hinu góða. Raunar eftirsóknarverð.
Einfaldir viðhlæjendur hans, sem eiga flestir öll sín tækifæri undir pólitískri fyrirgreiðslu og hefðbundnum pilsfaldarkapitalisma, fara í kjölfarið með möntrur um öfund og biturleika óskilgreindra „vinstrimanna“. Þar sé sundrungin.
Þessum flokki hefur tekist að koma í veg fyrir það árum saman að ákvæði um að auðlindir Íslands séu í eigu þjóðar verði bætt í stjórnarskrá. Honum hefur tekist að koma í veg fyrir sanngjarna gjaldtöku fyrir nýtingu á auðlind þjóðar.
Aflaheimildir seldar fyrir tugi milljarða
Þetta þjóðarmein er enn og aftur að rata í umræðuna vegna nýlegra viðskipta Síldarvinnslunnar.
Fyrir rúmum mánuði keypti hún þriðjungshlut í norska laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish, fyrirferðamesta laxeldisfyrirtækisins á Íslandi, á 13,7 milljarða króna. Um síðustu helgi keypti félagið svo útgerðarfyrirtækið Vísi í Grindavík á 31 milljarð króna. Í ljósi þess hversu skuldsett Vísir er, og að bókfært virði fastafjármuna fyrirtækisins er einungis um helmingur af vaxtaberandi skuldum, þá liggur fyrir að þeir 20 milljarðar króna (sem eru reyndar orðnir 21,3 milljarðar króna eftir hækkanir síðustu daga) sem systkinin sex í Vísi fá í formi reiðufjár og átta prósent hlutar í Síldarvinnslunni, eru greiðsla fyrir aflaheimildir. Aflaheimildir sem eru í eigu íslensku þjóðarinnar.
Síldarvinnslan er skráð á markað, en henni er stýrt af tveimur fjölskyldum, annarri kenndri við Samherja frá Akureyri og hinni kenndri við Gjögur/Kjálkanes frá Grenivík, sem eiga saman meirihluta.
Tengslin þarna á milli eru allskonar. Árum saman kynnti Samherji Síldarvinnsluna á alþjóðlegum fundum sem uppsjávarhluta sinnar samstæðu. Þegar forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson þurfti tímabundið að stíga til hliðar sem forstjóri Samherja við upphaf Namibíumálsins settist Björgólfur Jóhannsson úr Grenivíkurfjölskyldunni í forstjórastólinn á meðan. Hópurinn á líka saman risastóran hlut í Sjóvá. Og svo framvegis.
Mörg hundruð milljarðar safnast á fárra hendur
Ofangreindar fjölskyldur seldu hluti í Síldarvinnslunni fyrir gríðarlega marga milljarða króna þegar hún var skráð á markað en eiga samt saman rúmlega helming í henni og stýra að vild. Þrír af fimm stjórnarmönnum eru til að mynda á þeirra vegum.
Kjálkanes og Gjögur áttu sameiginlegt bókfært eigið fé upp á rúmlega 30 milljarða króna í lok síðasta árs. Samherjasamstæðan, sem samanstendur af systurfélögunum Samherja og Samherja Holding, átti bókfært eigið fé upp á um 140 milljarða króna í lok árs 2020, en hún hefur ekki skilað nýrri ársreikningi.
Sennilegt er að hluti bókfærðra eigna blokkarinnar, til dæmis aflaheimildir, séu færðar undir markaðsvirði. Þegar við bætist að gengi hlutabréfa í þeim skráðu félögum sem blokkin á í hefur hækkað gríðarlega síðasta eina og hálfa árið má sennilega slá því föstu að eigið fé þessara tveggja fjölskyldna sé vel yfir 200 milljarðar króna.
Báðar fjölskyldurnar eiga líka hlut í Íslenskum verðbréfum, sem var á meðal umsjónarmanna lokaðs útboðs á sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka í mars síðastliðnum. Félög tengd báðum fjölskyldunum voru á meðal þeirra sem boðið var að taka þátt í þeim viðskiptum með ríkiseign.
Ein blokk með fjórðung kvótans
Með kaupunum á Vísi herðast tök Samherja og aðila þeim tengdum á íslensku samfélagi verulega. Lög segja að tengdir aðilar megi ekki halda á meira en tólf prósent af úthlutuðum kvóta á hverjum tíma. Þessir mögulega tengdu aðilar, sem hverfast í kringum Samherja, halda hins vegar á um fjórðungi hans. Hvorki eftirlitsaðilar né stjórnmálamenn hafa gert nokkuð til að bregðast við þessari stöðu.
Stórútgerðin hefur enda barist hatrammlega fyrir sínu. Á síðustu árum hefur hún gefið út hræðsluáróður, siglt flotanum í land til að mótmæla veiðigjöldum, keypti auglýsingar í dagblöðum þar sem sjómönnum og fjölskyldum þeirra var beitt fyrir þær, sett peninga í vinveitta stjórnmálaflokka og fjárfest í Morgunblaðinu, sem þá var enn víðlesið og hafði slagkraft, til að „fá öðruvísi tök á umræðunni.“
Þá hafa aðilar innan hennar haldið úti hópi fólks sem hafði það hlutverk að ráðast að blaðamönnum, listamönnum, stjórnmálamönnum, félagasamtökum og ýmsum öðrum sem taldir voru ógn við fáveldið. Blaðamennirnir sem opinberuðu þetta eru nú til rannsóknar hjá lögregluembættinu í heimabæ Samherja. Sú rannsókn, sem er fjarstæðukennt rugl en látin dragast á langinn, er notuð í opinberri umræðu til að tortryggja blaðamenn sem fjalla með gagnrýnum hætti um Samherja. Formaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði fyrr á þessu ári langa færslu á samfélagsmiðla til varnar þessu aðgerðum lögreglu og gegn umræddum blaðamönnum. Sú færsla var fordæmalaus á hans pólitíska ferli.
Með ofangreindu, og fleiri aðgerðum, hefur tekist að stöðva nær allar breytingar á kerfinu, og samfélaginu, sem útgerðarrisarnir telja að dragi úr tækifærum sínum til að verða ríkari og valdameiri.
Deilurnar skapa vítahríng sem eyðir verðmætum
Skynsamt fólk sér þó að þessi stríðsrekstur fáveldis útgerðarmanna og pólitískra útsendara þeirra við þjóðina í landinu getur ekki gengið til lengdar.
Í maí 2022 fór fram ársfundur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Þar voru flutt nokkur erindi. Á meðal þeirra sem boðið var að tala var Klemens Hjartar, meðeigandi í alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Co.
Í lok erindis síns fjallaði Klemens óvænt um að deilur um langtímastefnu í sjávarútvegi geti skapað vítahring þar sem verðmætum verði eytt til lengri tíma. Hann sagði samfélagslega þáttinn í stöðugleika greinarinnar vera mikilvægan. „Það hefur verið ákveðin neikvæðni í kringum sjávarútveginn. Það hefur verið ósætti í þjóðfélaginu, sérstaklega um eignarhaldið.“
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS og einn áhrifamesti lobbýisti landsins, brást við erindinu við lok fundarins. Hún sagði í ræðu sinni að þegar sjávarútvegurinn segist ætla að auka verðmæti þá skipti máli að sjá að verðmæti felist ekki einungis í fjármunum. „Verðmæti felast líka í samfélaginu og sátt við samfélagið. [...] Við eigum að segja að við erum ekki fullkomin og við ætlum að gera betur.“
Ekkert bendir þó til þess að geirinn ætli að gera betur né að hann hafi nokkurn áhuga á sátt við samfélagið. Þvert á móti. Þetta voru bara stærilæti. Viðbragð sem ætlað var að sefa tímabundið vesen.
Ekki fleiri nefndir
Það er enda ekki geirans að breyta sjálfum sér. Útgerðaraðallinn mun halda áfram að endurskilgreina lög og reglur eftir eigin hentugleika á meðan að hann kemst upp með það. Græða peninginn og safna völdunum. Það er stjórnmálamanna, sem kosnir eru til að gæta hagsmuna almennings, að breyta kerfinu í átt að vilja landsmanna.
Það er staðreynd að mikill meirihluti er fyrir því á meðal þjóðarinnar að hækka öll gjöld á sjávarútveg og fiskeldi. Það er staðreynd að mikill meirihluti er fyrir því á meðal stjórnmálaflokka. Samt gerist ekkert, aðallega vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki hrófla við fáveldiskerfinu og hækjuflokkarnir hafa ekki burði til að standa upp í hárinu á honum.
Það sem þarf að gera er nokkuð augljóst: Það þarf að ákveða að leggja háan útgönguskatt á hagnað þeirra sem selja sig úr kvótakerfinu. Þar má til að mynda horfa til þeirra skatta sem Norðmenn leggja á olíuframleiðslu, en hann er 78 prósent. Það þarf að leggja afturvirkan skatt á ofurhagnað sem myndast hefur í sjávarútvegi á síðustu árum.
Það þarf að endurkalla skipun Svandísarnefndarinnar og taka pólitíska ákvörðun um breytingu á lögum um tengda aðila í sjávarútvegi. Það getur ekki beðið til ársins 2024 heldur þarf að gerast strax. Samhliða þarf að taka pólitíska ákvörðun um hvert kvótaþakið á að vera og hvort það sé pólitískur vilji fyrir frekari samþjöppun innan geirans.
En mikilvægast af öllu er að taka ákvörðun um það strax, á allra næstu vikum, að breyta kerfinu þannig að stærri hluta af þeim ágóða sem verður til vegna veiða og vinnslu til framtíðar lendi hjá eigendum auðlindarinnar, íslensku þjóðinni, í stað þess að lenda hjá nokkrum fjölskyldum.
Áður en það verður of seint.