Árið 2022 byrjaði með látum. Síðustu dagar marka ákveðin tímamót í umræðu um mál er varða kynferðisofbeldi og ekki síður aðgerðir. Að þessu sinni var það ekki bara einn valdakarl sem steig til hliðar eða fór í leyfi frá störfum eftir að hafa verið ásakaður um kynferðisbrot – heldur fimm. Það hlýtur að vera Íslandsmet.
Ung kona, Vítalía Lazareva, steig opinberlega fram í viðtali við Eddu Falak í hlaðvarpinu Eigin konum og lýsti ofbeldi sem hún segir sig hafa orðið fyrir af hendi fimm valdamikilla manna, þeirra Ara Edwald, Arnars Grant, Hreggviðs Jónssonar, Loga Bergmanns Eiðssonar og Þórðar Más Jóhannessonar – þó án þess að nafngreina þá.
Viðtalið vakti strax mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum og ekki leið á löngu þangað til fjölmiðlar fóru að nafngreina mennina. Málið sprakk síðan með látum á fimmtudaginn þegar þeir stigu allir til hliðar í stjórnum fyrirtækja sem þeir sitja í eða fóru í leyfi frá störfum.
En málið átti sér lengri aðdraganda því Vítalía hafði greint frá atviki fyrr í vetur, sem átti sér stað í sumarbústað árið 2020, nánar tiltekið í október síðasta haust á Instagram-síðu sinni. Þar nafngreindi hún fjóra af þessum mönnum, þá Ara, Arnar, Hreggvið og Þórð Má.
Engin svör bárust
Kjarninn hóf rannsókn á málinu fljótlega eftir að hún birti frásögn sína á Instagram en strax frá upphafi var ljóst að þetta væri grafalvarlegt mál. Eldri valdamiklir karlmenn voru þarna ásakaðir um kynferðisbrot á samfélagsmiðli. Síðar kom í ljós í samtali Eddu Falak og Vítalíu að hún hefði haft samband við þá og reynt að fara yfir málin með þeim og ræða við þá. Þeir hefðu engin viðbrögð sýnt. Svo hún hefði séð sig tilneydda til að opinbera reynslu sína af þessum mönnum með því að pósta á samfélagsmiðla. Þegar það hefði ekki skilað þeim árangri sem hún vonaðist eftir hefði hún ákveðið að stíga fram og fara í viðtal. Sem og hún gerði og sprengdi þannig upp íslenskt samfélag.
Kjarninn sendi fyrirspurnir á forsvarsmenn fyrirtækjanna sem þessir menn tengjast og spurði hvort stjórnir þeirra hefðu vitneskju um ásakanirnar og hvort þær hygðust bregðast við þeim.
Engin svör bárust í margar vikur. Ekki heldur eftir ítrekanir blaðamanns. Þegar ekkert heyrðist frá þessum aðilum leitaði Kjarninn til aðaleigenda Festi, þar sem Þórður Már var stjórnarformaður, en íslenskir lífeyrissjóðir eiga stærstan hluta í fyrirtækinu. Spurt var meðal annars hvort stjórnir lífeyrissjóðanna hefðu vitneskju um ásakanir á hendur Þórði Má um meint kynferðisofbeldi. Einnig spurði Kjarninn hvort stjórnin hefði brugðist með einhverjum hætti við þessum ásökunum. Ef ekki, ætlaði stjórnin að bregðast við með einhverjum hætti?
Allar stjórnir lífeyrissjóðanna svöruðu um miðjan desember og þegar nær dró jólum en svörin voru töluvert ólík á milli aðila – allt frá því að stjórnirnar treystu Festi til að skoða málið, þær myndu fylgjast með framvindu mála eða að ekkert yrði aðhafst.
Þess ber að geta að samkvæmt heimildum Kjarnans ráðlagði almannatengill mönnunum þremur að segja að um kjaftasögu væri að ræða og að best væri að þegja málið af sér. Þeir fóru eftir þeirri ráðleggingu því Kjarninn sendi fyrirspurnir á þá alla þar sem þeir voru spurðir út í málið og svöruðu þeir engu. Eftir og um það leyti sem svör lífeyrissjóðanna bárust til Kjarnans svaraði Guðjón Reynisson varaformaður stjórnar Festi fyrirspurn Kjarnans og sagði að málið hefði verið til skoðunar.
Hrund Rudolfsdóttir forstjóri Veritas, þar sem Hreggviður er stjórnarformaður og aðaleigandi, svaraði aldrei fyrirspurn um málið þrátt fyrir ítrekanir. Ljóst var að enginn ætlaði að stíga til hliðar eða taka efnislega afstöðu til málsins. Þangað til allt sprakk í vikunni og þessir menn neyddust allir til að stíga til hliðar.
Að taka mál af alvöru eða taka ekki mál af alvöru
Málið minnir óneitanlega á KSÍ-málið þar sem fólk innan hreyfingarinnar vissi af ásökunum á hendur landsliðsmönnum í fótbolta en aðhafðist ekkert. Vandinn að þeirra mati lá meðal annars í því að engin „formleg tilkynning“ frá þeim aðila sem sagði á sér brotið hefði borist sambandinu.
Það sama mátti greina í máli Elínar M. Stefánsdóttur, stjórnarformanns Íseyjar útflutnings sem sagði í fréttum RÚV í fyrradag að ekki hefði verið hægt að bregðast við í málinu þrátt fyrir vitneskju um það síðan í haust vegna þess að um orðróm væri að ræða. Ari Edwald var framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
„Við höfðum spurnir af þessu í haust en það var svona orðrómur en við tókum það samt mjög alvarlega strax,“ sagði Elín á RÚV. Hún sagði jafnframt að þau hefðu rætt þetta við Ara sjálfan. Þegar hún var spurð af hverju hann hefði ekki verið sendur í leyfi strax sagði hún að þetta hefði „náttúrulega verið orðrómur. Og það komu ekki fram þar einhverjar beinar ásakanir. Stúlkan sem um ræðir hún segir: „Það var brotið á mér“ en hún tekur ekki fram hverjir það voru eða hvernig það var. Þannig að það var mjög erfitt að taka það af meiri alvöru þá.“
Hún sagði að það sem breyttist hefði verið það að konan fór í viðtal þar sem hún greindi frá því að þessi menn hefðu allir farið yfir sín mörk. „Og í kjölfar þess óskar Ari eftir að fara í leyfi. En hvort að það hefði átt að skikka hann í leyfi er svona ... við hefðum kannski gert það ef hann hefði ekki óskað eftir því sjálfur.“
Ekki er rétt það sem kemur fram í máli Elínar að Vítalía hafi ekki nafngreint mennina í póstum sínum því það gerði hún í október á Instagram-síðu sinni og voru til skjáskot af færslu hennar sem gengu manna á milli á þessum tíma.
Kjarninn sendi fyrirspurn til Elínar í nóvember og spurði hvort stjórnin vissi af þessum ásökunum og hvort hún ætlaði að bregðast við. Í svari til Kjarnans þann 17. desember eftir þrjár ítrekanir á þremur vikum sagði Elín að stjórnin hefði vitneskju um málið en að þau hefðu ekki vitneskju um að Ari hefði verið kærður. Því væri ekki tilefni til viðbragða af hálfu stjórnar að svo stöddu.
Vitneskjan var sem sagt til staðar en ekki þótti ástæða til að bregðast við með neinum hætti.
Eiga lífeyrissjóðirnir að skipta sér af?
Mál Þórðar Más fyrrum stjórnarformanns Festi vekur sérstaka athygli þar sem lífeyrissjóðirnir eru aðaleigendur fyrirtækisins. Eiga lífeyrissjóðirnir að stíga meira inn í mál þeirra fyrirtækja sem þeir eiga hlut í eða halda áfram að vera þöglir eigendur? Kjarninn leitaði álits Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR sem sagði að lífeyrissjóðir virtust ekki hafa mikinn hvata til að leita réttar síns ef grunur leikur á brotlegri eða siðlausri háttsemi stjórnenda fyrirtækja sem þeir fjárfesta í, þrátt fyrir fagurgala um siðferðisviðmið og alþjóðleg samfélagsleg viðmið.
Vísaði hann í viðmið umhverfislegra og félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS) en það eru viðmið sem fjárfestar nota til að meta fjárfestingar út frá aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Félagsleg viðmið snúa að því hvernig fyrirtæki kemur fram við starfsfólk sitt, birgja, viðskiptavini og samfélagið sem það starfar í. Ragnar Þór sagði að slík viðmið væru auðvitað orðin tóm ef ekki væri farið eftir þeim þegar á reynir.
Telur Ragnar Þór að umræða um hversu virkir og óvirkir eigendur lífeyrissjóðir eigi að vera í fyrirtækjum sé að aukast og margt jákvætt verið að gerast, sérstaklega hjá þeirra sjóði LIVE. „En það er enn langt í land að eitthvað raunverulega breytist.“
Miðað við svör sumra lífeyrissjóðanna við fyrirspurnum Kjarnans má greina eilitla breytingu í þá átt að þeir láti sig mál sem þessi varða. Þó ekki nægilega mikla til að kalla til hluthafafundar eða krefjast þess að Þórður Már stigi til hliðar.
Þolendur ættu að fá skjól og rými til að jafna sig
Þegar stór mál komast í fjölmiðla vill atburðarásin oft verða hröð. Þetta mál er skólabókardæmi um það að menn neita að bera ábyrgð sjálfir fyrr en þeim er stillt upp við vegg eftir fjölmiðlaumfjöllun. Það er nokkuð ljóst að þeir hefðu allir setið áfram í sínum störfum ef ekki hefði verið fyrir viðtalið – þar sem þolandinn þurfti að stíga sjálfur fram.
Þolendur ættu aftur á móti ekki að þurfa að stíga fram til að eitthvað breytist – við sem samfélag ættum að geta gefið þeim það svigrúm og skjól sem þeir eiga skilið. Að gefa þeim ráðrúm til að vinna úr sínum málum án þess að þurfa að takast á við álagið sem fylgir opinberri umfjöllun.
Þá reynir á fólk – og okkur hin – að standa í lappirnar. Að láta ekki meðvirkni eða hræðslu við afleiðingar stöðva sig í að ganga í málin. Í þessu tilviki sem hér um ræðir skorti þetta frumkvæði hjá stjórnum fyrirtækjanna Festi, Íseyjar útflutnings og Veritas því ekkert bólaði á neinum viðbrögðum fyrr en málið komst í hámæli í fjölmiðlum. Það sýna svör – eða svarleysi – fyrirtækjanna við fyrirspurnum Kjarnans til að mynda.
Valdamisvægi af ýmsum toga
Drífa Snædal ritaði pistil í gær um málið og sagði meðal annars að síðustu daga og vikur hefði hún fylgst af aðdáun með ungum konum stíga fram og ræða af ótrúlegu hugrekki og hispursleysi um skipulagt ofbeldi karla gegn konum.
„Í stað þess að hengja sig í skilgreiningar greina þær frá málavöxtu, því sem gerðist og hvernig það átti sér stað. Þær taka sér svigrúm og rými sem konur af minni kynslóð hefðu aldrei gert nema vera með fullkomlega útpælda frásögn, helst með sönnunargögnum og eftir að hafa „unnið úr“ málunum í ár og jafnvel áratugi. Þessar konur hika ekki við að horfa í augun á valdamiklum mönnum og segja þeim til syndanna, krefja þá um að axla ábyrgð og gera það án þess að gera þær kröfur á sjálfar sig að vera hin „fullkomnu fórnarlömb“,“ skrifar Drífa.
Hún benti á að valdamisvægi í samfélaginu væri af ýmsum toga. „Það getur verið aldursbundið, kynbundið og tekjubundið. Það getur endurspeglast í ólíkum tengslum, að eiga rödd og hafa formleg völd gagnvart öðrum sem hafa það ekki.“
Þetta valdasamhengi er gríðarlega mikilvægt og eins og í svo mörgum málum þá er valdaójafnvægið mikið milli einstaklinganna sem um ræðir. Enginn vafi leikur á því að vegna valdatengsla gátu þessir menn setið áfram og starfað óáreittir á meðan konan unga reyndi að komast í samband við þá og að endingu greina frá því sem gerðist á samfélagsmiðlum og síðan í opinberu viðtali. Og hún var ekki hið „fullkomna fórnarlamb“ og viðurkenndi sín eigin mistök hvað ástarsambandið við giftan mann varðar. Þau mistök koma þessu máli einmitt ekki við.
Þetta á einnig við um hina mennina sem Vítalía nefnir í viðtalinu, þá Arnar og Loga Bergmann. Miðað við lýsingu hennar á atburðum sem áttu sér stað á golfmóti í september síðastliðnum voru þeir ótvírætt í ákveðinni valdastöðu gagnvart henni þar sem henni var stillt upp við vegg og látin framkvæma kynferðislegar athafnir sem hún kærði sig ekki um.
Ekki nóg að taka mál er varða kynferðisofbeldi og áreiti alvarlega
Það sem skiptir máli er að Vítalía reyndi að ræða við meinta gerendur og þegar það gekk ekki þá sagði hún frá sinni reynslu og því sem gekk á í bústaðnum. Þá var það hlutverk annarra að taka við keflinu.
Það þarf mikinn styrk og hugrekki til að stíga með þessum hætti fram og mæta einum valdamestu mönnum í samfélaginu og hún gerði það. Hún krafðist þess að þeir öxluðu ábyrgð og við hin verðum að hlusta og bregðast við af sama hugrekki. Það jákvæða við alla þessa atburðarás eru viðbrögðin þegar málið komst í hámæli – krafan um ábyrgð var ljós. Það hefði aftur á móti verið enn betra að sjá þau viðbrögð mikið fyrr og meinta gerendur sýna auðmýkt og sama hugrekki og sjá mátti hjá Vítalíu.
Að lokum er vert að minna á að margar konur í samfélaginu okkar burðast enn með erfiða reynslu af kynferðislegu ofbeldi og áreitni og hafa ekki farveg til að segja frá. Samfélagið – hvort sem um er að ræða stofnanir, fyrirtæki eða jafnvel umræðu á samfélagsmiðlum – verður að gefa þeim sem hafa slíka reynslu tækifæri til að tjá sig í öruggu skjóli og taka þeim frásögnum alvarlega.
Og það er auðvitað ekki nóg að taka mál sem þessi alvarlega, það verður að bregðast við, veita þessum einstaklingum aðstoð og velvild og ekki síst þrýsta á gerendur að axla ábyrgð. Sú ábyrgð skiptir öllu máli svo þolendur geti unnið úr sínum áföllum og haldið áfram með lífið án þess að burðast einir með afleiðingarnar og skömmina sem því miður vill oft fylgja svona málum. Og auðvitað gera allt sem við getum til að uppræta þá menningu þar sem hegðun sem hér hefur verið lýst á sér stað. Því í skjóli valdsins og þagnarinnar þrífst óréttlæti og misnotkun.