Sjónvarpsþáttaröðin Verbúðin, sem sýnd er á sunnudagskvöldum á RÚV, hefur vakið verðskuldaða athygli. Þar fléttar Vesturport-hópurinn saman tíðaranda sem samanstóð af frábærri tónlist, hallærislegri tísku, groddalegum drykkjuháttum, sígarettureykingum, harðneskju níunda áratugarins og óhefluðu kynlífi við sögu helstu atvinnugreinar þjóðarinnar, sjávarútveginn.
Þótt vísanir þáttanna í raunverulega atburði eins og Steingrím Hermannsson á sundskýlu að stæra sig við erlenda fréttamenn um ágæti Íslendinga, eða athugasemdir um að bílar á Vestfjörðum hefðu ekki verið með bílnúmer sem byrjuðu á X, séu fyrirferðamikil í almennri umræðu um þættina er alvarlegri undirtónn til staðar.
Það liggur fyrir að höfundar þeirra hafa einsett sér að þýða áhrif fiskveiðistjórnunarkerfisins á íslenskt samfélag fyrir áhorfendur í gegnum skáldverk.
Og þeim er að takast það afburðavel.
Markmið sem gleymdust
Í þætti síðasta sunnudags minntist spillti stjórnmálamaðurinn Jón Hjaltalín, sem á í svo nánu sambandi við forstjóra útgerðarinnar að þau sofa reglulega saman, á „svörtu skýrsluna“ svokölluðu.
Það er vísun í skýrslu sem Hafrannsóknarstofnun gaf út árið 1975 og fjallaði um slaka stöðu fiskistofna við Íslandsstrendur. Í kjölfarið átti sér stað umræða um aðgerðir til að tryggja að sambærilegt ástand og það þegar síldin hvarf myndi ekki endurtaka sig. Niðurstaðan var kerfisbreyting í sjávarútvegi og kvótakerfið svokallaða var bundið í lög árið 1983.
Tilgangur þess var upphaflega margþættur. Í fyrsta lagi átti að draga úr veiði til að byggja upp stofna. Því var haldið fram að jafnstöðuafli þorsks, mikilvægasta fisksins, gæti orðið um 500 þúsund tonn á ári með þessu. Raunveruleikinn er að þetta markmið hefur aldrei náðst. Þvert á móti var úthlutaður kvóti á yfirstandandi fiskveiðiári tæplega 209 þúsund tonn.
Í þriðja lagi átti að ná fram auknu hagræði innan greinarinnar. Fækka skipunum sem veiddu og búa til stærri og stöndugri fyrirtæki sem gætu gert meira. Þetta markmið náðist, en með öðrum hætti en margir sáu fyrir sér. Gríðarleg samþjöppun hefur átt sér stað.
Raunar er staðan þannig í dag að fjórar stærstu blokkirnar í sjávarútvegi halda á yfir 60 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum. Sú stærsta, sem hverfist um Samherja, heldur á 22 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Lög landsins segja að einn aðili megi ekki halda á meira en tólf prósent af kvóta hverju sinni. Þegar eitt útgerðarfyrirtæki fór yfir þau mörk í haust var það leyst með að selja aflaheimildir til annars sem er í eigu forstjóra þess fyrstnefnda.
„Þú átt að sjá til þess“
Framsal kvótans var lögfest í byrjun tíunda áratugarins. Þá máttu þeir sem fengu hann lánaðan frá eigandanum, íslensku þjóðinni, selja þessa lánuðu vöru og stinga afrakstrinum í vasann. Það gerðu mjög margir. Mjög, mjög margir.
Stærsta breytingin á sjávarútvegskerfinu varð hins vegar árið 1997 þegar heimild var gefin til þess að veðsetja kvóta fyrir láni frá banka. Það mátti taka eign þjóðar sem hafði verið lánuð, leggja hana að veði og fá lánaða peninga. Þeir peningar voru fyrst að uppistöðu notaðir af þeim sem áttu í góðu sambandi við banka til að kaupa aðra út úr geiranum. Til varð „pappírsfiskur“ sem búin var til úr engu. Til varð auður sem aldrei áður hafði sést í íslensku samfélagi.
Þessari breytingu, og hvatanum á bakvið hana, er gerð góð skil í síðasta þætti Verbúðarinnar þar sem spillti stjórnarmálamaðurinn ræðir við spillta bankastjórann yfir kaffi og sígarettu eftir badmintonleik. Sá fyrrnefndi segir: „Við getum ekki eignað okkur fiskinn í sjónum, frekar en fuglana háloftunum.“ Sá síðarnefndi hlær og svarar: „Bankar lána út á eignir með veðlánum. Fiskur getur orðið þessi eign. Þú átt að sjá til þess.“
Spillti stjórnmálamaðurinn bendir spillta bankastjóranum á að hann ætti sjálfur að fara á þing til að koma þessum hugðarefnum sínum á framfæri.
Hann hlær hátt og segir: „Á þessum þingmannalaunum? Nei.“
Þessi aðgerð er grunnurinn að því fáveldi sem ríkir á Íslandi í dag. Þar sem fámennur hópur fólks hefur hagnast ævintýralega á nýtingu þjóðareignar með aðstoð bankamanna á sama tíma og þeir hafa haft valda stjórnmálamenn í vasanum.
Grunnurinn að vítisvélinni sem hrundi 2008
Á tíunda áratugnum hjálpuðu stóru útgerðarmennirnir og bankamennirnir nefnilega hvorum öðrum við að uppfylla drauma sína. Fjármálafyrirtækin lánuðu útgerðunum til að kaupa upp erlend sjávarútvegsfyrirtæki og eignast kvóta í öðrum löndum. Þegar leið á áratuginn var svo farið í að lengja virðiskeðju þeirra erlendis með enn frekari fjárfestingum. Útgerðarmennirnir voru fyrir vikið eiginlega fyrstu útrásarvíkingarnir.
Í kafla sem Níels Einarsson, doktor í mannfræði, skrifaði í bókina Gambling debt: Iceland´s rise and fall in the global economy sem kom út árið 2015, segir að hinn nýi auður sem skapaðist með veðsetningu kvótans hafi komið sér vel fyrir bankana, þar sem auknar eigur og bætt eiginfjárhagsstaða þeirra dró að erlenda fjárfesta. Á þessum tíma hafi fáar eignir verið til á Íslandi utan sjávarútvegs sem hægt var að veðsetja með þessum hætti. Í grein eftir Karl Fannar Sævarsson mannfræðing, sem birtist í Kjarnanum sumarið 2018, kom fram að draga mætti þá „ályktun að framboð á lánsfé frá bönkunum hafi haft meiri áhrif á verð á aflahlutdeildum heldur en raunverulegt verðmæti þeirra.“
Ákveðið að ganga ekki að veðum
Hrunið hefði getað reynst stórútgerðinni afdrifaríkt. Í lok árs 2008 var talið að skuldir sjávarútvegsins gagnvart bönkunum væru um 560 milljarðar króna, að stóru leyti í erlendri mynt. Eiginfjárstaðan var neikvæð um 80 milljarða króna, sem þýddi að eignir dugðu ekki fyrir skuldum.
Þessar skuldir voru fluttar inn í nýju bankanna sem stofnaðir voru á grunni þeirra föllnu, og voru í eigu íslenska ríkisins. Hægt hefði verið að ganga að veðunum sem sett voru fyrir þessum lánum þegar ekki var hægt að greiða af þeim.
Meirihluti pólitískt skipaðrar sáttanefndar komst að þeirri niðurstöðu í september 2010 að það ætti ekki að gera. Hægt er að fara yfir þá sem sátu í nefndinni hér.
Þess í stað lagði nefndin meðal annars til að ráðist yrði í „frekari úttekt á tengslum fyrirtækja í sjávarútvegi og setja skýrar reglur um innbyrðis tengsl fyrirtækja.“ Meirihluti nefndarinnar lagði auk þess til að gerðir yrðu „samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr.“
Nú rúmum ellefu árum síðar hefur ekkert þokast í þessum efnum.
Gríðarlega arðbær fjárfesting
Stórútgerðin barðist hatramlega fyrir sínu á árunum eftir bankahrun. Hún gaf út hræðsluáróður, sigldi flotanum í land til að mótmæla veiðigjöldum, keypti auglýsingar í dagblöðum þar sem sjómönnum og fjölskyldum þeirra var beitt fyrir þær og fjárfesti svo í Morgunblaðinu, sem þá var enn víðlesið og hafði slagkraft, til að „fá öðruvísi tök á umræðunni.“ Með þessu tókst að stöðva nær allar breytingar á kerfinu, og samfélaginu, sem útgerðarrisarnir töldu draga úr tækifærum sínum til að verða ríkari og valdameiri.
Líklega mun þessi fjárfesting reynast ein sú arðbærasta í Íslandssögunni. Hagnaður geirans fyrir skatta og gjöld frá byrjun árs 2009 og út 2020 var alls um 665 milljarðar króna á umræddu tímabili, samkvæmt sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda. En rúmlega 70 prósent sat eftir hjá eigendum fyrirtækjanna. Hagur sjávarútvegsfyrirtækja landsins, samtala arðgreiðslna og aukins eigin fjár þeirra, hefur vænkast um meira en 500 milljarða króna frá bankahruni og til loka árs 2020.
Á árinu 2020 greiddu sjávarútvegsfyrirtæki sér 21,5 milljarð króna í arð en greiddu 17,4 milljarða króna í bein opinber gjöld.
Þá á eftir að draga frá þann kostnað sem hið opinbera á Íslandi leggur út vegna þjónustu við sjávarútveginn, t.d. vegna hafna, hafrannsókna, eftirlits, landhelgisgæslu og tilfallandi kostnaðar vegna fiskveiðistjórnunar. Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna eftirlits og rannsókna vegna fiskveiða og -vinnslu er áætlað um sjö milljarðar króna í ár. Veiðigjöldin ein og sér hrökkva vart fyrir þeim kostnaði.
Þessa peninga hafa útgerðarrisar notað til að fjárfesta í flest öllum öðrum geirum samfélagsins. Og tryggt sér stóraukin ítök innan þess.
Engin tilviljun
Ný könnun sem Prósent gerði sýnir að 57 prósent Íslendinga hafi horft á fyrsta þáttinn af Verðbúðinni og að 88 prósent þeirra sem það gerðu hefðu verið ánægðir með þættina. Ánægjan var sérstaklega mikil í yngstu aldurshópunum, sem voru ekki fæddir þegar stóru vörðurnar í kerfinu voru lagðar.
Það er því ekki tilviljun að hagsmunasamtök útgerðarfyrirtækja hafa ráðist í umfangsmikla auglýsingaherferð, sem nú er meðal annars sýnileg á strætóskýlum höfuðborgarinnar, samhliða því að Verbúðin fór í sýningu á RÚV. Á þeim skiltum er meðal annars mynd af móðins konu að hanna lúxusvöru og skrifað yfir: „Það veltur margt á íslenskum sjávarútvegi“. Skilaboðin eru skýr, áframhaldandi tilvera ofurríkrar yfirstéttar útgerðarfjölskyldna er undirstaðan sem fínni blæbrigði íslensks atvinnulífs hvíla á.
Ofan á þetta bætist að rannsókn á meintri skattasniðgöngu, peningaþvætti og mútugreiðslum Samherja, stærstu sjávarútvegssamstæðu landsins, er langt komin. Verði niðurstaðan sú að þeir stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins sem eru með stöðu sakbornings verði ákærðir mun það vigta þungt inn í umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið.
Í kjölfarið má búast við hefðbundinni hræðsluáróðursgaslýsingu vel borgaðra og hæfileikaríkra lobbíista greinarinnar þar sem gagnrýnendur kyrrstöðunnar verða níddir, logið upp á þá afstöðu eða hagsmunum og allt reynt til að hengja sig í aukaatriði til að ræða ekki aðalatriðið, sem er alltaf hvernig eigi að skipta afrakstri af nýtingu auðlindar milli eiganda hennar og þess sem fær að nýta hana.
Stjórnmálamenn sem segja ekki satt
Nær allir stjórnmálaflokkar landsins sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa það á stefnuskrá sinni að breyta fiskveiðikerfinu og láta það fyrst og síðast þjóna almannahagsmunum. Flokkar sem vilja innkalla kvóta, gera veiðiréttindi tímabundin, binda þjóðareign á þeim í stjórnarskrá, breyta skilgreiningu á tengdum aðilum eða stuðla að fjölbreytni í útgerð fengu meirihluta atkvæða í síðustu þingkosningum. Það rímar við kannanir sem sýna að mikill meirihluti þjóðarinnar er óánægð með fiskveiðistjórnunarkerfið og telur það beinlínis vera ógn við lýðræðið.
Raunveruleikinn er hins vegar sá að fiskimiðin hafa verið einkavædd. Og þau hafa verið einkavædd án þess að nein almennilegt greiðsla hafi einu sinni komið fyrir. Frá sjónarhóli ríkissjóðs er um verst heppnuðu einkavæðingu sögunnar að ræða.
Stjórnmálamenn skipa endalausar nefndir, leggja fram frumvörp sem ná aldrei í gegn, boða stjórnarskrárbreytingar sem aldrei verða að neinu og tala á torgum þegar það hentar þeim um nauðsyn þess að ná sátt um þetta svöðusár á íslenska þjóðarlíkamanum. Ekkert breytist hins vegar kjörtímabil, eftir kjörtímabil, eftir kjörtímabil annað en að ofurstéttin í sjávarútvegi verður enn ríkari og enn valdameiri. Í nýjum stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar er boðuð ein nefndin til sem á að gera meira og minna það sama sem allar hinar hafa gert: að „hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar.“
Jón Hjaltalín, persóna Gísla Arnar Garðarssonar í Verbúðinni, er ekki byggð á einhverjum einum stjórnmálamanni. Hann er allir stjórnmálamennirnir sem hafa klifað á því að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar í aðdraganda kosninga en síðan lagst kylliflatir fyrir frekustu mönnum íslenskrar samtímasögu að þeim loknum.
Þegar hann og Harpa, persóna Nínu Daggar Filippusdóttur, renna saman í eitt ofan á skrifborðinu í fiskvinnslunni þá er sá samruni táknrænn fyrir helstu meinsemd íslensks samfélags: samruna sameiginlegra hagsmuna útgerðar og stjórnmála til að verja peninga og völd.
Jón og Harpa eru nefnilega víða í þessu samfélagi okkar.