Við þurfum kynslóð risa
Jón Kalman Stefánsson rithöfundur skrifar um íslensk stjórnmál. Hann segir að við verðum dæmd í framtíðinni út frá ákvörðunum sem við tökum núna í loftslagsmálum. Á okkar dögum þýði hugsjón það sama og ábyrgð og heilbrigð skynsemi. En akkúrat þá sitji hér að völdum þrír íhaldsflokkar með þunga áherslu á stöðugleika, sem felur í sér uppgjöf gagnvart þeirri baráttu sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir.
Heimurinn stendur á krossgötum, og við lifum tíma sem fara í sögubækur framtíðarinnar. Ef þær verða skrifaðar, ef það verða einhverjir eftir til að skrifa þær; ef mannkynið verður ekki svo upptekið við að lifa af í sködduðum heim að það hefur ekki orku, afl, jafnvel ekki löngun til þess að skrifa. Og þá allra síst um okkur. En verði þær skrifaðar, þá munu þær ákvarðanir sem við erum að taka núna, þær sem við eigum eftir að taka á næstu misserum, verða skoðaðar í þaula, og við síðan dæmd út frá þeim. Því við erum einfaldlega þau einu sem geta komið í veg fyrir að hamfarir loftslagsbreytinganna verði það harkalegar að börn framtíðar þurfi að vaxa upp í sködduðum heimi. Heimi ofsa og upplausnar.
Við sem nú lifum. Á jörðinni. Því enginn er undanskilinn. Enginn getur skotið sér undan ábyrgð, hvar sem viðkomandi býr. „Við björgum ekki heiminum“, sagði ráðherra umhverfismála, Guðlaugur Þór Þórðarson, í nýlegu viðtali. Hann lét þess því miður ekki getið hverjir ættu þá að sjá um að bjarga honum, en við Íslendingar virðumst ekki í þeim hópi.
Er ekki best að fara bara ekki neitt?
Við jarðarbúar erum allir á sama báti. Þessi blái, fallegi hnöttur í óravíddum himingeimsins er okkar eina heimili. „Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán“ orti Steinn Steinarr um Ísland, og þannig ættum við að hugsa um jörðina alla, því hún er okkar staður, okkar líf, okkar lán; hún er okkar draumur, þjáning og þrá. Og við tengjumst öll, hvort sem okkur líkar betur eða verr, þess vegna getur ákvörðun tekin í Taílandi haft áhrif á líf Kaupmannarhafnarbúa, atvik á Þingeyri snert daglegt líf barna á Kyrrahafseyjum. Ef við höggvum í jörðina, þá höggvum við í okkur sjálf. Ef hún skaðast, þá skaðast okkar líf.
Orðræða hugsjónamanns?
Ég held að fá orð séu fallegri, innihaldsríkari, en hugsjón. Samt er það ósjaldan notað til hnjóðs í rökræðum, og gjarnan til að gengisfella rök andstæðings. Það er gefið í skyn, ef ekki sagt berum orðum, að hugsjón og skynsemi fari ekki saman. Að sitthvað sé hugsjón og veruleiki. Að hugsjón og draumórar séu af sama meiði, og ábyrgur stjórnmálamaður geti ekki leyft sér slíkan munað, hann þurfi að horfa til annarra þátta; hugsjón sé auk þess fyrst og síðast fyrir ungt fólk. Síðan vöxum við upp, verðum fullorðin, kannski kosin á þing – og vitum ekki fyrr en við erum orðin ráðherra í einu mikilvægasta ráðuneyti sögunnar. Ráðuneyti sem heldur utan um umhverfismál á tímum þegar mannkynið er í örvæntingarfullu kapphlaupi við að reyna að tempra þær hamfarir sem fylgja hækkandi hitastigi á jörðinni. Örvæntingarfullt kapphlaup til að … já, bjarga heiminum.
Það er eiginlega ekki hægt að orða það öðruvísi.
Samt finnst Guðlaugi Þór við hæfi að segja í sínu fyrsta verulega viðtali sem ráðherra umhverfismála, að það standi alls ekki til að bjarga heiminum.
Fyrir einhverjum árum hefðu þessi orð Guðlaugs Þórs ekki bara verið talin góð og gild, heldur talin lýsa hófsemd, yfirvegun, skynsemi. Fyrir einhverjum árum – en ekki núna. Því er nefnilega svo háttað, að það sem áður var kallað hugsjón, og yfirleitt eignað þeim ungu, er það eina sem getur bjargað okkur frá þeim hörmungum sem hamfarahlýnun og aðrar hastarlegar loftslagsbreytingar eru að kalla yfir okkur jarðarbúa. Á okkar dögum þýðir hugsjón það sama og ábyrgð og heilbrigð skynsemi.
Að bjarga heiminum, þannig hljómar krafa tímans – raunsæ, ábyrg, en alls ekki laus við örvæntingu.
Áramótahugvekja Jóns Kalmans Stefánssonar árið 2019
Ég held að Guðlaugur Þór hafi því miður, að minnsta kosti ekki enn, meðtekið hana, og í þeim skilningi sé hann maður gærdagsins. En ég held líka, eða óttast, að Guðlaugur Þór hafi ekki einvörðungu talað fyrir sjálfan sig og sinn flokk, heldur ríkisstjórnina alla. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn, fyrir Framsóknarflokkinn sem í þessum málum puðar áfram eins og gamall, ráðvilltur þúfnabani, og, já, fyrir Vinstri græn.
Æ, er ekki bara best að kjósa Framsókn. Þannig hljóðaði kjarninn í kosningarherferð Framsóknarflokksins – og virkaði með bravúr. Snjallt slagorð sem Framsóknarmenn þrástöguðust á, síðast hinn geðþekki formaður þeirra, Sigurður Ingi, í lokaorðum sínum í kosningasjónvarpi RÚV, þegar hann leit brosandi í sjónvarpsmyndavélarnar og sagði, eða andvarpaði öllu heldur: Æ, er ekki bara best að kjósa Framsókn?
Velheppnað slagorð í þeim skilningi að það virkaði. En er það ekki samt dapurlegt að flokkur bæti fylgi sitt vegna slagorðs sem þýðir ekki neitt – nema kannski uppgjöf gagnvart því að hafa skoðun? Slagorð flokks sem virðist sjálfur ekki hafa neina löngun til þess að fara eitt né neitt. Stendur með hendur í vösum, fæturna fasta á jörðinni, muldrandi, æ, er ekki í lagi að fara bara ekki neitt?
Og sú óþægilega tilfinning læðist að manni að kosningaslagorð Framsóknar hafi á vissan hátt færst yfir á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir: Er ekki bara allt í lagi að fara ekki neitt?
VG breytir nafni sínu, og ...
Á heimili mínu er ungt fólk sem var að kjósa í Alþingiskosningum í fyrsta sinn. Eins og margir af þeirra kynslóð er það brennandi heitt í umhverfismálum, og það vakti þess vegna athygli mína að hjá þeim virtist aldrei koma til greina að kjósa eina íslenska stjórnmálaflokkinn sem kennir sig við umhverfismál, Vinstri græn; og fljótlega tók ég eftir að kannanir sýndu að VG mistækist að mestu sækja atkvæði til ungu kynslóðarinnar. Þau virtust einfaldlega ekki vera skilgreind af þeim ungu sem alvöru umhverfisverndarflokkur. Samt hafði Vinstri græn á sínum tíma sótt ráðherra umhverfismála út fyrir þingið; og það inn á skrifstofu Landverndar. Voru það ekki skýr skilaboð um áherslur þeirra?
En þau ungu vissu sitt, eins og sannaðist þegar ríkisstjórn Katrínar settist aftur að völdum – þá gáfu Vinstri græn ráðuneyti umhverfismála frá sér og settu í hendur Sjálfstæðisflokksins sem fékk rétt fyrir kosningar falleinkunn á prófi hjá Sólinni, mati Ungra umhverfissinna á stefnumáli stjórnmálaflokkanna. Jafnframt samþykktu Vinstri græn að stokka upp umhverfisráðuneytið og búa til nýtt sem nær bæði yfir virkjanir og umhverfismál; þrátt fyrir að þar séu um tvær ósamrýmanlegar andstæður að ræða. Erfitt er að lesa annað út úr þessu en að umhverfismál verði ekki höfuðatriði þessarar ríkisstjórnar.
Og það á tímum sem hrópar á djarfar, hugrakkar ákvarðanir í umhverfismálum.
Og skýringin á því að eini stjórnmálaflokkur landsins sem kennir sig við umhverfismál nái illa til yngri kynslóðanna, er þá einfaldlega sú að þau eru ekki lengur hjartans mál VG. Umhverfismál, umhverfisvernd, og knýjandi réttlætismál eins og uppstokkun á kvótakerfinu, hafa þurft að víkja fyrir hinni þungu áherslu þeirra á stöðugleika. Sú áhersla er raunar orðið að möntru sem formenn þriggja ríkisstjórnaflokkanna kyrja svo samtaka að maður á stundum erfitt með að greina raddirnar í sundur.
Þrá Vinstri grænna eftir stöðugleika virðist hafa fært áherslur þeirra það nálægt íhaldssömu samstarfsflokkunum, að þau hljóta að íhuga að breyta heiti flokksins. Fyrsta augljósa skrefið yrði að fjarlægja G úr skammstöfun flokksins og skipta út fyrir Í. Þá held ég að bæði nafn og skammstöfun rími við áherslur þeirra.
VÍ - Vinstri íhaldsflokkurinn.
… Guðlaugur Þór endar sem persóna í skoskri skáldsögu
Það er mikilvægt, sagði Guðlaugur Þór í áðurnefndu viðtali, að ná umræðunni um umhverfismál upp úr skotgröfunum.
Ég veit ekki hvort hann var þar að tala bæði til svokallaðra virkjunarsinna, sem eru fjölmennir í hans eigin flokki, og umhverfissinna.
Síðustu vikur fyrir jól komust orkumálin í hámæli þegar Landsvirkjun, vegna þrenginga í vatnsbúskapnum, komst ekki hjá því að skerða afhendingu á orku til fyrirtækja. Líkt og við var að búast bárust strax raddir úr röðum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þess efnis að þetta sýndi að nú yrði að virkja meira og betur, og það strax. Ég geri ráð fyrir að slíkar raddir eigi eftir að hljóma áfram úr þeim ranni, og þar á meðal innan úr sjálfu umhverfis- og auðlindaráðuneyti Guðlaugs Þórs.
Gæti verið að hin vellesna Katrín Jakobsdóttir hafi fengið hugmyndina að samsetningu þess ráðuneytis eftir lestur á skáldsögu Skotans Robert Louis Stevensson, Dr Jekyll and mr Hyde? Sú bók fjallar nefnilega um mann sem klofnar í sundur og verður að tveimur ósamrýmanlegum persónum. Ég óttast að það verði erfitt fyrir ráðherrann Guðlaug Þór, sem á bæði að virkja og vernda, að forðast þau örlög. En ég vona að hann og flokksbræður hans, sem og skoðanabræður í Framsókn, gefi gaum að skrifum Bjarna Bjarnasonar, forstjóra OR, sem bendir á að ástæðan fyrir því að það þurfti tímabundið að skerða afhendingu á rafmagni til stórnotenda, sé ekki vegna þess að „það vanti fleiri og stærri virkjanir heldur fyrst og fremst skortur á vatni til að keyra þær.“ Og að fyrsta og mikilvægasta skrefið sé að styrkja innviðina sem bera orkuna.
Kannski þarf fyrr eða síðar að bæta við nýrri virkjun. Hvort sem okkur líkar betur eða verr. Og þannig fórna ómetanlegri náttúru. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að hin ósnertu víðerni okkar hafa aldrei verið verðmætari – og verða verðmætari með hverju árinu sem líður. Ábyrgð okkar að varðveita þau er því mikil. Þess vegna getur enginn leyft sér lengur að mæla fyrir nýrri virkjun fyrr en hann hefur þráspurt: Er hún algerlega nauðsynleg? Höfum við skoðað allar aðrar hugsanlegar leiðir, höfum við útilokað allt annað, er enginn möguleiki að fara aðra leið? Og síðan muna, aldrei gleyma, að við eigum ekki náttúruna, heldur varðveitum hana fyrir komandi kynslóðir. Það er eitthvað sem hinn klofni Guðlaugur Þór verður ekki bara að skilja, heldur tileinka sér.
Enska deildin, verkurinn í hnénu; það sem skiptir máli er að hafa það náðugt meðan heimurinn brennur
Maður þarf að vera forhertur eða í afneitun til að átta sig ekki á því að við erum að falla á tíma. Í áraraðir vöruðu vísindamenn okkur við því sem við ættum í vændum vegna yfirvofandi hnattrænnar hlýnunar, sem nú er tekin að bíta. Hækkandi hitastig, miklir þurrkar, skógareldar, skæðara veður, ógnarlegir, mannskæðir skýstrókar, flóð og hækkandi sjávarborð. Og þetta er bara rétt að byrja. Næstu ár verða verri, öfgarnar eiga eftir að magnast. Fólk á eftir að flosna upp, flóttamönnum loftslagsbreytinga á eftir að fjölga stórlega, efnahagur ríkja fer á hliðina, dýr deyja út, stríð bresta á; og heimurinn verður að mun verri stað. Nema við bregðumst hratt við, af ákefð, og öðlumst kjarkinn til að taka þær ákvarðanir sem breyta lífsmáta okkar. Kollvarpa þeim ekki, en breyta – þarna er höfuðmunur á. Yfirvofandi váin mun hins vegar ekki bara kollvarpa þeim, heldur eyðileggja.
Okkar er því völin.
Vandinn er hins vegar sá að það er auðveldara að vera hetja í stríði en í hversdeginum. Því þótt áhrifa og eyðileggingu hnattrænar hlýnunar sjái nú þegar stað, víða með harkalegum hætti og mannslátum, hafa þær ekki enn mikil áhrif á hversdag okkar hér við ysta haf. Það er sjálfsagt skýringin á því að áhugi stjórnmálamanna á Íslandi á loftslagsmálum virðist frekar bundinn við kosningar en sannfæringu. Við finnum ekki fyrir yfirvofandi ógninni í hversdegi okkar. Henni bregður kannski rétt fyrir á sjónvarpsskjánum, en síðan lýkur fréttum og alltumlykjandi hversdagurinn tekur við, þar sem hagvöxtur, ástand Landspítalans, baráttan við Covid, orrustan við aukakílóin, næsti leikur í ensku deildinni, verkurinn í hnénu, er mun nálægri en ógnin vegna hnattrænnar hlýnunar.
Hér eru engir skýstrókar sem rífa upp hús og drepa fólk, engir skógareldar, háskalegir þurrkar. Jöklarnir eru vissulega að dragast saman, en það truflar ekki daglegt líf og þeir eru fjarri byggð. Þar af leiðandi hafa of margir stjórnmálamenn okkar komist upp með það að sinna umhverfismálum með hangandi hendi, eða tala um tækifærin sem hnattræn hamfarahlýnunin býður upp á, án þess að leiða hugann að því hversu siðferðilega skakkt það sé að gleðjast yfir því að geta hugsanlega grætt á endalokum veraldar.
En hér berum við kjósendur auðvitað líka sök. Í grunninn viljum við flest bara hafa það náðugt, og miklar breytingar, áköf hugsun, hleypir því í uppnám. Þess vegna tókst Framsóknarflokknum svo dæmalaust vel upp með sitt grípandi en innantóma kosningaslagorð. Það bar með sér fyrirheit um notalegheit og litlar breytingar. Og kannski var það í eðli sínu ekki mjög langt frá alræmdum söng nýfrjálshyggjunnar, að lífið eigi að snúast um að græða á daginn, grilla á kvöldin. Enda er heimurinn ekki á okkar ábyrgð. Heldur annarra.
Við þurfum kynslóð risa
Ég veit ekki af hverju Katrín og flokksmenn hennar samþykktu að gefa umhverfismálaráðuneytið frá sér, stokka það síðan upp og setja þar undir einn hatt virkjanir og umhverfisvernd. En ég á erfitt með að losna við þann grun að ákvörðun Katrínar um að fela umhverfismálin þeim stjórnmálaflokki sem hvað síst hefur gefið þeim gaum, feli í sér vissa uppgjöf gagnvart þeirri baráttu sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Að við sem þjóð, undir forystu þriggja íhaldssamra, varkárra flokka, samþykkjum hina hægu, mjúku, hugdeigu uppgjöf sem býr í slagorði Framsóknar. Vegna þess að notalegheit og stöðugleiki eru þóftubræður, og sá sem vill fyrst og síðast hafa það náðugt, fer tæpast að leggja sig fram við að berjast af afli við þá mestu ógn sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir.
Ég veit ekki heldur hvort Guðlaugur Þór gerir sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem hann axlaði með því að setjast í stól umhverfismálaráðherra. Veit ekki hvort hann áttar sig á því að það er einungis á hans valdi að breytast úr manni gærdagsins, í mann framtíðar. Sá möguleiki er sannarlega fyrir hendi. Það er bara spurningin hversu mikinn eld, hversu mikið þor, hann hefur í brjósti sínu. Fyrstu yfirlýsingar hans benda því miður ekki til þess að þar brenni sterkur, ákafur eldur. Og við höfum ekki mikinn tíma. Það hastar. Guðlaugur og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur verða að taka þá ákvörðun hvort þau ætli að standa með heiminum og framtíðinni eða … bara sjálfum sér. Einbeita sér fyrst og síðast að því að ekkert fari úrskeiðis í okkar litla heimi meðan veröldin brennur.
„Við viljum reiða kynslóð/sem plægir himininn“ orti sýrlenska skáldið Nizar Quabbini fyrir hálfri öld. Ljóðlínur sem hafa aldrei átt jafn sárlega við og núna. Unga kynslóðin er reið. Og hún á að vera það. Hún verður að vera það. „Við viljum reiða kynslóð/við viljum kynslóð risa“, bætti sýrlenska skáldið við. Og það þurfum við núna, sárlega. Þurfum að sjá reiðina gera hina ungu kynslóð að risum sem neyðir okkur öll til að lýsa því yfir að við ætlum að bjarga heiminum.
Lestu meira um árið 2021:
-
5. janúar 2022Markaðsvirði veðsettra íslenskra hlutabréfa var 273 milljarðar króna í lok síðasta árs
-
3. janúar 2022Öll félögin á aðalmarkaði hækkuðu mikið í fyrra – Arion banki tvöfaldaðist í virði
-
3. janúar 2022Heimurinn er betri en við höldum
-
2. janúar 2022Austurland 2021: Árið eftir skriðurnar
-
2. janúar 2022Aðlögun er búin að vera og heyrir sögunni til
-
2. janúar 2022Vitskert veröld
-
1. janúar 2022Rugl, veiran, kerfið sem brást, hrunið og konan sem hefði átt að vera meira „kallinn“
-
1. janúar 2022Stafrænt langstökk til framtíðar
-
1. janúar 2022Árangur í skugga heimsfaraldurs
-
1. janúar 2022Hver hefur eftirlit með eftirlitinu?