Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar eru enn stærstu stjórnmálaöfl á Íslandi samkvæmt Kosningaspánni. Ný kosningaspá var gerð föstudaginn 2. september. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur nú meira fylgis en Píratar sem hafa átt meira fylgi að fagna undanfarna mánuði og verið vinsælasta stjórnmálaaflið á Íslandi í könnunum. Sjálfstæðisflokkur mælist með 25,6 prósent og Píratar með 24,9 prósent. Munurinn á fylgi þessara framboða er innan vikmarka.
Athygli vekur að Viðreisn mælist enn meðal fjögurra stærstu stjórnmálaafla sem bjóða fram í Alþingiskosningunum 29. október. Síðan í byrjun júlí hefur framboðið ítrekað mælst með rétt tæplega tíu prósent fylgi í kosningaspánni. Á svipuðum slóðum eru tveir rótgrónir stjórnmálaflokkar í tilvistarkreppu. Það eru Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin sem virðast eiga mjög erfitt með að höfða til meira en tíu prósent kjósenda um þessar mundir.
Vinstri hreyfingin grænt framboð mælist enn þriðja vinsælasta framboðið til Alþingis. Fylgi við flokkinn fór á flug í Panamaskjala-vikunni þegar komið var upp um eignarhald æðstu manna í ríkisstjórn landsins í félögum sem skráð eru í skattaskjólum. Vinstri græn nutu á tímabili stuðnings hátt í 18 prósent kjósenda. Í nýjustu kosningaspánni mælist fylgi við flokkinn 14,9 prósent.
Önnur framboð myndu að öllum líkindum ekki ná manni á þing, ef gengið yrði til kosninga nú. Ætla má að framboð þurfi að fá um fimm prósent atkvæða á landsvísu til þess að fá mann kjörinn á þing. Kosningaspáin mælir ekki stuðning framboða í einstaka kjördæmi svo mikilvægt er að setja þann fyrirvara að stuðningur við framboð gæti mælst mun meiri í einu kjördæmi en öðru.
Af öðrum framboðum ber helst að nefna Bjarta framtíð. Sá flokkur mun að öllum líkindum þurkast út af þingi enda hefur fylgið ekki farið upp fyrir fimm prósent síðan um miðjan apríl, í kjölfar uppljóstrana Panamaskjalanna, þegar það mældist 5,2 prósent í kosningaspánni. Nú mælist fylgið 3,7 prósent í kosningaspánni, örlítið meira en samanlagður stuðningur við öll önnur framboð sem mælast í könnunum.
Viðreisn og rótgrónu flokkarnir
Áhugavert er að rýna í fylgisþróun Viðreisnar í kosningaspánni í þessa fimm mánuði sem framboðið hefur verið mælt. Kosningaspáin skráði Viðreisn í fyrsta sinn 1. apríl, rétt áður en Panamaskjölin voru gerð opinber og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra og tók sér frí.
Viðreisn mældist þá með 2,1 prósent atkvæða. Þetta var um tveimur mánuðum áður en farið var að kynna áherslur og frambjóðendur þessa framboðs. Þá hafði það staðið til um nokkurra missera skeið að stofna nýtt frjálslynt stjórnmálaafl sem myndi bjóða fram í Alþingiskosningum 2017. Um var að ræða óánægðan hóp Sjálfstæðismanna og annarra sem ekki höfðu fengið harðan pólitískan stimpil sem vildi frjálslynt stjórnmálaafl óháð hagsmunum „flokkseigenda“, innvígðra flokksleiðtoga og þar frameftir götunum.
Fylgi Viðreisnar mældist á bilinu tvö til fjögur prósent allan apríl og maí eða þar til 4. júní þegar kosningaspáin mældi stuðninginn við Viðreisn vera 5,8 prósent. Þá hafði verið haldinn stofnfundur og Benedikt Jóhannesson kjörinn formaður.
Það vekur athygli að Viðreisn virðist ekki hafa verið að taka mikið fylgi af Sjálfstæðisflokknum á undanförnum mánuðum. Þvert á móti hefur fylgi hans aukist lítillega frá því að stofnfundur Viðreisnar var haldinn og mælist nú 25,6 prósent. Það er þó í sögulega samhengi mjög lítið fylgi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann fékk 26,7 prósent atkvæða í síðustu kosningum sem var næst versta útreið flokksins í slíkum í sögu hans. Einungis í hrunkosningunum 2009 hafði hann fengið færri atkvæði. Samt er fylgi Sjálfstæðisflokksins í hæstu hæðum miðað við kannanir um þessar mundir í samanburði við það hvernig það hefur verið á þessu kjörtímabili. Þar hefur það á stundum farið undir 20 prósent.
Viðreisn hefur nú haldið um það bil tíu prósent fylgi undanfarna tvo mánuði. Það er á pari við það sem Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin hafa mælst með á sama tímabili. Þar eru á ferðinni tveir rótgrónir stjórnmálaflokkar í íslenskri stjórnmálsögu, tveir framverðir fjórflokksins svokallaða sem hafa báðir átt aðild að ríkisstjórnum á síðustu árum.
Fylgi Framsóknarflokksins var orðið sögulega lítið strax á síðasta áratug en fylgissveifla flokksins í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fleytti flokknum í forystusæti í ríkisstjórn eftir kosningarnar 2013. Framsóknarflokkurinn hlaut 24,4 prósent greiddra atkvæða. Þegar skammt var liðið af kjörtímabilinu mældist fylgið aftur minna en 20 prósent. Það var svo orðið rétt rúmlega 10 prósent um mitt ár 2014.
Fylgissaga Samfylkingarinnar hefur öðruvísi upphaf, öðruvísi meginmál en sama endi í um tíu prósent fylgi um mánaðarmótin ágúst-september 2016. Eftir kosningarnar 2009 sem haldnar voru í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008, myndaði flokkurinn ríkisstjórn með Vinstri grænum. Eftir að hafa hlotið 29,8 prósent greiddra atkvæða í kosningunum hrundi fylgið af flokknum eftir kosningarnar og hefur haldið áfram að minnka. Í kosningunum 2013 hlaut Samfylkingin aðeins 12,9 prósent atkvæða. Þá hafði flokkurinn aldrei fengið minna en 26,8 prósent greiddra atkvæða í kosningum síðan flokkurinn var stofnaður sem kosningabandalag árið 1999.
Um nýjustu kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin var gerð 2. september og er byggð á fjórum nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboðanna sem hyggjast bjóða fram í kosningunum 29. október. Áður en könnun er bætt við í kosningaspána hlýtur hún vægi gagnvart öðrum fyrirliggjandi könnunum sem byggir meðal annars á lengd könnunartímabilsins og fjölda svarenda. Kannanirnar sem liggja til grundvallar kosningaspánni 2. september eru eftirfarandi:
- Þjóðarpúls Gallup 26. júlí til 31. ágúst (vægi: 41,4%)
- Skoðanakönnun MMR 22. ágúst til 29. ágúst (vægi: 28,2%)
- Þjóðarpúls Gallup 30. júní til 29. júlí (vægi: 20,0%)
- Skoðanakönnun MMR 15. júlí til 22. júlí (vægi: 10,4%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.