Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar njóta enn mest fylgis í Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar. Samanlagt njóta þessir flokkar stuðnings rétt rúmlega helmings kjósenda. Ekki hefur verið hægt að segja með fullkominni vissu hvort framboðið sé stærra undanfarna tvo mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn er nú með 26,3 prósent stuðning og Píratar með 25,8 prósent stuðning. Munurinn er hins vegar innan fræðilegra vikmarka sem eru +/- 2,0 prósentustig.
Ekki hefur verið mikil hreyfing á fylginu undanfarnar vikur og staðan nánast sú sama og hún var í lok júlí. Vinstri græn mælast með 14,4 prósent fylgi sem er svipað og flokkurinn hefur mælst með undanfarið. Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Viðreisn mælast með á milli átta og tíu prósent fylgi. Og Björt framtíð virðist ekki ná til kjósenda og mælist ítrekað með um fjögur prósent fylgi.
Á næstu vikum munu flokkarnir hefja sína formlegu kosningabaráttu og byrja að kynna stefnumál sín og loforð fyrir næsta kjörtímabil. Einstaka frambjóðendur eru raunar byrjaðir að kynna sig fyrir prófkjör innan flokkanna. Eftir því hefur verið tekið á Alþingi að þingmenn mæta illa og telja tíma sínum betur varið í kjördæminu. Til hvers erum við að mæta hingað, spurði einn þingmaður úr ræðustól Alþingis í vikunni.
Það er því von á að skoðanakannanir muni sýna frekari sveiflur á fylgi flokkanna enda virðist fylgið hafa verið á nokkurri hreyfingu og margir óákveðnir fyrir kosningarnar 29. október. Spennandi verður að sjá hvernig til dæmis Pírötum mun reiða af í kosningabaráttunni. Allt þetta ár hafa Píratar mælst ýmist lang vinsælasti flokkurinn eða meðal vinsælustu flokka á Alþingi. Flokkurinn hefur aldrei verið í slíkri stöðu fyrir kosningar.
Einnig verður spennandi að sjá hversu hátt Viðreisn kemst í könnunum og kosningum. Í sumar hefur Viðreisn mælst ítrekað með um níu prósent fylgi á landsvísu og verið á pari við fylgi Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar.
Staða Framsóknarflokksins á líka eftir að skýrast. Lykilatriði í þeirri framvindu er flokksval á kjördæmisþingi í Norðausturkjördæmi þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson freistar þess að vera áfram oddviti. Þrír þingmenn Framsóknarflokksins vilja oddvitasætið einnig. Það eru Höskuldur Þórhallsson, Þórunn Egilsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir. Líklegra þykir að framboð þeirra Þórunnar og Líneikur beinist gegn Höskuldi en Sigmundi Davíð enda hefur Líneik sagst styðja sitjandi oddvita áfram. Þá hefur Höskuldur ekki farið leynt með gagnrýni sína á Sigmund Davíð.
Um nýjustu kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin tekur mið af fjórum nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í Alþingiskosningunum í haust. Í spálíkaninu eru allar kannanir vegnar eftir fyrirfram ákveðnum atriðum. Þar vega þyngst atriði eins og stærð úrtaks, svarhlutfall, lengd könnunartímabils og sögulegur áreiðanleiki könnunaraðila. Í nýjustu kosningaspánni er það næst nýjasta könnunin sem hefur mest vægi. Helgast það aðallega af stærð könnunarinnar og lengd tímabilsins sem hún var framkvæmd. Kannanirnar sem kosningaspáin sem gerð var 8. september miðar við eru:
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 6. til 7. september (vægi 25,1%)
- Þjóðarpúls Gallup 26. júlí til 31. ágúst (vægi 35,1%)
- Skoðanakönnun MMR 22. ágúst til 29. ágúst (vægi 26,2%)
- Þjóðarpúls Gallup 30. júní til 29. júlí (vægi 13,6%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.