Fylgi við Samfylkinguna hefur aldrei mælst minna síðan Kosningaspáin fyrir Alþingiskosningarnar 29. október hófst í byrjun árs. Samfylkingin mælist nú með 6,8 prósent fylgi en hafði verið með um átta prósent það sem af er ári. Björt framtíð mælist einnig með 6,8 prósent fylgi.
Litlar sveiflur eru á fylgi flokkanna sem bjóða fram í Alþingiskosningunum á laugardaginn. Í kosningaspá sem gerð var miðvikudaginn 26. október, þremur dögum fyrir kosningar, virðast kjósendur vera á nokkurn veginn sömu skoðun og þeir voru síðast þegar kosningaspáin var gerð 21. október.
Sjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins og mælist með 22,7 prósent fylgi á landsvísu. Píratar eru með 20,6 prósent fylgi og hafa hækkað örlítið í síðustu kosningaspám eftir að hafa tekið nokkra dýfu um miðjan þennan mánuð.
Vinstri græn eru komin aftur með svipað fylgi og flokkurinn var með í byrjun sumars og mælist nú með 16,9 prósent fylgi. Fylgi við Vinstri græn tók stökk í byrjun apríl eftir að aflandseignir ráðherra í ríkisstjórninni voru gerðar opinberar í Panamaskjölunum. Fylgi við flokkinn hafði minnkað nær stöðugt síðan í maí og var komið niður í 12,7 prósent í lok september. Síðan hafa kjósendur fylkt sér með Vinstri grænum í miklum mæli.
Kosningaspáin byggir á reiknilíkani Baldurs Héðinssonar þar sem nýjustu kannanir á fylgi framboða til Alþingis eru teknar saman og settar í samhengi við þær upplýsingar sem þegar liggja um fylgi framboða. Aðeins kannanir sem standast grunnskilyrði faglegrar aðferðafræði eru teknar gildar. Í reiknilíkaninu eru kannanirnar sem gerðar eru opinberar settar í samhengi við hvor aðra á hlutlægan hátt. Stærri könnun mun hafa meira vægi en minni könnun vegna þess að fleiri svör búa að baki. Eldri könnun mun hafa minna vægi en sú sem er nýrri enda lýsir ný könnun stjórnmálalandslaginu eflaust betur. Einnig mun sú könnun sem gerð er yfir lengra tímabil hafa meira vægi en sú sem gerð er á styttri tíma.
Af fylgi við aðra flokka en hér hafa þegar verið nefndir þá má benda á að Viðreisn er aftur orðin minni en Framsóknarflokkurinn. Viðreisn mælist nú með 9,7 prósent fylgi en Framsóknarflokkurinn með 10,1 prósent. Bæði Björt framtíð og Samfylkingin mælast með 6,8 prósent fylgi. Flokkur fólksins nær í fyrsta sinn inn í kosningaspána og mælist með 3,5 prósent fylgi.
Til þess að fá mælingu í kosningaspánni þarf framboð að mælast með að minnsta kosti eitt prósent fylgi. Íslenska þjóðfylkingin mælist með 2 prósent og Dögun með eitt prósent fylgi. Önnur framboð, þe. þau framboð sem mælast með minna en eitt prósent fylgi, eru samanlagt með 3,4 prósent stuðning.
Um kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin tekur mið af þremur nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í alþingiskosningunum í haust. Í spálíkaninu eru allar kannanir vegnar eftir fyrir fram ákveðnum atriðum. Þar vega þyngst atriði eins og stærð úrtaks, svarhlutfall, lengd könnunartímabils og sögulegur áreiðanleiki könnunaraðila. Í kosningaspánni 16. september er það næst nýjasta könnunin sem hefur mest vægi. Helgast það aðallega af lengd könnunartímabilsins og fjölda svarenda í könnuninni, miðað við hinar tvær sem vegnar eru. Kannanirnar sem kosningaspáin tekur mið af eru:
- Skoðanakönnun MMR 19.–26. október (vægi 37,0%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 24.–25. október (vægi 31,8%)
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 13.–19. október (vægi 31,2%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.