Bensínverð á Íslandi er fjórum krónum hærra núna, um miðjan janúar, en það var í desember. Þetta sést í bensínvakt Kjarnans þar sem skoða má sundurliðað bensínverð og þá kostnaðarliði sem mynda bensínverð hér á landi. Skýra má stærstan hluta hækkunarinnar með hækkunum opinberra gjalda en hlutur ríkisins í bensínverði hefur aldrei verið meiri en hann er nú 58,22 prósent. Sá stóri hlutur verður að öllum líkindum aðeins tímabundinn ef heimsmarkaðsverð á olíu heldur áfram að hækka og krónan að veikjast.
Hækkunin nemur 4,10 krónum á hvern lítra í viðmiðunarverðinu sem stuðst er við í bensínvaktinni og kostar bensínlítrinn nú 194,40 krónur. Mest munar um hækkun opinberra gjalda sem hækkuðu um áramótin í takt við fjárlög ársins 2017, og Kjarninn fjallaði um í desember.
Þrír liðir opinberra gjalda sem falla á bensínverð hækkuðu um áramótin. Það voru almennt bensíngjald sem hækkaði úr 25,6 krónum á lítrann í 26,60 krónur eða um 4,69 prósent, sérstakt bensíngjald sem hækkaði úr 41,30 krónum á hvern lítra í 43,25 krónur á hvern lítra eða um 4,72 prósent og svo kolefnisgjaldið sem hækkaði um 25 aura og er nú 5,50 krónur á hvern lítra. Hlutfallsleg hækkun kolefnisgjaldsins er 4,76 prósent.
Hægt er að skýra stærstan hluta hækkunar lítraverðs á bensíni með þessum hækkunum. Í öllum þremur tilvikum er um fasta krónutölu að ræða en ekki hlutfall af öðrum lið bensínverðsins. Samtals nam hækkun þessara þriggja opinberu gjalda sem hér hafa verið taldir upp 3,4 krónum. Enn vantar 0,7 krónur til þess að skýra alla verðhækkunina á milli mánaða.
Fylgstu með bensínverðinu á Bensínvakt Kjarnans |
Kannaðu verðið |
Bensínverð á Íslandi skiptist í þrjá meginliði. Það er algengt innkaupaverð, opinber gjöld sem ríkið leggur á eldsneytisverð og hlutur olíufélaga. Opinberu gjöldin breytast lítið á milli mánaða; það er raunar aðeins virðisaukaskatturinn sem getur breyst nema með sérstökum lagabreytingum frá Alþingi. Virðisaukaskatturinn er hlutfallslegur skattur á eldsneytisverð en önnur opinber gjöld sem leggjast á lítraverðið eru föst krónutala sem ákvörðuð er í fjárlögum. Krónugjöldin á bensínverð eru almenn vörugjöld, sérstök vörugjöld og kolefnisgjald.
Bensíngjöldin óhreyfð í tvö ár
Bensíngjöldunum hefur reyndar ekki verið breytt í tvö ár, og verðlag á þeim tíma (desember 2014-desember 2016) hefur hækkað um 3,95 prósent. Þetta er ekki mikil hækkun að raunvirði miðað við upphaf tímabilsins, en hækkun samt, og kemur beint inn í bensínverðið sem hefur bein áhrif á vísitölu neysluverðs.
Kolefnisgjaldið var hækkað í fjárlögum ársins 2016 úr 5,10 krónum á hvern lítra í 5,25 krónur. Kolefnisgjaldið er nú 5,50 krónur á hvern lítra. Það hefur þess vegna hækkað um 7,84 prósent á meðan almennt verðlag hefur hækkað um 3,95 prósent.
Á þeim tíma sem útreikningar bensínvaktarinnar ná til hefur hlutur ríkisins í verði bensínlítrans aldrei verið stærri, eða 58,22 prósent. Upphaf tímabilsins miðast við ágúst 2007, þegar bensínlítrinn kostaði 123,40 krónur.
Eykst hlutur olíufélaganna á árinu?
Aurarnir 70 sem vantar upp á til þess að skýra 4,10 krónu hækkun á bensínlítraverði falla á tvo liði. Líklegt innkaupaverð á bensíni hefur hækkað um nokkrar krónur síðan í desember. Sú hækkun auk hækkunar krónugjaldanna svokölluðu veldur því að krónutala virðisaukaskattsins hækkar. Hlutur olíufélaganna minnkar um rúmlega fimm krónur á hvern bensínlítra og vegur það upp á móti hærra innkaupaverði.
Búast má við að bensínverð muni hækka nokkuð á næstunni í takt við hærra innkaupaverð og veikingu krónunnar. Viðbúið er að heimsmarkaðsverð á olíu hækki á næstu misserum vegna ákvörðunar OPEC-ríkjanna, samtaka olíuframleiðsluríkja, um að takmarka olíuframleiðslu sína til þess að hækka heimsmarkaðsverðið. Fatið af hráolíu kostar nú um 53,14 dollara. Á sama tíma í fyrra kostaði fatið 36,41 dollara.
Lesa má nánar um sundurliðun bensínverðsins á vef bensínvaktarinnar.