Síðastliðinn fimmtudag, 1. júní, voru fimmtíu ár síðan vínylplatan „Sgt Peppers Lonely Hearts Club Band“ kom út. Þetta var áttunda plata The Beatles, Bítlanna, sem voru, að öðrum ólöstuðum, langþekktasta popphljómsveit heims. En það gerðist fleira í tónlistinni þetta sama ár sem sumir tónlistarfræðingar segja mikilvægasta ár í sögu dægurtónlistar. Hér verða nefnd nokkur lög frá árinu 1967 og rétt að taka fram að listinn er ekki tæmandi.
Poppplata varð meira en popp, hún var list
Fjórmenningarnir frá Liverpool, George Harrison, John Lennon, Paul McCartney og Ringo Starr höfðu verið heimsþekktir í nokkur ár þegar „Sgt Peppers“, eins og platan er iðulega kölluð, kom út. Heimsfrægðin kom til þeirra árið 1963 og þótt lagið „She loves you“ væri ekki það fyrsta sem þeir sendu frá sér varð viðlagið „she loves you, yeah, yeah yeah“ einskonar slagorð bítlakynslóðarinnar. Eldra fólk kallaði þetta gjarnan „bítl“.
„Sgt Peppers“ var allt öðruvísi en allt það sem Bítlarnir höfðu áður gert. Vinsældirnar sem þeir höfðu skapað sér gerðu þeim kleift að feta nýjar brautir í tónlistinni. Upptökurnar tóku samtals 700 klukkutíma þar sem fjölmargir tónlistarmenn komu við sögu. Til samanburðar má nefna að fyrsta stóra plata Bítlanna „Please Please me“ var tekin upp á einum sólarhring.
Textarnir við lögin á „Sgt. Peppers“ fylgdu með í albúminu, sem var nýlunda, og umslagið sem Peter Blake gerði var öðruvísi en flest það sem áður hafði sést og hefur margoft verið valið merkilegasta plötualbúm sem gert hefur verið. Lögin á „Sgt Peppers“ eru misjöfn að gæðum og þótt fjórmenningarnir hefðu hugsað plötuna sem einskonar samhangandi sögu (concept) varð sú ekki raunin. Þótt flest lögin á plötunni væru ekki jafn grípandi og auðlærð og það sem Bítlarnir höfðu áður gert seldist platan í milljónatali fyrstu mánuðina eftir að hún kom út, og er ein mest selda hljómplata sögunnar.
Purple Haze og Hey Joe
Meðal þeirra sem kræktu sér í „Sgt Peppers“ plötuna daginn sem hún kom í búðir var bandarískur gítarleikari, sem þá var búsettur í London, Jimi Hendrix. Fyrsta lagið á tónleikum hans í London, fjórum dögum eftir að hann keypti plötu Bítlanna, var hans eigin útsetning á upphafslagi „Sgt Peppers“. Á fremsta bekk á þessum tónleikum sat Paul McCartney. Bítlarnir þekktu ágætlega til Jimi Hendrix en 17. mars þetta sama ár hafði hann sent frá sér lagið „Purple Haze“ og í byrjun ársins lagið „Hey Joe“. Gítarleikur Jimi Hendrix var jafn langt frá hinum tæra hljómi Hank Marwin og The Shadows og hugsast gat og tónarnir sem hann gat galdrað út úr gítarnum voru öðruvísi en áður hafði heyrst.
Pink Floyd og „See Emily Play“
Árið 1967 var ár breytinga í upptökutækni. Tveggja rása upptökurnar sem notast hafði verið við heyrðu nú sögunni til, fjögurra og seinna átta rása hljóðspor buðu upp á nýja og stóraukna möguleika.
16. júní sendi breska hljómsveitin Pink Floyd frá sér lagið „See Emily Play“. Hljómsveitin hafði starfað frá árinu 1962 en ekki náð að slá almennilega í gegn. „See Emily Play“ braut ísinn ef svo má að orði komast og hljómsveitin er ein sú þekktasta í sögunni. Allt tónlistaráhugafólk þekkir „Dark Side of the Moon“ og „The Wall“.
Monterey og blómin í hárinu
16. – 18. júní 1967 var efnt til tónlistarhátíðar í bænum Monterey í Kaliforníu. Þótt ekki hafi hátíð þessi kannski verið sú fyrsta sinnar tegundar er hún þó iðulega, á vissan hátt, talin marka upphaf slíkra viðburða. Um 200 þúsund manns sóttu þessa hátíð og þótt Bítlarnir, Rolling Stones og Beach Boys hafi ekki tekið þátt voru þar margir frægir. Grateful Dead, Jefferson Airplane, John Phillips ásamt The Mamas & The Papas, The Who og The Animals voru meðal þeirra sem tróðu upp. John Phillips hafði nýlega samið lagið „San Francisco (Be sure to wear flowers in your hair) fyrir félaga sinn Scott McKenzie, þetta lag varð eins konar einkennislag Monterey hátíðarinnar og blómabarnakynslóðarinnar svonefndu.
Á hátíðinni kom líka fram hljómsveitin Big Brother and the holding company ásamt söngkonunni Janis Joplin. Hún var ekki að byrja ferilinn en hátíðin í Monterey var upphaf frægðarferils hennar, sem stóð stutt en hún lést 1970. Söngvarinn Otis Redding kom fram á Monterey hátíðinni en hann lést síðar á árinu, hafði þá nýlokið við að semja og hljóðrita „The Dock Of The Bay“. Loks er rétt að nefna Jimi Hendrix sem lauk flutningi sínum með því að kveikja í gítarnum. Áhrifamikið atriði, sem jafnframt kom í veg fyrir að hann gæti tekið fleiri aukalög, var ekki með fleiri hljóðfæri með sér.
The Doors, Ed Sullivan og Rolling Stones
Ed Sullivan var um árabil einn vinsælasti sjónvarpsmaður vestanhafs og þáttur hans „The Ed Sullivan Show“ var á skjánum á hverju sunnudagskvöldi í 23 ár, frá 1948 til 1971. Það þótti mjög eftirsóknarvert að fá að koma fram í þætti Ed Sullivan og Rolling Stones, sem þá voru orðnir frægir, létu sig hafa það að breyta textanum „Let’s spend the night together“ í „Let’s spend some time together“ til að komast í gegnum bandaríska nálaraugað. Lagið höfðu þeir Mick Jagger og Keith Richards samið skömmu áður en þeir komu fram í þætti Ed Sullivan árið 1967. 17. september þetta sama ár bauð Ed Sullivan ungri og upprennnandi hljómsveit, The Doors, í þáttinn. Sveitin hafði í ársbyrjun sent frá sér lagið „Ligh my fire“ sem varð geysivinsælt. Sjónvarpsstöðin krafðist þess að setningunni „girl, we couldn’t get much higher“ yrði breytt í „girl, we couldn’t get much better. Jim Morrison lét þetta sem vind um eyru þjóta og var tilkynnt eftir á að hljómsveitin kæmi aldrei aftur fram í „The Ed Sullivan Show“.
Van Morrison, Eric Clapton, Procol Harum, Leonard Cohen og Aretha Franklin
Í júnímánuði 1967 kom út lítil plata hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Bang Records. Höfundur og flytjandi lagsins var lítt þekktur Íri, Van Morrison að nafni. Lagið hét „Brown Eyed Girl“ og vakti athygli í Bandaríkjunum. Van Morrison hefur sjálfur sagt að þetta lag hafi verið það sem fyllti hann sjálfsöryggi, sem tónskáld og flytjanda. Hann er einn afkastamesti og vinsælasti tónlistarmaður síðustu áratuga, hefur sent frá sér 35 stórar plötur og er enn að. Sömu sögu er að segja af Eric Clapton, sem að margra dómi er einn allra besti gítarleikari sögunnar. Þótt hann hefði verið í „bransanum“ í nokkur ár var það vera hans í hljómsveitinni Cream sem gerði hann frægan. Cream var tríó sem í voru, auk Claptons, trommarinn Ginger Baker og bassaleikarinn Jack Bruce. Hljómsveitin starfaði einungis í tvö ár, þremenningarnir voru ekki einungis í fremstu röð sem tónlistarmenn, þeir voru líka umtalaðir skaphundar og endanlega sauð uppúr árið 1968. Ári fyrr sendu þeir frá sér plötuna Disraeli Gears, á henni er meðal annars að finna lagið „Sunshine of your love“ sem margir telja besta lag hljómsveitarinnar. Orðið „súpergrúppa“ var fyrst notað um Cream.
Eitt allra vinsælasta lag poppsögunnar (mest spilaða lag sögunnar í Bretlandi) er „A Whiter Shade of Pale“ sem hljómsveitin Procol Harum hljóðritaði vorið 1967 og kom út á lítilli plötu 12. maí það ár.
Tónlistarfræðingar segja gjarna að það sé samið undir áhrifum frá Johanni Sebastian Bach. Ekki skal um það dæmt hér en orgelleikur setur sterkan svip á það. Það hefur stundum verið sagt að Procol Harum sé eins lags hljómsveit. Ekki er það alls kostar rétt þótt vissulega sé „A Whiter Shade of Pale“ langþekktasta lag sveitarinnar sem er enn að undir styrkri stjórn Gary Brooker.
Ekki er hægt að renna yfir tónlistarárið 1967 án þess að minnast á Leonard Cohen. Þessi hægláti Kanadamaður hafði getið sér gott orð sem ljóðskáld þegar hann, árið 1967, sendi frá sér plötuna Songs of Leonard Cohen. Meðal laga á þessari plötu voru „Suzanne“ og „So Long Marianne“ sem voru í allt öðrum dúr en margt af því sem mest fór fyrir á þessum árum. Kanadíska ljóðskáldið varð nánast á augabragði heimsfrægur tónlistarmaður.
Einhverra hluta vegna eru konur mun minna áberandi þegar litið er yfir tónlistarsöguna. Áður var minnst á Janis Joplin en hér er rétt að nefna Arethu Franklin. Árið 1967 hljóðritaði hún lagið „Respect“ sem Otis Redding samdi. Á lista tónlistartímaritsins Rolling Stone yfir merkustu dægurlög allra tíma er „Respect“ númer fimm. Fjölmargir hafa spreytt sig á þessu þekkta lagi sem Aretha Franklin gerði frægt.
Og er 1967 mikilvægasta árið í sögu dægurtónlistar?
Þessari spurningu er ekki auðsvarað. Það gerðist margt merkilegt í tónlistinni árið 1967, margt fleira en hér hefur verið nefnt. Það gildir líka um mörg önnur ár. Enginn deilir hinsvegar um það að platan „Sgt Peppers Lonely Hearts Club Band“ sem kom út 1. júní þetta ár, og var kveikja þessa pistils, er ein þekktasta plata í sögu dægurtónlistarinnar.