Hvernig ætla þingflokkarnir að bregðast við metoo-byltingunni?
Í kjölfar þúsunda undirskrifta kvenna – þar sem kynbundnu ofbeldi og áreitni var mótmælt – og hundraða frásagna sem fylgdu, hafa spurningar vaknað hvernig verkferlum sé háttað eftir metoo-byltinguna hjá fyrirtækjum og stofnunum. Kjarninn kannaði viðbrögð þingflokkanna við þessum vatnaskilum.
Konur úr öllum heimshornum hafa greint frá og lýst reynslu sinni af kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun sem á sér stað. Íslenskar konur hafa gert slíkt hið sama en konur í stjórnmálum riðu á vaðið og mótmæltu þessari menningu þann 24. nóvember á síðasta ári.
Síðan þá hefur fjöldi starfsstétta og samfélagshópa gefið út yfirlýsingar þar sem kynferðislegu áreiti, ofbeldi og mismunun er mótmælt. Krafan er skýr: Konur vilja breytingar, að samfélagið viðurkenni vandann og hafna núverandi ástandi. Þær krefjast þess að samverkamenn þeirra taki ábyrgð á gjörðum sínum og að verkferlar og viðbragðsáætlanir verði gangsettar.
En hvernig hafa þingflokkar á Alþingi brugðist við þessum umræðum? Er allt við það sama eða hafa verkferlar og viðbragðsáætlanir verið settar í gagnið? Kjarninn sendi fyrirspurn á alla flokkana og kom í ljós að misjafnlega mikil vinna hafði verið lögð í breytingar eftir metoo-umræðu síðustu missera.
Bættar siðareglur á Alþingi
Samþykkt var þingsályktunartillaga í byrjun júní þar sem tvær breytingar voru gerðar á siðareglum alþingismanna og má draga þá ályktun að áhrif metoo-umræðna hafi átt þar stóran þátt. Þverpólitísk sátt var um málið þar sem flutningsmenn voru úr öllum flokkum.
Í fyrsta lagi var lögð fram breytingartillaga sem kveður á um að alþingismenn verði að leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.
Í öðru lagi var lagt til að á eftir sjöundu grein siðareglnanna kæmi ný grein sem hljóðar svo: „Þingmenn skulu ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt.“
Þingflokkur Vinstri grænna segist í svari við fyrirspurn Kjarnans að sjálfsögðu fylgja almennum siðareglum þingmanna og svo sé stjórn VG að vinna að verklagsreglum sem fulltrúi þingflokks tekur þátt í.
Nýjar verklagsreglur
Samkvæmt svari Pírata við fyrirspurn Kjarnans hefur grasrót flokksins ásamt ábyrgðaraðilum hans unnið að verklagsreglum um bann við áreitni frá því í janúar, þar á meðal kynferðislegu og kynbundnu áreitni og ofbeldi. Þær skilgreina brotlega hegðun, leiðir til að tilkynna um hana, réttláta málsmeðferð fyrir bæði þolendur og meinta gerendur, og viðurlög við brotum.
Sú vinna er langt komin, segir í svarinu, og er öllum boðið að taka þátt í þeirri vinnu. Þingflokkur Pírata muni falla undir þær reglur. Í tillögunum sem í vinnslu eru segir meðal annars: „Einstaklingar sem telja sig þolendur ólögmæts framferðis eru hvattir til að bregðast við eins fljótt og auðið er. Þolandi getur valið óformlegt eða formlegt ferli … Allar tilkynningar og ásakanir um ólögmætt framferði skulu meðhöndlaðar með varfærni til að vernda friðhelgi viðkomandi einstaklinga og tryggja trúnað eins og auðið verður.“
Einnig kemur fram að bregðast skuli tafarlaust og röggsamlega við tilkynningum og ásökunum um ólögmætt framferði.
Sérstök trúnaðarnefnd sett á fót
Samkvæmt þingflokksformanni Samfylkingarinnar fer flokkurinn eftir stefnu og verklagsreglum sem unnar hafa verið innan flokksins.
„Í kjölfar metoo-byltingarinnar setti framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar á fót nefnd sem falið var að fara yfir verklag flokksins þegar upp koma áreitnis-, ofbeldis- eða eineltismál. Reyndar hafði sú vinna farið af stað árið 2016 en þá var leitað til sérfræðinga um málefnið. Afraksturinn af vinnu nefndarinnar var uppfærðar siðareglur flokksins, stefna gegn einelti og áreitni og verklagsreglur um meðferð mála. Þessi skjöl voru samþykkt einróma á landsfundi flokksins í mars,“ segir í svari þingflokksins. Með samþykkt landsfundar og innleiðingarvinnu framkvæmdastjórnar séu þessi þrjú skjöl nú í fullu gildi.
Meðal þess sem innleiðing þessa nýja verklags felur í sér er að til starfa tekur trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar. Trúnaðarnefndinni ber skylda til að taka til umfjöllunar öll áreitis-, ofbeldis- eða eineltismál sem inn á borð hennar koma, óháð umfangi eða aldri erindisins. Nefndin fjallar um erindi á trúnaðarfundum sínum, og grípur til viðeigandi ráðstafana í samræmi við verklagið og lög og reglur flokksins. Jafnframt kemur fram að tölvupóstur sem sendur er á netfangið trunadur@samfylking.is muni sjálfvirkt berast öllum þremur nefndarmönnum, sem taki erindið í kjölfarið til umfjöllunar.
Enn fremur segir í svari Samfylkingarinnar að til starfa taki tveir trúnaðarmenn Samfylkingarinnar. Hægt sé að hafa samband við trúnaðarmenn vilji fólk ekki senda erindi sitt beint til trúnaðarnefndarinnar eða vilji ráðfæra sig við einhvern í trúnaði um næstu skref.
Trúnaðarráð tekur við málum
Í svari frá Viðreisn segir að flokkurinn standi heilshugar að baki þeim konum sem rofið hafa þögnina um kynferðislegt áreiti, ofbeldi og valdbeitingu.
„Í tengslum við metoo-umræðuna var ákveðið á Landsþingi Viðreisnar í mars sl. að setja á laggirnar sérstakt trúnaðarráð innan flokksins. Markmiðið er að tryggja að komi sú staða upp að félagsfólk Viðreisnar verði fyrir beinni eða óbeinni mismunun, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi eða einelti í tengslum við störf sín í flokknum verði tekið á því af festu af óháðum og til þess bærum aðilum,“ segir í svarinu.
Trúnaðarráð taki þannig við málum, meti, komi í viðeigandi farveg og fylgi eftir tilkynningum sem ráðinu berast og tryggi að þær fái viðeigandi meðferð samkvæmt verklagsreglum ráðsins. Þeir einstaklingar sem sitja í trúnaðarráðinu eru – ásamt framkvæmdastjóra Viðreisnar – fulltrúar í samstarfshópi allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi, þar sem stefnt er að því að vinna sameiginlega að handbók og vinnulagi um mál sem geta fallið undir slík ráð. Þá er hópurinn að vinna að siðareglum fyrir flokkana.
Framsóknarflokkurinn tekur þátt í starfi stjórnmálaflokkanna og er með fulltrúa í vinnu sem fer fram á þeim vettvangi, segir í svari þingflokksins. Auk þess hafi framkvæmdastjórn og þingflokkur fundað um þessi mál og umræða um þessi mál farið fram á Flokksþingi.
Trúnaðarráðsmenn skipaðir í haust
Miðflokkurinn samþykkti á sínu fyrsta landsþingi sem haldið var nú í vor að í lögum flokksins skyldi vera ákvæði um samskipti flokksmanna. Í lögunum er fjallað meðal annars um skipan trúnaðarráðsmanna en það mun verða gert í haust á fyrsta fundi flokksráðs, samkvæmt svörum frá Miðflokknum.
„Flokksráð Miðflokksins skipar tvo trúnaðarmenn, ekki samkynja, í trúnaðarráð. Fulltrúar í trúnaðarráði geta verið úr sama kjördæmi en skulu ekki tengjast að öðru leyti. Trúnaðarráð skal setja sér verklagsreglur og leggja fyrir stjórn flokksins til samþykktar. Verklagsreglurnar skulu birtar á heimasíðu flokksins,“ segir í lögum Miðflokksins.
Segir enn fremur að trúnaðarráð taki við ábendingum frá félagsmönnum vegna samskiptavanda innan Miðflokksins, svo sem einelti, áreitni, ofbeldi eða mismunun. Trúnaðarráði beri að gera stjórn flokksins viðvart þegar ábending berst frá félagsmanni og taka mál viðkomandi fyrir, leita lausna eða og koma því í réttan farveg til úrlausnar hjá viðeigandi sérfróðum aðilum eftir því sem við á. Trúnaðarráð, stjórn eða málsaðilar geti óskað eftir því að sérfróður aðili sé kallaður til sem oddamaður trúnaðarráðs gerist þess þörf.
Trúnaðarmenn skuli gæta fyllsta trúnaðar við störf sín. Þeir skuli upplýsa þann sem kvartað er yfir um eðli kvörtunarinnar og gefa viðkomandi færi til andmæla. Komist trúnaðarmenn að þeirri niðurstöðu að flokksmaður hafi brotið gegn reglum þessum skuli honum umsvifalaust vikið úr flokknum.
Tóku þátt í umræðudegi
Í svari þingflokks Flokks fólksins segir að þau hafi rætt málið í sínum hópi síðasta vetur og tekið þátt í umræðum á Alþingi. Þingflokkurinn hafi jafnframt tekið þátt í umræðudegi sem efnt var til af þessu tilefni á Alþingi.
„Þingflokkurinn hafnar allri mismunum og áreitni í garð annars fólks og virðir rétt beggja kynja til að lifa sínu lífi án áreitis,“ segir í svarinu en þar kemur enn fremur fram að á vettvangi þingflokksins hafi verklagsreglur um þetta efni ekki verið samdar.
Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur sem slíkur ekki sett sér neinar reglur að þessu leyti en fulltrúar þingflokksins hafa hins vegar tekið þátt í þeirri vinnu sem fram hefur farið á vegum Alþingis á þessu sviði, bæði varðandi breytingar á siðareglum og hvernig brugðist skuli við innan þingsins þegar tilfelli af þessu tagi koma upp, segir í svari Sjálfstæðisflokksins við fyrirspurninni.
„Þá skipaði miðstjórn Sjálfstæðisflokksins nefnd fyrr á árinu til að fara yfir stöðu þessara mála í flokksstarfinu og til að undirbúa tillögur um verkferla, viðbragðsáætlanir og aðrar aðgerðir að þessu leyti innan flokksins. Sú vinna nær auðvitað til þingflokksins eins og annarra stofnana flokksins. Loks hefur Sjálfstæðisflokkurinn að sjálfsögðu tekið þátt í samstarfi stjórnmálaflokkanna á þessu sviði, sem meðal annars hefur birst í funda- og ráðstefnuhaldi um þessi mál.“
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“