Úti er WOW-ævintýri
WOW air hefur háð baráttu fyrir tilveru sinni mánuðum saman. Þótt undið hafi verið ofan af umfangi flugfélagsins síðustu mánuði versnaði staðan samt sem áður dag frá degi. Í lok síðustu viku lá fyrir að afar ólíklegt væri að WOW air yrði bjargað. Og í morgun féll það formlega. Afleiðingarnar eru umtalsverðar, sérstaklega á íslenskt samfélag.
Í lok síðustu viku var ljóst að WOW air væri komið nánast fram af bjargbrúninni. Indigo Partners sleit loks formlega samtali sínu um að koma að rekstri flugfélagsins eftir margra mánaða dans, og Icelandair var kallað aftur að borðinu til að reyna að finna einhverja leið til að halda starfseminni lifandi. Það var þungi í þeirri tilkynningu sem send var til Kauphallar vegna þessa og skýrt tekið fram að viðræður myndu fara fram á þeim forsendum að WOW air væri fyrirtæki á fallandi fæti. Það gerist ekki nema að enginn annar möguleiki sé í stöðunni en yfirtaka samkeppnisaðila, enda heimila þær forsendur til að mynda að samkeppnislegum hömlum samruna er vikið til hliðar.
Þegar Kjarninn greindi frá því á sunnudag klukkan 17:19, að búið væri að slíta viðræðum við Icelandair blasti við að dauðastríð WOW air var komið á lokametranna. Og að kraftaverk þyrfti til að bjarga félaginu.
Bakvið tjöldin hófst vinna hjá stjórnvöldum um hvernig brugðist yrði við yfirvofandi gjaldþroti WOW air, bæði með tilliti til áhrifa á ferðaþjónustu á Íslandi og um það hvernig væri hægt að tryggja að allir farþegar sem áttu miða með WOW air kæmust til sinna heima. Farið var yfir þann möguleika að grípa inn í með sama hætti og þýsk stjórnvöld gerðu þegar Air Berlin fór í þrot árið 2017. Þá lögðu stjórnvöld skiptastjóra til fjármagn svo hægt væri að viðhalda rekstri þar til að hægt væri að koma rekstrinum í annarra hendur. Fljótlega var þó ákveðið að ýta þeirri sviðsmynd til hliðar. Það þótti einfaldlega ekki forsvaranlegt fyrir stjórnvöld að setja opinbert fé inn í slíkan áhætturekstur sem WOW air var.
Svart varð svartara
Þótt WOW air hafi nokkrum sinnum verið alveg við það að falla, og oft bjargað sér fyrir horn með hætti sem nánast storkaði hinu mögulega, þá var staðan sem við blasti í byrjun viku augljóslega svartari en nokkru sinni áður. Og hún varð enn verri þegar tvær af ellefu vélum WOW air voru kyrrsettar af einum af leigusala fyrirtækisins á mánudag. Þeir sem áttu hinar níu vélarnar voru í viðbragðsstöðu alla vikuna að gera slíkt hið sama. Og það var á endanum ákvörðun þeirra um að láta kyrrsetja vélar WOW air í Bandaríkjunum og Kanada aðfaranótt fimmtudags sem veitti WOW air náðarhöggið.
Kjarninn fékk upplýsingar um að vélarnar væru fastar í Bandaríkjunum og Kanada klukkan rúmlega tvö í nótt og að þær kæmu ekki aftur til Íslands. Samgöngustofa, eftirlitsaðili WOW air, var upplýst um þá stöðu. Það voru stjórnvöld líka og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við Kjarnann í morgun að hún hefði fengið tölvupóst um stöðuna um miðnætti í gær.
Það leiddi síðan til þess að forsvarsmenn WOW air gengu á fund Samgöngustofu klukkan rúmlega átta í morgun og skiluðu inn flugrekstrarleyfi fyrirtækisins. Með því lauk formlega rekstri WOW air, sem hóf starfsemi síðla árs 2011, og viðbragðsáætlun stjórnvalda um að koma um þúsundum farþegum sem voru strandaglópar víða í Evrópu og Norður-Ameríku, til sinna heima.
Á meðan að þessi atburðarás stóð yfir, áður en að leyfinu var skilað inn en eftir að vélar WOW air voru kyrrsettar, sendi WOW air frá sér tilkynningu sem nú hefur verið fjarlægð af vef flugfélagsins. Þar stóð að allt flug WOW air hefði verið stöðvað en að fyrirtækið væri „á lokametrunum að klára hlutafjáraukningu við nýjan eigendahóp á félaginu. Allt flug hefur verið stöðvað þangað til þeir samningar verða kláraðir. Nánari upplýsingar verða gefnar kl. 9. Félagið þakkar farþegum fyrir stuðninginn og biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta veldur.“
Áður en þær upplýsingar voru gefnar, réttara sagt klukkan rúmlega korter yfir átta í morgun, var birt tilkynning á fjárfestasíðu WOW air um að félagið hefði hætt starfsemi. Væri gjaldþrota.
Kjarninn hefur upplýsingar um að það hafi sannarlega verið gerð ein lokatilraun í millitíðinni og að þær viðræður hafi staðið yfir fram á sjöunda tímann í morgun.
Þær skiluðu ekki árangri og því fór sem fór.
Erfitt að rökstyðja aðkomu
Þótt WOW air hefði formlega orðið gjaldþrota í morgun þá hefur flugfélagið í reynd verið ógreiðslufært lengi. Því hefur verið haldið á floti með svigrúmi frá kröfuhöfum, skuldabréfaútboði sem varð á endanum eins og plástur á svöðusár og áframhaldandi lánveitingum.
Erfitt var að sjá, sérstaklega síðustu mánuði, hvað það væri sem ætti að draga nýja fjárfesta að WOW air. Vörumerkið sjálft, sem hefur jákvæða merkingu á Íslandi vegna þess að WOW air hefur tryggt íslenskum farþegum lægri flugfargjöld en hefur verið valið versta flugfélag í heimi af AirHelp, sem sérhæfir sig í að aðstoða fólk við að sækja bætur frá flugfélögum.
Í byrjun vikunnar, á mánudag, fór WOW air í raun í greiðsluþrot þegar fyrirtækið gat ekki greitt skuldabréfaeigendum sínum á gjalddaga. Í kjölfarið samþykktu þeir að breyta kröfum sínum í nýtt hlutafé með þeim fyrirvara að það tækist að ná í nýtt hlutafé samhliða. Í raun tóku kröfuhafar því yfir WOW air frá þeim tíma.
Skuldir WOW air voru þó orðnar 24 milljarðar króna samkvæmt frétt Morgunblaðsins sem birt var fyrr í vikunni og ljóst að einungis var hægt að breyta hluta þeirra í nýtt hlutafé. Þá vaknaði upp sú réttmæta spurning: af hverju ætti fjárfestir sem hefur áhuga á að fara inn í flugrekstur að setja nýja peninga inn i WOW air til þess að deila eignarhaldi með hluta af kröfuhöfum flugfélagsins og taka á sig margra milljarða króna viðbótarskuldir við þjónustuaðila á borð við Isavia, lífeyrissjóði og leigusala flugfélagsins? Væri ekki skynsamlegra að byrja einfaldlega upp á nýtt, eiga allt flugfélagið sjálfur og skulda ekkert?
Nú blasir við að svarið við þeirri spurningu var já. Á endanum taldi enginn þeirra aðila sem WOW air reyndi að fá að borðinu að það væri þess virði að leggja fyrirtækinu til nýtt hlutafé. Sá sem þótti líklegastur til þess,samkvæmt heimildum Kjarnans, var alltaf Bill Franke, eigandi Indigo Partners, og helsta lífsvonin í þessari viku var bundin við að hann myndi koma aftur að borðinu ef það tækist að grynnka vel á skuldum WOW air.
Það reyndist ekki von sem hægt var að byggja á.
Skúli sagðist eiga fyrir launum
Þrátt fyrir þessa stöðu þá var Skúli Mogensen, stofnandi, eigandi og forstjóri WOW air, kokhraustur að venju í viðtölum. Á þriðjudag fór hann í viðtal hjá báðum sjónvarpsfréttastöðvum landsins. Á RÚV sagði hann einfaldlega: „Ég er alltaf brattur að eðlisfari[...]Ég ætla mér að klára þetta.“
Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 sagði Skúli að staðan væri bara nokkuð góð og að sú ákvörðun skuldabréfaeigenda að breyta kröfum í hlutafé væri að styrkja flugfélagið allverulega. Eftir tiltekt væri WOW air komið í „mjög góðan gír“.
Nú væri búið að vinda ofan af þeim dýrkeyptu mistökum sem hefðu verið gerð með leigu á breiðþotum. „Nú erum við búin að skila þeim og hagræða á ný. Nú erum við aftur orðin samskonar flugfélag og við vorum árin 2015 og 2016. Það er þess vegna sem ég segi með miklu öryggi að við vitum nákvæmlega hvað við erum að gera og hvert við erum að fara og við sjáum árangurinn nú þegar vera að skila sér.“
„Ég er mjög vongóður,“ sagði Skúli og þegar hann var spurður hvort að flugfélagið myndi eiga fyrir launum um komandi mánaðamót var svarið einfalt: „já“. Nú liggur fyrir að starfsfólk WOW air þarf að sækja þau laun í ábyrgðarsjóð launa, og þar af leiðandi til skattgreiðenda.
Í sama viðtali sagði Skúli að fólki yrði óhætt að kaupa flugmiða með flugfélaginu. Í dag voru um fjögur þúsund einstaklingar sem keyptu sér flug með WOW air á næstu vikum ekki með flug heim.
Umtalsverð samfélagsleg áhrif
Viðbúið er að þrot WOW air mun hafa umtalsverð áhrif á íslenskt samfélag. Hátt í þúsund manns misstu vinnuna í morgun og nokkur hundruð í viðbót sem starfa við þá sem hafa þjónustað WOW air munu einnig missa starfið. Áhrifin munu líkast til verða einna mest á Suðurnesjum þar sem stór hluti þeirra sem starfar á Keflavíkurflugvelli býr.
Þá er viðbúið að tekjur þjóðarbúsins munu dragast saman og endurskoða þarf allar áætlanir í ríkisrekstri. Kröfuhafar, innlendir og erlendir, munu tapa umtalsverðum fjárhæðum. Hérlendis eru það meðal annars Arion banki og ríkisfyrirtækið Isavia. Auk þess munu þjónustufyrirtæki á borð við Festar, sem selja WOW air eldsneyti, finna vel fyrir áhrifum af brotthvarfi WOW air af sjónarsviðinu.
Neytendur hafa auk þess misst valkost sem hefur keyrt niður verð á flugmiðum á undanförnum árum.
En áhrifin á íslenskt hagkerfi til lengri tíma eru ekki talin veruleg. Starfsemi WOW air hefur til að mynda verið dregin verulega saman á undanförnum mánuðum á meðan að dauðastríð flugfélagsins hefur farið fram fyrir allra augum. Floti fyrirtækisins hefur farið úr 24 í 11, flugleiðum hríðfækkað og hundruð starfsmanna verið sagt upp störfum.
Þetta mat, um áhrifin af þroti WOW air, fékk staðfestingu í orðum forsætisráðherra í viðtali við Kjarnann í morgun. Þar sagði Katrín að ríkisstjórnin teldi að hagkerfið væri „vel í stakk búið til að takast á við þessa áskorun.“ Erlend eignastaða þjóðarbúsins væri jákvæð, skuldastaða ríkissjóðs og heimila væri mjög góð og svigrúm væri í ríkisrekstrinum til að takast á við samdrátt, í ljósi þess að áætlanir gera ráð fyrir myndarlegum afgangi í honum sem hægt sé að ganga á.
Lestu meira:
-
4. nóvember 2022PLAY að ráðast í hlutafjáraukningu sem átti alls ekki að ráðast í fyrir nokkrum mánuðum
-
20. október 2022Icelandair Group hagnaðist um 7,7 milljarða króna á þremur mánuðum
-
13. september 2022Sigurður Ingi: Ekki unnt að fallast á fyrirhugaða byggð í Skerjafirði að óbreyttu
-
9. september 2022Ekki alveg svona einfalt...
-
8. september 2022Dagur: Hvassahraun virðist „ein öruggasta staðsetningin“ fyrir innviði á Reykjanesskaga
-
22. ágúst 2022PLAY tapaði 3,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins
-
5. ágúst 2022Vill skoða aðra kosti í skýrslu Rögnunefndar ef Hvassahraun þykir ófýsilegt
-
9. júní 2022Innanlandsflugið: Nútíma lausnir?
-
9. mars 2022Markaðsvirði Icelandair Group lækkað um 30 milljarða á innan við mánuði
-
2. mars 2022Gildi mun greiða atkvæði gegn tillögu um milljarða bónuskerfi hjá Icelandair Group