Alkóhólistar á Alþingi
Auður Jónsdóttir rithöfundur rabbaði við Kára Stefánsson um alkóhólisma á Alþingi. Benda viðbrögð Klausturþingmanna til þess að þeir séu alkóhólistar og er eðlilegt að þjóðkjörnir fulltrúar séu drukknir á almannafæri?
Ég átti að mæta klukkan átta í Morgunútvarpið að tjá mig um fréttir vikunnar en draumurinn var svo sætur að ég snúsaði vekjaraklukkuna þangað til tuttugu mínútur voru í að útvarpsþátturinn byrjaði svo ég rétt náði að hringja á leigubíl og hendast upp í útvarpshús. Þar settist ég inn í stúdíó ennþá í svefnrofum, utan við mig þegar þáttastjórnendur byrjuðu að fara yfir helstu tíðindi síðustu daga. Fljótlega bárust Klausturþingmenn í tal vegna nýlegs úrskurðar persónuverndar í máli þeirra, þess efnis að Bára Halldórsdóttir hefði brotið persónuverndarlög með því að taka upp tal þeirra, þó henni væri ekki gert að borga sekt.
Hrjótandi heilinn hrökk í gang og ég heyrði mig spyrja, ákveðið til að dylja þokuna í hausnum, hvort þeir væru ekki bara alkóhólistar. Ég fabúleraði eitthvað út frá þessari kenningu minni, frekar óðamála þegar mér fannst ég skynja fát á þáttastjórnendum en kannski var það bara ímyndun mín. Samt, kannski átti maður ekki að gera svona, að kalla aðra alkóhólista.
Ég skjögraði stressuð út úr þættinum, rölti heim og lagðist aftur upp í rúm, nú með hausinn fullan af örum vangaveltum til að réttlæta eigin málflutning. En ég dugði ekki til að sannfæra sjálfa mig svo ég hringdi í Kára Stefánsson og sagði: Sæll Kári, mig langar að hitta þig og tala um alkóhólisma og stjórnmál, ég var að pæla í þessu Klausturmáli.
Kári kveikti strax á perunni, álíka ör í vangaveltum sínum þegar hann sagði eitthvað á þessa leið: Persónuvernd er ögrað með þessu máli, hún er sett í erfiða stöðu; lög um friðhelgi einkalífsins gera miklar kröfur til fólksins sem situr í stjórn hennar en mér finnst það venjulega höndla þessi mál skynsamlega. Og það telur ekki rétt að taka upp svona samtöl. Nefndin verður að huga að fordæminu en samt er í rauninni tekin afstaða með Báru sem þarf ekki að borga sekt. Það verður að hafa í huga að þessir Klausturþingmenn eru ekki venjulegir einstaklingar, þeir eru kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, sem geta boðið sig fram aftur, og þess vegna kemur það almenningi við ef þeir verða sér til skammar á fylleríi.
Ég hresstist öll við að heyra þetta og sagði: Já, ef atferli þeirra bendir til þess að þeir séu virkir alkóhólistar hlýtur að vera í lagi að spyrja sig að því.
Kári gaf ekkert út á það heldur sagði: Ræðum þetta betur yfir kaffi, hringdu í mig klukkan eitt á morgun.
Aflið sem litar dagana
Ég hélt áfram að horfa upp í loftið þegar ég var búin að kveðja Kára. Alkóhólismi hefur verið mér hugleikinn megnið af ævi minni. Þegar ég velti fyrir mér hvort einhver sé hugsanlega alkóhólisti er það ekki áfellisdómur yfir manneskjunni. Þvert á móti. Svo margir sem mér þykir vænt um eru ýmist virkir eða óvirkir alkóhólistar og síðan ég var barn hef ég horft upp á fólk menga líf sitt, stundum rústa eða jafnvel glata því, út af sjúkdómnum. Ég veit ekki hversu oft ég hef horft upp á góðar manneskjur gera vonda hluti af því þær eru alkóhólistar, raunar hef ég skrifað allavega þrjár skáldsögur til að reyna að skilja atferlið.
Ég er barn alkóhólista og kannski er það ástæðan fyrir því að vinir mínir flissa að því að ef ég verð skotin í manni má næstum heita víst að hann sé alkóhólisti. Eiginlega laðast ég að alkóhólistum frekar en að dæma þá. Kenningin segir að ef barn alkóhólista og alkóhólisti hittist innan um þúsund manns finni þau strax hvort annað. Við manneskjurnar erum í rauninni bara element og ef við erum ekki því meðvitaðri um elementin í okkur ráða þau örlögum okkar.
En mér er líka alkóhólismi hugleikinn út af sjálfri mér. Ég skildi fyrir einu og hálfu ári síðan og upplifði það sem fólk kallar þennan venjulega skilnaðarpakka. Í eitt ár djammaði ég eins og unglingur og komst þannig aftur í kynni við gamalkunnugt stjórnleysi æsku- og unglingsáranna. Ef það er eitthvað sem einkennir alkóhólisma umfram annað er það stjórnleysið. Því þó að kona kíki kannski bara tvisvar í mánuði á barinn, þá lúrir undir afl þess megnugt að lita alla hina dagana.
Eins og gerðist í tilfelli Klausturþingmanna, þeir framkvæmdu hinn meinta saklausa gjörning að kíkja á barinn og fá sér einn til að létta á streitunni. Þegar rann af þeim voru þúsundir mættar á Austurvöll til að mótmæla ölvuðu athæfi þeirra. Martröð! Já. En það hefði getað orðið verra. Þeir hefðu getað gert hvað sem er í þessu ástandi, allt hefði getað komið fyrir þá. Ef það er rétt sem Gunnar Bragi segir, að hann hafi verið í löngu blakkáti.
Sektin féll á konuna sem heyrði
Lífið verður stjórnlaust, staðreyndin er sú að næstum allt vont sem kemur fyrir þig gerist undir áhrifum áfengis, svo margt vont gerist undir áhrifum þess, sagði Kári þegar ég heimsótti hann daginn eftir á skrifstofu hans í Íslenskri erfðagreiningu.
Ég hraðritaði orðin með tölvuna á hnjánum því hvorugt okkar kunni að kveikja á upptökutækinu í símanum og við veigruðum okkur við að trufla öryggisvörðinn sem var farinn niður eftir að hafa fylgt mér upp á efstu hæð. Kári talar hratt svo þegar hann sagði safaríkustu hlutina lagði ég tölvuna frá mér til að ræða málin, áfjáð í umræðuefnið. En ég náði þó að skrifa þessi orð hans: Á milli þess sem þú drekkur verður allt kaótískt. Ég hef aldrei verið mikill drykkjumaður en þó oft til vandræða við drykkju og lít á mig sem alka og hef ekki smakkað dropa af áfengi í nokkur ár. Það var ekki ákvörðun, mér fannst þetta bara svo dapurlegt að ég gat ekki drukkið lengur. Ég hef oft orðið mér til skammar, brotið lög og gert allskonar vitleysu undir áhrifum. Ég er enginn engill þegar kemur að þessu. Og það er alveg kýrskýrt í huga mér að það meikar engan sens fyrir mig að drekka.
Ímyndaðu þér! Þessir alþingismenn sem fara á Klausturbar og drekka sig fulla. Ég held að það sé vissulega rétt, að þetta geri fólk. Og að það þyki ekkert tiltökumál að þingmenn setjist við drykkju og tali á ógeðfelldan hátt um annað fólk. Þetta snýst frekar um hvernig þeir brugðust við eftir að allt komst upp. Þá var ekki aðalatriðið að þeir drykkju og töluðu á óviðeigandi hátt um fólk heldur að einhver heyrði það. Sektin færðist frá þeim yfir á þann sem hlustaði á þá. Eins og þeir hefðu tekið karaktertúr í tilvistarstefnu. Tréð í skóginum féll aldrei því enginn heyrði það falla.
Það eru viðbrögð þeirra við gagnrýninni sem endurspegla alkóhólisma. Þetta er einhverjum öðrum að kenna! Allir alkar sem ég þekki reyna að kenna öðrum um drykkjuna og afleiðingar hennar. Allir.
Já, samsinnti ég, einbeitt að vélrita meðan myndir af glaðhlakkalegum alkóhólistum frá ýmsum ólíkum tímabilum lífs míns dönsuðu fyrir hugskotssjónum. Iðandi stjórnleysi óskiljanlegra atvika einkennir samneyti við þá alla. Allt þetta yndislega áfengissjúka fólk.
Klassískur fíknisjúkdómur
Það má spyrja sig hvort rétt sé að dæma þetta fólk út frá því sem gerðist á barnum, sagði Kári næst, því í þessu ástandi, þegar búið er að fjarlægja allar hömlur og breyta starfsemi heilans með alkóhóli, þá segja og gera menn hömlulausa hluti.
Jamm, dæsti ég, hugsi yfir áhættuhegðuninni að losa um allar hömlur. Meðan hömlurnar voru virkar hlaut þó eitthvað af þessu að hafa lúrt í huga Klausturþingmanna því alkóhólismi er ekki það sama og ofbeldi eða tilhneiging til skipulagðrar hatursorðræðu, þó að hann leysi oft slíkt úr læðingi.
En þessi viðbrögð þeirra benda til að þingmennirnir séu alkóhólistar, útskýrði Kári. Að þeir þjáist af þessum sjúkdómi sem breytir mönnum töluvert og þá er eðlilegt að þeir leiti sér hjálpar við því.
Þeir eru fulltrúar Alþingis, sem á hverju einasta ári veltir upp frumvarpi um að gera alkóhól aðgengilegra, koma því í matvörubúðir og svo framvegis. Eins og Alþingi sé ómeðvitað um hvað þetta er alvarlegt mál. Fjórðungur þjóðarinnar verður fyrir áhrifum af alkóhólisma, hvort sem um er að ræða eigin alkóhólisma eða fjölskyldumeðlima og annarra náinna, þú veist til dæmis hvaða áhrif neysla foreldra hefur á börn. Fíknisjúkdómar eru algengasta ástæða dauða ungs fólks, á milli fimmtán ára og fertugs. Fólk á aldrinum milli fimmtán ára og fertugs deyr sjaldan af öðrum sjúkdómum en fíknisjúkdómar deyða það svo sannarlega. Alkóhólismi er klassískur fíknisjúkdómur.
Þegar þú drekkur áfengi tekurðu inn efni sem minnkar hömlur, veldur vænisýki og óstöðugri hugsun jafnt sem óstöðugum fótum, þetta er eiturlyf sem Ríkið selur þér og getur stórskaðað þig, botnaði Kári og byrjaði síðan að þylja upp hrikalegar líkamlegar afleiðingar langvarandi drykkju eins og innvortis blæðingar, skert skammtímaminni, flog, tremma og geðræn vandamál.
Þingmenn drukknir á almannafæri
Lýsingarnar á afleiðingum sjúkdómsins urðu svo hrikalegar úr munni taugalæknisins, sem nýverið var fyrstur Íslendinga kjörinn í bandarísku vísindakademíuna, að ég veigraði mér við að skrifa frekari útlistingar á þeim. En Kári breytti ekki um svip og hélt áfram: Það er takmarkalaus ósvífni í sjálfu sér að ætlast til þess að þegar búið er að kjósa manneskju til þess að stjórna landinu hafi hún heimild til að taka inn eitur sem tekur af henni stjórnina og allar hömlur. Og sitja þannig, sem þingmenn, að ræða mál þingsins eins og þeir gerðu.
Ég hef tekið þátt í allskonar ósvífnum og slæmum samræðum undir áhrifum áfengis, og skammast mín fyrir það, en ég hef aldrei gert það sem kjörinn fulltrúi þjóðarinnar. Kannski að það sé máttleysisleg afsökun en mér finnst að þetta fólk, sem við kjósum til að stjórna landinu, verði að setja sér hærri viðmið og gæta þess að taka ekki eiturlyf sem hafa áhrif á starfsemi heilans meðan þing er við störf. Á móti kemur að það er afskaplega vandasamt að setja þingmönnum lífsreglur, sem eru öðruvísi en okkar hinna, því auðvitað vill maður líka hafa fulltrúa þjóðarinnar inni á þingi með kostum þeirra og göllum.
En er eðlilegt að vera virkur alkóhólisti á þingi? spurði ég, meðvituð um að áberandi fylgifiskar alkóhólisma eru meðal annars óheiðarleiki, dómgreindarleysi, óábyrg kynlífshegðun, siðrof og afneitun.
Þegar búið er að kjósa fólk á þing á það ekki að sjást drukkið á almannafæri, sagði Kári staðfastur. Og segjum sem svo að þetta hefðu verið skipulagðar njósnir á Klausturbar … væri þá eitthvað rangt við það? Mér finnst það ekki. Þetta eru fulltrúar þjóðarinnar, hún á rétt á að vita það ef svona uppákomur eiga sér stað. Eins og ég sagði, ég er meira hissa á viðbrögðum þessara þingmanna eftir á en því að þeir hafi verið öskrandi fullir.
Það hefði verið eðlilegt ef Alþingi hefði boðið þessum mönnum upp á meðferð til að forðast frekari uppákomur af þessari gerð. Og svo er það þetta: Alkahólismi er sjúdómur sem veldur ekki bara einkennum hjá þeim sem drekkur heldur líka hjá fjölskyldumeðlimum hans og öðrum í nærumhverfi. Klausturævintýrið sýnir okkur líka, svo ekki verður um villst, að áhrifin ná langt út fyrir það. Sú birtingarmynd alkahólisma sem blasti við okkur á Klausturbarnum hefur valdið óyndi hjá heilli þjóð. Það er eðlileg krafa að þátttakendurnir geri eitthvað í sínum málum.
Samúðin eins og súrt gall
Í huga mínum er alkóhólismi sjúkdómur og ég lít á hann sem hvern annan sjúkdóm svo ég áfellist ekki menn fyrir hann, hélt Kári áfram. Við eigum ekki að gera það. En við getum tjáð áhyggjur af sjúkdómnum, af hverju má það ekki? Við eigum að sjá til þess að sjúkdómurinn hafi sem minnst áhrif á manninn og samfélagið sem hann býr í. Hugsaðu þér hvað uppákoman á Klausturbar hefur haft mikil áhrif á líf þessara þingmanna og þeirra nánustu. Sýndu smá samúð. Ókei!
Ókei, já, sagði ég og fann gamalkunnuga samúð aðstandandans vætla upp í mig eins og súrt gall.
Þetta hefði ekki komið fyrir ef þeir hefðu ekki drukkið, sagði Kári með þunga.
Nei, samsinnti ég. Nefnilega!
Þá segja menn: Öl er innri maður. Rosalega eru þetta vondir menn. Má vel vera, kjamsaði Kári, að þeir séu vondir menn. En það er ekki rökrétt ályktun að draga af því sem kom fyrir á Klausturbarnum því menn gera allskonar og segja undir áhrifum áfengis. Heilabörkurinn hefur því hlutverki að gegna að hemja hugsanir og athafnir en eftir nóg áfengi missa menn stjórnkerfið sitt, heilinn hættir að virka og þeir missa hömlurnar. Mér finnst ekki skynsamlegt að dæma menn á grundvelli þess sem þeir gera þegar heilinn á þeim virkar ekki. En mér finnst líka að það megi gera kröfur til þeirra þegar þeir verða sér og sínum til skammar svo þeir taki á vanda sínum og leiti sér aðstoðar. Í stað þess að rísa upp nokkrum dögum síðar og segja að allt saman sé öðrum að kenna. Að hafa heyrt þetta eða bent á það! Þeir ættu frekar að líta á þetta sem víti til varnaðar og forðast áfengi.
Já, bara þakka Báru! Alveg sammála, sagði ég en þá setti Kári í brýrnar og tilkynnti mér að ég væri í hættu.
Ég?!
Já, þú með þinn heila. Þú ert barn alkóhólista og heilinn þinn er eingöngu búinn til úr upplýsingum sem voru notaðar til þess að búa til heila foreldra þinna og alkahólismi er heilasjúkdómur.
Myndirðu ekki drekka ef þú værir ég? spurði ég.
Nei, sagði Kári. Það er hættulegt fyrir þig. Ég myndi heldur ekki drekka ef ég væri ég af því það væri hættulegt fyrir mig.
Sennilega er það rétt, muldraði ég og tók Kára á orðinu.
Lesa meira
-
7. september 2021Sigmundur segir að það eigi ekki refsa þeim sem urðu „fyrir afbroti“ í Klausturmálinu
-
29. september 2020Ósanngjarnt að „þurfa að svara fyrir fyllerísröfl Gunnars Braga Sveinssonar“
-
20. nóvember 2019Lögbrot og Klausturmálið
-
16. nóvember 2019Klausturgate – ári síðar
-
9. október 2019Safna fyrir málskostnaði Báru
-
18. september 2019Bergþór Ólason orðinn nefndarformaður á ný
-
5. ágúst 2019Þetta blettótta lýðræði
-
2. ágúst 2019Þeir sem eru án sómakenndar sigra
-
1. ágúst 2019Þórhildur Sunna gagnrýnir niðurstöðu siðanefndar
-
1. ágúst 2019Forsætisnefnd fellst á mat siðanefndar