Mynd: Bára Huld Beck

Neyðarlánið sem átti aldrei að veita

Seðlabanki Íslands hefur birt skýrslu um veitingu 500 milljón evra neyðarláns til Kaupþings sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi, þann 6. október 2008. Skýrslan hefur verið rúm fjögur ár í vinnslu. Í henni er ekki mikið af nýjum upplýsingum um veitingu lánsins né ráðstöfun þess. Rétt tæplega helmingur lánsins tapaðist.

„Eftir á að hyggja hefði verið betra að veita ekki lán­ið. Það er hins vegar ekki þar með sagt að þetta hafi verið rangt sjón­ar­mið miðað við aðstæð­urnar og þær upp­lýs­ingar sem þá lágu fyr­ir. Allt orkar tví­mælis þá gjört er og ekki er alltaf við­eig­andi að nota ein­ungis mælistikur upp­lýs­inga síð­ari tíma þegar ein­stakar ákvarð­anir eru metn­ar.“

Þetta segir Már Guð­munds­son seðla­banka­stjóri í for­mála 53 blað­síðna skýrslu um 500 milljón evra þraut­ar­vara­lán sem Seðla­banki Íslands veitti Kaup­þingi 6. októ­ber 2008.

Í henni kemur fram að það liggi nú fyrir að ekki muni end­ur­heimt­ast meira af lán­inu en sem nemur 260 millj­ónum evra, sem eru 36 millj­arðar króna á gengi dags­ins í dag. Það þýðir að af höf­uð­stól láns­ins, reiknað á gengi dags­ins í dag, töp­uð­ust 33,2 millj­arðar króna. Þá á eftir að taka til­lit til vaxta eða ann­arrar ávöxt­unar sem umrædd upp­hæð hefði getað notið ef fjár­mun­unum hefði verið ráð­stafað með öðrum hætti.

Árið 2014 hafði Seðla­banki Íslands gefið það út að um 270 millj­ónir evra myndu end­ur­heimt­ast af lán­inu. Nú er ljóst að sú upp­hæð hefur skroppið sam­an.

Skýrslan hefur verið rúm fjögur ár í vinnslu, en til­kynnt var um gerð hennar í febr­úar 2015. Í for­mál­anum segir Már að meðal þess sem hafi tafið skýrslu­gerð­ina sé að reynt hafi „verið að fylgja þeirri meg­in­reglu í starfi Seðla­bank­ans á und­an­förnum árum að úr­lausn­ar­efni nút­íðar og framtíðar hafi for­gang umfram málefni fortíð­ar­inn­ar.“  

Skýrslan átti upp­haf­lega ein­ungis að snú­ast um hvernig unn­ist hefði úr danska bank­anum FIH, sem tek­inn var að veði fyrir neyð­ar­lán­inu. Síðar var því bætt við að skoða sér­stak­lega lán­veit­ing­una sjálfa. Það hafi tafið vinn­una.

Í for­mál­anum segir Már að til­tæk gögn um lán­veit­ing­una séu fátæk­leg og „varð­andi ýmis atriði þurfti að styðj­ast við minni og munn­lega frá­sögn þeirra sem tóku þátt í ferl­inu. Seðla­bank­inn hafði ekki gögn um ráð­stöfun láns­ins fyrr en í kringum síð­ast­liðin ára­mót.“

Seðla­bank­inn bar ábyrgð en starfs­reglum ekki fylgt

Tek­ist hefur verið á um það á und­an­förnum árum hver hafi tekið ákvörðun um að veita neyð­ar­lán­ið. Yfir­lög­fræð­ingur Seðla­bank­ans hefur sagt að Seðla­bank­inn hefði ákveðið að veita lán­ið. Geir H. Haarde sagði í sjón­varps­við­tali í októ­ber 2014 að Seðla­bank­inn hefði haft fulla heim­ild til að veita lán­ið.

Í skýrslu Seðla­banka Íslands segi að ekki leiki „vafi á að sjálf ákvörð­unin var tekin af banka­stjórn Seðla­bank­ans að höfðu sam­ráði við for­sæt­is­ráð­herra.“ Það voru því banka­stjórar Seðla­bank­ans sem tóku ákvörð­un­ina um að lána Kaup­þingi nær allan lausan nettó gjald­eyr­is­vara­forða þjóð­ar­inn­ar. Ábyrgðin hvíldi á end­anum hjá Seðla­bank­an­um.

Bank­inn hafði enda ótví­ræða heim­ild til að veita þraut­ar­vara­lán án atbeina ann­arra vald­hafa. Þá liggur fyrir að 21. apríl 2008 var sam­þykkt sér­stök banka­stjórn­ar­sam­þykkt, nr. 1167, um við­brögð Seðla­bank­ans við lausa­fjár­vanda banka. Í regl­unum var sér­stak­lega kveðið á um að skipa ætti starfs­hóp innan bank­ans til að takast á við slíkar aðstæður og að gilda ætti ákveðið verk­lag ef aðstæður sem köll­uðu á þraut­ar­vara­lán kæmu upp. Verk­lag­inu var skipt í alls sex þætti. Í sam­þykkt­inni var einnig fjallað um við hvaða skil­yrði lán til þrauta­vara kæmi til greina og í henni var settur fram ákveðin gát­listi vegna mögu­legra aðgerða Seðla­bank­ans við slíkar aðstæð­ur.

Þegar Kaup­þing fékk 500 millj­ónir evra lán­aðar 6. októ­ber 2008 var ekki farið eftir þess­ari banka­stjórn­ar­sam­þykkt.

Í skýrsl­unni seg­ir: „Þegar þrauta­vara­lánið var veitt voru uppi ein­stakar aðstæður sem líkja mátti við stríðs­á­stand á mörk­uðum eins og áður hefur komið fram og því þurfti að bregð­ast fljótt við. Vegna hinnar miklu tíma­pressu við lán­veit­ing­una reynd­ist ekki unnt að fylgja starfs­regl­unum að öllu leyti enda geta slíkar reglur ein­göngu verið leið­bein­andi en ekki bind­andi þar sem ekki er alltaf hægt að sjá fyrir hvernig ástand í fjár­mála­á­falli raun­ger­ist.“

Muna ekki atburða­rás­ina á sama hátt

Ýmsar skýr­ingar hafa einnig verið gefnar á því í gegnum tíð­ina hvað hafi valdið því að Kaup­þingi hafi verið hjálpað en ekki öðrum íslenskum bönk­um. Þá hafa þau sjón­ar­mið einnig ítrekað verið sett fram að það hefðu ekki verið for­sendur til að hjálpa neinum banka, staða þeirra hafi ein­fald­lega verið þannig.

Í skýrsl­unni eru rifjuð upp ummæli Öss­urar Skarp­héð­ins­son­ar, þáver­andi iðn­að­ar­ráð­herra, í skýrslu rann­sókn­ar­nefndar Alþingis sem kom út í apríl 2010. Aðfara­nótt 6. októ­ber, þess dags sem neyð­ar­lög voru sett á Íslandi vegna fjár­mála­hruns­ins, fund­uðu ýmsir íslenskir ráð­herrar með ráð­gjöfum frá banda­ríska bank­anum J.P. Morgan sem komið höfðu til lands­ins dag­inn áður að ósk Seðla­bank­ans. Í skýrslu rann­sókn­ar­nefndar er eft­ir­far­andi haft eftir Öss­uri: „[… full­trúar J.P. Morgan] sögðu: Þetta er bara svona, ykkar banka­kerfi er þannig að það er varla hægt að bjarga því. Og ef það er hægt að bjarga ein­hverju þá er það Kaup­þ…, þá er það KB.“

Sami skiln­ingur virt­ist raunar koma fram hjá Geir H. Haar­de, þá for­sæt­is­ráð­herra, í frægu sím­tali hans við Davíð Odds­son skömmu fyrir hádegi þennan dag, 6. októ­ber 2008. Þar sagði Davíð við Geir: „Þú ert að tala um það að við eigum frekar að reyna að hjálpa Kaup­þing­i.“ Og Geir svar­að­i:“ „Það slær mig þannig, sko, og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gær­kvöldi alla­vega þessir Morgan-­menn“.

Símtal milli Davíðs Oddsonar og Geirs H. Haarde var í lykilhlutverki við veitingu lánsins.
Mynd: Samsett

Í skýrslu Seðla­bank­ans kemur hins vegar fram að í við­tölum við þá sem voru í for­svari fyrir J.P. Morgan þessa örlaga­ríku nótt hafi þeir neitað að þeir hafi gefið til kynna að það væri á það reyn­andi að bjarga Kaup­þingi. Þar er vitnað í við­tal Morg­un­blaðs­ins við Mich­ael Rid­ley, sér­fræð­ing hjá J.P. Morgan, sem var einn þeirra þriggja sem flogið var inn með einka­þotu frá London um kvöld­mat­­ar­­leytið 5. októ­ber 2008 til Reykja­víkur þar sem þeir fóru yfir stöðu banka­­kerf­is­ins með íslenskum ráða­­mönn­­um.

Í við­tal­inu, sem birt var í októ­ber 2018, sagði hann að ekki hafi verið til nægur gjald­eyr­is­vara­­forði til að bjarga neinum íslensku bank­anna sem féllu. Kaup­­þing, Lands­­bank­inn og Glitnir höfðu sótt gríð­­ar­­lega fjár­­muni á erlenda mark­aði þar sem lánsfé var ódýrt og vöxtur þeirra í kjöl­farið gerði það að verkum að bank­­arnir þrír urðu allt of stórir í hlut­­falli við íslenska hag­­kerf­ið. Í ljósi þess að  ekki hafi verið til fjár­­munir til að bakka upp allt banka­­kerfið þá var ekki hægt að bjarga neinum banka.

Engin lána­beiðni og veð­töku var ábóta­vant

Þá er stað­fest í skýrsl­unni að engin lána­beiðni var frá Kaup­þingi í Seðla­banka­bank­an­um, að ekki var gengið frá lána­samn­ingi né form­legri veð­setn­ingu þótt að yfir­lýs­ing um veð­töku í danska FIH bank­anum hafi verið und­ir­rituð og fyrir liggur að Kaup­­þingi var frjálst að ráð­stafa lán­inu að vild. Þetta er allt í sam­ræmi við það sem Hreiðar Már Sig­urðs­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaup­þings, hélt fram í grein sem hann birti í Frétta­blað­inu í októ­ber 2014, og vakti mikla athygli.

Seðla­­bank­inn svar­aði grein Hreið­­ars Más sam­­dæg­­urs og sagði að hann væri að ekki að segja satt. Í yfir­­lýs­ingu sagði að starfs­­menn bank­ans hefðu strax gengið í „að full­vissa sig um að veðið fyrir lán­inu til Kaup­­þings stæði til reiðu og lög­­­maður Kaup­­þings gerði hlut­hafa­­skrá í Dan­­mörku strax við­vart um að Seðla­­bank­inn væri að taka veð í öllum hlutum FIH-­­bank­ans. Veð­­gern­ing­­ur­inn var full­­klár­aður fyrir lok við­­skipta­­dags og rétt­­ar­vernd veðs­ins hafði þá verð að fullu tryggð. Stjórn­­endur Kaup­­þings und­ir­­rit­uðu gern­ing­inn fyrir lok við­­skipta­­dags 6. októ­ber. Þannig að full­yrð­ingar um að ekki hafi verið gengið frá veð­­setn­ingu fyrr en mörgum dögum seinna eru rang­­ar“.

Davíð Odds­­son skrif­aði í kjöl­farið Reykja­vík­­­ur­bréf í Morg­un­blaðið undir þar sem hann hafn­aði því sem Hreiðar Már hafði sagt í grein sinni. Þar sagði Dav­­íð: „Í gær var birt yfir þvera for­­síðu Frétta­­blaðs­ins lyga­frétt með við­eig­andi myndum um stofnun og raunar ein­stak­l­ing sem öll fjöl­miðla­­sam­­steypan hefur haft veið­i­­­leyfi á síðan ítök núver­andi eig­enda hófust þar, þótt um hríð væri logið til um eign­ar­hald­ið[...]Eitt sím­­tal við við­kom­and­i, ­stofn­un­ina eða ein­stak­l­ing­inn hefð­i ­tryggt að blaðið yrði ekki sér til­ ­skammar með breið­­síðu sinn­i“.

Skýrsla Seðla­bank­ans sýnir að Hreiðar Már var að segja rétt frá í grein sinni. Lánið var greitt út þegar bank­inn hafði fengið upp­lýs­ingar um að eign­ar­hlutur Kaup­þings í FIH væri veð­banda­laus en áður en að frá­gangi veð­yf­ir­lýs­ing­ar­innar var lok­ið.

Í skýrsl­unni stendur að „þótt ekki hafi verið gengið frá láns­samn­ingi hafa til­vist láns­ins og gildi veð­yf­ir­lýs­ing­ar­innar aldrei verið dregin í efa, enda fór svo að Seðla­bank­inn gekk að veð­inu og yfir­tók eign­ar­hlut­inn. Vegna þess hversu langt var liðið á við­skipta­dag­inn í Evr­ópu var haf­ist handa við að und­ir­búa og fram­kvæma útgreiðslu láns­ins um leið og ljóst var að eign­ar­hlutur Kaup­þings í FIH væri veð­banda­laus og að veðið myndi fást, jafn­vel þótt frá­gangi veð­yf­ir­lýs­ing­ar­innar væri ekki lok­ið. Fjár­hæðin var milli­færð á reikn­ing Kaup­þings í Deutsche Bank í Frank­furt. Í greiðslu­fyr­ir­mælum til þeirra erlendu banka sem Seðla­bank­inn tók út af reikn­ingum sínum hjá til að greiða fjár­hæð­ina kom fram að evr­urnar skyldu vera Kaup­þingi til reiðu sam­dæg­ur­s.“

Ekki hægt að draga ein­hlítar álykt­anir um ráð­stöfun

Mikið hefur líka verið deilt um það árum saman í hvað neyð­ar­lánið hafi far­ið. Geir H. Haarde hefur sagt opin­ber­lega að hann hafi talið að pen­ing­arnir sem Kaup­þing fékk að láni hefðu átt að fara til Bret­lands til að mæta kröfum þar­lendra stjórn­valda um aðgengi­legt lausafé fyrir Kaup­þing Sin­ger & Fried­land­er.

Hreiðar Már sagði við rann­sókn­ar­nefnd Alþingis að um 200 millj­ónir evra hefðu farið til sænska seðla­bank­ans, til að tryggja starf­semi bank­ans þar, auk þess sem hluti láns­ins hafi farið til Lúx­em­borg­ar, Finn­lands og Nor­egs þar sem áhlaup var hafið á bank­ann. Rann­sak­endur hafa stað­fest að hluti fjár­ins hafi sann­ar­lega farið til Sví­þjóð­ar.

Í grein Hreið­ars Más frá því í októ­ber 2014 sagði hann að „allt fjár­magnið var nýtt til að tryggja aðgang við­skipta­vina bank­ans í fjöl­mörgum löndum Evr­ópu að banka­inni­stæðum sín­um, tryggja aðgang dótt­ur­banka Kaup­þings í Evr­ópu að lausafé og mæta veð­köllum bank­ans vegna fjár­mögn­unar hans og við­skipta­vina hans á verð­bréfum hjá alþjóð­legum bönkum í Evr­ópu. Með öðrum orðum þá var allt féð notað til að tryggja sem frekast var kostur rekstur og hag Kaup­þings og við­skipta­vina bank­ans.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fór fram á að fá upplýsingar um ráðstöfun neyðarlánsins.
Mynd: Bára Huld Beck

Í svari Katrínar Jak­obs­dóttur for­­­­sæt­is­ráð­herra við fyr­ir­­­­spurn Jóns Stein­­­­dórs Vald­i­mar­s­­­­son­­­­ar, þing­­­­manns Við­reisn­­­­­­­ar, um neyð­­­­ar­lán­veit­ing­una, sem birt var á vef Alþingis 14. nóv­­­­em­ber 2018, kom fram að hún ætl­­­­aði að óska eftir því að Seðla­­­­banki Íslands myndi óska svara frá Kaup­­­­þingi ehf. um ráð­­­­stöfun neyð­ar­láns­ins og að bank­inn myndi greina frá nið­­­­ur­­­­stöðum þeirra umleit­ana í skýrslu sinni sem birt var í gær.

Að mati Seðla­bank­ans er ekki mögu­legt að draga ein­hlítar álykt­anir um ráð­stöfun þraut­ar­vara­láns Seðla­bank­ans til Kaup­þings á grund­velli þeirra upp­lýs­inga sem hann afl­aði sér. Þær sýni þó að á þessum tíma var verið að inna af hendi greiðslur sem ella hefðu lík­lega leitt til falls bank­ans. Inn á reikn­ing Kaup­þings í Frank­furt streymdu 698 millj­ónir evra til við­bótar við þá 500 sem Seðla­banki Íslands lán­aði frá 6. til 8. októ­ber en staða hans var nei­kvæð upp á 397 millj­ónir evra í byrjun fyrri dags­ins. Þegar Fjár­mála­eft­ir­litið tók yfir Kaup­þing að morgni dags 9. októ­ber höfðu 810 millj­ónir evra flætt út af þeim reikn­ingi. Ekki er farið yfir aðrar ráð­staf­anir á fé eða lán­veit­ingar hjá Kaup­þings­sam­stæð­unni þessa daga í októ­ber­mán­uði 2008 aðrar en þær sem fóru beint út af umræddum reikn­ingi í Deutsche Banki í Frank­furt.

Flest vit­að, annað ekki kannað sér­stak­lega

Lítið nýtt kemur fram um hvernig þeim fjár­munum var ráð­staf­að. Hárri upp­hæð var ráð­stafað til að takast á við áhlaup á Edge-inn­láns­reikn­inga Kaup­þings, greiðslur voru inntar af hendi til nor­rænna seðla­banka og tveggja evr­ópskra banka vegna veð­kalla i tengslum við end­ur­kaupa­samn­ing og umtals­verðri fjár­hæð var ráð­stafað vegna gjald­eyr­is­við­skipta. Þá voru um 400-500 greiðslur sem voru undir tíu millj­ónum evra, alls upp á 114,5 millj­ónir evra, greiddar út.

Auk þess var stað­fest að tvær greiðslur vegna hinna svoköll­uðu CLN-við­skipta fóru út af reikn­ingi Kaup­þings í Frank­furt eftir að neyð­ar­lánið var veitt. CLN-við­skipt­in, sem unnin voru að und­ir­lagi Deutsche Bank, snér­ust um að frá 29. ágúst til 8. októ­ber 2008 lán­aði Kaup­­þing á Íslandi alls 510 millj­­ónir evra í slíka gjörn­inga, sem jafn­gilti nálægt 70 millj­örðum króna miðað við gengi evru 7. októ­ber 2008. Um var að ræða láns­hæf­istengd skulda­bréf sem voru orðin verð­laus í lok ofan­greinds tíma­bils. Á nokkrum vikum hafði rúm­lega hálfur millj­arður evra tap­ast og eftir stóð ekk­ert nema risa­skuld eign­ar­lausra aflands­fé­laga við Kaup­þing.

Greiðslur frá Kaup­þingi vegna veð­kalla frá Deutsche Bank hófust 22. sept­em­ber, sama dag og til­kynnt var að Sheikh Al Thani hefði keypt stóran hlut í bank­an­um. Þorri greiðsln­anna fór fram eftir að Glitnir hafði verið þjóð­nýttur og síð­ustu tvær, sam­tals upp á 50 millj­ónir evra, voru milli­færðar 7. októ­ber 2008, dag­inn eftir að Kaup­þing fékk neyð­ar­lán frá Seðla­banka Íslands og tveimur dögum áður en bank­inn fór á haus­inn. Þær greiðslur eru stað­festar í skýrslu Seðla­bank­ans.

Þar segir að færsl­urnar beri með sér að „áhlaup er í gangi á inn­stæður og önnur fjár­mögnun er að verða erf­ið­ari sem lýsir sér í veð­köllum sem vænt­an­lega tengj­ast veð- og end­ur­kaupa­samn­ing­um. Sam­tals nema greiðslur til nor­ræns seðla­banka, útstreymi á inn­stæðum og greiðslur vegna veð­kalla 442 millj­ónum evra. Vegna greiðslna í tengslum við CLN skulda­bréfið má nefna að málið er ennþá til með­ferðar hjá dóm­stól­um. Ekki er heldur hægt að draga miklar álykt­anir af upp­lýs­ingum um fjár­hæð gjald­eyr­is­við­skipta og mót­að­ila í þeim við­skipt­um. Gera má ráð fyrir að þær færslur hafi þegar verið skoð­aðar af þar til bærum aðil­u­m.“

Már Guð­munds­son segir í Morg­un­blað­inu í dag að bank­inn hafi hvorki skoðað sak­næmi þeirra ráð­staf­ana sem gripið var til né til hverra stór hlut­i fjár­mun­ana ­fór, til að mynda sá hluti sem skil­greindur er sem gjald­eyr­is­við­skipti eða smærri við­skipti. „Aðrir gæt­u nátt­úr­lega ­sagt að það var líka að koma þarna inn ann­að ­fé, 698 [millj­ón­ir ­evr­a]. Í hvað var það nýtt? Það var þarna út­streymi á öðrum liðum eins og gjald­eyr­is­við­skiptum og við vitum ekk­ert nákvæm­lega hvað var á bak við það en það ætti að vera eðli­legt að lita þannig á að ef þeir sem voru að rann­saka þessi mál töld­u eitt­hvað óeðli­leg­t þá hefðu þeir átt að skoða það og kannski var það gert.“

Upp­lýs­ingar sem hafa legið fyrir í níu ár

Ekk­ert er þó farið yfir aðrar ráð­staf­anir sem gerðar voru innan Kaup­þingsam­stæð­unnar dag­anna eftir að neyð­ar­lánið var veitt, og þangað til að bank­inn féll. Skoðun Seðla­bank­ans ein­skorð­að­ist við að fara yfir það sem fór inn og út af reikn­ingi bank­ans í Frank­furt þessa daga. Þar er um að ræða upp­lýs­ingar sem legið hafa fyrir hjá þrota­búi Kaup­þings frá árinu 2010, eða í níu ár, en aðilar máls hafa ekki beðið um fyrr en um síð­ustu ára­mót.

Ýmis­legt hefur verið rann­sakað um það hvernig Kaup­þing ráð­staf­aði fé þessa daga í byrjun októ­ber 2008. Þar ber helst að nefna lán Kaup­þings til félags sem hét Lindsor Hold­ing upp á 171 milljón evra og er dag­sett 6. októ­ber 2008. Lindsor var, sam­kvæmt gögnum rann­sak­enda hjá emb­ætti sér­staks sak­sókn­ara og Fjár­mála­eft­ir­lit­inu og yfir­heyrslum yfir þeim sem að mál­inu komu, stýrt af stjórn­endum Kaup­þings. Í skýrslu Seðla­banka Íslands er ekk­ert nýtt sett fram um þá lán­veit­ingu en greint frá því að um hana hafi verið fjallað í fjöl­miðlum og í gæslu­varð­halds­úr­skurði sem greint hafi verið frá opin­ber­lega.

Hægt er að lesa meira um Lindsor-­málið hér.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar