Samherji opinberaður
Sjávarútvegsrisinn Samherji er eitt stærsta og áhrifamesta fyrirtæki á Íslandi. Það teygir anga sína víða og stjórnendur þess hafa ekki farið leynt með vilja sinn til að hafa mikil áhrif í samfélaginu sem þeir búa í. Samherji hefur nú verið opinberað fyrir að hafa greitt mútur til að komast yfir kvóta í Namibíu og stundað stórfellda skattasniðgöngu til að hámarka arð sinn af þeim kvóta. Fyrirtækið er auk þess grunað um peningaþvætti í Noregi. Afleiðingarnar af þessu eru þegar orðnar margháttaðar.
Uppgangur Samherja, eins stærsta fyrirtækis landsins og eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækis Evrópu, hefur verið ævintýralegur á undanförnum árum. Í árslok 2008, í kjölfar efnahagshrunsins, var eigið fé samstæðu fyrirtækisins um 17 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Tíu árum síðar, um síðustu áramót, var eigið féð 111 milljarðar króna. Það hafði næstum tífaldast.
Vöxturinn hefur verið mestur frá árinu 2011. Á átta ára tímabili hagnaðist Samherji um 112 milljarða króna. Eins og staðan er í dag á Samherji beint 7,1 prósent alls úthlutaðs kvóta á Íslandi. Auk þess á Samherji 44,6 prósent í Síldarvinnslunni og 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent í henni. Samanlagður hlutur Samherja og tengda félagsins í Síldarvinnslunni, sem heldur á 5,3 prósent kvótans, er því 49,9 prósent. Síldarvinnslan á síðan allt hlutafé í Berg-Huginn, sem heldur á 2,3 prósent kvótans, og Útgerðarfélag Akureyrar, sem fær að veiða 1,3 prósent hans, er að öllu leyti í eigu Samherja.
Ef eignarhluti Samherja í Síldarvinnslunni færi yfir 50 prósent, þ.e. ef hann væri 0,11 prósentustigi meiri, myndi kvótaeign Samherja og Síldarvinnslunnar teljast saman og vera 16 prósent. Þar með myndi hún fara þá yfir það 12 prósent hámark sem einstakur aðili má halda á samkvæmt íslenskum lögum. En á meðan að Samherji eignast ekki þetta 0,11 prósentustig í Síldarvinnslunni, þar sem forstjóri Samherja er stjórnarformaður, þá gera stjórnvöld ekki athugasemd við að fyrirtækin fari yfir þau mörk.
Samhliða þessum vexti hefur Samherji breitt úr sér og fjárfest í ýmsum öðrum geirum. Fyrirtækið er til að mynda stærsti eigandi Eimskipa og á meðal stærstu eigenda smásölurisans Haga. Það á auk þess Jarðboranir og var árum saman einn helsti eigandi útgáfufélags Morgunblaðsins. Á þeim árum var Óskar Magnússon, stjórnarmaður í Samherja, titlaður útgefandi blaðsins og lagði línurnar í bæði rekstri og áherslum þess. Samherji seldi hlut sinn í útgáfufélaginu til Eyþórs Arnalds árið 2017 og lánaði honum fyrir kaupunum. Það lán hefur ekki verið endurgreitt.
Það er þó ekki á Íslandi sem mestur vöxtur Samherja hefur verið á undanförnum árum. Sífellt stærri hluti af starfseminni er erlendis, meðal annars í Evrópu. Og í Afríku. Það hefur hins vegar lítið verið talað um þá starfsemi hérlendis af hendi Samherja, þótt hún hafi verið mjög arðbær. Raunar var hún lykilþáttur í þeim ævintýralega auði sem þessi risi í norðri komst yfir á síðustu árum.
Helstu eigendur þessa auðs eru eru frændurnir, Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson, sem hafa saman stýrt Samherja frá því að þeir keyptu það í apríl 1983. Þeir eiga samtals 65,4 prósent í samstæðunni. Helga S. Guðmundsdóttir, fyrrverandi eiginkona Þorsteins Más, á 21,3 prósent, sem féll í hennar hlut þegar þau skildu.
Til viðbótar á félagið Bliki ehf. 11,7 prósent hlut í Samherjasamstæðunni. FramInvest Sp/f er skráð fyrir 27,5 prósenta hlut í Blika. Það félag er skráð í Færeyjum. Þorsteinn Már er helsti skráði stjórnandi þess félags.
Mútur, spilling, skattsvik og peningaþvætti
Á þriðjudag opinberuðu Kveikur og Stundin hvernig viðskiptahættir Samherja í Afríku, nánar tiltekið í Namibíu, á síðustu árum á meðan að fyrirtækið náði undir sig mjög verðmætum hrossamakrílskvóta í landinu. Það var gert með mútugreiðslum til tveggja ráðherra í landinu og annarra manna úr þeirra nánasta hring. Þær námu 1,4 milljarði króna hið minnsta og hófust með því að reiðufé var afhent í íþróttatöskum en tóku svo á sig faglegri mynd og fóru fram í gegnum millifærslur á reikninga í Dúbaí.
Skömmu eftir að Namibía öðlaðist sjálfstæði árið 1990 leituðu stjórnvöld þar til íslenskra ráðamanna til að fá hjálp við að byggja upp sjálfbært sjávarútvegskerfi. Sú hjálp barst í formi þróunaraðstoðar sem kostaði íslenska skattgreiðendur um tvo milljarða króna næstu 20 árin, allt þar til að hún var blásin af árið 2010 vegna stöðu ríkissjóðs í kjölfar hrunsins. Þá hafði tekist að byggja upp fiskveiðistjórnunarkerfi sem átti að skila Namibíu störfum, sjálfbærni og skatttekjum.
Samherji steig á land skömmu eftir að þróunaraðstoðinni var hætt og hóf að ná til sín kvóta, með áðurnefndum leiðum samkvæmt umfjöllun Kveiks og Stundarinnar. Þegar búið var að tryggja réttinn til að veiða fóru veiðarnar sjálfar fram í gegnum stóra verksmiðjutogara og aflinn sjófrystur, sem þýddi að hann fór ekki í landvinnslu og skapaði þar með ekki slík störf.
Í Namibíu er 33 prósent skattur á hagnað og Samherji vildi ekki borga svo mikið. Þess í stað nýtti fyrirtækið sér tvísköttunarsamning við eyjuna Máritíus og flutti hagnaðinn þaðan á lágskattarskjólið Kýpur, þar sem Samherji hefur stofnað tug félaga á undanförnum árum. Frá Kýpur fóru peningarnir svo inn á bankareikning Samherja í norska bankanum DNB, sem er að hluta í eigu norska ríkisins.
Opinberunin á þriðjudag byggði annars vegar á tugþúsundum skjala og tölvupósta sem sýndu viðskiptahættina svart á hvítu, og hins vegar á frásögn Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi verkefnastjóra Samherja í Namibíu, sem játaði á sig fjölmörg lögbrot og sagðist hafa framið þau að undirlagi Þorsteins Más og Aðalsteins Helgasonar, sem var lengi yfir útgerð Samherja í Afríku.
Verið að rannsaka Samherja í þremur löndum
Frá því að ljósi var varpað á athæfi Samherja í Namibíu hefur ansi margt gerst. Greint hefur verið frá því að spillingarlögreglan í Namibíu, og eftir atvikum önnur þarlend yfirvöld, hafi haft fyrirtækið og helstu stjórnendur þess til rannsóknar um nokkurt skeið. Áðurnefndur Jóhannes hefur stöðu uppljóstrara þar samkvæmt lögum og hefur aðstoðað við rannsóknina.
Á Íslandi eru bæði héraðssaksóknari og embætti skattrannsóknarstjóra að rannsaka málið. Umfjöllun Stundarinnar leiddi líka í ljós að hluti þeirra peninga sem Samherji færði inn á reikninga í DNB í Noregi, sem voru meðal annars notaðir til að greiða sjómönnum í Afríku laun, væru frá félagi skráð í skattaskjólinu Marshall-eyjum. DNB lokaði á reikninganna í fyrra vegna þess að hann taldi óvissu um hver væri raunverulegur eigandi félaganna sem nýttu þá og að verið væri að nota þá til að stunda peningaþvætti. Norska efnahagsbrotalögreglan Økokrim er að skoða þennan anga málsins og stjórn DNB hefur farið fram á að fá allar upplýsingar um málið og verða þær lagðar fyrir stjórnarfund hans í dag, 15. nóvember.
Þá er Samherji sjálfur að láta erlenda lögmannsstofu rannsaka málið, en fyrirtækið hefur í yfirlýsingum sem það hefur sent frá sér sagt að Jóhannes hafi einn framið lögbrotin sem hann lýsti. „Þetta eru ekki vinnubrögð sem við könnumst við,“ sagði í einni þeirra.
Umfjöllun Kveiks og Stundarinnar sýndi þó, með vísun í gögn, að Samherji greiddi 260 milljónir króna inn á reikninga þeirra manna sem þáðu mútugreiðslur eftir að Jóhannes lét af störfum árið 2016. Auk þess var Jóhannes einungis með takmarkaða prókúru og gögn málsins, sem Wikileaks hefur gert opinber á netinu, sýna að hinar ætluðu mútugreiðslur voru ekki greiddar af Jóhannesi.
Rannsókn lögmannsstofunnar fyrir Samherja á Samherja heyrir beint undir stjórn Samherja. Í henni sitja fulltrúar eigenda Samherja: Þorsteins Más, Kristjáns og Helgu.
Margháttaðar afleiðingar
Beinar afleiðingar opinberunarinnar hafa líka verið miklar. Innan við sólarhring eftir að Kveiksþættinum lauk voru Bernhardt Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Sacky Shanghala, dómsmálaráðherra landsins, sem báðir voru þiggjendur þess fjár sem Samherji greiddi fyrir aðgengi að kvóta, búnir að segja af sér. Þingkosningar eru fram undan í Namibíu í lok mánaðarins og málið tröllríður nú öllum fjölmiðlum í landinu. Ekki er búist við því að Swapo-flokkurinn, sem hefur verið nær einráður í Namibíu frá því að landið fékk sjálfstæði, missi völdin vegna málsins en viðbúið er að það er að reynast flokknum fara erfitt. Hversu erfitt mun koma í ljós fyrir komandi mánaðamót.
Á Íslandi hefur Þorsteinn Már stigið tímabundið til hliðar sem forstjóri Samherja á meðan að rannsókn fyrirtækisins á eigin athæfi stendur yfir. Það gerði hann í gær, fimmtudag, til að tryggja „sem best hlutleysi rannsóknarinnar.“ Þorsteinn Már sagði í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í gær að hann óttaðist það ekki að fara í fangelsi. Margt ætti eftir að koma í ljós vegna málsins og að honum blöskraði umræðan um Samherja. Þorsteinn Már sagði enn fremur að það sem væri að valda Samherja vandamálum í viðskiptum fyrirtækisins alþjóðlega væru orð Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um að það ætti að kyrrsetja eignir Samherja, ekki umfjöllum um stórfelldar mútugreiðslur til ráðherra í Namibíu sem hafa skilað því að tveir slíkir hafa sagt af sér. Hann sagði það auk þess ekki rétt að fyrirtækið hefði flutt peninga frá Afríku, og stundað skattsvik eða peningaþvætti. Hann neitaði því alfarið, en játti því að „ákveðnar greiðslur“ þyrfti að skoða. Þorsteinn Már var þráspurður í viðtalinu hvort að Samherji hefði greitt mútur í Namibíu en neitaði að svara spurningunni.
Enn er óljóst hversu víðfeðm önnur áhrif af málinu verða. Ljóst er að peningaþvættisrannsóknin í Noregi getur skapað mikil vandræði fyrir Samherja og alþjóðlega starfsemi fyrirtækisins, skili hún þeirri niðurstöðu að fjármunir hafi verið þvættaðir í gegnum norskan ríkisbanka. Auk þess má búast við því að geta Samherja til að komast yfir alþjóðlegan kvóta, t.d. innan Evrópusambandsins, muni takmarkast í ljósi þess að starfsmaður fyrirtækisins hefur lýst stórfelldum mútugreiðslum og skattsvikum þess í Namibíu. Þá telja viðmælendur Kjarnans, sem starfa í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, fyrirsjáanlegt að málið geti haft áhrif á önnur íslensk fyrirtæki alþjóðlega, sérstaklega í sjávarútvegi. Sérstaklega vegna þess að opinberunin á Samherja kom strax í kjölfar þess að Ísland var sett á gráan lista vegna ónógra peningavarna, en það er þegar farið að valda einhverjum íslenskum fyrirtækjum erfiðleikum í samskiptum við viðskiptavini sína.
Við blasir að málið mun valda Íslandi orðsporshnekki alþjóðlega. Það bætist við önnur mál sem hafa verið lituð í spillingarlitum og hafa vakið athygli á Íslandi langt út fyrir landsteinana, svo sem bankahrunið og Panama-skjölin, sem sýndu að aflandsfélagaeign var einhverskonar þjóðaríþrótt hjá ákveðnu lagi fjármagnseigenda á Íslandi.
Á Íslandi er svo almenningur í áfalli og á Alþingi í gær fór fram sérstök umræða um spillingu, sem var sérstaklega sett á dagskrá vegna Samherja.
Lestu meira:
-
2. nóvember 2022BÍ sendir umboðsmanni Alþingis ábendingu vegna máls gegn fjórum blaðamönnum
-
22. júlí 2022Hagnaður Samherja nam 17,8 milljörðum
-
15. júlí 2022„Guð minn góður, af hverju hefði ég átt að fá greiddar mútur?“
-
15. júlí 2022Fitty segir milljónirnar hafa verið ráðgjafagreiðslur frá Samherja
-
20. febrúar 2022Endalausar tilraunir til þöggunar
-
19. febrúar 2022Yfirheyrslum yfir blaðamönnum frestað
-
18. febrúar 2022Ákvæði til að verjast stafrænu kynferðisofbeldi nýtt til að gera blaðamenn að sakborningum
-
15. febrúar 2022Bjarni: „Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu?“
-
15. febrúar 2022Lýsa yfir áhyggjum og undrun yfir því að blaða- og fréttamenn fái stöðu sakborninga vegna starfa sinna
-
14. febrúar 2022Blaðamenn með stöðu sakbornings fyrir að skrifa fréttir um „skæruliðadeild Samherja“