Ef Samherja hefði ekki verið skipt upp í tvö félög í fyrra hefðu tekjur samstæðunnar einungis verið við það að gera hana skylduga til að skila svokallaðri ríki-fyrir-ríki skýrslu til ríkisskattstjóra.
Í slíkum skýrsluskilum felst að veita ríkisskattstjóra upplýsingar um tekjur og skatta í öllum þeim ríkjum þar sem félög innan heildarsamstæðunnar eiga heimilisfesti. Skýrslu sem ætti einnig innihalda lýsingu á atvinnustarfsemi heildarsamstæðunnar í hverju ríki, auk upplýsinga um hvert samstæðufélaga og þá efnahagslegu starfsemi sem félögin hafa með höndum.
Meðal annars á Kýpur og í Namibíu.
Mun meiri upplýsingagjöf
Í maí 2016 undirritaði Ísland samkomulag á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem í fólst að skiptast á upplýsingum um starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna.
Með undirrituninni skuldbatt Ísland sig til að taka upp hérlendis löggjöf um skil á svokölluðu ríki-fyrir-ríki skýrslum í samræmi við marghliða samning þar um. Ákvæðið var síðan fært í lög um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum í október sama ár.
Upphaflega áttu einungis þau íslensku fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi sem voru með meira en 100 milljarða króna heildartekjur innan samstæðu á ári að skila slíkri skýrslu. Þeirri viðmiðunarupphæð var breytt í uppfærðum lögum fyrr á árinu 2019, þegar ákveðið var að hafa hana 750 milljónir evra, enda gera fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi almennt ekki upp í íslenskum krónum.
Þau fyrirtæki sem þurfa að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu þurfa meðal annars að gera skattayfirvöldum grein fyrir fjárhæð hagnaðar fyrir tekjuskatt, hversu mikinn tekjuskatt þau hafa greitt í hverju landi fyrir sig, hvaða skráðu hlutabréf þau eiga, hvert óráðstafað eigið fé þeirra er hvar sem er í heiminum. Þetta eru mun meiri upplýsingar en íslensk fyrirtæki þurfa vanalega að gefa yfirvöldum hér á landi, og í öðrum löndum sem þau starfa. Í raun snýst skýrslugerðin um að gefa skattayfirvöldum í heimaríki viðkomandi fyrirtækis yfirsýn yfir heildarstarfsemi samstæðu þeirra.
Samherji rétt við viðmiðunarmörkum
Fljótt á litið virðast ekki mörg íslensk fyrirtæki vera með svo miklar tekjur að þau þurfi að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu. Marel þarf að gera það fyrir árið 2018 en Össur, hitt stóra alþjóðlega hugvitsfyrirtækið sem hefur höfuðstöðvar á Íslandi, er ekki með nægilega miklar tekjur til að fara yfir mörkin, hvorki þau gömlu né þau nýju. Það er flutningsfyrirtækið Eimskip ekki heldur, en þessi tvö eru þó ekki langt frá viðmiðunarmörkunum þegar kemur að veltu.
Eitt annað fyrirtæki gæti þó hafa verið skilgreint sem nægilega stórt, í nánustu framtíð hið minnsta, til að þurfa að skila slíkri yfirlitsskýrslu um alla starfsemi sína, og allar skattgreiðslur sínar, út um allan heim. Það fyrirtæki er Samherji.
Á árinu 2018 var sameiginleg velta tveggja fyrirtækja Samherja-samstæðunnar, Samherja hf. og Samherja Holding, 751 milljónir evra, 100 milljarðar króna miðað við uppgjörsgengi en 102,4 milljarðar króna miðað við gengi dagsins í dag. Miðað við gömlu viðmiðunarmörkin hefði Samherjasamstæðan verið rétt við þau í lok síðasta árs ef hún hefði verið skilgreind sem ein eining.
Samkvæmt athugasemd frá Samherja hefði tekjum vegna sölu eigna milli stoðanna tveggja verið eytt ef samstæðunni hefði ekki verið skipt upp og telur Samherji að það afi átt að leiða til þess að 107 milljónir evra ættu að dragast frá tekjum. Þær hefðu þar af leiðandi orðið 644,3 milljónir evra.
Í ljósi þess að rekstur Samherja hefur vaxið ár frá ári undanfarin ár var ljóst að ef samstæðan héldi áfram að vaxa þá myndi hún fara yfir viðmiðunarmörkin á árinu 2019, ef ofangreind tala yrði ekki dregin frá. Sem dæmi uxu tekjur Samherja-samstæðunnar um rúmlega 20 prósent milli áranna 2017 og 2018. Ef sá vöxtur hefði haldið áfram í ár væru tekjurnar komnar vel yfir 750 milljónir evra.
Samstæðunni skipt upp
Í fyrra gerðist það hins vegar að Samherja var skipt upp í tvö fyrirtæki. Það var samþykkt 11. maí 2018 á hluthafafundi og skiptingin látin miða við 30. september 2017.
Eftir það er þorri innlendrar starfsemi Samherja og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum undir hatti Samherja hf. en önnur erlend starfsemi og hluti af fjárfestingarstarfsemi á Íslandi í félaginu Samherji Holding ehf. Á meðal þeirra eigna sem færðar voru þangað yfir voru eignarhlutir Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi. Inni í þeim hluta er líka fjárfestingafélagið Sæból, sem hét áður Polar Seafood. Það félag á tvö dótturfélög, Esju Shipping Ltd. og Esju Seafood Ltd. sem bæði eru með heimilisfesti á Kýpur. Þau félög halda meðal annars utan um veiðar Samherja í Namibíu, þar sem samstæðan og stjórnendur hennar eru nú grunaðir um að hafa greitt mútur til að komast yfir ódýran kvóta. Auk þess er uppi rökstuddur grunur, eftir ítarlega opinberum Kveiks og Stundarinnar, um að Samherji hafi stundað umfangsmikla skattasniðgöngu í gegnum Kýpur og aflandsfélög og peningaþvætti á fjármagni sem endaði inn á reikningum norska bankans DNB.
Með því að skipta upp Samherja í tvær einingar þá var hægt að halda því fram að samstæðan þyrfti ekki að skila áðurnefndum ríki-fyrir-ríki skýrslum, að minnsta kosti fyrir árið 2018. Þarna væru tvö sjálfstæð fyrirtæki, bæði með veltu sem væru langt undir viðmiðunarmörkum eftir uppskiptinguna, þótt eignarhaldið á þeim væri hið sama og meginstarfsemi beggja sjávarútvegur.
Þar með var hægt að tryggja að Samherji þyrfti ekki að skila skila ríkisskattstjóra skýrslu með upplýsingum um tekjur og skatta í öllum þeim ríkjum þar sem félög innan heildarsamstæðunnar eiga heimilisfesti. Skýrslu sem ætti einnig innihalda lýsingu á atvinnustarfsemi heildarsamstæðunnar í hverju ríki, auk upplýsinga um hvert samstæðufélaga og þá efnahagslegu starfsemi sem félögin hafa með höndum.
Síldarvinnslan ekki skilgreind sem hluti af samstæðunni
Þá er vert að benda á að velta Síldarvinnslunnar er ekki færð sýnilega inn í samstæðureikning Samherja, heldur virðist það einungis eiga við um hlutdeild Samherja í hagnaði hennar, samkvæmt ársreikningi. Það er gert í ljósi þess að Síldarvinnslan er skilgreint sem hlutdeildarfélag, en ekki hluti af Samherjasamstæðunni í bókhaldi hennar. Vert er þó að taka fram að Ice Fresh Seafood ehf., félag í eigu Samherja, selur vörur fyrir Síldarvinnsluna og er sú vörusala hluti af liðnum „seldar vörur og þjónusta“ í reikningi Samherja.
Kjarninn greindi frá því í gær að í glærukynningum Samherja, sem eru hluti af þeim gögnum sem Wikileaks hefur birt á netinu og eru rækilega merktar trúnaðarmál, má skýrt sjá að erlendis hefur Síldarvinnslan kynnt sem hluti af Samherjasamstæðunni, eða Samherja Group eins og hún er þar kölluð.
Ef velta Síldarvinnslunnar væri talin með í veltu Samherjasamstæðunnar myndi hún fara upp um 201 milljón Bandaríkjadali á árinu 2018, og fara langt yfir viðmiðunarmörkin sem sett eru fyrir því að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu. Þess í stað voru bókfærð rekstraráhrif Síldarvinnslunnar á rekstur Samherja 12,4 milljónir evra, eða bein hlutdeild Samherja í hagnaði hennar.
Undir kvótaþakinu
Á Íslandi hefur því ætið verið haldið fram að Samherji og Síldarvinnslan séu ekki tengdir aðilar, þrátt fyrir að Samherji og tengdir aðilar eigi alls 49,9 prósent í Síldarvinnslunni og að Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, hafi verið stjórnarformaður Síldarvinnslunnar þangað til á mánudag, þegar hann steig tímabundið til hliðar úr þeim stóli. Eignarhaldið er með þeim hætti að Samherji á beint 44,6 prósent í Síldarvinnslunni en auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, á 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni.
Sú skilgreining gerir það meðal annars að verkum að Samherji og Síldarvinnslan fara ekki yfir lögbundið hámarksþak á kvótaeign, en saman eiga fyrirtækin og aðrir kvótahafar í þeirra eigu, rúmlega 16,6 prósent af kvóta. Lög um stjórn fiskveiða heimila tengdum aðilum einungis að eiga mest 12 prósent, til að koma í veg fyrir samþjöppun í greininni.
Sérstök verkefnisstjórn vinnur nú að því að koma með tillögur um taka á þeirri stöðu sem er uppi hvað varðar eftirlit með kvótasamþjöppun. Skilum nefndarinnar hefur verið flýtt vegna Samherjamálsins og á hún nú að leggja fram tillögur fyrir lok þessa árs.
Álfyrirtækin og Dressmann þurfa að skila
upplýsingaskiptin sem felast í ríki-fyrir-ríki skýrslunum virka ekki einungis þannig að fyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi þurfi að fylla út slíka skýrslu fyrir innlend skattayfirvöld og önnur þar sem þau eru með starfsemi, heldur þurfa erlend stórfyrirtæki sem eru með starfsemi á Íslandi en höfuðstöðvar annars staðar líka að skila inn slíkum skýrslum til íslenskra stjórnvalda.
Þar er til dæmis um að ræða álfyrirtækin sem eru með starfsemi hérlendis og norska herrafatakeðjan Dressmann, sem er stærsta verslunarkeðja með herraföt á Norðurlöndum ,og rekur meðal annars verslanir á Íslandi.
Leiðrétting klukkan 18:03:
Fréttaskýringin hefur verið uppfærð eftir að athugasemdir bárust frá Samherja um að sameiginleg velta Samherja hf. og Samherja Holding hafi í raun verið 751 milljón evra, ekki 737,4 milljónir evra á síðasta ári. Samherji telur einnig að ef samstæðan hefði ekki verið brotin upp hefði átt að draga sölu eigna milli stoðana frá tekjum og þær lækka um 107 milljónir evra. Auk þess heldur Samherji því fram að velta frá Síldarvinnslunni komi fram í gegnum liðin „seldar vörur og þjónustu“ í ársreikningi Samherja hf. vegna þess að dótturfélagið Ice Fresh Seafood sjái um sölu fyrir Síldarvinnsluna. Ógjörningur er hins vegar að sjá hversu stór hluti þess liðar er vegna Síldarvinnslunnar. Beðist er velvirðingar á ónákvæmni.
Lestu meira:
-
9. mars 2021Samherji sagður hafa greitt laun í Færeyjum til að komast hjá skattgreiðslum í Namibíu
-
9. mars 2021Þorsteinn Már kærir Jóhannes uppljóstrara til lögreglu fyrir rangar sakargiftir
-
8. mars 2021Íslenskir rannsakendur hafa aflað upplýsinga um þrjú félög tengd Samherja í Færeyjum
-
27. febrúar 2021Samherji Holding hefur enn ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2019
-
8. febrúar 2021Gagnaöflun skattrannsóknarstjóra um rekstur félags í Belís talin lögmæt
-
6. febrúar 2021Héraðssaksóknari fékk bókhald Samherjasamstæðunnar með dómsúrskurði
-
31. desember 2020Árið þar sem allar alvöru tilraunir til að breyta sjávarútvegskerfinu voru kæfðar
-
14. desember 2020Réttarhöld í Samherjamálinu í Namíbíu hefjast í apríl
-
14. desember 2020Samherji segir James Hatuikulipi hafa sent Jóni Óttari póst um leynireikninga, ekki öfugt
-
13. desember 2020Raunveruleg ástæða þess að norskur stórbanki sagði upp viðskiptum við Samherja