Mynd: Newscolony.com

2020 fram að kórónufaraldri: Hildur Guðnadóttir sigraði heiminn

Í febrúar varð hin íslenska Hildur Guðnadóttir fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskarsverðlaun. Hún varð um leið þriðja konan til að vinna verðlaunin fyrir kvikmyndatónlist. Í þakkarræðu sinni hvatti hún konur til að hefja upp raust sína.

Hildur Guðna­dóttir tón­skáld skráði nafn sitt á spjöld sög­unnar aðfara­nótt 10. febr­úar þegar hún hlaut Ósk­arsverð­launin fyrir kvik­mynda­tón­list í Joker. Þessi mik­ils­virtu verð­laun voru þó ein­ungis topp­ur­inn á ísjak­anum þar sem hún hafði áður hlotið Emmy verð­­laun, Grammy verð­­laun, Golden Globe og BAFTA verð­­launin fyrir tón­list­ina í Joker og tón­list­ina í Cherno­­byl þátt­un­um, sem hún samdi einnig.

Orð Hildar sem hún flutti í þakk­ar­ræðu sinni hljóm­uðu í kjöl­farið um allan heim: „Til stúlkn­anna, kvenn­anna, mæðr­anna og dætr­anna sem heyra tón­ana krauma innra með sér – hækkið róminn! Við þurfum að heyra raddir ykk­ar.“

Hildur er þriðja konan til að vinna þessi verð­laun og sú fyrsta síðan árið 1997. Því eiga þessi orð hennar vel við núna.

Auglýsing

Í þakk­­ar­ræðu sinni sagð­ist hún jafn­framt elska fjöl­­skyldu sína og þakk­aði af auð­­mýkt fyrir stuðn­­ing­inn. Hún þakk­aði eig­in­­manni sín­um, syni og mömmu. Þá þakk­aði hún einnig keppi­­nautum sem til­­­nefndir voru, og aðstand­endum The Joker.

Hildur er fædd 4. sept­­em­ber 1982 og alin upp í Hafn­­ar­­firði. Hún hefur frá ung­l­ings­árum verið áber­andi í íslenskri tón­list, og var meðal ann­­ars í hljóm­­sveit­unum Woofer, Rúnk, Múm og Stór­­sveit Nix Noltes. Hún hefur gefið út fjórar sól­ó­­plöt­­ur, en hefur ein­beitt sér að tón­­smíðum fyrir kvik­­myndir og þætti und­an­farin mis­s­er­i.

„Ímynd­aði mér hvernig það væri að vera hann“

Í fyrsta við­tal­inu eftir að hún hlaut verð­launin var hún spurð út í það hver hennar helsti inn­blástur hefði verið þegar hún samdi tón­list­ina við Jóker­inn og hvaða leynd­ar­mál lægi að baki. Hildur sagð­ist telja að nauð­syn­legt væri að líta bak­við sög­una, að hella sér út í hana og finna út hvað héldi henni uppi. „Og reyna að sjá hvernig sagan sjálf vill að hún heyr­ist. Í þessu til­felli þá var sagan um þennan eina mann sem gekk í gegnum óbæri­legt ferða­lag. Ég reyndi eins og ég gat að ímynda mér hvernig það væri að vera hann og hvernig það myndi hljóma. Það var minn helsti inn­blást­ur,“ sagði hún.

Hún var einnig spurð hvort hún hefði tekið eftir því þegar hinir ýmsu aðilar – mik­il­vægir aðilar í brans­anum – stóðu upp fyrir henni þegar hún hlaut verð­laun­in. „Já, ég sá það. Veistu, þetta er tryllt augna­blik. Ég heyri nafnið mitt og bregður smá. Ég geng upp að svið­inu og hugsa með mér að ég geti gert þetta. „Ég get þetta. Ég get þetta.“ Og þegar ég var komin á sviðið sá ég að margir höfðu staðið upp og það kom mér svaka­lega á óvart.“

Phoenix varð fyrir miklum áhrifum frá tón­list­inni

Þá var Hildur spurð út í frægan dans leik­ar­ans Joaquin Phoenix í kvik­mynd­inni Joker en hann hefur greint frá því í við­tölum að hann hafi orðið fyrir miklum áhrifum frá tón­list­inni hennar Hildar og að per­sónan hafi orðið til eftir að hann heyrði tón­list­ina. Hildur sagði að dans­inn hefði verið töfr­andi. „Ég samdi mikið af tón­list­inni áður en tökur hófust og þau not­uðu tón­list­ina á töku­stað. Tón­listin var inn­blástur fyrir leik Joaquin,“ sagði hún og bætti því við að hún hefði ekki gert sér grein fyrir því að verk­lagið ætti að vera þannig.

Hildur ræddi einnig hvernig það væri að ganga í gegnum þetta ferða­lag – og þá sér­stak­lega sem kona. „Þetta hefur verið áhuga­verð reynsla fyrir mig, á meðan ég hef verið að ganga í gegnum þetta ferða­lag en ég gef verið fyrsta konan til að vinna sum af þessum verð­laun­um. Þetta hefur vakið marga til með­vit­undar að ekki sé jafn­vægi í hlut­un­um.“ Þá á hún við hversu karllægur þessi geiri hefur verið í gegnum öll þessi ár. Hún segir að það hafi verið henni mik­ill heiður að taka þátt í þessu sam­tali sem nú á sér stað í kjöl­far þess­ara verð­launa sem hún hefur hlotið á síð­ustu miss­er­um.

Að lokum var hún spurð hvort hún hygð­ist flytja til Los Ang­eles en hún býr nú í Berlín í Þýska­landi. Hildur hló og sagði að það væri heldur sól­ríkt fyrir hana þar svo flutn­ingar eru greini­lega ekki á teikni­borð­inu hjá þessum mikla lista­manni.

„Því­lík ræða og hvatn­ing til stúlkna, kvenna, mæðra og dætra“

Sam­fé­lags­miðlar log­uðu eftir að frétt­irnar um sigur Hildar bár­ust og lands­menn ósk­uðu henni, hver af öðrum, til ham­ingju með þennan merka áfanga. Jafn­framt tjáðu æðstu stjórn­mála­menn sig um mál­ið.

Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra óskaði Hildi til ham­ingju með þennan ótrú­lega árangur og hvatn­ingu til kvenna um allan heim.

Lilja Alfreðs­dóttir mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra sendi Hildi kveðju á Face­book. „Hún sigr­aði og fyrstu íslensku Ósk­arsverð­laun­in! Því­lík ræða og hvatn­ing til stúlkna, kvenna, mæðra, dætra! Í nótt skrif­aði kona, mik­il­vægan hluta af íslenskri menn­ing­ar­sögu. Þetta er fyrst og fremst per­sónu­legt afrek! Ing­veldur Guð­rún Ólafs­dótt­ir, móðir Hild­ar, lýsir dóttur sinni á eft­ir­far­andi hátt: „Hún hefur alltaf verið gríð­ar­lega mark­viss, stefnu­föst, sjálf­stæð og gríð­ar­lega vinnu­söm þannig að þessi mikla vel­gengni kemur mér því ekki á óvart.“

Maður upp­sker eins og maður sáir. Nú fylgj­umst við öll með og sam­gleðj­umst af öllu hjarta. Eitt það skemmti­leg­asta sem ráð­herra fær að gera er að óska afreks­fólki til ham­ingju með góðan árang­ur. Það er óhætt að segja að Hildur Guðna­dóttir hafi haldið mér upp­tek­inni und­an­farnar vik­ur! Hildur er frá­bær fyr­ir­mynd fyrir alla ungu Íslend­ing­ana sem dreymir um að ná langt á sínu sviði. Til ham­ingju enn og aftur kæra Hildur og takk fyrir tón­list­ina!“ skrif­aði Lilja.

Amma fyrsti kven­pró­fess­or­inn

Hildur er ekki fyrsta konan í fjöl­skyldu sinni til að þess að rita nafn sitt í íslenskar sögu­bækur en þess má geta að Hildur er barna­barn Dr. Mar­grétar Guðna­dótt­ur. Hún varð fyrsta konan til að hljóta pró­fess­ors­emb­ætti við Háskóla Íslands, þá 39 ára að aldri. 

Skjáskot/Tímarit.is

Hún tók við emb­ætt­inu þann 1. júlí árið 1969 og í sam­tali við Vísi fyrr um sum­arið sagð­ist hún varla vera búin að átta sig á ráðn­ing­unni. Hún lauk prófi í lækn­is­fræði frá HÍ árið 1956 og stund­aði síðan fram­halds­nám í veru­fræði í Banda­ríkj­un­um. Hún var sér­fræð­ingur í meina­fræði við Til­rauna­stöð­ina að Keldum og kenndi við lækna­deild HÍ.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar