Deilur um peninga koma í veg fyrir að Bræðraborgarstígur 1 verði rifinn
Félagið sem á Bræðraborgarstíg 1 sættir sig ekki við mat VÍS á tjóninu sem bruni þess olli. Það vill hærri fjárhæð frá tryggingafélaginu. Nokkur ár gætu liðið þar til að rústirnar verði rifnar. Lögmaður þess segir að ef borgin rífi húsið, og spilli þar með sönnunargögnum í bótamálinu, muni HD verk sækja bætur til borgarinnar. „Borgin verður þá bara að borga,“ segir hann.
HD verk ehf. er félag sem á nokkrar fasteignir. Meginstarfsemi þess felst í því að reka þær fasteignir. Hafa af þeim tekjur vegna útleigu. Eigandi félagsins er Kristinn Jón Gíslason.
Eignir félagsins voru metnar á 1,3 milljarða króna um síðustu áramót og eigið fé HD verks var þá bókfært á 137 milljónir króna. Tekjur af starfseminni námu 101 milljón króna á árinu 2019, samkvæmt ársreikningi, og jukust lítillega á milli ára. Um 30 milljón króna tap var á rekstrinum á síðasta ári, aðallega vegna mikils vaxtakostnaðar, en félagið skuldar hátt í 1,2 milljarða króna. Stærstur hluti þeirra skulda er við lánastofnanir.
Stærstur hluti eigna HD verks eru fimm fasteignir. Ein þeirra er Bræðraborgarstígur 1, sem brann í sumar. Auk þess á félagið Bræðraborgarstíg 3 í Reykjavík, Dalveg 24 og 26, Kársnesbraut 96a og Hjallabrekku 1 í Kópavogi. Virði fasteignanna var endurmetið á síðasta ári í samræmi við gildandi fasteignamat þeirra. Við það sérstaka endurmat hækkaði virði þeirra um 500 milljónir króna og var það bókfært á 1.218 milljónir króna um síðustu áramót.
Brunabótamat þeirra fasteigna sem HD verk á var 1.276 milljónir króna í lok árs 2019. Þar af var brunabótamatið á Bræðraborgarstíg 1 alls 155,8 milljónir króna.
Buðu 109 milljónir
VÍS, tryggingafélag HD verks, gerði matsgerð á tjóni félagsins í sumar þegar Bræðraborgarstígur 1 brann. Hún er dagsett rúmum tveimur vikum eftir brunann, eða 10. júlí 2020.
Tjónamatsmatsmenn tryggingafélagsins komust þar að þeirri niðurstöðu að húsið sé ekki allt ónýtt. Í matsgerðinni segir: „Matsmenn líta svo á að yfirbygging hússins frá 1906 sé það mikið skemmd af eldi, hita og vatni að ekki verið við gert. Þeir lýsa þó þeirri skoðun að gólfplata og undirstöður hússins séu alls óskemmdar af eldi og hita og meta því þann hluta heilan, ásamt lögnum í grunni. Húsið frá 1944 er verulega sótað á neðri hæðinni, en þar þarf að taka niður létta veggi og lausar innréttingar en burðarvirki er óskemmt af eldi og hita. Hluti lagnakerfis er óskemmdur af eldi og hita og er því ekki metinn skemmdur af brunanum. Skemmdir efri hæðar hússins frá 1944 eru að stærstum hluta af sóti, en þar er gert ráð fyrir að klæðningar og innréttingar verði að hluta til endurnýjaðar.“
Niðurstaðan sé sú að eldurinn hafi skemmt 70 prósent af byggingunni, en að 30 prósent hennar sé enn heilt. Því vill VÍS meina að greiða eigi út 70 prósent af brunabótamati og bauð eiganda HD verks alls 109 milljónir króna í greiðslu vegna tjóns, rifs og hreinsunar.
Borgin bregst við
Þrátt fyrir að tryggingafélagið hafi metið tjónið hratt, og skilað áðurnefndri matsgerð, þá hefur vinna við að rífa Bræðraborgarstíg 1 ekki hafist, tæpum fimm mánuðum eftir að húsið brann.
Þann 27. október síðastliðinn, í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um stöðu niðurrifs á húsinu, brást embætti byggingarfulltrúa í Reykjavík við og sendi bréf á eiganda hússins. Í bréfinu kemur fram að húsið sé í „mjög slæmu ástandi eftir brunann og er verulegt lýti á umhverfinu og skapar hættu fyrir nágranna m.a. vegna mögulegs foks úr rústunum.“
Þar skrifaði byggingarfulltrúinn, Nikulás Úlfar Másson, að eigandinn hefði 30 daga til að sækja um niðurrif á húsinu frá útgáfu bréfsins. Verði hann ekki við því gæti embætti byggingarfulltrúa ráðist í úrbætur á kostnað eigenda eða beitt hann dagsettum. Eiganda HD verks voru gefnir 15 dagar til að svara erindinu. Það svar barst 8. nóvember.
Vilja hærri fjárhæð frá VÍS
Í bréfi lögmanns HD verks til borgarinnar, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir m.a.: „Í stuttu máli þá hefur umbj. minn, að svo stöddu, ekki tekið ákvörðun um niðurrif hússins. Ástæða þess er að ágreiningur er milli umbj. míns og Vátryggingarfélags Íslands (VÍS), er brunatryggði húsið, um umfang tjóns og bætur fyrir það tjón sem orðið hefur. Fulltrúar VÍS hafa skoðað tjónið og lagt mat á það fyrir sína hönd, sbr. fskj. nr. 3. Umbj. minn hefur margvíslegar athugasemdir gert við þetta tjónamat VÍS, sem telja verður að sé augljóslega ekki unnið í samræmi við þá vátryggingu sem í gildi var um eignina (Lögbundna brunatryggingu) á tjónsdegi.“
Með öðrum orðum þá er eigandi HD verks ósáttur við þá upphæð sem VÍS er tilbúið að greiða honum vegna brunans. Hann telur hlutföllun tjónsins miðað við vátryggingarfjárhæð – að 70 prósent hússins hafi eyðilagst vegna brunans en að 30 prósent sé ekki ónýtt vegna hans – ekki vera í nokkru samræði við „raunverulegt tjón og þá raunverulegan kostnað við endurbyggingu hússins auk hreinsunar. Bent er sérstaklega á að vátryggingarfjárhæðin sem slík er engin mælikvarði á tjónið sjálft eða raunverulegan kostnað við endurbyggingu og hreinsun, heldur segir vátryggingarfjárhæðin einungis til um hvert hámark bóta getur verið.“
Málið á leið fyrir dómstóla
HD verk segist hafa reynt að ná samningum við VÍS um málið og að lokatilraun til þess hafi verið gerð þriðjudaginn 3. nóvember síðastliðinn. Á þeim fundi hafi HD verk boðist til að gefa eftir hluta af kröfu sinni gegn því að VÍS samþykkti að greiða það sem HD verk telur „eðlilegar og sanngjarnar bætur fyrir það tjón sem orðið hefur“.
VÍS hafnaði því að endurskoða afstöðu sína og samkvæmt bréfi lögmanns HD verks til borgarinnar þá vill VÍS fremur láta reyna á málið fyrir dómi en að semja á þeim nótum.
Því ætlar HD verk að stefna VÍS og krefjast fullra bóta. Í bréfi lögmanns HD verks segir að í ljósi þess verði ekki unnt að rífa og fjarlægja brunarústirnar sem enn standa að Bræðraborgarstíg 1 „fyrr en niðurstaða dómstóla liggur fyrir varðandi þann ágreining.“ Þær séu einfaldlega sönnunargagn í málinu og nauðsynlegt sem slíkt til að sýna fram á tjón HD verks.
Fyrirliggjandi er að slíkur málarekstur geti staðið í nokkur ár.
Borgin gæti verið krafin um bætur
Lögmaður HD verks, Skúli Sveinsson, staðfestir þann skilning. Hann segir í samtali við Kjarnann að húsið verði ekki rifið á næstu mánuðum. „Við vonumst til þess að þetta gerist á næstu árum.“
Aðspurður hvað gerist ef byggingarfulltrúi Reykjavíkur bregðist við þeirri afstöðu með því að rífa einfaldlega húsið segir Skúli að því verði þá mótmælt. „Ef byggingarfulltrúi rífur húsið og eyðileggur sönnunargögnin okkar þá munum við bara krefja borgina um bætur. Mismuninn á því sem VÍS telur sér skylt að borga og því sem við teljum tjónið vera. Borgin verður þá bara að borga mismuninn, ef þeir vilja fjarlægja húsið.“
Umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg
Lestu meira:
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð
-
26. apríl 2021„Ég man allt saman. Þó að ég hafi verið veikur“
-
25. apríl 2021Eitt stærsta manndrápsmál sögunnar loks fyrir dóm
-
26. mars 2021Kjarninn vann Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg
-
20. mars 2021Bruninn á Bræðraborgarstíg: Græðgin æðri mennskunni og reisn allra
-
19. mars 2021Kjarninn tilnefndur til verðlauna fyrir umfjöllun um Bræðraborgarstígsbrunann