Vildu bæta við hæð, byggja á milli og gera bílakjallara
Eigendur Bræðraborgarstígs 1 hafa á síðustu árum borið ýmsar tillögur að breytingum á húsinu undir borgina. Neikvætt var tekið í þær allar en engu að síður hafði notkun þess verið breytt er í því var kveikt í sumar. Nágrannar höfðu margoft kvartað vegna hússins. Árið 2015 sögðu yfirvöld heimildir skorta til að skoða íbúðarhús. Fimm árum síðar skortir þær enn.
Húsið að Bræðraborgarstíg 1, sem brann í júní í sumar, var byggt árið 1906 og sökum aldurs fellur það undir ákvæði um friðun. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á því í tímans rás og „sumar miður smekklegar“ að mati Minjastofnunar. Á árunum 1929 til 1964 samþykktu yfirvöld meðal annars stækkun og breytingu á útliti þess hluta sem snýr að Vesturgötu og að gluggum yrði fjölgað og þeir stækkaðir. Þá var kvistum á risinu breytt, svo dæmi séu tekin.
Síðasta breytingin sem samþykkt var af byggingarfulltrúa Reykjavíkur var gerð árið 2000 er verslunarhúsnæði jarðhæðarinnar, sem á árum áður hýsti vinsælt bakarí, var breytt í dagvistunarrými fyrir börn. Nokkru síðar var þar opnaður einkarekinn leikskóli, Leikskólinn 101. Árið 2013 komu fram ásakanir um harðræði starfsfólks gegn börnunum og leikskólanum var lokað. Málið var síðar fellt niður þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellingar. En leikskólinn var ekki opnaður á ný.
Þó að breytingin árið 2000 sé sú síðasta sem byggingarfulltrúi samþykkti hafa eigendur hússins haft hug á mörgum öðrum síðan þá. Borgaryfirvöld hafa hins vegar hafnað þeim hugmyndum öllum.
Árið 2010 átti fyrirtækið HVH Verk ehf. bæði Bræðraborgarstíg 1 og 3. Fyrirtækið fékk það ár leyfi til að breyta hluta hússins við Bræðraborgarstíg 3 í gistiheimili. Í desember 2013, skömmu eftir að leikskólanum var lokað, sendi nýr eigandi húsanna, HD Verk ehf., fyrirspurn til yfirvalda um að breyta notkun jarðhæðar Bræðraborgarstígs 1 og innrétta þar gistiheimili með sjö herbergjum og gistiaðstöðu fyrir fjórtán gesti. Fyrirspurnin var tekin fyrir hjá umhverfis- og skipulagsráði í byrjun árs 2014 en var hafnað með vísan til álits skipulagsfulltrúa sem taldi áformin ekki falla að skipulagi svæðisins.
Fíngert byggðamynstur
Haustið 2019 var sóst eftir því að sameina lóðir 1 og 3 við Bræðraborgarstíg, hækka húsin um eina hæð og byggja í opin rými á milli sem og bílakjallara undir hluta garðsins. Aukning á byggingarmagni var af lóðarhafa metin um 600 til 800 fermetrar auk bílageymslunnar. „Þar sem vöntun er á bílastæðum í hverfinu væri kjörið að útbúa nettan bílakjallara neðanjarðar undir hluta garðrýmis,“ sagði í fyrirspurn eigandans.
Í umsögn skipulagsfulltrúa var m.a. vísað til þess að húsin væru innan svæðis sem nyti verndar vegna fíngerðs byggðamynsturs. Ekki væri fallist á svo umfangsmikla stækkun og ekki heldur á sameiningu lóða og hugmyndir um bílakjallara „enda myndi hann hafa meiri háttar röskun í för með með sér og neikvæð áhrif á götumynd“.
Í maí síðastliðnum bárust skipulagsyfirvöldum svo enn á ný fyrirspurnir og nú í þremur liðum: Um að innrétta litlar íbúðir á 1. hæð hússins við Bræðraborgarstíg 1, um byggingu vinnustofa á 1. hæð í garðinum við Bræðraborgarstíg 3 og um uppbyggingu milli húsanna tveggja. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsfulltrúa 12. júní og vísað til verkefnisstjóra. Tæpum tveimur vikum síðar brann Bræðraborgarstígur 1 og þrjár manneskjur, sem allar bjuggu á rishæðinni, létust. Fyrirspurn um breytingar á húsi nr. 3 fékk neikvæða afgreiðslu á fundi skipulagsfulltrúa 14. ágúst en fyrirspurnir um breytingar á Bræðraborgarstíg 1 og uppbyggingu á milli lóðanna voru dregnar til baka.
Leigjendurnir hræddir
Síðustu ár hafa nágrannar haft áhyggjur af húsinu og íbúum þess og margsinnis vakið athygli borgaryfirvalda á því. Við þeim hefur verið brugðist með kröfubréfum og eftirlitsferðum en bæði heilbrigðiseftirlit og byggingarfulltrúi segjast takmarkaðar heimildir hafa til skoðunar á íbúðarhúsnæði án dómsúrskurðar sem ekki þótti tilefni til, í tilviki Bræðraborgarstígs 1, að fá.
Þá hefur einnig verið bent á aðstæður í húsinu í fjölmiðlum síðustu ár. Í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar um einmitt þetta hús árið 2015 sagði deildarstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að lítið væri hægt að gera nema að ósk leigjenda. Leigjenda sem hann sagðist hafa heyrt að væru hræddir við að gera það af ótta við að missa húsnæðið.
Árið 2016 barst Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur (HER) fyrirspurn frá nágranna sem lýsti áhyggjum af viðhaldi hússins og taldi að verið væri að breyta því í gistiheimili. HER upplýsti að það hefði engar upplýsingar um starfsemi í húsinu né hefðu umsóknir um slíkt borist. HER þyrfti beiðni frá íbúum/umráðamönnum til að geta skoðað aðstæður inni. Í maí 2017 barst svo kvörtun frá nágranna sem lýsti áhyggjum af viðhaldi hússins og að þar byggi margt fólk. Í svarinu voru ítrekaðar fyrri leiðbeiningar um að íbúi/ar þurfi að biðja um skoðun til að HER sé heimilt að skoða húsið að innan. Einnig var nágranninn upplýstur um að leyfi fyrir gististað væri ekki fyrir hendi í húsinu né fyrir annarri starfsleyfisskyldri starfsemi.
Árið 2019: Kvartanir hrúgast inn
Á nokkurra mánaða tímabili í fyrra bárust svo margar kvartanir vegna Bræðraborgarstígs 1, sú fyrsta í apríl vegna slæmrar umgengni og rusls á lóðinni. Nokkrum dögum síðar bárust tvær kvartanir til viðbótar um sama efni. Starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins staðfestu efni kvartananna og upphófst langdregið ferli með kröfubréfum á eiganda hússins og eftirlitsferðum á vettvang. Rafgeymar voru m.a. geymdir á lóðinni, ruslatunnur voru yfirfullar og í eitt skipti sem starfsmenn HER komu í eftirfylgni var kominn byggingarúrgangur á lóðina.
Í lok júní sendi HER eigandanum enn eitt bréfið með lokafresti til að hreinsa lóðina en að öðrum kosti yrði það gert á hans kostnað. Enn ein kvörtunin átti eftir að berast áður en lóðin var hreinsuð að fullu. Málinu lauk svo með bréfi frá lögmanni HD verks í lok ágúst. Ekki bárust kvartanir til Heilbrigðiseftirlitsins eftir það né beiðnir frá íbúum um skoðun á húsnæðinu.
Heimildir til að bregðast við kvörtunum sem þessum eru bundnar í lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ef ekki gengur að fá úrbætur er hægt að beita dagsektum og stöðva starfsemi eða notkun ef alvarleg hætta er talin stafa af. „Ekki kom til þess er varðar Bræðraborgarstíg 1 og aðkomu HER,“ segir í skriflegu svari Heilbrigðiseftirlitsins við fyrirspurn Kjarnans.
Tvær kvartanir vegna hússins hafa borist byggingarfulltrúa Reykjavíkur á síðustu árum. Fyrir um fjórum árum gerði hann athugasemd í kjölfar kvörtunar við að forskalning á öðrum gafli þess væri laus. Í apríl í fyrra barst svo kvörtun frá nágrönnum sem töldu sig í hættu vegna hússins. Í henni kom fram að rigningarvatn læki inn með gluggum, að klæðning væri dottin af að hluta, þakskegg lekt og rennur brotnar. Nágrannarnir óttuðust að þetta hefði eldhættu í för með sér vegna raflagna inni í veggjum hússins.
Við þessari kvörtun var ekki brugðist. Byggingarfulltrúi hefur ekki heimild til að fara inn í íbúðarhús og kanna aðstæður án samþykkis húsráðenda nema með dómsúrskurði. Á það úrræði hefur aldrei verið látið reyna og þótti ekki tilefni til þess í þessu tilviki.
Ólöglegt að breyta notkun húsnæðis
Þrátt fyrir að eigendur Bræðraborgarstígs 1 hafi ekki fengið heimild yfirvalda til að breyta jarðhæðinni í gistiheimili, líkt og þeir sóttust eftir á árunum 2013-14, hefur komið í ljós að rýminu sem um ræðir var breytt og að þar hafðist við fólk og svaf. Hvort þar var um langtíma- eða skammtímaleigu, þ.e. gistiheimili, að ræða breytir engu um það að breyting á húsnæði eða notkun þess án byggingarleyfis er óleyfileg.
Þó að í lögum segi ekki berum orðum að óheimilt sé að gista annars staðar en í samþykktum íbúðum er „andi laganna sá að fólk sofi ekki nema í samþykktu íbúðarhúsnæði og njóti þess öryggis sem því á að fylgja,“ segir Nikulás Úlfar Másson byggingarfulltrúi. Brot á lögum um mannvirki og reglugerðum þeim tengdum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Á efri hæðunum tveimur á Bræðraborgarstíg 1 voru leigð út herbergi. Ekkert í lögum bannar útleigu herbergja í íbúð til lengri tíma en sé um skammtímaleigu að ræða þarf leyfi samkvæmt reglugerð um veitinga- og gististaði og til að fá slíkt þarf að fylgja ströngum kröfum um eldvarnir.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, vill ekki tjá sig um brunann á Bræðraborgarstíg 1, en spurður almennt út í umfang breyttrar notkunar á húsnæði í óleyfi, segir hann að „því miður“ sé slíkt algengt og með því sé „reynt að komast framhjá ströngum skilyrðum um brunavarnir“.
Hann þekkir dæmi þess að menn hafi komið til slökkviliðsins með teikningar af húsum sínum og spurt út í kröfur um eldvarnir á gististöðum. Þegar þeir hafi fengið svörin hafi runnið á þá tvær grímur, þeir aldrei sótt um leyfi til reksturs gististaðar en engu að síður hafið slíka starfsemi í leyfisleysi. Það hefur slökkviliðið sannreynt í nokkrum tilvikum. „Þegar reglur eru veikar og í þeim holur þá fyllir fólk upp í holurnar,“ segir Jón Viðar, „því það hefur sýnt sig að refsingin við því er engin.“
Rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Samkvæmt lögum um brunavarnir skal Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) rannsaka eldsvoða þar sem manntjón verður, kröfur eldvarnaeftirlits og hvernig að slökkvistarfi var staðið, óháð lögreglurannsókn. HMS hefur þegar framkvæmt sína rannsókn á brunanum á Bræðraborgarstíg. Ekki er um sakamálarannsókn að ræða heldur er eldurinn sjálfur til skoðunar sem og byggingin. Skýrslan verður m.a. byggð á ítarlegum vettvangsrannsóknum og fjölda viðtala við slökkviliðsmenn, íbúa hússins og fleiri. „Helsta markmiðið er að draga lærdóm af því sem gerðist og koma í veg fyrir að svipaðir atburðir endurtaki sig,“ segir Þorgeir Óskar Margeirsson, framkvæmdastjóri eldvarnarsviðs HMS.
Skýrslan verður birt opinberlega á næstu dögum og Þorgeir vill ekki tjá sig um niðurstöðu hennar fyrr en þá. Spurður almennt út í kröfur um brunavarnir í íbúðarhúsum bendir hann m.a. á mannvirkjalög og reglugerð um eldvarnir. „Þegar þú leigir út herbergi í húsinu þínu er ábyrgð þín á brunavörnum sú sama og á heimili þínu,“ segir hann.
Samkvæmt reglugerð um eldvarnir skal eigandi íbúðar sjá til þess að í henni og á hverri hæð sé að minnsta kosti einn CE-merktur reykskynjari fyrir hverja 80 fermetra og þeir staðsettir þannig „að til þeirra heyrist greinilega í öllum svefnherbergjum þegar dyrnar eru lokaðar“.
Samverkandi þættir
Eigandi skal einnig sjá til þess að í íbúðinni sé a.m.k. eitt slökkvitæki með ákveðinni slökkvigetu og að flóttaleiðir séu greiðfærar. Samkvæmt reglugerðinni ber eigandi mannvirkis ábyrgð á að það „fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og að brunavarnir taki mið af þeirri starfsemi sem fer fram í mannvirkinu eða á lóð þess á hverjum tíma“.
Ákværuvaldið telur sannað að kveikt var í Bræðraborgarstíg 1 á að minnsta kosti tveimur stöðum: Í herbergi á 2. hæð og við stiga sem lá upp í risið. Þegar bensín er notað til íkveikju getur eldur breiðst hratt út. En óháð því hvort að kveikt var viljandi í voru fyrir hendi í húsinu fleiri samverkandi þættir sem höfðu áhrif á eldsvoðann og urðu til þess að hann varð jafn mannskæður og raun ber vitni.
Húsið er gamalt og úr timbri. Einangrun var að mestu leyti brennanleg, hálmur og spænir, sem auðveldaði útbreiðslu eldsins á milli hæða og herbergja auk þess sem mjög erfitt getur reynst að slökkva í slíku.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var húsið almennt klætt að innan með timbri á veggjum og í lofti. Þá var strigi strengdur í loftin líkt og tíðkaðist á miðri síðustu öld. Búið var að mála mörgum sinnum yfir hann, ýmist með olíu- eða plastmálningu. Allt jók þetta á brunaálagið.
Á þeim hluta hússins sem brann voru engar svalir. Engir brunastigar. Aðeins ein flóttaleið var af rishæðinni, þ.e. stiginn sem þangað lá af 2. hæðinni. Opnanleg fög á gluggum voru lítil og í herbergjum var enginn neyðarhamar til að brjóta glerið. Á göngum voru slökkvitæki en þau höfðu ekki verið tekin út í lengri tíma. Engar merkingar um neyðarútganga og flóttaleiðir héngu á veggjum eftir því sem Kjarninn kemst næst. Engar brunaæfingar höfðu farið fram í húsinu í að minnsta kosti sex ár. Reykskynjarar héngu í einhverjum rýmum en enginn þeirra fór í gang þegar eldurinn kviknaði síðdegis þann 25. júní.
Alltaf eiganda að tryggja öryggi
Í dag eru gerðar kröfur um að minnsta kosti tvær flóttaleiðir í íbúðarhúsnæði. Svalir má nota sem flóttaleið. „Einn helsti lærdómurinn sem við getum dregið af þessum bruna er að það vantar svalir á mjög mörg hús í Reykjavík,“ segir Nikulás Úlfar byggingarfulltrúi. „Það á jafnvel við um flest gömlu timburhúsin í borginni.“
Eru þá fjölmörg hús í borginni brunagildrur?
Nikulás segir vandasamt að svara þeirri spurningu þar sem byggingarfulltrúi og fleiri opinberir aðilar hafi takmarkaðar heimildir til að hafa eftirlit með innra skipulagi íbúðarhúsnæðis. En að hans mati þurfi ríka ástæðu til þess að neita eigendum um að gera svalir á hús sín þar sem flóttaleiðum er ábótavant. „Auðvitað þarf að gera kröfu um að svalir séu fallegar og í samræmi við aldur og gerð viðkomandi húss.“
Lögum og reglum sem lúta að eldvörnum hefur margoft verið breytt á síðustu árum og áratugum. Fyrir utan fjölda flóttaleiða er m.a. í dag gerð krafa um að mannvirki sé skipt í brunahólf þar sem hægt sé að dvelja um tíma þó að eldur logi í öðrum hluta byggingar. Spurður hvort að litið sé svo á að reglugerðarbreytingar sem þessar séu afturvirkar bendir Nikulás á að það sé alltaf á ábyrgð eiganda húss að öryggi í því sé í lagi og í samræmi við almennar kröfur. „Það er alltaf húseiganda að tryggja að það sé ekki hættulegt að búa í húsnæðinu.“
Nikulás vill ekki tjá sig um mögulega ábyrgð eiganda Bræðraborgarstígs 1 í eldsvoðanum. Aðspurður minnist hann þess ekki að eigandi húss hafi verið dreginn til ábyrgðar vegna skorts á brunavörnum í öðrum eldsvoðum.
Þegar húsnæði er að fullu í útleigu og einhver er farinn að hafa af því tekjur væri æskilegt, að mati eftirlitsaðila sem Kjarninn hefur rætt við, að það væri skilgreint sem atvinnuhúsnæði og þá hægt að gera ríkari kröfur um eldvarnir og eftirlit. En þannig er það ekki í dag.
Jón Viðar slökkviliðsstjóri hefur lengi barist fyrir því að reglum verði breytt svo að slökkvilið geti haft eftirlit með íbúðarhúsnæði líkt og atvinnuhúsnæði. „Ef þú ferð yfir á rauðu ljósi á bílnum þínum og ert tekinn þá borgar þú sekt,“ tekur hann sem dæmi til útskýringar. „Og þar er alltaf verið að hækka sektina af því að hún hefur fælingarmátt. Nákvæmlega sama þarf að vera gagnvart íbúðarhúsnæði.“
Krókar úti um allt
Í staðinn er raunveruleikinn enn sá að það hefur, hingað til, ekki haft neinar afleiðingar að breyta húsnæði án leyfis og að vanrækja kröfur um eldvarnir þegar eldsvoði á sér stað. Eigandi mannvirkis, sem er brunatryggður, fær það bætt að fullu. Jón Viðar grípur aftur til samlíkingar við bíl: „Ef þú lendir í slysi á bíl sem þú hefur breytt, til dæmis sett á hann krók, án þess að fara í breytingaskoðun, þá færðu jafnvel ekki greitt að fullu út úr tryggingum.“
En dæmi séu um að í húsum sé „búið að setja ofsalega marga króka út um allt án leyfis“. Og þegar kviknar í slíku húsi á það að mati Jóns Viðars að hafa einhverjar afleiðingar fyrir eigandann, rétt eins og það hefur fyrir ökumann sem ekur yfir á rauðu ljósi. „Viðurlög virðast því miður það eina sem hefur fælingarmátt.“
Þær breytingar sem Jón Viðar vill að ráðist verði í á lögum og reglum hvað þetta varðar þurfa að hans mati ekki að vera íþyngjandi fyrir húseigendur. „Það eru ekki lögreglumenn á hverju götuhorni að sekta alla þá sem brjóta umferðarreglur. En þegar ökumaður er gripinn við brot þá fær hann sekt. Það sama þarf að gilda þegar eigandi íbúðarhúsnæðis á í hlut.“
Jón Viðar, líkt og fleiri sérfræðingar sem Kjarninn hefur rætt við, telur eðlilegt að gera sömu kröfur um eldvarnir til þeirra sem leigja út húsnæði sitt til langs tíma og gert er þegar um gistiheimili er að ræða. „Hvort að viðkomandi er að leigja herbergi eða íbúð út í innan við þrjátíu daga eða þrjá mánuði á að mínu mati engu máli að skipta þegar kemur að brunavörnum.“
Átta húseigendum send bréf
Að Bræðraborgarstíg 1 voru um sjötíu manns skráðir með lögheimili er bruninn varð í lok júní. En íbúarnir voru í raun mun færri. Rangar lögheimilisskráningar eru stórt vandamál, ekki síst fyrir slökkviliðið. Í þeim felst einnig vísbending um að fólk sé skráð á eitt heimilisfang en búi í reynd í atvinnuhúsnæði, þar sem ekki má skrá lögheimili.
Byggingarfulltrúi og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendu nýverið í sameiningu bréf til eigenda átta húsa í Reykjavík þar sem óeðlilega margir, margir tugir á hverjum stað, voru skráðir til heimilis. Óskað var eftir upplýsingum um hvort húsnæði hefði verið breytt með einhverjum hætti sem gæti talist byggingarleyfisskylt og þá hvort að brunavarnir væru í lagi. Húsin sem um ræðir eru af ýmsum toga, bæði íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, og hafa öll ratað í skrár slökkviliðsins, m.a. vegna gruns um að brunavörnum sé ábótavant. Það getur, svo dæmi sé tekið, falist í ýmiskonar óleyfisframkvæmdum, því að flóttaleiðum hafi verið fækkað og húsið þar með gert hættulegt, sérstaklega ef þar búa mjög margir eins og lögheimilisskráningar gefa til kynna.
Önnur úrræði en bréfaskriftir sem þessar hafa embættin ekki á þessu stigi máls, nema þá að fara fram á dómsúrskurð sem ekki hefur tíðkast hingað til. Hugað verður að næstu skrefum þegar viðbrögð hafa borist frá eigendum húsanna.
Umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg
Lesa meira
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð
-
26. apríl 2021„Ég man allt saman. Þó að ég hafi verið veikur“
-
25. apríl 2021Eitt stærsta manndrápsmál sögunnar loks fyrir dóm
-
26. mars 2021Kjarninn vann Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg
-
20. mars 2021Bruninn á Bræðraborgarstíg: Græðgin æðri mennskunni og reisn allra
-
19. mars 2021Kjarninn tilnefndur til verðlauna fyrir umfjöllun um Bræðraborgarstígsbrunann