GRECO, samtök gegn spillingu, segja að Ísland verði að gera meira
Ísland þarf að gera meira til þess að koma í veg fyrir spillingu og efla heilindi hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds og innan löggæslustofnana, samkvæmt nýrri eftirfylgniskýrslu GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu.
Í skýrslunni er lagt mat á það hvernig íslensk stjórnvöld hafa til þessa brugðist við þeim 18 tillögum að úrbótum sem GRECO setti fram í skýrslu sinni um Ísland árið 2018. Búið er að koma til móts við fjórar þeirra með fullnægjandi hætti, að mati samtakanna. Sjö tillögur til viðbótar eru sagðar hafa verið innleiddar að hluta, en ekki er búið að innleiða breytingar til þess að mæta sjö tillögum sem lúta flestar að löggæslumálum.
Reglur um „snúningshurðina“ virðist „fremur veikar“
Í fréttatilkynningu frá GRECO segir að þrátt fyrir að samtökin kunni að meta heildræna nálgun sem íslensk stjórnvöld hafi tekið gagnvart því að byggja upp varnir gegn hagsmunaárekstrum á æðstu stöðum í stjórnsýslunni, vanti enn upp á nokkra hluti.
Sérstaklega nefnir GRECO að það skorti upp á leiðbeiningar til embættismanna um hvernig þeir skuli haga samskiptum sínum við þriðju aðila og hagsmunaverði. Þá segir einnig GRECO að þær reglur sem taki gildi núna um áramót og koma í veg fyrir að æðstu handhafar framkvæmdavalds (sem skilgreindir eru sem ráðherrar og aðstoðarmenn þeirra, ráðuneytisstjórar, skrifstofustjórar og sendiherrar) geti fært sig yfir í hagsmunagæslu innan við sex mánuðum frá starfslokum hjá hinu opinbera, virðist „fremur veikar“.
Bæði virðast þær veikar, segir GRECO, hvað tímalengd „kælingartímabilisins“ varðar og einnig að því leyti að þær taki bara til starfa í hagsmunagæslu, en ekki annarra geira.
GRECO segir þessa sex mánuði virðast of stutt tímabil til að reglurnar nái tilgangi sínum, sem er sá að fólk geti ekki yfirgefið ábúðarmikil störf í æðstu lögum hins opinbera til þess að fara í störf hjá einkaaðilum.
Þetta er þó ein af fjórum tillögum sem GRECO telur að Ísland hafi innleitt og segjast samtökin fagna því að nú sé allavega búið að setja einhverjar reglur til þess að takmarka hreyfanleika úr æðstu stöðum yfir í einkageirann.
GRECO segist einnig harma að ekkert hafi þokast varðandi það að takast á við misræmi varðandi þær siða- og starfsreglur sem eiga við um æðstu handhafa framkvæmdavalds og þess hvernig þeim sem reglurnar eiga við sé veitt leiðsögn og trúnaðarráðgjöf um þær.
„Ísland verður að takmarka pólitísk afskipti“ af löggæslu
Hvað löggæslu varðar segir einfaldlega: „Ísland verður að takmarka pólitísk afskipti,“ í fréttatilkynningu GRECO. Því er bætt við að kynna þurfi til sögunnar gagnsæjar og sanngjarnar ráðningaraðferðir, auglýsa lausar stöður, setja upp kerfi um framgang í starfi og einnig viðmið um hvenær samningar skuli ekki endurnýjaðir.
GRECO segist kunna að meta aðerðir sem gripið hafi verið til innan lögreglu varðandi reglulega þjálfun og fræðslu lögregluliðsins varðandi mál tengd heilindum, en harmar að ekki sé búið að uppfæra siða- og starfsreglur lögreglu og Landhelgisgæslunnar.
Tékklistinn
Tillögur GRECO í skýrslunni árið 2018 voru níu talsins í hvorum flokki og hér að neðan má sjá þær og einnig hvaða tillögur samtökin telja Ísland vera búið að uppfylla.
- Feitletraðar tillögur er búið að innleiða með fullnægjandi hætti, að mati GRECO.
- Skáletraðar tillögur er búið að innleiða að hluta, að mati GRECO.
- Þær sem eru í venjulegu letri eru óinnleiddar, að mati GRECO.
Tillögur GRECO til úrbóta varðandi æðstu handhafa framkvæmdavalds
- Unnin verði stefna til að bæta heilindi og varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds, þar á meðal með virkri ráðgjöf, vöktun og eftirfylgni.
- Siðareglur fyrir æðstu handhafa framkvæmdarvalds verði samræmdar, unnið verði leiðbeiningarefni með skýringum og raunhæfum dæmum og hægt verði að leita ráðgjafar um þær í trúnaði. Þá verði til staðar eftirlitsaðili með framkvæmd siðareglnanna og viðurlagakerfi komið á fót.
- Komið verði á fót skilvirkum ferlum til að efla vitund æðstu handhafa framkvæmdarvalds um opinber heilindi, þar á meðal með reglulegri fræðslu.
- Settar verði reglur um samskipti æðstu handhafa framkvæmdarvalds við hagsmunaaðila og aðra aðila sem leitast eftir því að hafa áhrif á undirbúning löggjafar og önnur störf stjórnvalda.
- Reglur um aukastörf æðstu handhafa framkvæmdarvalds verði endurskoðaðar og gerð skýrari grein fyrir því hvaða störf eru heimil og hver ekki.
- Settar verði skýrari reglur um gjafir og önnur fríðindi fyrir æðstu handhafa framkvæmdarvalds, þar sem gert yrði ráð fyrir skýrum farvegi fyrir tilkynningar, birtingu upplýsinga og viðeigandi ráðgjöf til að tryggja að tekið sé á öllum tegundum fríðinda með viðunandi hætti.
- Settar verði reglur um störf æðstu handhafa framkvæmdarvalds eftir að störfum fyrir hið opinbera lýkur.
- Hagsmunaskráningarkerfi æðstu handhafa framkvæmdarvalds verði bætt, sér í lagi með því að taka tillit til verðmætis eigna þeirra, fjárhæðar framlaga til þeirra og skuldbindinga. Þá verði athugað hvort efni séu til að víkka skráningarskylduna og láta hana ná yfir maka og börn á forræði viðkomandi, með tilliti til þess að slíkar upplýsingar þyrfti ekki endilega að birta opinberlega.
- Trúverðugleiki hagsmunaskráningarkerfis fyrir æðstu handhafa framkvæmdarvalds verði aukinn, með því að leitast við að tryggja að farið verði eftir reglum með eftirliti, viðeigandi ráðgjöf og fræðslu og með því að setja á fót viðurlagakerfi þegar skráning er ófullnægjandi.
Tillögur GRECO til úrbóta á sviði löggæslu
- Tryggja verði lögreglu fullnægjandi aðbúnað svo hún geti sinnt störfum sínum með skilvirkum hætti, sér í lagi til að framfylgja stefnumótun á sviði heilinda.
- Siðareglur lögreglu og Landhelgisgæslunnar verði uppfærðar með tilliti til hagsmunaárekstra og þátttöku í stjórnmálastarfsemi, þeim fylgi leiðbeiningar með skýringum og raunhæfum dæmum um öll svið spillingar og hægt verði að leita ráðgjafar um þær í trúnaði. Þá verði til staðar eftirlitsaðili með framkvæmd siðareglnanna og viðurlagakerfi komið á fót.
- Unnið verði fræðsluefni til að efla vitund um heilindi og siðareglur meðal starfsmanna lögreglu og Landhelgisgæslu (þar sem fjallað verði um hagsmunaárekstra og varnir gegn spillingu). Tekið verði tillit til eðlis starfanna, fjölbreytni þeirra og veikleika.
- Hlutverk hæfnisnefndar við skipun í störf lögreglumanna verði eflt og komið verði á fót heilindamati í tengslum við stöðuveitingar innan lögreglunnar. Þá verði það gert að meginreglu að lausar stöður innan lögreglunnar verði auglýstar og skipað í þær á grundvelli gagnsæs ferils.
- Skýr, sanngjörn og gegnsæ viðmið liggi fyrir við ákvörðun um að endurnýja ekki skipun lögreglumanna og starfsmanna Landhelgisgæslu og að skýrt ferli sé til staðar til að kæra slíka ákvörðun.
- Komið verði á fót öflugu regluverki um gjafir til lögreglumanna og starfsmanna Landshelgisgæslunnar og önnur fríðindi.
- Athugun verði gerð á aukastörfum lögreglumanna og starfsmanna Landhelgisgæslu og störfum sem þeir taka að sér eftir að þeir ljúka störfum hjá hinu opinbera. Í ljósi niðurstaðnanna verði komið á fót strangara regluverki sem dragi úr líkum á hagsmunaárekstrum.
- Komið verði á fót miðlægri einingu eða ákveðnum aðila innan stofnanauppbyggingu lögreglunnar sem verði falið það hlutverk að annast innra eftirlit og rannsóknir, undir ábyrgð ríkislögreglustjóra, en embætti ríkislögreglustjóra á í framkvæmd að hafa skýrt leiðtogahlutverk þegar kemur að innri stefnumálum lögreglunnar, þar á meðal í tengslum við heilindi, áhættustjórnun og eftirlit með lögreglunni. Þá þarf jafnframt að endurskoða valdauppbyggingu innan lögreglunnar til að tryggja skilvirka innleiðingu stefnumótunar án afskipta ráðuneytis eða stjórnmála.
- Settar verði skýrar reglur um vernd uppljóstrara hjá lögreglu og Landhelgisgæslu til viðbótar tilkynningarskyldu sem er til staðar samkvæmt siðareglum.
Í skýrslu GRECO segir að samtökin bjóði fulltrúa Íslands innan samtakanna upp á að skila inn frekari gögnum um eftirfylgni tillagnanna fram til 30. apríl árið 2022 og boðar að þá verði aftur lagt mat á stöðu mála með hliðsjón af þessum 18 tillögum.
Lesa meira
-
18. júní 2022Áhyggjuefni að íslensk yfirvöld dragi lappirnar í Samherjamálinu
-
8. apríl 2022Kunnugleg leið fram á hengiflugið
-
20. febrúar 2022Bankaleki opinberar reikninga einræðisherra og glæpamanna hjá Credit Suisse
-
25. janúar 2022Enn lækkar einkunn Íslands á listanum yfir minnst spilltu löndin – Skæruliðadeild Samherja tiltekin sem ástæða
-
25. maí 2021Er Sjálfstæðisflokkur vandamál eða svar, hvað eigum við skilið og fæst traust með fötum?
-
24. maí 2021Vilja breiðfylkingu gegn tilraunum Samherja til að grafa undan samfélagssáttmálanum
-
23. maí 2021Vildu nothæfan lista, afgreiða Ásgeir og safna upplýsingum um stjórn samtaka
-
4. febrúar 2021Ein spillingarmæling sker sig úr og dregur Ísland niður listann hjá Transparency International
-
28. janúar 2021Segir dæmin sem þingmaður nefnir um spillingu „heldur léttvæg“
-
28. janúar 2021Ísland fellur á spillingarlista og er í 17. sæti – Enn og aftur spilltast allra Norðurlanda