„Dóttir mín svaf í fötunum í margar vikur“
Í sumar varð hún vitni að því þegar fólk stökk út um glugga á brennandi húsi. Sá höndum veifað í glugga á herbergi sem var orðið fullt af reyk. Gekk fram hjá blóðblettum á götunni í marga daga á eftir. Finnur enn þann dag í dag brunalykt leggja frá húsinu. Hún er nágranni sem kom með þeim fyrstu á vettvang eldsvoðans á Bræðraborgarstíg og segir hér sögu sína.
Hún sleit barnsskónum í Vesturbænum en bjó svo víða áður en hún á fullorðinsárum ákvað að setjast að í hverfinu. Það var samfélagið sem dró hana til sín. Hið samhenta, sterka samfélag sem hún hafði hvergi annars staðar upplifað. Þar sem þorpsstemning ríkir enn – meira en hundrað árum eftir að hverfið varð til.
Nú hefur hún eignast börn sem njóta, líkt og hún gerði sjálf, töfranna í Gamla Vesturbænum. Vináttunnar og hlýjunnar. „En við getum gert enn betur,“ segir hún nú eftir allt sem á undan er gengið. „Við verðum að huga að okkar nágrönnum, passa betur upp á hvert annað.“
Þann 25. júní varð hún vitni að því þegar fólk stökk út um glugga á brennandi húsi. Sá höndum veifað í glugga á herbergi sem var orðið fullt af reyk. Gekk fram hjá blóðblettum á götunni í marga daga á eftir. Finnur enn þann dag í dag brunalyktina leggja frá húsinu í ákveðinni vindátt. Því þarna stendur það enn – hulið gráu neti – hornhúsið á Bræðraborgarstíg 1, og minnir alla sem ganga hjá á harmleikinn sem þar átti sér stað. Á eldsvoðann sem þrír nágrannar hennar fórust í.
Hún var hikandi að koma í viðtal. Ekki af því að hún vilji ekki segja frá því sem gerðist heldur af því að þetta snýst ekki um hana, segir hún. Þetta snýst um íbúa hússins, þá sem týndu lífi og ástvini þeirra. „Ég skipti engu máli í þessu,“ segir hún. „Það sem átti sér stað var átakanlegt fyrir svo marga og ég upplifði að fólkið sem þarna bjó ætti hér fáa að. Vissi ekki hvar það ætti að leita hjálpar eftir að hafa misst vini sína og aleiguna. Við reyndum okkar besta, fólkið hér í Vesturbænum, til að styðja þau. En við sem samfélag þurfum að gera betur í að gæta hvers annars, gera betur í því að leiðbeina fólki um rétt sinn, hvar það getur fengið aðstoð.
Þannig að þess vegna skal ég segja frá því sem gerðist. Eins og ég man það.“
25. júní 2020
Hún er á leiðinni út í bíl þegar hún sér eins og gufustrók leggja upp frá húsi á móti. Hún kippir sér ekki upp við þetta í fyrstu, vissi sem var að nágrannar hennar eru að gera upp húsið sitt og grunar að þeir séu að háþrýstiþvo eitthvað. En svo heyrir hún brothljóð og sér reyk leggja út um glugga á húsinu skáhallt á móti. Heyrir brothljóð og sé mann á þriðju hæð öskra á hjálp í miklum reykjarmekki út um brotinn gluggann.
Það er kviknað í Bræðraborgarstíg 1 og það er fólk inni.
Án umhugsunar hleypur hún á vettvang. Hún hafði numið eitt ár í hjúkrunarfræði og unnið um nokkurt skeið á Landspítalanum og viðbrögðin voru ósjálfráð: Að aðstoða fólk í neyð. „Maður hugsar ekkert heldur fer bara að gera allt sem maður getur. Allt sem maður hefur lært og kann.“
Þegar hún kemur að logandi húsinu er fyrsti sjúkrabíllinn að koma sem og fleiri nágrannar. Einhverjir fara þegar að leita að stiga í næstu húsagörðum til að reyna að koma fólkinu á rishæðinni til hjálpar og aðrir koma síðar á hlaupum með einn upp götuna. Einn fer í það að stöðva umferð að húsinu. Það eru margir á hlaupum. Það er hrópað og kallað. Öskrað. „Allir voru að reyna að gera eitthvað í þessari miklu ringulreið þar sem allt var að gerast svo hratt en þó allt of hægt. Mér hefur aldrei fundist tíminn eins lengi að líða.“
Hún snýr sér strax að fólkinu sem hafði náð að forða sér út úr brennandi húsinu. Reynir að koma því frá eldinum og hughreysta það, veita því stuðning. „Þau voru í mikilli geðshræringu, grétu og hrópuðu,“ rifjar hún upp.
Hún gefur sig strax að sjúkraflutningamönnunum tveimur sem eru komnir, kynnir sig, segir frá sinni menntun og býður fram aðstoð sína. Þar sem hún er að hlúa að fólkinu sem komið var út sjá þau hendur í einum glugganum á efstu hæðinni. Þau sjá hvar ein manneskja stekkur út um gluggann.
Þegar hingað er komið í viðtalinu hikar hún andartak. Minnir á að tímaröð atburðanna sé svolítið óljós. Þegar hún horfi til baka virðist eins og margt hafa gerst á sama tíma – í þeirri gríðarlegu ringulreið sem ríkti.
Svo heldur hún frásögninni áfram.
Hún fer ásamt sjúkraflutningamönnunum að sinna manneskjunni sem stökk út en þá stekkur önnur manneskja út – hinum megin á húsinu. Hún heldur áfram að hlúa að þeirri sem stökk fyrst en allt í einu eru margir sjúkraflutningamenn og slökkviliðsmenn mættir á staðinn. Hún man ekki eftir að hafa heyrt í sírenunum. Bara að einhver er kominn og tekur við. Er mjög einbeitt – adrenalínið flæðir um æðarnar og hugsunin er skýr þó að margt sé að gerast samtímis í kringum hana.
Strax og hún getur lætur hún slökkviliðsmenn vita að hún hafi séð manneskju í einum glugganum. Að það sé mögulega einhver inni ennþá. Skömmu síðar bjarga þeir manneskju út um glugga af þriðju hæðinni. Og hún vonar að það sé sú sem hún sá veifa.
Það er ekki fyrr en síðar um kvöldið að hún kemst að því að svo var ekki. Að manneskjan sem veifaði hafði farist í eldsvoðanum.
Það næsta sem hún gerir er að snúa sér aftur að fólkinu sem hafði komist út án mikilla meiðsla. Aðrir voru komnir til að sinna hinum slösuðu. Á augabragði fyllist allt af slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum. „Ég spurði eina konuna sem hafði komist út af sjálfsdáðum hversu margir byggju í húsinu. Hvað margir væru hugsanlega inni. Ég reyndi að safna eins miklum upplýsingum og ég gat og við létum svo slökkviliðsmennina vita.“
Saman svipuðust þær um eftir íbúunum, hún og konan. Hvar var maðurinn sem bjó í herberginu við hliðina? Hvar var faðir unga mannsins? Hvar eru eldri mennirnir sem sátu stundum fyrir utan húsið á daginn? „Við reyndum að finna þá sem konan sagði vanta, að kanna hvar allir væru – reyndum að hafa upp á þeim.“
Á gangstéttinni situr maður. Hann er einn. Hún fer til hans. Tekur utan um hann. Reynir að tala rólega til hans.
„Ég upplifði akút aðstæður þegar ég vann á Landspítalanum. En þar var ég með allt teymið með mér, alla læknana, alla hjúkrunarfræðingana, öll tækin. En ekkert af þessu var til staðar fyrstu mínúturnar. Mínútur sem mér fannst vera eins og klukkutími. Við, sem vorum þarna fyrst á vettvang, urðum að ganga í allt sem við gátum. Það var bara rosalegt. Og þó að ég hafi reynt að gera allt sem ég gat fannst mér ég svo vanmáttug. Að sjá fólk inni. Að geta ekki bjargað því. Að vera ekki með stiga sem náði nógu hátt upp, að vera ekki með næg bjargráð. Þetta er það hræðilegasta sem ég hef nokkru sinni upplifað og mun fylgja mér alla tíð.“
Húsið logar lengi og slökkvistarfið heldur áfram fram eftir kvöldi. Starfsmenn Rauða krossins mæta á vettvang og bjóða áfallahjálp. Nokkrir íbúanna þiggja hana en þeir eru ekki allir á staðnum. Sumir eru farnir. Aðrir voru ekki heima þegar eldsvoðinn varð. Hún talar við einn sem þannig er ástatt fyrir. Hann veit ekkert hvert hann á að leita aðstoðar. „Ég horfði þarna framan í fullorðinn mann, sem hafði misst allt sitt, og var algjörlega ráðvilltur.“
Hún fer með hann til lögreglumanns og biður hann að leiðbeina honum. Hvar getur hann fengið húsaskjól? Brýnustu nauðsynjar? Hún segir það sína tilfinningu að margir aðrir íbúar hafi verið í þeirri stöðu. Hafi ekki haft mikið tengslanet, hafi ekki þekkt rétt sinn og vitað hvar aðstoð væri að fá og þá hvaða.
„Ég fór heim. Ég veit ekki hvenær. Mætti dóttur minni og sagði henni rólega að allir hefðu nú verið fluttir á sjúkrahús. Núna væri allt í lagi. Og að það væri allt í lagi með mig þó að ég væri með blóð á fötunum. En svo fór ég að hlaupa um allt hús, upp allan stigaganginn að kanna reykskynjara og slökkvitæki. Ég var rosalega ör, adrenalínið var enn í botni og það þýddi ekkert fyrir manninn minn að segja mér að róa mig.“
Hún fór í sífellu út og aftur að húsinu. Stóð þar og horfði á það. „Ég gat einhvern veginn ekki slitið mig frá þessu. Líklega tengdist þetta áfallinu sem var að búa um sig innra með mér. Það er eins og þetta hafi verið hluti af ferlinu – hluti af því að fara í gegnum þetta áfall. Nágrannakona mín sá mig og ráðlagði mér að fá áfallahjálp hjá Rauða krossinum. Mér fannst ég ekki þurfa áfallahjálp á þeirri stundu.“
Um kvöldið söfnuðust nágrannar saman heima hjá konu í hverfinu. Öllum fannst þarft og mikilvægt að setjast niður. Vera til staðar og hlúa að hverju öðru og segja frá því sem hver og einn hafði upplifað. „Allir vildu hjálpa öllum. Það var mikil samheldni.“
Hún minnist þess ekki að hafa sofið mikið um nóttina. „Ég keyrði börnin í skólann og þegar þau voru farin út úr bílnum brotnaði ég algjörlega saman og hágrét. Réð ekki við mig. Það bara opnuðust flóðgáttir.“
Enn gat hún ekki slitið sig frá húsinu á horninu. Þangað gekk hún og settist á bekk. Horfði á brunarústirnar fyrir framan sig. Margir aðrir gerðu það sama, þeirra á meðal fólkið sem búið hafði í húsinu. „Það var eins og við þyrftum öll að koma aftur og aftur á staðinn til að meðtaka allt sem gerðist.“
Meðal þeirra sem komu voru konan sem hún hafði leitað að íbúunum með og sú sem hún hafði eitt hvað mestum tíma með á vettvangi daginn áður. Konan var komin að húsinu á ný ásamt manni sínum. Allar þeirra eigur höfðu orðið eldinum að bráð. „Ég bauðst til að færa henni úlpu og húfu því það var svolítið napurt og hún ekki vel klædd. En þau afþökkuðu, eins og þau vildu ekki láta hafa fyrir sér.“
Hún bað þau um að hafa samband við sig ef það væri eitthvað sem hún gæti gert. Rauði krossinn veitir aðeins neyðaraðstoð og eftir nótt í hans skjóli vissu þau ekki hvert þau ættu að leita.
Vantaði þau gistingu? Sængur? Hreinlætisvörur?
Fjölmargir í hverfinu lögðu sitt af mörkum – buðu fram aðstoð.
„Ættingi minn rekur fyrirtæki sem selur hreinlætisvörur og ég spurði hvort að hann gæti aðstoðað. Hann troðfyllti tösku af alls konar nauðsynjum; tannburstum, tannkremi, rakvélum, sápum, sjampóum og fleiru.“
Þau sóttu þetta svo og útdeildu til annarra sem höfðu búið í húsinu og þau voru í sambandi við. Íbúar í Vesturbænum gerðu fleira til að reyna að aðstoða. Einn þeirra auglýsti til dæmis eftir íbúð handa íbúa sem var orðinn heimilislaus eftir eldsvoðann og viðbrögðin létu ekki á sér standa.
Bruninn á Bræðraborgarstíg fór ekki framhjá börnunum í hverfinu. Þau fylgdust sum hver með út um glugga eða af svölum heimila sinna hvað gekk á. Sáu reykinn og eldinn. Sáu slökkviliðið, lögregluna, sjúkrabílana. Og þetta tók á þau. „Dóttir mín svaf í fötunum í margar vikur. Hún var svo hrædd um að það myndi kvikna í og vildi vera tilbúin að hlaupa út. Við þurftum að sýna henni að reykskynjarinn hjá okkur virkaði og reyna að fá hana til að trúa því að hún væri örugg á okkar heimili.“
Þessi áhrif sem eldsvoðinn hafði á börnin er skiljanlegur, segir hún. „Allur þessi reykur. Og lyktin sem lá yfir öllu. Við finnum brunalyktina reyndar ennþá í ákveðinni vindátt. Brunarústirnar blasa þarna ennþá við.“
Lyktin og húsarústirnar vekja líka sársaukafullar tilfinningar hjá mörgum. Annað slagið má sjá ný blóm, oft hvítar rósir, lagðar á gangstéttina á horninu. „Alltaf þegar maður finnur þessa lykt og sér húsið þá rifjast upp þau atvik sem sitja mest í manni. Ég get því rétt ímyndað mér hvernig ástvinum þeirra sem létust líður þegar þeir sjá þetta og þeim sem lifðu af.“
Eftir brunann átti hún erfitt með að vera í mannmergð og inni í stórum verslunum. „Það þyrmdi oft yfir mig og tárin runnu hvar sem ég var stödd. En ég sótti áfallahjálp hjá Rauða krossinum á endanum sem hjálpaði mér mikið.
En þessi hræðilegi atburður er mér alltaf ofarlega í huga. Það hefur hjálpað mér að tala um þetta. Ég á marga góða að í kringum mig sem ég hef getað rætt þetta við þegar mér finnst ég þurfa þess.
Ég flutti nýverið en ekki langt, bara nokkrum götum frá. Ég er ekkert farin úr Vesturbænum. Samfélagið á þessum slóðum er alveg einstakt. Eftir brunann stoppum við nágrannarnir oftar þegar við hittumst og tölum saman. Það er svo mikil velvild og hlýja. Og hugulsemi. Það eru einhverjir töfrar hérna.
Við höfum mörg rætt það að þó að hverfið sé samheldið og sterkt þá þurfum við að huga enn betur hvert að öðru. Við verðum að líta okkur nær. Ef íbúar allra hverfa myndu líta sér nær þá gætum við passað upp á fleiri. Við gætum passað upp á okkar fólk, okkar nágranna. Við þurfum öll að láta okkur hvert annað varða. Það eru skilaboðin sem ég vil senda. Byrjaðu á húsinu þínu eða götunni. Ef við gerum þetta öll búum við til betra samfélag á Íslandi.“
Umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg
Lesa meira
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð
-
26. apríl 2021„Ég man allt saman. Þó að ég hafi verið veikur“
-
25. apríl 2021Eitt stærsta manndrápsmál sögunnar loks fyrir dóm
-
26. mars 2021Kjarninn vann Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg
-
20. mars 2021Bruninn á Bræðraborgarstíg: Græðgin æðri mennskunni og reisn allra
-
19. mars 2021Kjarninn tilnefndur til verðlauna fyrir umfjöllun um Bræðraborgarstígsbrunann