Samfylkingin, flokkur jafnaðarmanna, hefur oftast verið að mælast næst stærsti flokkur landsins í könnunum MMR á yfirstandandi kjörtímabili.
Meðaltalsfylgi flokksins í síðustu tveimur könnunum fyrirtækisins hefur verið 15,9 prósent, sem er umtalsvert hærra en þau 12,1 prósent sem Samfylkingin fékk þegar talið var upp úr kjörkössunum 2017. Lægst seig fylgið í 11,5 prósent í febrúar 2018 en hæst fór það í 19,8 prósent í september sama ár.
Þessi staða er ansi langt frá þeirri sem var á upphafsárum þessarar ætluðu breiðfylkingar vinstrimanna. Í þrennum kosningum á árunum 2003 til 2009 var flokkurinn með um eða yfir 30 prósent fylgi. Eftir ríkisstjórnarsetu eftir bankahrunið hrundi fylgið niður í 12,9 prósent 2013 og svo í 5,7 prósent 2016. Samfylkingin var næstum dottin út af þingi, en hékk inni með einn kjördæmakjörinn þingmann.
Að bæta við sig rúmlega tíu prósentustigum á þeim fjórum árum sem liðin eru frá þeim botni er því ákveðinn varnarsigur.
Úr einu prósenti í tæplega tuttugu prósent
Samfylkingin getur verið ánægð með hvernig henni er að takast að ná til yngstu kjósenda. Í könnun sem MMR birti daginn fyrir kosningarnar 2016 mældist Samfylkingin með eitt prósent fylgi í aldurshópnum 18 til 29 ára. Í kringum síðustu kosningar, sem voru ári síðar, var fylgið hjá þeim hópi orðið heldur skaplegra, eða 12,3 prósent.
Í dag er Samfylkingin í öðru sæti yfir þá flokka sem höfða mest til þessa hóps með 19,3 prósent fylgi. Einungis Píratar mælast betur hjá yngsta aldurshópnum með 24,9 prósent stuðning. Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins, hefur nánast staðið í stað í fylgi hjá þessum hópi (18,3 prósent) á kjörtímabilinu, á sama tíma og Samfylkingin hefur bætt við sig sjö prósentustigum.
Sennilegt verður að teljast að Samfylkingin sé að taka umtalsvert fylgi af Vinstri grænum hjá yngstu kjósendunum, enda hefur stuðningur við þann flokk hjá hópnum fallið um 12,4 prósentustig á kjörtímabilinu.
Þrátt fyrir þetta þá er Samfylkingin að mælast með meira fylgi hjá 60 ára og eldri (18,5 prósent) en þeim kjósendum sem eru undir því aldursmarki (15,2 prósent).
Sterkust á höfuðborgarsvæðinu
Höfuðborgarsvæðið er áfram sem áður sterkasta vígi Samfylkingarinnar, en þar mælist fylgi flokksins 18,4 prósent.
Á Suðurlandi og Suðurnesjum er fylgi Samfylkingarinnar enn vel undir heildarfylgi líkt og það var í kringum síðustu kosningar, og mælist nú 8,6 prósent.
Flokkur sem höfðar til kvenna
Konur eru mun líklegri en karlar til að kjósa Samfylkinguna. Ef konur myndu einar kjósa væri flokkurinn með 21,4 prósent fylgi og munurinn á honum og Sjálfstæðisflokknum væri einungis 1,5 prósentustig. Ef karlar myndu einir kjósa fengi Samfylkingin 11,9 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag sæti ásamt Viðreisn í fjórða til fimmta sæti yfir stærstu flokka landsins. Staða Samfylkingarinnar hjá konum hefur styrkst umtalsvert frá síðustu kosningum, um 4,6 prósentustig, á meðan að staða flokksins hjá körlum er nánast sú sama. Menntun og tekjur eru ekki afgerandi breytur hjá stuðningsfólki Samfylkingar. Þannig mælist fylgi flokksins 17,7 prósent bæði hjá þeim sem hafa einungis lokið grunnskólanámi og þeim sem hafa lokið háskólanámi.
Stuðningur við Samfylkinguna mælist sömuleiðis nánast sá sami (18,3 og 18,6 prósent) hjá annars vegar þeim sem eru með á bilinu 400 til 799 þúsund krónur á mánuði í heimilistekjur og hins vegar þeim sem eru með 1,2 milljónir króna eða meira í slíkar tekjur.
Vill í ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks
Formaður Samfylkingarinnar hefur verið mjög skýr með það hvert hugur hans stefnir eftir næstu kosningar, komist flokkurinn í þá stöðu að geta myndað ríkisstjórn.
Megináhersla hans er að sú ríkisstjórn innihaldi ekki Sjálfstæðisflokkinn.
Í viðtali við Mannlíf í janúar í fyrra sagði Logi að hann vildi ríkisstjórn með Viðreisn, Pírötum og Vinstri grænum. „Ég held að við gætum náð mjög mörgum skemmtilegum og góðum málum á dagskrá ef við myndum mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri þar sem Samfylkingin væri kjölfestuflokkur og við hefðum svo Viðreisn og Pírata öðrum megin við okkur og Vinstri græn hinum megin við okkur.“
Á flokksstjórnarfundi flokksins fyrir ári sagði Logi að líkurnar á samstarfi við Sjálfstæðisflokk væri engar og að framundan væri sögulegt tækifæri fyrir Samfylkinguna til að fylkja saman því sem hann kallaði „umbótaöflunum í landinu“.
Í umræðum á Alþingi um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs og verkefnin framundan, sem fór fram í janúar síðastliðnum, sló hann svipaðan streng.
Þar sagði hann að tími væri kominn til að hætta að láta Sjálfstæðisflokkinn endalaust velja sér nýja dansfélaga eftir kosningar og stjórna eftir eigin geðþótta. „Nú er kominn tími samstilltrar, djarfrar og víðsýnnar stjórnar, án Sjálfstæðisflokksins - fyrir allt fólkið í landinu og komandi kynslóðir. Stjórn sem leggur alla áherslu á ríkara félagslegt réttlæti og hefur á sama tíma meiri sköpunarkraft, framsýni og hugrekki.“
Í samtali við Fréttablaðið í september, vegna könnunar sem Zenter hafði gert fyrir blaðið sem sýndi að eina leiðin til að mynda þriggja flokka ríkisstjórn væri með aðkomu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sagði Logi að það væri „ekki að fara gerast“. Samstarf flokkanna gerðist bara í sjónvarpsþáttum, og vísaði þar til þáttaraðarinnar „Ráðherrann“ sem þá voru til sýningar á RÚV.