Um miðjan september 2017 sprakk ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar eftir nokkurra mánaða setu og boðað var til nýrra kosningar. Þegar það gerðist hafði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verið í pólitískri eyðimerkurgöngu í næstum eitt og hálft ár, eða frá því að hann sagði af sér sem forsætisráðherra vegna Wintris-málsins í apríl ári áður.
Hann tapaði svo formannsslag í Framsóknarflokknum þá um haustið en ákvað að bjóða sig samt sem áður fram fyrir hönd þess flokks í kosningunum í október 2016.
Öllum sem með fylgdust áttuðu sig þó á að engin ró var innan Framsóknarflokksins. Í maí 2017 stofnaði Sigmundur Davíð Framfarafélagið utan um sína pólitíska stefnu og um tvö hundruð manns, þar af margir áhrifamenn innan Framsóknar, mættu á stofnfund þess. Flestir töldu þó að Sigmundur Davíð myndi gera eina lokatilraun til að endurheimta formennsku í sínum gamla flokki á flokksþingi sem áætlað var í byrjun árs 2018.
Nýjar kosningar haustið 2017 breyttu þeim áformum og níu dögum eftir að sitjandi ríkisstjórn sprakk vegna uppreist-æru málsins sagði Sigmundur Davíð sig úr Framsóknarflokknum og stofnaði nýtt framboð, sem síðar fékk nafnið Miðflokkurinn.
Mikill árangur á skömmum tíma
Á skömmum tíma tókst að manna alla lista og ná besta árangri sem nýtt stjórnmálaafl hefur nokkru sinni náð í fyrstu Alþingiskosningum sínum seint í október sama ár, rúmum mánuði eftir að Sigmundur Davíð sagði sig úr Framsókn. Alls fékk flokkurinn 10,9 prósent atkvæða og sjö þingmenn. Það fjölgaði síðan um tvo í þingflokknum eftir Klausturmálið svokallaða, þegar tveir brottreknir þingmenn úr Flokki fólksins, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, gengu til liðs við hina sem sátu með þeim á sumbli þetta nóvemberkvöld 2018.
Minnst fylgi á höfuðborgarsvæðinu
Enginn flokkur hefur sveiflast jafn mikið í fylgi og Miðflokkurinn á yfirstandandi kjörtímabili samkvæmt könnunum MMR. Eftir að Klausturmálið komst í hámæli fór fylgi flokksins niður í 5,9 prósent en tæpu ári síðan, í kjölfar langvinns málþófs til að tefja fyrir afgreiðslu þriðja orkupakkans svokallaða, náði það sínum hæstu hæðum og mældist 16,9 prósent. Mikil fylgni er milli breytinga á stuðningi við Miðflokkinn annarsvegar og Sjálfstæðisflokkinn hins vegar. Þegar Miðflokkurinn hækkar lækkar Sjálfstæðisflokkurinn, og öfugt. Þetta bendir til þess að flokkarnir séu að fiska í sömu tjörnum eftir kjósendum.
Undanfarið hefur fylgið þó verið rétt undir kjörfylgi. Í síðustu tveimur könnunum MMR hefur meðaltalsfylgið til að mynda mælst 10,3 prósent. Og mikill stöðugleiki er í bakgrunnsbreytum kjósenda flokksins.
Þegar fylgið er borið saman við það sem mældist í tveimur könnunum MMR í kringum síðustu kosningar, þar sem niðurstaðan var nákvæmlega sú sama og í kosningunum 2017 (10,9 prósent), sést að Miðflokknum gengur heldur verr að ná til yngstu kjósendanna nú en þá. Hjá þeim kjósendum sem eru undir þrítugu mælist stuðningur við flokkinn nú 6,1 prósent, en var 9,2 prósent fyrir rúmum þremur árum. Stuðningur í öðrum aldurshópum er hins vegar meira og minna á svipuðu róli, á milli tíu til tólf prósent.
Höfuðborgarsvæðið er áfram sem áður það landsvæði þar sem flokkurinn á erfiðast uppdráttar en fylgi hans þar mælist 7,1 prósent. Til samanburðar mælist það 16,4 til 17,8 prósent á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi.
Menntun og kyn ráðandi breytur
Stuðningur við Miðflokkinn er mjög mismunandi eftir menntunarstigi. Flokkurinn nýtur mestra vinsælda hjá þeim sem hafa mest lokið grunnskólaprófi, en þar mælist fylgi hans 18,4 prósent.
Hjá þeim sem hafa lokið háskólaprófi mælist fylgið hins vegar lítið, eða 5,2 prósent.
Kyn er líka ráðandi breyta þegar kemur að stuðningi við Miðflokkinn. Hann er mun vinsælli hjá körlum en konum. Alls segjast 14 prósent karla að þeir myndu kjósa flokkinn í dag en einungis 5,5 prósent kvenna. Stuðningur á meðal karla hefur aukist lítillega frá 2017 en stuðningur á meðal kvenna hefur dregist saman um þriðjung og er 5,5 prósent.
Tekjur virðast hins vegar ekki skipta máli þegar kjósendur eru að ákveða hvort Miðflokkurinn höfði til þeirra. Þannig segjast 10,2 prósent þeirra sem eru með undir 400 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði að þeir myndu kjósa flokkinn í dag en níu prósent þeirra sem eru með yfir 1,2 milljónir króna á mánuði í tekjur. Stuðningur hjá þeim tekjuhópum sem eru þar á milli er mjög svipaður, sveiflast frá 9,0 í 10,4 prósent.