Stríð og friður um jólin
Þótt einhverjir telji sig eiga tilkall jólanna og vilji hafa þau samkvæmt sínu höfði, trú eða hefðum, þá virðist jólaandinn ávallt verða öllu yfirsterkari. Hermenn hafa í gegnum tíðina til að mynda friðmælst við andstæðinga og mennskan sigrar að lokum.
Jólin eru tími gleði, friðar og kærleika en þau geta líka orðið pólitískt bitbein og glitrandi jólaljósin vopn í milliríkjadeilum. Þannig skilgreindu Norður-Kóreumenn 30 metra hátt jólatré sem Suður-Kóreumenn tendruðu ljósin á við landamæri ríkjanna sem sálfræðihernað. Þetta flokkast sjálfsagt með sérkennilegri dæmum um hvernig jólin fléttast inn í alþjóðasamskipti en síðan eru til fallegar sögur sem sannarlega eru í anda jólanna. Þær sýna okkur að jólin koma, þvert á landamæri og trúarbrögð.
Jólavopnahléið 1914
Það var á aðfangadagskvöld árið 1914 að stríðsátök hættu af sjálfsdáðum á nokkrum vígstöðvum þar sem jólasöngur í skotgröfunum snerist fljótlega upp í samtal á milli þýskra, breskra, franskra og belgískra hermanna. Á aðfangadag héldu hermenn beggja vegna víglínunnar inn á einskismannslandið til að jarða látna félaga og óvinir skiptust á gjöfum. Einnig fer sögum af því að spilaður hafi verið fótbolti á þessu annars hættulega landsvæði.
Þó jólavopnahléið árið 1914 sé hvað þekktast hefur fundist bréf skrifað af hermanni sem sem bendir til þess að þessi hátíðlegu vopnahlé hafi haldið áfram að eiga sér stað allt til loka stríðsins. Var gjarnan gert lítið úr þeim í skýrslum yfirmanna til herstjórnar, því þau voru ekki í þeim stríðsanda sem þótti tilhlýðilegur. Raunar voru þau svo illa séð að leyniskyttur voru hafðar tiltækar ef örla skyldi á einhverjum sjálfsprottnum friðarstundum, sem þó mun ekki hafa latt hermenn við að vingast við andstæðinga sína um jólin.
Á þessum tíma var litið á hið fullvalda ríki sem einskonar svartan kassa, hagsmunir ríkisins sem heildar voru aðalatriðið og fólkið í þeim skipti ekki máli. Ungir menn voru í fyrri heimsstyrjöldinni látnir slátra hver öðrum í forinni í nafni ríkisins, en slíkur hugsunarháttur hefur að mestu vikið og mannréttindum almennt farið jafnt og þétt fram. Þessar misfallegu sögur sýna okkur í raun hvernig jólin draga fram mennskuna, sem er þarna augljós ógn við ríkið og afhjúpa ómennsku einræðisstjórna nútímans.
Mismunandi jólasiðir
Flest eigum við Íslendingar okkur jólasiði sem standa hjartanu næst, kristna sem heiðna; laufabrauðs- og piparkökubakstur, skreytingar og helgihald. Þetta eru siðir sem okkur finnst gjarnan þjóðlegir og hljóti margir að eiga sér langa sögu sem teygi sig aftur í aldir. Það á vissulega við um suma hverja en þegar vel er að gáð kemur í ljós að rætur þeirra liggja víða, ekki endilega mjög djúpt, en þeir hafa síðan þróast á mismunandi máta á ferð sinni um heiminn.
Gott dæmi er þegar nánast öll heimili á Íslandi höfðu sjö arma aðventuljós í glugga undir lok 20. aldar og hafa líklega sum hver enn – vegna þess að Gunnar Ásgeirsson heildsali, sem meðal annars flutti inn Volvo og Husquarna frá Svíþjóð, rakst á þau þar í landi og hóf innflutning til Íslands. Hafa vinsældir ljósanna verið nefndar sem dæmi um innihaldsleysi jólahaldsins því þetta séu gyðingaljós sem eigi sér engan stað í íslenskri trú eða hefðum.
Málið er þó ekki alveg svo einfalt því ljósin byggja á einskonar aðventutré eða kertastjökum sem höfðu þekkst í Svíþjóð frá lokum 19. aldar, en þangað barst siðurinn frá Þýskalandi. Jafnframt má segja að þetta sýni okkur hvað jólin snúast í raun um. Uppruni hlutanna eða trúarlegur bakgrunnur skiptir ekki öllu máli því á jólunum reynir fólk að finna það sem færir frið, fegurð og gleði, sem er sammannlegt.
Jólin hafa þó víða verið nátengd kristinni trú, eins og hér á Íslandi, þar sem fæðing Frelsarans gefur tóninn hjá mörgum. Fyrir aðra er þetta alfarið heiðin hátíð enda til komin áður en kristnir menn felldu hana inn í sín hátíðahöld. Hér á norðurhveli eru jólin, með sinni ljósadýrð og huggulegheitum, kærkomin í svartasta skammdeginu. Þau boða endurkomu ljóssins með rísandi sól og bjartari dögum, hvað sem trúarbrögðum líður.
Hverjir eiga jólin?
Þegar eitthvað er mönnum jafn kært og jólin er líklegt að einhverjir vilji kasta eign sinni á það. Þó jólin séu friðarhátíð þar sem flestir reyna að finna hinn sanna jólaanda og vera góðir við menn og dýr, verður hátíðin sjálf og inntak hennar því stundum deiluefni í sjálfu sér.
Mismunandi siðir og venjur við jólahald geta þannig varpað ljósi á menningarmun í fjölmenningarsamfélögum eins og Bandaríkjunum. Fyrir jólin í fyrra varð uppi fótur og fit í Wisconsin-ríki þegar nýkjörinn ríkisstjóri úr röðum demókrata reyndi að höfða til mismunandi sjónarmiða og trúarbragða við jólaskreytingar. Tilkynnti hann að hið risavaxna jólatré sem sett var upp í hvelfingu þinghússins yrði kallað hátíðatré. Þetta fór öfugt í repúblikana og þingmenn deildu um málið í ríkisþinginu.
Slíkar deilur hafa skotið upp kollinum hér á Íslandi sem hefur þróast hratt í átt að fjölmenningarsamfélagi á aðeins nokkrum áratugum. Íslenskur stjórnmálamaður lýsti því yfir fyrir nokkru að stríð stæði yfir gegn jólunum. Vísaði hann þar til þess að skólabörn væru hætt skipulögðum heimsóknum í kirkjur fyrir jól, hætt væri að setja upp jólaleikrit og jafnvel að halda litlu jólin. Ástæðan var að í samfélagi þar sem trúfrelsi ríkir mætti ekki skylda alla til að taka þátt í trúarlegum athöfnum.
Fyrir Íslendinga sem almennt hafa ekki verið þjakaðir af trúarhita virðist þetta ekki vera mikið tiltökumál. Sagan um Jesúbarnið og jólin er fyrir mörgum Íslendingum hluti af hefð sem jafnvel örgustu trúleysingjum þykir líklega bara vænt um. Öðru máli kann að gegna um þá sem taka trú sína mun alvarlegar. Spurningin er svo hversu langt á að ganga í að þóknast öllum þeim mismunandi viðhorfum. Kannski felst lausnin í að varast að nota þennan núning til að skerpa á andstæðum og reyna að leysa málið í anda jólanna.
Hnattvæðing Jólasveinsins
Aðrir siðir og venjur læða sér inn án þess að beinlínis valda deilum og er hinu gamla þá gjarnan varpað fyrir róða án mikillar eftirsjár. Á fyrri hluta 20. aldar sló Coca-Cola-fyrirtækið eign sinni á hinn rauðklædda Santa Claus sem varð þar með þekktur um heimsbyggðina. Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja og fljótlega klæddust hinir sann-íslensku jólasveinar allir rauðu og hvítu og milduðust í allri framkomu. Hafði hún þó þegar farið batnandi allt frá árinu 1746 þegar lagt var bann við því að foreldrar hræddu börn sín með jólasveinum, með svokallaðri Húsagatilskipun. Hættu þá jólasveinarnir að vera lífshættulegir og urðu einungis hrekkjóttir þjófar.
Sjálfsagt hefur þó einhverjum þótt nóg um þessa innrás hins alþjóðlega stórfyrirtækis. Sé allrar sanngirni gætt er þó skiljanlegt að blessuðum börnunum hafi líkað betur við þann bústna rauðklædda en íslenska frændur hans, tröllslegir ruddar sem þeir voru, mamman át jú börn og skrímslið kötturinn þeirra líka. Að einhverju leyti féll hinn góðlegi sveinki betur að hinu ljósum skrýdda jólahaldi og hefur tekið á sig einhverskonar guðlega mynd í poppmenningu nútímans.
Á síðari árum hafa þeir gömlu íslensku sveinar þó hlotið uppreist æru og hafa aftur fengið að vera með í jólahaldinu. Það er kannski tímanna tákn að Stúfur sem er þeirra minnstur, mesta meinleysisgreyið sem lét sér nægja að stelast í viðbrunna afganga, er orðinn þeirra vinsælastur.
Hnattvæðing siðvæðir
Því hefur verið haldið fram að Íslendingar geti þakkað alþjóðasamstarfi þær framfarir sem hafa orðið í samfélaginu, siðmenningin og ýmis mannréttindi sem okkur hafa hlotnast komi allt að utan. Í því samhengi er þessi samruni hinna óhefluðu íslensku jólasveina við Coca-Cola-sveininn athyglisverður því þar mætast talsverðar andstæður. Má hæglega nefna það siðvæðingu þar sem ofbeldisfullu rustamennin, hverra líf gekk út á húsbrot og þjófnaði, snúa lífi sínu til betri vegar og fara að dreifa gjöfum til barna með bros á vör.
Þrátt fyrir að einhverjir telji sig eiga tilkall jólanna og vilji hafa þau samkvæmt sínu höfði, trú eða hefðum, þá virðist jólandinn ávallt verða öllu yfirsterkari. Eins og hermennirnir sem héldu áfram að friðmælast við andstæðinga sína, með söng, gjöfum og fótboltaleik, þvert ofan í skipanir yfirmanna og hættu á að verða skotnir á færi – þá sigrar mennskan að lokum. Jólin munu því væntanlega áfram gefa von um kærleika og frið á jörð, hver sem þykist eiga þau.
Lestu meira:
-
24. desember 2022Jólasagan: Litla stúlkan með eldspýturnar
-
24. desember 2021Jólasagan: Litla stúlkan með eldspýturnar
-
21. janúar 2021Tæknivarpið – Þáttur ársins
-
4. janúar 2021Hlutabréfaviðskipti hafa ekki verið fleiri á Íslandi frá hrunárinu 2008
-
3. janúar 2021Ár veiru, almannagæða og almannaskaða
-
3. janúar 2021Betri tíð
-
3. janúar 2021Faraldurinn yfirskyggði allt
-
3. janúar 2021Kannt þú að beygja kýr?
-
2. janúar 2021Draumur á jólanótt
-
2. janúar 20212020 og leiðin fram á við