Það er satt sem þau segja að það er eins og að hitta fjölskyldu og vini þegar Norðurlöndin koma saman,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á leiðtogafundi forsætisráðherra Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs sem fór fram í Helsinki í vikunni. Blaðakona Kjarnans var viðstödd þingið og settist niður með Katrínu í finnska þinghúsinu milli þingfunda.
Stemningin á Norðurlandaráðsþingi var vissulega hugguleg og heimilisleg. Vel fór á með forsætisráðherrunum, þingmenn skelltu í sjálfur í einum af ótal marmaratröppum finnska þinghússins milli funda eða fóru saman í hringferð í lyftunni sem aldrei stöðvar.
En undirtónn Norðurlandaþingsins var alvarlegri en oft áður. Pólitískt landslag er gjörbreytt frá því að þingið kom síðast saman í Kaupmannahöfn fyrir ári síðan. Stríðið í Úkraínu hefur staðið yfir 255 daga og áhrifa þess gætir víða um heim.
Öryggis- og varnarmál skyndilega orðin áberandi í samskiptum Norðurlanda
„Þetta er náttúrulega rosalega sérstakt. Þetta er fyrsta Norðurlandaráðsþingið eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Það má segja að stríðið sé yfir og allt umlykjandi. Öryggis- og varnarmálin sem almennt hafa ekki verið mikið rædd í Norðurlandaráði, svona sögulega, eru skyndilega orðin miðlæg,“ segir Katrín í samtali við Kjarnann.
Það sást einna helst á blaðamannafundi forsætisráðherra Norðurlandanna þar sem fátt annað en aðild Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu (NATO) komst að. Þar greindi Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, frá því að hann mun fara til fundar við Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta á næstunni til að ræða fullgildingu aðildar Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu.
Svíþjóð og Finnland sóttu um aðild að NATO í maí og sögðu þannig skilið við hlutleysisstefnu sína til margra áratuga. Ástæðan var skýr: Breytt öryggisumhverfi í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Öll 30 aðildarríki NATO verða að samþykkja aðild áður en ný ríki geta bæst við öryggis- og varnarbandalagið. Aðeins Tyrkland og Ungverjaland eiga eftir að fullgilda aðild Svíþjóðar og Finnlands. Ísland var með fyrstu ríkjunum sem samþykkti aðild 5. júlí eftir að Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, náði samkomulagi við Erdogan á leiðtogafundi NATO-ríkjanna í Madríd.
Skilyrði Tyrklandsforseta um málefni Kúrda ekki viðeigandi
Gergely Gulyás, ráðherra í forsætisráðuneyti Ungverjalands, lagði í síðasta mánuði tillögu fyrir ungverska þingið um staðfestingu aðildarsamnings Svíþjóðar og Finnlands. Búist er við að Ungverjaland fullgildi aðildina í desember.
Þá standa Tyrkir einir eftir. Erdogan hefur farið fram á að sænsk og finnsk stjórnvöld framselji kúrdíska hryðjuverkamenn, eins og hann kemst sjálfur að orði, sem hann segir Svía og Finna veita skjól. Sænska ríkisstjórnin greindi frá því í gær að hún muni slíta öll tengsl við varnarsveitir Kúrda YPG og lýðræðisbandalagið PYD, stjórnmálafylkingu Kúrda í Sýrlandi.
Ákvörðunin er tekin í aðdraganda Tyrklandsheimsóknar Kristersson. Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir í samtali við sænska ríkisútvarpið að tengsl sveitanna tveggja séu of sterk við PKK, vopnaðar sveitir kúrdíska verkamannaflokksins, sem eru á lista Evrópusambandsins yfir hryðjuverkasamtök. Varnarsveitirnar hafa barist samhliða her NATO gegn sveitum Íslamska ríkisins í Sýrlandi.
„Sjálf hef ég nú sagt að mér finnist það ekki viðeigandi af hálfu Tyrkja að setja þetta sem skilyrði. En það er gert þetta samkomulag sem hefur ekki verið túlkað með nákvæmlega sama hætti af hálfu Tyrkja og Svía og væntanlega er nýr forsætisráðherra Svía að reyna að fá fram sameiginlega túlkun,“ segir Katrín.
Skynjar áhuga norrænna stjórnmálamanna um aukið samstarf
Aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO mun gera samstarf Norðurlandanna nánara á sviði öryggismála, það er óhjákvæmilegt að mati Katrínar. „Auðvitað breytir það stemningunni innan Atlantshafsbandalagsins að það séu komnar fimm Norðurlandaþjóðir og auðvitað eru þetta þær þjóðir sem kannski standa næst því að vera í raun og veru með svipaða samfélagsgerð og svipuð gildi. Þannig að auðvitað hefur það áhrif á málflutninginn þar innanhúss þó að það séu engar formlegar blokkir.“
Katrín segist hafa fundið fyrir áhuga meðal norrænna stjórnmálamanna að efla samskiptin á sviði öryggis- og varnarmála. „Mér finnst líklegt að þetta verði miðlægara í umræðunni á komandi misserum og árum, aukið samstarf, og þar erum við áfram með sérstöðu, verandi herlaus þjóð sem tekur þátt í öllu slíku samstarfi.“
Stendur við að ekki hafi verið um stefnubreytingu að ræða
Utanríkismálanefnd, undir forystu Vinstri grænna, lagði til að tillaga um aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO yrði samþykkt í júní. Það var í fyrsta sinn sem Vinstri græn studdu við stækkun NATO. Afstaða flokksins hefur hingað til verið skýr hvað NATO varðar. Í stefnu Vinstri grænna segir að flokkurinn leggi áherslu á að Ísland segi sig úr bandalaginu.
Katrín sagði í samtali við Kjarnann í vor að ekki væri um stefnubreytingu að ræða hjá flokknum og stendur hún við það.
„Í fyrsta lagi þá ákváðum við, löngu áður en þetta gerist, þegar við fórum inn í ríkisstjórnina að við munum fylgja þjóðaröryggisstefnunni sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta á Alþingi 2016 sem felur meðal annars í sér aðild að NATO þannig að við höfum auðvitað ekki sett fram kröfur um úrsögn heldur fylgjum við henni.“
Eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar segir Katrín að það hafi aldrei annað komið til greina en að styðja norrænu ríkin í umsóknarferlinu. „Það var niðurstaða mín sem norræns forsætisráðherra í mjög þéttu samstarfi við mína kollega á Norðurlöndunum að ég myndi styðja lýðræðislega niðurstöðu þjóðþinga þessara ríkja,“ segir Katrín, sem bendir þó á að nokkrir þingmenn Vinstri grænna kusu að sitja hjá vegna stefnu flokksins. Alls sátu þrír af átta þingmönnum flokksins hjá við atkvæðagreiðslu tillögunnar; Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Orri Páll Jóhannsson og Steinunn Þóra Árnadóttir. „En þetta eru nánustu samstarfsþjóðir okkar og þær komast að þessari niðurstöðu,“ segir Katrín.
Normaliseruð kjarnorkuvá óhugnanleg þróun
Ísland tekur við formennsku í norræna ráðherraráðinu á næsta ári og Katrín kynnti formennskuáætlun Íslands á þingi Norðurlandaráðs þar sem friðar- og afvopnunarmál verða í forgrunni. Alþjóðleg ráðstefna um friðarmál er meðal annars á dagskrá þar sem afvopnunarmálin verða undir.
„Stefnan okkar snýst fyrst og fremst um friðarmálefni. Ég gerði kjarnorkuvána sérstaklega að umtalsefni í umræðum á Norðurlandaráðsþingi, sem er allt í einu orðin á nýjan leik mjög yfirþyrmandi og um leið svolítið normaliseruð, sem er mjög óhugnanleg þróun,“ segir Katrín.
Hún segir mikilvægt að Ísland beiti sér fyrir afvopnun kjarnorkuvopna á vettvangi sínum í öryggis- og varnarmálum. „Það er gríðarlega mikilvægt að Ísland tali þessari röddu, sem ég held að við sem þjóð séum mjög einhuga um, og ekki síður ef Norðurlöndin geti náð saman um einhverja slíka afstöðu. Ég held að það skipti gríðarlegu máli.“
Þessu tengt:
-
1. nóvember 2022Ulf Kristersson til fundar við Erdogan um fullgildingu aðildar Svíþjóðar að NATO
-
4. júní 2022Vinstri græn styðja stækkun NATO í fyrsta sinn
-
16. maí 2022Ítreka stuðning við ákvörðun Finnlands og Svíþjóðar að sækja um aðild að NATO
-
6. maí 2022Katrín styður stækkun NATO – Í fyrsta sinn sem formaður VG gerir það
-
19. ágúst 2021Nokkur orð um heimsvaldastefnu NATO og hvítan femínisma
-
17. ágúst 2021Vilja að íslensk stjórnvöld bjóði einstaklingum frá Afganistan alþjóðlega vernd
-
7. mars 2021Stríðsleikurinn sem fór úr böndunum
-
13. desember 2020NATO finnur sér hlutverk
-
19. október 2019Hvers vegna tók Ísland af skarið í andstöðu við leiðtoga NATO, um viðurkenningu á sjálfstæði Eystrasaltsþjóða?
-
15. ágúst 2019Logi biður Guðlaug Þór um nánari útskýringar á heimsókn Pence