Fólk með annað litarhaft en gengur og gerist á Íslandi þarf að búa við fordóma – þá augljósu og hina leyndu – og eru börn þar ekki undanskilin. Íslenskur faðir barna af erlendum uppruna sem nú stunda nám í yngri bekkjum grunnskóla segir að um leið og börnin hófu grunnskólagöngu sína hafi farið að bera á fordómum í garð þeirra.
„Okkur náttúrulega dauðbrá og létum þá vita sem áttu þarna hlut að máli,“ segir hann í samtali við Kjarnann. Alltaf hafi verið sama viðkvæðið – öllum hafi fundist miður að heyra af fordómunum en engar afleiðingar hafi verið fyrir hin börnin sem sýndu fordómana. „Það eru bara innantóm orð sem koma og það er það sem kristallast í kringum þetta. Allir eru rosa hissa og sorgmæddir og finnst leiðinlegt að heyra, og þar fram eftir götunum, en svo nær það ekki lengra. Því miður.“
Hann gagnrýnir skólayfirvöld og Reykjavíkurborg þar sem hann er búsettur og segir að hann vilji að almennt verði tekið á þessum málum. Hann kýs að segja frá reynslu fjölskyldunnar og barna sinna nafnlaust.
Öðruvísi börn fá þau skilaboð að þau séu ekki fullgildir meðlimir í samfélaginu
„Það er staðreynd að kynþáttafordómar eru á öllum stöðum í samfélaginu – hvort sem þeir eru ómeðvitaðir eða meðvitaðir,“ segir faðirinn og talar þar af reynslu þar sem börnin hans hafi þurft að upplifa slíkt. Hann nefnir enn fremur að lítið sé um fyrirmyndir fyrir börnin í opinberri umræðu eða í fjölmiðlum þar sem frekar séu valdir hvítir viðmælendur en fólk með annan húðlit.
„Þótt þetta sé kannski ekkert stórmál eitt og sér þá er þetta eins og í máltækinu: „Dropinn holar steininn.“ Það eru alltaf einhver smáatriði hér og smáatriði þar sem verða þess valdandi að skólakerfið og samfélagið gefur þessum börnum sem eru öðruvísi þau skilaboð að þau séu ekki fullgildir meðlimir í samfélaginu og hafi ekki sömu möguleika. Þetta fær að viðgangast og það er ekki tekið á þessu af neinni festu,“ segir hann.
Börn mannsins hafa verið kölluð ýmsum nöfnum á skólagöngu sinni, á borð við „drulli“, „kúkur“ og „nigger“.
„Í mínum augum er þetta allt grafalvarlegt. Mér finnst vera galið að það sé í boði að meta alvarleika brotsins – bara það að láta svona út úr sér er mjög alvarlegt.“
Hann tilkynnti framkomuna til skólayfirvalda en hann segir að það hafi engar afleiðingar haft fyrir gerendur eða foreldra, einungis hafi verið talað við gerendur og foreldrarnir látnir vita. Honum finnst að bæði skólayfirvöld og sveitarfélög þurfi að taka á málunum af meiri festu.
Barnið hefur fengið að heyra að hvítir séu betri en brúnir
Faðirinn hefur haft spurnir af skóla í Reykjavík sem skilgreinir fordóma sem ofbeldi og að þar sé rætt við þá nemendur sem verða uppvísir af því að sýna fordóma. Þá sé hringt heim til foreldra og þeir látnir vita um málið. Farið sé fram á það að nemandinn biðjist afsökunar á orðum eða gjörðum sínum – og atvikið skráð í Mentor.
„Mér finnst þetta vera góð vinnubrögð. Þarna eru skýr skilaboð send um að þetta sé ekki liðið.“
Ummælin sem viðhöfð hafa verið uppi við börnin hans í skólanum eru til að mynda að hvítir séu betri en brúnir, þau séu ljót af því að þau séu brún og þau geti ekki tekið þátt í eltingaleik af því að einhver barnanna fái hroll þegar þau komi við svona brúna húð.
Jafnframt þurfa þau að sitja undir röngum fullyrðingum, eins og „ þú hleypur ekki hraðast í bekknum af því að þú tekur svo stór skref“, þar sem lítið er gert úr líkamlegu atgervi þeirra.
Faðirinn nefnir að auðvitað séu þessi mál snúin. Í þessu tilfelli sé hægt að spyrja hvort um sé að ræða hreina og klára öfund eða hvort húðlitur komi málinu við. Það sé erfitt að segja. „Ég sem foreldri verð náttúrulega samt að taka lægsta samnefnarann í þessu og draga þá ályktun að það sé verið að taka þau niður af því að þau séu öðruvísi. Stundum hef ég rangt fyrir mér, ég viðurkenni það. Stundum er ég allt of agressífur hvað þetta varðar. Stundum hef ég hugsað eftir á hvort þessi hegðun hafi snúist um eitthvað annað. En ég verð bara að standa vörð um börnin mín, það gerir það enginn annar.“
Hann bendir á að þarna sé verið að planta einu litlu fræi sem muni hafa áhrif seinna á sjálfsmyndina. „Það er náttúrulega sárt að heyra svona frá bekkjarfélögum,“ segir hann.
Ekki nóg að hringja bara heim – meira þarf að gera
Í eitt skiptið óskaði faðirinn eftir því að nemandi sem sagði fordómafull orð við barnið hans bæðist afsökunar og að atvikið yrði skráð í Mentor. Svarið sem hann fékk var að í málum þar sem fordómafull hegðun væri sýnd hefði skólinn haft það verklag að einungis upplýsa foreldra. Málinu væri því lokið af hálfu skólans.
Faðirinn telur að ekki sé nóg að hringja heim, heldur þurfi meira að koma til. Hann greinir jafnframt frá því að einungis einu sinni hafi bekkjarsystkini komið heim og beðist afsökunar – af átta eða níu tilvikum.
„Það held ég að sé besta forvörnin, að þegar þú gerir eitthvað þá þarftu að gangast við því sem þú sagðir og biðjast afsökunar. Ég held reyndar að að stórum hluta sé þetta foreldravandamál. Þeir þurfa að uppfræða börnin sín og ekki leyfa þeim að komast upp með svona hegðun. Forvarnirnar byrja á heimilinu – það er alveg á kristaltæru,“ segir hann og bætir því við að skólayfirvöld þurfi auðvitað einnig að gera eitthvað í þessu. „Jú, það er ýmis fræðsla sem stendur til boða en mér finnst að fræðsla eigi að vera skylda í öllum skólum. Það verður að ræða og fræða starfsfólk, nemendur og foreldra um fjölmenningu með það að markmiði að uppræta þessa meinsemd.“
Afskiptaleysið erfiðast
Fordómar eiga sér þó ekki einungis stað á skólalóðinni heldur í frístund og í íþróttum einnig. Faðirinn segir að barnið hans hafi orðið fyrir fordómum við íþróttaiðkun og að mun betur hafi verið tekið á málum þar. Hann telur þó að upplýsingaflæðið á milli allra aðila sem um ræðir þurfi að vera betra. „Kynþáttafordómar fara ekkert í frí eftir skólatíma,“ segir hann.
Hann segist þó mest vera vonsvikinn með það hversu kerfið sé seint til og lítill áhugi sé til staðar til að taka málin föstum tökum. „Það er þetta afskiptaleysi sem er svo erfitt. Og það er alvarlegt. Þetta er jafn alvarlegt að snúa blindu auga á einelti og að gera það sama gagnvart fólki með annan húðlit.“
Faðirinn segist jafnframt átta sig á því að þessi mál séu flókin en að ekkert muni breytast nema ræða þetta. „Maður verður svo leiður á því að reyna að tala við til dæmis Reykjavíkurborg um að gera einhverjar breytingar. Af hverju ekki að senda skýr skilaboð um að kynþáttafordómar verði ekki liðnir? Af hverju þarf ég að flytja milli sveitarfélaga eða skóla svo þessi mál verði meðhöndluð betur?“ Hann segir að það eigi ekki að þurfa. „Ég á að geta valið mér hverfi til að búa í án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvernig barninu mínu reiðir af í skóla og frístundum af því það er með annan húðlit.“
Öráreiti alls staðar
Börnin þurfa einnig að búa við það að verða fyrir öráreiti á götum úti. Faðirinn segir að þetta sé alls staðar – til að mynda sé mikið horft á börnin í sundi og í almannarýmum. Jafnframt „djöflist“ ókunnugt fólk í hárinu á þeim án þess að spyrja um leyfi. Hann segir að börnin séu hætt að kippa sér upp við þetta enda sé þetta því miður orðin hluti af veruleika þeirra.
„Þau hafa „sætt sig“ við þetta og eru hætt að tala um þessa hluti. Jafnframt hafa komið tímabil þar sem þau hafa sagt að þau vilji ekki vera svona á litinn,“ segir faðir barnanna og áréttar að samfélagið í heild sinni og stofnanir innan þess verði að takast á við þetta vandamál saman og stoppa öráreiti og fordóma.
Faðirinn rifjar í þessu samhengi upp rasísk ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra sem hann viðhafði í vetur um framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, Vigdísi Häsler, en málið var til umfjöllunar í fjölmiðlum á sínum tíma. Ráðherrann á að hafa vísað til hennar sem „hinnar svörtu“.
Málið fordæmisgefandi – Telur ráðherrann hafa komist of auðveldlega frá því
Vigdís sagði í yfirlýsingu að orðin sem ráðherrann hefði notað hefðu verið mjög særandi og að það væri ekki hennar að bera ábyrgð á þeim. „Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn.“
Sigurður Ingi baðst afsökunar og sættust þau síðar – og er málinu lokið af hálfu þeirra beggja.
Föðurnum finnst ráðherrann aftur á móti hafa komist allt of auðveldlega frá því máli. „Væri ekki hægt að skora á hann að fara í skóla og ræða þessi mál – þar sem hann myndi viðurkenna hvað hann gerði? Það yrði ágætis heilun fyrir hann og aðra.“
Hann telur að málið sé fordæmisgefandi, þ.e. ef ráðherra getur sagt svona hluti af hverju ættu þá aðrir ekki að tala með sama hætti. Hann er harður á því að afsökunarbeiðnin sé ekki nóg.
Ekkert annað en ofbeldi
Varðandi fordóma í skólum þá telur faðirinn að skrá eigi tilvik þar sem börn sýna fordóma sem ofbeldi til þess að senda skýr skilaboð út í samfélagið að þetta sé ekki liðið. Svo sé það á ábyrgð foreldranna að taka á þessu með börnunum sínum og fá aðstoð ef þess þarf.
Honum finnst að sá sem verður fyrir ofbeldinu eigi ekki að þurfa að bera ábyrgð á því sem aðrir gera. Að þolandinn eigi til að mynda ekki að þurfa að skipta um skóla til að forðast gerandann. Þannig sé verið að senda alröng skilaboð. Og gerandinn eigi auðvitað að fá aðstoð en viðurkenna þurfi vandamálið.
„Þeir sem verða uppvísir að kynþáttafordómum eiga að vera teknir úr bekknum til að fá fræðslu þar sem farið væri yfir þessi grunngildi. Þetta er ekki flókið í útfærslu. Það er ekkert annað en ofbeldi að vera að djöflast í öðrum sem eru af öðrum uppruna,“ segir hann að lokum. Það verði að taka á þessum málum af festu og þar séu fræðsla og skýr skilaboð öflugustu vopnin.
Lesa meira
-
9. janúar 2023Hvernig má nýta helming mannauðs með skilvirkari hætti?
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Búast við lýðheilsulegum ávinningi af Borgarlínu
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
7. janúar 2023Blessað barnalán
-
6. janúar 2023Vin – Faglegt hugsjónastarf
-
6. janúar 2023Þriðjungur kostnaðar til kominn vegna þjónustu við fatlað fólk með vímuefnavanda
-
5. janúar 2023Íslendingar vilja að læknar veiti dánaraðstoð
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
4. janúar 2023Ekki færri ungmenni í foreldrahúsum frá upphafi mælinga