Bára Huld Beck Kristín Loftsdóttir
Bára Huld Beck

Litla Ísland ekki svo saklaust lengur

Kynþáttafordómar eru hluti af íslensku samfélagi, svo nokkuð er ljóst, að mati Kristínar Loftsdóttur mannfræðings. Kynþáttamörkun á Íslandi hefur ekki verið sérstaklega rannsökuð en Kristín telur að það sé tímabært. „Við verðum að skoða á gagnrýnan hátt hvernig fordómar eru kerfislægir í samfélaginu okkar í dag.“

Það þyrmdi yfir mig, mér fannst fyr­ir­sjá­an­legt að þetta myndi enda illa af því að ras­ismi er jú stað­reynd í okkar sam­fé­lag­i,“ segir Kristín Lofts­dótt­ir, pró­fessor í mann­fræði við Háskóla Íslands, í sam­tali við Kjarn­ann.

Atvikið sem hún vísar til er þegar lög­regla lýsti eftir tví­tugum manni sem strauk úr haldi lög­reglu við Hér­aðs­dóm Reykja­víkur í apr­íl. Leit stóð yfir af honum í nokkra daga og hafði lög­regla í tvígang, á jafn mörgum dög­um, afskipti af 16 ára gömlum dreng, vegna ábend­inga frá almenn­ingi um að hann væri stroku­fang­inn. Dreng­ur­inn er dökkur á hör­und og með svip­aða hár­greiðslu og umræddur stroku­fangi.

Kristín varð vör við til­kynn­ingu lög­reglu eins og aðrir þar sem lýst var eftir stroku­fang­an­um. „En það þyrmdi líka yfir mig af því að þarna var mjög ungur ein­stak­lingur sem var eft­ir­lýstur á þennan hátt. Mér fannst þetta mjög furðu­leg leið til að hafa uppi á korn­ungum strák, fyrir mér er hann mjög ung­ur, hann er að stíga sín fyrstu skref sem full­orðin mann­eskja,“ segir Krist­ín, sem var brugðið við að sjá til­kynn­ingu lög­reglu og segir hún að, því mið­ur, hafi atburð­irnir í kjöl­farið að sumu leyti ekki komið á óvart.

Lög­regla hafði fyrst afskipti af 16 ára drengnum í strætó og dag­inn eftir í bak­aríi. Móðir drengs­ins var með honum í seinna skiptið og sagði hún í sam­tali við Kjarn­ann að atvikið hefði verið nið­ur­lægj­andi og að ekki væri um neitt annað að ræða en for­dóma. Dreng­ur­inn var sjálfur með ósk sem hann vildi koma á fram­færi eftir að lög­regla hafði ítrekuð afskipti af hon­um. „Ég væri til í að geta stigið út úr mínu eigin húsi og vera með vinum mínum án þess að lög­reglan stoppi mig fyrir það hvernig ég lít út.“

Margt hér ekki ólíkt því sem ger­ist í nágranna­ríkj­unum

Í kjöl­farið spratt upp umræða, meðal ann­ars á sam­fé­lags­miðl­um, þar sem margir for­dæmdu vinnu­brögð lög­regl­unnar og lýstu yfir van­þókn­un. Kristín segir að fyrir marga hafi það verið ákveðið áfall að svona nokkuð geti gerst á Íslandi. „Það eina sem er jákvætt er að þetta vakti upp umræðu og vit­und margra á því að það er margt nei­kvætt hér í gangi sem er ekki ólíkt nágranna­ríkjum okk­ar,“ segir Krist­ín.

Rann­sóknir hennar hafa meðal ann­ars beinst að for­dóm­um, nýlendu­hyggju og hug­myndum um hvít­leika. Rann­sóknir hennar á Íslandi hafa und­ir­strikað mik­il­vægi þess að skoða sam­tím­ann í sam­hengi við sögu kyn­þátta­for­dóma og hvernig þeir eru end­ur­skap­aðir í sam­tím­an­um. Þá hafa rann­sóknir Krist­ínar og nem­anda hennar síð­ustu ár sýnt að Íslend­ingar sem eru dökkir á hör­und eða eru af erlendum upp­runa eiga erfitt með að vera sam­þykkt sem Íslend­ingar á sömu for­sendum og aðrir Íslend­ing­ar.

„Ég hef verið lengi að skoða ýmis mál­efni sem tengj­ast kyn­þátta­for­dómum og eitt af því sem hefur ein­kennt umræðu á Íslandi mjög lengi er þessi sýn að þetta sé eitt­hvað sem komi okkur ekki sér­stak­lega við af því að við áttum ekki nýlend­ur, við tókum ekki þátt, við vorum að mót­mæla ýmsum for­dómum ann­ars stað­ar, að þá komi þessi umræða að ákveðnu leyti okkur ekk­ert við og eitt­hvað sem séu kyn­þátta­for­dómar ann­ars staðar séu það ekki hérna.“

Skoða þarf afskipti lög­reglu af drengnum í stærra sam­hengi

Að mati Krist­ínar sýna atburðir síð­ustu vikna að staðan sé önn­ur. Fjöl­breyti­leiki íslensks sam­fé­lags er að aukast og kallar það á breytt við­horf. „Ég held að þessi sýn á sak­lausa litla Ísland hafi verið að breyt­ast á síð­ast­liðnum árum, það er ekki bara að for­dóm­arnir séu til staðar af því að við höfum auk­inn fjölda fólks, bæði af erlendum upp­runa en líka Íslend­inga sem eru dekkri heldur en meiri­hlut­inn. Það sem hefur breyst er einnig ákveðin með­vit­und um að for­dómar hafi líka verið hér á Íslandi áður fyrr.“

Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Mynd: Bára Huld Beck

Afskipti lög­reglu af drengnum í apríl þarf að skoða í stærra sam­hengi að mati Krist­ín­ar, til að mynda í sam­hengi við póli­tískar svipt­ingar og upp­gang popúlista­flokka á síð­ast­liðnum árum. Þá nefnir hún einnig atburði í Banda­ríkj­unum líkt og morðið á George Floyd í lok maí 2020, þegar lög­reglu­maður hélt hné sínu að hálsi hans í 8 mín­útur og 46 sek­únd­ur. Morðið var drop­inn sem fyllti mæl­inn hjá hópi fólks og gaf „Black Lives Matt­er“-hreyf­ing­unni byr undir báða vængi.

Ákall um að skoða kerf­is­læga for­dóma

„Ég held að það sé gott að tengja þetta við umræðu sem hefur átt stað í miklu víð­ara sam­hengi en hér á Íslandi í kjöl­far morðs­ins á Floyd, sem er ákall um að skoða þessa kerf­is­lægu for­dóma,“ segir Krist­ín. Hug­myndir um hvítt for­ræði (e. white supremacy) er meðal þess sem þarf að skoða í þessu sam­hengi að hennar mati, hug­myndir sem byggja á því að það að vera hvítur sé betra en að vera ein­hvern veg­inn öðru­vísi.

„Ég held einmitt að þessar hug­myndir snú­ast ekki bara um sýn ákveð­inna ein­stak­linga á að það að vera hvítur sé betra, heldur snýst þetta líka um að líta þannig á að hvítur sé normið í sam­fé­lög­un­um. Þetta er gömul umræða að því leyti að það hefur lengi verið bent á hvernig þessi umræða um aðra kyn­þætti gengur út á að hvítur sé það sem er nátt­úru­legt og eðli­legt. Hér á Íslandi held ég að þessi teng­ing á milli þess að vera Íslend­ingur og hvítur hafa ekki minnkað á síð­ustu árum.“

„En líka, við verðum að skoða á gagn­rýnan hátt hvernig for­dómar eru kerf­is­lægir í sam­fé­lag­inu okkar í dag,“ segir Krist­ín.

EPA

„Kyn­þátta­mörk­un“ mik­il­vægt íslenskt hug­tak um ákveðið form kyn­þátta­for­dóma

Umræða um kyn­þátta­mörk­un, sem útleggst sem „racial profil­ing“ á ensku, hefur verið áber­andi eftir atburð­ina í apr­íl. Kyn­þátta­mörkun er þegar kyn­þáttur og/eða húð­litur er not­aður til þess að skil­greina ein­stak­linga eða hópa fólks og mis­munum gagn­vart þeim rétt­lætt á þeim for­send­um. Slík flokkun fólks bygg­ist oft á ómeð­vit­aðri hlut­drægni. Í lög­gæslu birt­ist þetta með þeim hætti að ein­stak­lingur eða hópur fólks er grun­aður um sak­næmt athæfi vegna kyn­þáttar og/eða húð­litar frekar en sönn­un­ar­gagna.

Kristín segir mik­il­vægt að eiga hug­tak á íslensku sem nær utan um þetta form kyn­þátta­for­dóma og er hlynnt hug­tak­inu kyn­þátta­mörk­un, sem hópur fræða­­fólks og aktí­vista hafa lagt til. „Það er mik­il­vægt að hugsa um þetta sem hluta af kyn­þátta­hyggju í stærra sam­hengi þar sem ákveðnir lík­amar eru taldir eðli­legri, eða sak­laus­ari, heldur en aðr­ir,“ segir Krist­ín.

Kyn­þátta­mörkun snýst ekki alltaf um að ein­stak­lingar ætli sér að mis­muna og getur því bæði verið um með­vit­aða og ómeð­vit­aða for­dóma að ræða. „Ég held að það sé svo mik­il­vægt að við í þessu sam­fé­lagi horf­umst í augu við að kyn­þátta­for­dómar eru hluti af sam­fé­lag­inu sem við búum í, þeir eru hluti af heim­inum sem við búum í. Ef við horf­umst í augu við það hefur það auð­vitað áhrif á hvaða aðgerðir þykja eðli­legar og æski­leg­ar. Eins og í þessu til­viki þegar verið er að lýsa eftir ein­stak­lingi er mik­il­vægt að staldra við og velta fyrir sér hvað þetta þýðir í sam­fé­lagi þar sem ras­ismi er ennþá þáttur í tengslum milli ólíkra hópa,“ segir Krist­ín.

Kyn­þátta­mörkun hefur ekki verið rann­sökuð sér­stak­lega á Íslandi og segir Kristín svo sann­ar­lega tíma vera kom­inn til þess. „En það eru samt, sem betur fer, fleiri farnir að skoða kyn­þátta­for­dóma í íslensku sam­fé­lagi og ég held einmitt að þetta atvik verði til þess að þessi umræða verði meira í kast­ljós­inu, bæði í fræða­sam­fé­lag­inu og hjá almenn­ing­i.“

„Hlýtur eitt­hvað að vera bogið við hvernig hlut­irnir eru gerðir þegar útkoman er þessi“

Kristín telur það mjög mik­il­vægt að lög­regla skoði atburð­ina í apríl ofan í kjöl­inn. Sig­ríður Björk Guð­jóns­dóttir rík­is­lög­reglu­stjóri sat fyrir svörum á opnum fundi alls­herj­ar- og mennta­mála­nefndar í síð­asta mán­uði vegna máls­ins. Þar full­yrti hún að ekki hafi verið um kyn­þátta­mið­aða lög­gæslu að ræða.

„Að hvaða leyti er ekki um það að ræða og af hverju er útkoman þessi? Það hlýtur eitt­hvað að vera bogið við hvernig hlut­irnir eru gerðir þegar útkoman er þessi, alveg sama hvert mark­miðið er,“ segir Krist­ín, sem telur mik­il­vægt að lög­reglan horf­ist í augu við atburð­ina í apr­íl.

„Auð­vitað hlýtur að vera mik­il­vægt að velta fyrir sér hvernig er hægt að koma í veg fyrir að svona ger­ist aftur og af hverju var þessi leið far­in? Er þetta leiðin sem er venju­lega farin fyrir svip­aða ein­stak­linga, svona unga, sem hafa gert svip­aða hluti? Ég held að þetta þurfi að skoða vel og ég held að það sé mik­il­vægt að við horf­umst í augu við að for­dómar eru hluti af okkar sam­fé­lagi, og að spyrja hvernig ætlum í ljósi þess að tækla ákveðin vanda­mál og atriði svo að við séum ekki að byggja undir aukna kyn­þátta­for­dóma eða for­dóma af öðru tag­i.“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir sat fyrir svörum á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar í maí. Mynd: Skjáskot/Alþingi

Mik­il­vægt að skoða kyn­þátta­mörkun hér á landi

Breyt­ingar verða að eiga sér stað, innan ein­stakra hluta sam­fé­lags­ins, svo sem hjá lög­reglu og fjöl­miðl­um, sem og innan sam­fé­lags­ins alls. Þá bíða ýmis verk­efni fræða­sam­fé­lags­ins að mati Krist­ín­ar.

„Hvað varðar kyn­þátta­mörkun sér­stak­lega þá er mik­il­vægt að skoða betur hvort hún hefur verið að eiga sér stað í íslensku sam­fé­lagi og þá hvern­ig. Kyn­þátta­for­dómar eru efni sem hefur verið svo­lítið á jaðr­inum en það er að breyt­ast núna og ég held að þetta sé eitt­hvað sem þarf að skoða með mark­vissum hætti. Hvernig þetta hefur verið og hvernig þetta er í sam­fé­lögum í dag. Ég held að það sé mjög mik­il­vægt að það sé lagður þungi á að við skiljum betur hvað er í gangi, eins og hvað varðar lög­reglu og sam­starf við hana.“

Öndum að okkur for­dómunum

Fyrsta skrefið er, að mati Krist­ín­ar, að horfast í augu við að það eru kyn­þátta­for­dómar á Íslandi. „Við öll sem búum hérna öndum þeim að okkur með marg­vís­legum hætti og ég held að það sé mik­il­vægt að gera sér grein fyrir því að þetta er ekki eitt­hvað sem snýst bara um þig sem ein­stak­ling, hvort þú ert að meina eitt­hvað eða ekki,“ segir Krist­ín. Nefnir hún dæmi sem heyr­ast oft í íslenskri umræðu, til að mynda setn­ingar á borð við: „Ég var nú ekk­ert að meina þetta þannig“.

Eitt af mark­miðum Krist­ínar í störfum sínum hefur verið að gera fræði­lega umræðu um kyn­þátta­for­dóma aðgengi­legri. Fyrir tveimur árum kom út bók eftir hana, Kyn­þátta­for­dómar í stuttu máli, þar sem kyn­þátta­hug­myndir eru teknar til skoð­un­ar, og er hún hluti af rit­röð á vegum Félags­vís­inda­sviðs Háskóla Íslands. „Þess­ari rit­röð er ætlað að koma rann­sóknum fræða­sam­fé­lags­ins á fram­færi á aðgengi­legan hátt,“ segir Krist­ín.

Kristín skrif­aði bók­ina áður en morðið á George Floyd var framið en hún vonar að bókin varpi ljósi á umræðu sem teng­ist kyn­þátta­for­dómum fyrir fólk sem hefur áhuga á að kynna sér málin bet­ur. „Mér finnst mik­il­vægt að það sé til eitt­hvað efni á íslensku sem er aðgengi­legt og geti verið fyrsta skrefið að skoða þessa hluti nán­ar.“

Hræði­legir atburðir sem þó hafi leitt til jákvæðrar umræðu

Kristín segir að þó svo að kyn­þátta­mörkun sé stað­reynd í íslensku og alþjóð­legu sam­fé­lagi í dag og að hræði­legir atburðir hafi átt sér stað þá hafi þeir á sama tíma leitt til jákvæðrar þró­unar í umræðu um kyn­þátta­for­dóma og það þurfi að nýta til breyt­inga.

„Þó að margir hræði­legir hlutir hafi gerst þá finnst mér ég sjá samt líka jákvæðar breyt­ing­ar, eins og í kjöl­far morðs­ins á George Floyd. Margir Íslend­ingar stigu fram og töl­uðu um sína reynslu af ras­isma. Ég held að fyrir margt fólk var það áfall að lesa lýs­ingar á mjög grófum ras­isma og öráreiti og hversu mikil áhrif það eðli­lega hafi haft á líf þess­ara ein­stak­linga. Ég held að það hafi verið gíf­ur­lega sterkt.“

Fyrsta skrefið til að takast á við þær áskor­anir sem standa frammi fyrir breyttri sam­setn­ingu íslensks sam­fé­lags er, að mati Krist­ín­ar, að við­ur­kenna að kyn­þátta­for­dómar eru hluti af íslensku sam­fé­lagi og því er nauð­syn­legt að skoða á gagn­rýnan hátt hvernig for­dómar eru kerf­is­lægir í sam­fé­lag­inu í dag.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnErla María Markúsdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal