Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
Fyrir rúmum sex árum gagnrýndi Bankasýsla ríkisins Landsbankann harkalega fyrir að hafa haldið illa á söluferli á óbeinni ríkiseign, meðal annars fyrir að viðhafa lokað söluferli og val á kaupendum. Ríkisendurskoðun tók undir þá gagnrýni. Nú er Bankasýslan í þeirri stöðu sem Landsbankinn var í þá og Ríkisendurskoðun sá sem er að gagnrýna hana harkalega fyrir það hvernig stofnunin seldi hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka, sem birt var síðastliðinn mánudag, er Bankasýsla ríkisins gagnrýnt harðlega fyrir það hvernig hún hélt á söluferlinu. Að mati hennar voru annmarkar þess fjölmargir sem lúta bæði að undirbúningi og framkvæmd sölunnar. Þar segir meðal annars að ljóst megi vera að „orðsporðsáhætta við sölu opinberra eigna var vanmetin fyrir söluferlið 22. mars af Bankasýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og þingnefndum sem um málið fjölluðu í aðdraganda sölunnar.“ Hægt hefði, að mati Ríkisendurskoðunar, verið hægt að fá hærra verð fyrir eignarhlut ríkisins en ákveðið var að selja á lægra verði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Þá hafi huglægt mat ráðið því hvernig fjárfestar voru flokkaðir, en útboðið var lokað með tilboðsfyrirkomulagi og einungis 207 fengu að kaupa hlut í því, samtals fyrir 52,65 milljarða króna.
Bankasýslan hefur hafnað nánast öllum aðfinnslum Ríkisendurskoðunar og telur sig ekki hafa gert neitt rangt. Þvert á móti telur stofnunin að salan hafi gengið gríðarlega vel og niðurstaðan verið góð. Í tilkynningu sem Bankasýslan sendi frá sér á mánudag sagði í skýrslu Ríkisendurskoðunar væru ábendingar um atriði í undirbúningi og framkvæmd sölunnar sem að mati stofnunarinnar hefðu betur mátt fara. „Bankasýsla ríkisins er ósammála Ríkisendurskoðun um flest þessi atriði sem sum hver afhjúpa takmarkaða þekkingu stofnunarinnar á viðfangsefninu.“ Á miðvikudag birti Bankasýslan svo ítarlegar athugasemdir sínar við skýrslu Ríkisendurskoðunar á 46 blaðsíðum, en skýrslan sjálf er 72 blaðsíður.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ríkisendurskoðun, ríkisbanki og Bankasýsla ríkisins fara í hár saman. Það gerðu þessir aðilar líka á árinu 2016 í tengslum við sölu Landsbankans, sem er að öllu leyti í eigu ríkisins, á hlut sínum í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun. Þá rannsakaði Ríkisendurskoðun söluferlið og skilaði svartri niðurstöðu um það. Áður hafði Bankasýslan, sem fer með eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, fellt áfelli yfir söluferlinu í bréfi til bankaráðs bankans.
Þar hafnaði hún nær öllum röksemdarfærslum sem Landsbankinn hafði teflt fram sér til varnar í Borgunarmálinu og sagði að svör Landsbankans við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á framgöngu hans hafi „ekki verið sannfærandi“.
Bankasýslan gagnrýndi til að mynda rökstuðning bankans fyrir því að selja hlutinn í lokuðu söluferli, verklag við samningsgerð, málflutning hans um meintan söluþrýsting frá Samkeppniseftirlitinu, verðmat á eignarhlutnum í Borgun og að Landsbankinn hafi komið sér í þá stöðu að eini viðsemjandi hans hafi verið hópur fjárfesta sem innihélt meðal annars stjórnendur Borgunar.
Gagnrýnin kostaði bankastjóra Landsbankans starfið í lok árs 2016.
Selt bak við luktar dyr
Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun, sem í dag heitir Salt Pay, til félags í eigu stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra þann 25. nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða króna. Félagið hét Eignarhaldsfélagið Borgun.
Fjárfestahópurinn gerði fyrst tilboð í hlutinn í mars 2014. Hlutur Landsbankans, sem er að mestu í ríkiseigu, var ekki seldur í opnu söluferli. Öðrum mögulega áhugasömum kaupendum bauðst því ekki að bjóða í hlutinn. Kjarninn upplýsti um það þann 27. nóvember 2014 hverjir hefðu verið í fjárfestahópnum og hvernig salan hefði gengið fyrir sig. Á meðal þeirra var, auk gömlu stjórnenda Borgunnar, félag í eigu Einars Sveinssonar, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, gamla útgerðarfyrirtækið Stálskip og félagið Þrír stærstu aðilarnir sem stóðu að Eignarhaldsfélaginu Borgun voru gamla útgerðarfyrirtækið Stálskip og félagið Pétur Stefánsson ehf. (Í eigu Péturs Stefánssonar).
Miðað við hefðbundna mælikvarða sem fjárfestar styðjast við í fjárfestingum þótti verðið lágt, hvort sem miðað er við fyrirtæki erlendis eða skráð fyrirtæki á Íslandi.
Falin verðmæti
Fljótlega vöknuðu grunsemdir um að Borgun væri mun verðmætara fyrirtæki en ársreikningar þess gáfu til kynna, sérstaklega vegna þess að á meðal eigna Borgunar var hlutur í Vísa Europe, sem var keyptur af Visa Inc. skömmu eftir að kaupin gengu í gegn. Þessi eignarhlutur var marga milljarða króna virði en hafði ekki verið metin þannig við söluna á eignarhlut Landsbankans. Enn fremur var ekki gerður neinn fyrirvari í kaupsamningnum um viðbótargreiðslur vegna valréttar Borgunar vegna mögulegrar sölu Visa Europe til Visa Inc., en slíkur fyrirvari var til að mynda verið gerður þegar Arion banki keypti hlut Landsbankans í öðru greiðslumiðlunarfyrirtæki sem átti hlut í Visa Europe, Valitor. Árið 2020 var Borgun svo selt til Salt Pay. Hlutur Eignarhaldsfélagsins Borgunar er talinn hafa verið um 1,3 milljarða króna. Forgangshlutabréf í Visa Inc fylgdu ekki með í sölunni heldur voru færð yfir í annað félag. Virði þeirra um mitt ár í fyrra var 3,1 milljarður króna.
Eignarhaldsfélagið Borgun tvöfaldaði því fjárfestingu sína í Borgun á tæpum sex árum með arðgreiðslum, sölunni til Salt Pay og með því að fá bréfi í félagi sem heldur á bréfum í Visa Inc.
Bankastjórinn missti starfið
Í nóvember 2016 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um fjölmargar eignasölur Landsbankans á árunum 2010 til 2016 og gagnrýndi þær harðlega. Á meðal þeirra var salan á hlut í Borgun. Tíu dögum síðar var Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, sagt upp störfum. Hann starfar nú sem milligönguaðili fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins til að reyna að finna lausn milli eigenda krafna á ÍL-sjóð og ríkissjóðs um hvernig sé hægt að slíta þeim sjóði.
Sú ákvörðun að segja Steinþóri upp störfum var rakin beint til Borgunarmálsins og sérstaklega skýrslu Ríkisendurskoðunar. Nokkrum vikum síðar, í janúar 2017, höfðaði Landsbankinn mál gegn Borgun hf., þáverandi forstjóra fyrirtækisins, BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. Bankinn taldi sig blekktan og hlunnfarinn við söluna á hlut sínum í Borgun og vill fá 1,9 milljarða króna greiddar frá stefndu auk vaxta.
Nú, næstum sex árum síðar, hefur aðalmeðferð enn ekki farið fram, og hefur frestast mörgum sinnum. Í nýjasta ársreikningi Landsbankans kemur fram að hún verði í janúar 2023.
Bankasýslan sagði að fagleg ásýnd hefði beðið hnekki
Áður en Ríkisendurskoðun birti svarta niðurstöðu sína um Borgunarsöluna hafði Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, beitt sér hart í málinu. Hún sendi bankaráði Landsbankans bréf í janúar 2016 og óskaði eftir upplýsingum um söluna. Bankaráðið svaraði í febrúar með 126 blaðsíðna bréfi þar sem það bar af sér allar sakir og benti á að bankinn hefði farið þess á leit við Ríkisendurskoðun að stofnunin skoðaði sölu bankans á eignarhlutum í Borgun.
Bankasýslan svaraði í ítarlegu svarbréfi í mars 2016. Þar hafnaði hún nær öllum röksemdarfærslum sem Landsbankinn hafði teflt fram sér til varnar í Borgunarmálinu og sagði að svör Landsbankans við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á framgöngu hans hafi „ekki verið sannfærandi“.
Bankasýslan gagnrýndi rökstuðning bankans fyrir því að selja hlutinn í lokuðu söluferli, verklag við samningsgerð, málflutning hans um meintan söluþrýsting frá Samkeppniseftirlitinu, verðmat á eignarhlutnum í Borgun og að Landsbankinn hafi komið sér í þá stöðu að eini viðsemjandi hans hafi verið hópur fjárfesta sem innihélt meðal annars stjórnendur Borgunar.
Niðurstaða Bankasýslunnar var sú að sölumeðferðin hefði varpað verulegum skugga á árangur Landsbankans og að fagleg ásýnd bankans og stjórnenda hans hafi beðið hnekki. Af þeim sökum taldi Bankasýsla ríkisins að bankaráð Landsbankans yrði að grípa til „viðeigandi ráðstafana til að endurheimta það traust sem bankinn tapaði vegna sölumeðferðarinnar. Fer stofnunin fram á að hluthöfum í Landsbankanum hf. verði hið fyrsta gerð grein fyrir því með hvaða hætti bankaráðið telur rétt að bregðast við og ekki siðar en tveimur vikum fyrir aðalfund sem fram fer þann 14. apríl nk."
Í desember 2016 var, líkt og áður sagði, bankastjóra Landsbankans sagt upp störfum.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
3. desember 2022Var Ríkisendurskoðun að misskilja eða veitti Bankasýslan ráðherra ekki réttar upplýsingar?
-
1. desember 2022Íslandsbanki segir ekki hversu margir fengu flokkun sem hæfir fjárfestar á meðan að á útboðinu stóð
-
30. nóvember 2022„Það var mjög óheppilegt að náinn ættingi hafi verið í þessum kaupendahópi“
-
25. nóvember 2022Yfir 60 prósent treysta ekki stjórninni til að selja Íslandsbanka og vilja rannsóknarnefnd
-
24. nóvember 2022„Ríkisendurskoðun hafnar aðdróttunum ákveðinna fjölmiðla um annarleg sjónarmið“
-
21. nóvember 2022Spyr Bjarna hvort Fjármálaeftirlitið hafi lagaheimildir til að rannsaka Bjarna
-
21. nóvember 2022Ekki í fyrsta sinn sem ríkisbanki, Ríkisendurskoðun og Bankasýslan fara í hár saman
-
18. nóvember 2022Vill að Katrín mæti fyrir fjárlaganefnd og geri grein fyrir næstu skrefum í bankasölu
-
17. nóvember 2022Sögðu Sjálfstæðisflokkinn bara vilja ræða leka, ekki bankasöluna eða skýrsluna um hana