Enn lækkar einkunn Íslands á listanum yfir minnst spilltu löndin – Skæruliðadeild Samherja tiltekin sem ástæða
Ísland er enn og aftur það Norðurlandanna sem situr neðst á lista Transparency International yfir spilltustu lönd heims. Einkunn Íslands hefur aldrei verið lægri en nú frá því að samtökin hófu að mæla spillingu hérlendis árið 1998. Bolabrögð hinnar svokölluðu „skæruliðadeildar Samherja“ eru sérstaklega nefnd.
Einkunn Íslands í spillingavísitölu Transparency International, alþjóðlegra samtaka gegn spillingu, lækkaði enn á ný á milli ára og er nú 74 af 100. Einkunn Íslands lækkar um eitt stig milli ára.
Þetta kemur fram í nýrri spillingavísitölu, fyrir árið 2021, sem birt var í morgun.
Þegar litið er enn lengra aftur í tíma, til áranna 2005 og 2006, er fallið enn meira en þá tróndi Ísland á toppi listans sem minnst spillta land heims með 95 til 97 stig. Ýmsar opinberanir í kjölfar bankahrunsins, sem ekki voru flestum ljósar, orsökuðu skarpa lækkun næstu ár og árið 2012 var einkunn Íslands komin niður í 82 stig. Síðan þá hefur einkunn Íslands lækkað á milli ára með einni undantekningu, þegar hún hækkaði lítillega árið 2019. Frá því Transparency fór að mæla Ísland hefur einkunn landsins aldrei verið lægri en nú.
Ísland situr í 13-17 sæti listans ásamt Írlandi Eistlandi, Austurríki og Kanada en sat í 17-18 sæti með Eistlandi í fyrra.
Listinn virkar þannig að hvert land fær stig fyrir ákveðna þætti tengdum spillingu í opinbera geiranum og það land sem fær flest stig er talið minnst spillt samkvæmt spillingavísitölu Transparency International. Stigakvarðinn er frá 0 (mest spillt) upp í 100 (minnst spillt).
Hin Norðurlöndin í efstu sætunum yfir minnst spilltu löndin
Samtökin Transparency International voru stofnuð árið 1992 og hafa um langa hríð beitt sér til að vinna að heilindum í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptalífi í heiminum. Þau eru sjálfstæð og óháð stjórnvöldum og ekki rekin til að skila hagnaði. Þau starfa í meira en 100 löndum.
Spillingarvísitala Transparency International er byggð á áliti sérfræðinga sem og almennri skynjun á spillingu í opinberum stofnunum og stjórnsýslu. Í ár eru spilling mæld í alls 180 löndum.
Stofnunin sækir upplýsingar sínar til mismunandi greiningarfyrirtækja og hvað Ísland varðar hafa verið notaðar sjö gagnauppsprettur á undanförnum árum. Um er að ræða huglægt mat þeirra á spillingu. Þau lönd sem fá hæsta einkunn eiga það sameiginlegt að þar er stjórnsýsla opin og almenningur getur dregið stjórnendur til ábyrgðar. Lægstu einkunnir fá lönd þar sem mútur eru algengar, refsileysi ríkir gagnvart spillingu og opinberar stofnanir sinna ekki hlutverki sínu í þágu borgaranna.
Danmörk, Finnland og Nýja Sjáland eru þau land sem er minnst spillt, með 88 stig af 100 mögulegum. Svíþjóð, Singapore og Noregur koma þar á eftir með 85 stig. Ísland er því enn eitt árið það Norðurlandanna sem mælist með mesta spillingu.
Spilltasta land í heimi samkvæmt listanum eru Suður Súdan með ellefu stig. á spillingarkvarðanum. Þar á eftir koma Sýrland, Sómalía, Venesúela og Jemen.
Kosningaklúðrið í Norðvesturkjördæmi náði ekki að vigta inn
Í umfjöllun Transparency International er sérstaklega tilgreint að alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefði beitt bolabrögðum (e. dirty tactics) til að ógna blaðamönnum og almennum borgurum sem höfðu fjallað um viðskiptahætti fyrirtækisins í Namibíu og Angóla. Þau vandkvæði sem komu upp vegna talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi í þingkosningununum sem fram fóru í september í fyrra vigta ekki inn í einkunn Íslands fyrir árið 2021 vegna þess hver seint niðurstaða Alþingis, sem var sú að láta síðari talningu atkvæða standa þrátt fyrir að réttmæt óvissa væri um áreiðanleika hennar, kom fram.
Samherjamálið komst í hámæli eftir að þáttur Kveiks sem opinberaði starfsemi Samherja í Namibíu fór í loftið í nóvember 2019 en umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Í málinu er grunur er að um mútugreiðslur hafi átt sér stað, meðal annars til erlendra opinberra starfsmanna. Auk þess er grunur um brot á ákvæði almennra hegningarlaga um peningaþvætti og brot á ákvæði sömu laga um auðgunarbrot.
Málið hefur verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og skattayfirvöldum hérlendis. Það er einnig til rannsóknar í Namibíu þar sem fjölmargir einstaklingar hafa verið ákærðir. Í Færeyjum hefur Samherji þegar greitt mörg hundruð milljón króna í vangoldinna skatta og meint skattasniðganga fyrirtækisins þar hefur verið tilkynnt til lögreglu.
„Skæruliðadeild Samherja“ opinberuð
Samherji brást strax við af hörku eftir að þátturinn var sýndur. Það lét meðal annars framleiða áróðursþætti þar sem bornar voru fram margháttaðar ásakanir á hendur þeim blaðamönnum Kveiks sem unnu þáttinn, og RÚV sem sýndi hann. Og einn starfsmaður fyrirtækisins ofsótti Helga Seljan, einn blaðamannanna sem stýrði umfjölluninni, með því að elta hann og senda honum ógnandi skilaboð í gegnum SMS og samfélagsmiðla.
Kjarninn og Stundin birtu í maí 2021 röð fréttaskýringa um aðferðir sem Samherji beitti í áróðursstríði vegna þessa máls.
Hér er hægt að gerast styrktaraðili Kjarnans:
Í umfjölluninni kom fram að Samherji gerði út hóp fólks sem kallaði sig „skæruliðadeild Samherja“. Hlutverk þeirra var meðal annars að njósna um blaðamenn, greina tengsl þeirra, safna af þeim myndum, og skipuleggja árásir á þá. Þá var einnig opinberað að starfsmenn og ráðgjafar Samherja reyndu að hafa áhrif á formannskjör í stétta- og fagfélagi blaðamanna á Íslandi, að starfsmenn Samherja hefðu sett sig í samband við færeyskan ritstjóra til að rægja færeyska blaðamenn kerfisbundið, lagt á ráðin um að draga úr trúverðugleika rithöfundar sem gagnrýndi fyrirtækið, með því að fletta upp eignum hans.
Kjarninn greindi frá því að skýr vilji hefði verið til staðar innan Samherja til að skipta sér að því hverjir myndu leiða lista Sjálfstæðisflokks í heimakjördæmi fyrirtækisins og að starfsmenn Samherja hefðu verið með áætlanir um víðtæka gagnasöfnun um stjórn félagasamtaka sem berjast gegn spillingu. Kjarninn greindi líka frá því hvernig Samherji hugðist bregðast við gagnrýni frá sitjandi seðlabankastjóra á stríðsrekstur fyrirtækisins gegn nafngreindu fólki.
Viðurkenndu mistök og báðust afsökunar
Viðbrögðin við umfjölluninni voru mikil og athæfi Samherja var fordæmt víða, bæði innanlands sem erlendis. Hægt er að lesa umfjöllun Kjarnans um þau viðbrögð hér.
Transparency International á alþjóðavísu lýstu meðal annars yfir miklum áhyggjum af því sem fram hefur komið í umfjöllunum Kjarnans og Stundarinnar. „Fyrirtæki sem vilja sanna heilindi sín nota ekki undirförular aðferðir gagnvart þeim sem segja frá staðreyndum í þágu almannahagsmuna,“ sagði í yfirlýsingu þeirra.
Samherji sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins 30. maí 2021. Þar sagði að ljóst væri að stjórnendur félagsins hafi gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið [...] Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.“
Nokkrum vikum síðar, 22. júní sama ár, voru birtar heilsíðuauglýsingar frá Samherja með fyrirsögninni „Við gerðum mistök og biðjumst afsökunar“. Um var að ræða bréf sem fjallar um starfsemi útgerðarinnar í Namibíu og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og einn þeirra sem er með réttarstöðu sakbornings í Samherjamálinu, skrifaði undir bréfið.
Þar sagði einnig að „ámælisverðir viðskiptahættir“ hefði fengið að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu. Veikleikar hefði verið í stjórnskipulagi og lausatök sem ekki áttu að líðast. „Við brugðumst ekki við eins og okkur bar. Þetta hefur valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, fjölskyldum, vinum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víða í samfélaginu. Við hörmum þetta og biðjumst einlæglega afsökunar.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars