Er Kjalölduveita Norðlingaölduveita í dulargervi?
Hún hefur stundum verið kölluð Kjalalda, virkjunarhugmynd Landsvirkjunar skammt sunnan Þjórsárvera sem verkefnisstjórn rammaáætlunar vildi setja í verndarflokk en meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis leggur til að fari í biðflokk. En Kjalöldurnar eru nokkrar á svæðinu sem virkjunin er áformuð á, svo lík hinni umdeildu Norðlingaölduveitu að vart má á milli sjá. Fyrir utan þá staðreynd að inntakslónið er utan friðlandsmarka. En hvað var það sem Alþingi vildi vernda með því að setja Norðlingaölduveitu í verndarflokk á sínum tíma? Eingöngu hið áformaða lónstæði eða allt hitt?
Bullauga er orð sem fæstir hafa líklega heyrt. Slík fyrirbæri er að finna á efri hluta Þjórsársvæðisins þótt augu þessi, þar sem vatnið spýtist upp um glufur í klöppum við ákveðnar aðstæður, séu ekki eingöngu bundnar við það svæði. En þetta er allsérstakt engu að síður.
Bullaugun eru þó ekki talin til í rökstuðningi stjórnvalda fyrir því að vernda þetta svæði sunnan Hofsjökuls fyrir orkuvinnslu. Þegar Alþingi samþykkti að setja svokallaða Norðlingaölduveitu í verndarflokk rammaáætlunar árið 2013 var það gert vegna þess að virkjunin hefði falið í sér röskun vestan Þjórsár á lítt snortnu landi og í jaðri Þjórsárvera, líkt og það var orðað í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Auk þess hefði virkjunin áhrif á sérstæða fossa. „Kvíslaveitur hafa nú þegar virkjað þverár sem falla í Þjórsá að austan, en kvíslum vestan ár hefur verið hlíft,“ sagði í rökstuðningnum. Tekið var fram að Norðlingaölduveita væri virkjunarkostur „á jaðri svæðis með hátt verndargildi sem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar. Mannvirki rétt við friðland yrðu til lýta. Því þykir rétt að vernd á svæðinu verði látin hafa forgang“.
Norðlingaölduveita er ekki á allra vörum í dag þótt hún sé fólki sem barðist í árafjöld gegn tilurð hennar sjálfsagt í fersku minni. Hún hefur tekið á sig ýmsar myndir í gegnum tíðina, hugmyndin um virkjun á ofanverðu Þjórsársvæðinu. Lónið hefur minnkað og færst til, ýmist verið í Þjórsárverum eða í jaðri þeirra, en í grunninn er tilgangur áformanna sá sami: Að veita vatni úr Þjórsá yfir í uppistöðulónið Þórisvatn til að auka raforkuframleiðslu í virkjanakerfi Landsvirkjunar neðar í ánni.
Þjórsárver eru einstakar gróðurvinjar á miðhálendinu sem afmarkaðar eru af jöklum og eyðisöndum á alla kanta. Þar er vatn alls staðar, bæði jökul- og lindarvatn, sem kvíslast í ám og lækjum um landið. Upplagt svæði til að njóta friðar óbyggðanna og náttúru. En líka hentugt svæði til virkjunar að mati Landsvirkjunar.
Fyrstu hugmyndir um virkjanaáform, sem fram komu fyrir mörgum áratugum, hefðu sett hluta veranna á kaf. Frá þeim var horfið vegna harðrar andstöðu náttúruverndarfólks. Og þegar friðland Þjórsárvera var stækkað fyrir nokkrum árum var ekki lengur hægt að hafa þar virkjun og ekki heldur vilji hjá stjórnvöldum að hafa hana í jaðrinum líkt og að framan er rakið.
Þá kom Kjalölduveita til sögunnar. Virkjanakostur sem verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar taldi enn eina útgáfuna af Norðlingaölduveitu og lagði því til að færi í verndarflokk. En meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, sem hefur haft þingsályktunartillögu að rammaáætlun til meðferðar mánuðum saman, er efins og vill að Kjalölduveita fari í biðflokk og verði skoðuð betur.
Það hefur fengið kalt vatn til að hríslast niður bakið á mörgum náttúruunnandanum.
Þjórsár- og Tungnaársvæðinu hefur þegar verið raskað með mörgum virkjunum, einum sjö talsins. Þar eru einnig að finna þrjú stór miðlunarlón og raflínur eins og gefur að skilja. Þetta eru m.a. rökin fyrir því að Landsvirkjun telur Kjalölduveitu einn hagkvæmasta virkjunarkost sinn því með henni næðist betri nýting á mannvirkjum og innviðum sem þegar eru á svæðinu.
Virkjanasvæðið sjálft er ekki fyrirhugað innan friðlands Þjórsárvera. Lónið, sem yrði tæpir 3 ferkílómetrar að stærð og stíflan sem yrði allt að 26 metrar á hæð, yrðu nokkrum kílómetrum sunnan þess. „Virkjun í svo miklu návígi við svæði með svo hátt verndargildi myndi skerða víðerni á svæði sem hefur mikilvægi á heimsvísu,“ hefur Landvernd sagt í gagnrýni sinni á Kjalölduveitu.
Í fréttatilkynningu vegna áformaðra breytinga á rammaáætlun nú minnir Landvernd á að Þjórsárver séu „einstök perla á hálendi landsins“ og að ekki megi raska vatnasviði þeirra. Miðlunarlón við Þjórsárver setji verndun svæðisins í uppnám og sé „ávísun á djúpar og erfiðar deilur um þessa einstöku perlu á hálendi Íslands“.
En hvar er þessi virkjun nákvæmlega fyrirhuguð og hvaða áhrif myndi hún hafa á náttúru svæðisins?
Kjalöldur eru lágar, ávalar móbergsöldur á Gnúpverja- og Holtamannaafrétti norður af Köldukvísl, vestan Sprengisandsvegar. Á milli þeirra eru Kjalvötn. Svæðið er gróðurlítið og þakið jökulurð en fallegar mosaflesjur eru við lindir og lindalæki sem koma upp í hlíðunum hér og hvar.
Nokkrar litlar lindár og lækir eiga upptök sín í hlíðum Kjalaldna en það er Þjórsá, lengsta á landsins, sem er drottningin á þessum slóðum.
Lindirnar við Þjórsá eru sérkennilegar. Þær bulla þar upp um sprungur í klöppunum undan þrýstingi. Kallast þessi fyrirbæri bullaugu. „Þetta er skemmtilegt fyrirbrigði og sést í farvegi Þjórsár á lónstæði Kjalölduveitu en einnig neðan þess,“ segir í skýrslu sem Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, unnu fyrir Landsvirkjun um vatnafarið á hinu áformaða virkjanasvæði.
Þrír nafntogaðir fossar eru í Þjórsá milli Kjalaldna og Sultartangalóns; Hvanngiljafoss (Kjálkaversfoss), Dynkur (Búðarhálsfoss) og Gljúfurleitafoss. Sigurður Þórarinsson (1978) nefnir fossana í riti sínu um fossa á Íslandi og mælir þar með friðun Dynks. Af henni hefur þó ekki orðið.
Úr jökulfossum í bergvatnsfossa
Kjalölduveita myndi hafa afgerandi áhrif á alla þessa fossa, minnka verulega meðalrennsli um þá og breyta þeim úr „ábúðarmiklum, mórauðum jökulvatnsfossum í tæra bergvatnsfossa þegar dæling til Kjalölduveitu er í hámarki,“ segir í skýrslu ÍSOR.
Í stórum dráttum má lýsa Kjalölduveitu svona:
Tvær stíflur, sú stærri allt að 28 metrar á hæð og um 650 metrar á lengd. Tvö inntakslón, það stærra að jafnaði 2,7 ferkílómetrar að stærð. 6,4 kílómetra löng jarðgöng sem og langir skurðir undir Kjalöldur til að flytja Þjórsá úr Kjalöldulóni í annað lón, Grjótakvíslarlón, þaðan upp í Kvíslaveitu Landsvirkjunar og loks um Köldukvísl í Þórisvatn.
Orkugeta virkjunarinnar, 44 MW, fengist með að vatninu væri miðlað í Þórisvatni þaðan sem það rynni síðan í gegnum allar sjö virkjanirnar neðar á Tungnaár-Þjórsársvæðinu.
Inntakslón Kjalölduveitu hefur áhrif á Þjórsá á lónstæðinu og neðan þess allt niður að Sultartangalóni. Þeirri rannsóknarspurningu hvort að fallvötn á svæðinu hefðu eitthvað sérstakt gildi var svarað í skýrslu ÍSOR með þeim hætti að vissulega væru sambærileg vatnsfjöll algeng annars staðar og að engar veiðinytjar myndu rýrna eða spillast. „Hins vegar verður ekki horft framhjá því að Þjórsá hefur útivistarlegt, fagurfræðilegt og tilfinningalegt gildi fyrir þá sem þekkja til hennar og fara meðfram henni á ferðum sínum ofan Sultartanga. Þar verða miklar breytingar á útliti og rennslisháttum árinnar.“
Þjórsá mun verða vatnslaus neðan stíflu þegar mestu er dælt. Neðar fer bergvatn að safnast í hana þar sem Kisa, Miklilækur, Dalsá og Hölkná falla til hennar úr vestri og Hvanngiljakvísl úr austri. „Svipmót árinnar og eðli er þá gerbreytt, stórt jökulfljót er orðið að lítilli bergvatnsá.“
Er Norðlingaölduveitu var skipað í verndarflokk 2. áfanga rammaáætlunar, þeim sem enn er í gildi, hélt Landsvirkjun áfram að þróa áformin og lagði þau fram til umfjöllunar í 3. áfanga áætlunarinnar árið 2015. Þá eins og nú sögðu fylgjendur áformanna að nokkurs misskilnings gætti í umræðunni um nýjustu útfærslur virkjunarinnar, að „reyndin væri sú“ að stífla og önnur mannvirki yrðu sunnan friðlandsins en ekki í sjálfum Þjórsárverum.
En samhliða því að leggja breytt áform Norðlingaölduveitu fram lagði Landsvirkjun einnig nýjan kost til mats sem tiltekinn var sem „ný lausn“ við að flytja vatn frá efri hluta Þjórsár og til Þórisvatns: Kjalölduveitu.
Og upp vaknaði spurningin: Er Kjalölduveita nýr kostur eða Norðlingaölduveita í dulargervi?
Nýtt nafn á sömu virkjunarhugmynd
„Við fyrstu sýn er þetta Norðlingaölduveita í dulargervi,” sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi framkvæmdastjóri Landverndar árið 2015 er Landsvirkjun kynnti hugmyndir sínar að Kjalölduveitu. „Er þetta ekki bara nýtt nafn á sömu virkjunarhugmynd þó lónshæðin sé lægri?“
Guðmundur Ingi varð þremur árum síðar umhverfisráðherra í ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Fyrir utan að miðlunarlón er ekki lengur innan núverandi marka friðlands Þjórsárvera – því hefur verið hnikað til um nokkra kílómetra niður árfarveginn – er fátt sem skilur hönnun Norðlingaölduveitu og Kjalölduveitu að líkt og um þær var fjallað í gögnum þeim sem lögð voru fyrir verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar.
Sem dæmi:
Norðlingaöldulón átti að vera 2,5 ferkílómetrar að stærð. Kjalöldulón um 2,7. Úr báðum lónum átti að veita vatni með skurðum og göngum um og undir Kjalöldur og í svonefnt Grjótaskvíslarlón, þaðan í Kvíslaveitu og loks í Þórisvatn. Báðar hugmyndirnar hafa sömu áhrif á fossana í efri hluta Þjórsár.
Þessi verkhönnun Norðlingaölduveitu var ekki nákvæmlega sú sama og verkefnisstjórn 2. áfanga fékk á sitt borð og lagði til að yrði sett í verndarflokk líkt og Alþingi svo samþykkti. Þess vegna voru faghópar 3. áfanga beðnir um álit á því hvort forsendur virkjunarkostsins Norðlingaöldu hefðu breyst að því marki að meta bæri að nýju. Niðurstaðan var sú að ekki væri um svo verulegar forsendubreytingar að ræða að það gæti haft áhrif á flokkunina í verndarflokk.
Þessir sömu faghópar voru einnig beðnir að meta hvort líta bæri á Kjalölduveitu sem nýjan virkjanakost eða hvort að það væri fyrst og fremst um að ræða nýja útfærslu á Norðlingaölduveitu. Niðurstaðan úr því mati var sú að líta yrði á Kjalölduveitu sem útfærslu á Norðlingaölduveitu. „Þrátt fyrir að nafn virkjunarkostsins sé annað, vatnsborð lónsins sé lægra, lónið minna og mannvirki neðar í farveginum hafa framkvæmdirnar áhrif á sama landsvæði og því hefur þessi breytta útfærsla virkjunarkostsins ekki áhrif á þessar grunnforsendur flokkunarinnar.“
Og heildarniðurstaðan: Að setja Kjalölduveitu í verndarflokk við hlið Norðlingaölduveitu.
Landsvirkjun hefur aldrei sætt sig við þetta og ítrekað hafnað þessari niðurstöðu. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa ætíð sagt að sú ákvörðun verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar um að flokka Kjalölduveitu „beint í verndarflokk“ og „án umfjöllunar“ faghópa standist ekki lög.
Orkustofnun sendi verkefnisstjórninni einnig athugasemdir vegna málsins og svæðið sem Kjalölduveita væri fyrirhuguð á væri ekki friðað og því væri ekki hægt að flokka kostinn í verndarflokk á grundvelli þess að um sama svæði sé að ræða.
Verkefnisstjórnin svaraði fyrir sig fullum hálsi og sagði: Virkjanasvæðið nær sem fyrr niður farveg Þjórsár og að Sultartangalóni. Jafnvel þótt vatnsborð lóns Kjalölduveitu yrði allt að 12,5 metrum lægra en í þeirri útfærslu Norðlingaölduveitu sem til skoðunar var í 2. áfanga, flatarmál þess allt að 45 prósent minna, lónið þremur kílómetrum neðar í ánni og nafn virkjunarkostsins annað hefðu framkvæmdirnar áhrif á sama landsvæði. „Mismunandi útfærslur virkjunarkosta geta ekki aukið eða dregið úr sérstöðu eða verndargildi svæðis og hafa því ekki áhrif á verðmætamat þess.“
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sem fékk þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar til umfjöllunar í febrúar leitaði viðbragða umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við gagnrýni Landsvirkjunar. Ráðuneytið tók ekki undir málflutning fyrirtækisins og sagði það rangt að Kjalölduveitu hefði verið raðað í verndarflokk án umfjöllunar.
Meirihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar á þingsályktunartillögu rammaáætlunar var birt á vef Alþingis um helgina. Í því eru lagðar til verulegar breytingar á flokkun virkjunarkosta, m.a. að Kjalölduveita verði færð úr verndarflokki í biðflokk.
Í rökstuðningi meirihlutans er vísað beint í álit Landsvirkjunar, sagt að við umfjöllun nefndarinnar hafi verið bent á að virkjunarkosturinn hafi ekki fengið fullnægjandi umfjöllun faghópa líkt og lög geri ráð fyrir. Tekið er fram að Landsvirkjun telji ekki um að ræða sama virkjunarkost og Norðlingaölduveitu og óljóst með hvaða hætti Kjalölduveita hefði sömu áhrif. „Meiri hlutinn telur mikilvægt að hafið sé yfir vafa að virkjunarkostir sem óskað er eftir mati á fái fullnægjandi meðferð í samræmi við ákvæði laganna,” segir í nefndarálitinu sem fulltrúar stjórnarflokkanna, utan eins, skrifa undir. „Með hliðsjón af því leggur meiri hlutinn til að virkjunarkosturinn verði flokkaður í biðflokk og beinir því til ráðherra að hann tryggi að hann fái þá faglegu meðferð sem lögin kveða á um.”
Síðari umræða um þingsályktunartillögu um þriðja áfanga rammaáætlunar er á dagskrá þingsins í þessari viku. Að umræðum loknum verður gengið til atkvæðagreiðslu um tillöguna og breytingartillögur nefndarinnar.
Lestu meira um rammaáætlun
-
22. júní 2022Raforkukerfið þarf sveigjanleika
-
19. júní 2022„Meira rennsli“ forsenda þess að stækkun Þjórsárvirkjana skili meiri orku
-
17. júní 2022„Valdaójafnvægi og yfirgangur“
-
15. júní 2022Rammaáætlun samþykkt: Virkjanir í Héraðsvötnum og við Þjórsárver aftur á dagskrá
-
15. júní 2022Tár, bros og leitin að grænu hjörtunum
-
15. júní 2022Fyrrverandi ráðherra VG „krefst þess“ að jökulsárnar í Skagafirði verði áfram í vernd
-
14. júní 2022Lýsa vonbrigðum með að jökulsárnar í Skagafirði séu teknar úr verndarflokki
-
14. júní 2022Niðurstaða meirihlutans „barin fram“
-
14. júní 2022Er Kjalölduveita Norðlingaölduveita í dulargervi?
-
13. júní 2022Pólitísk stjórnsýsla hindrar virkjunarkosti vindorku á samkeppnismarkaði