Framsókn á flugi í borginni en meirihlutinn heldur
Flokkarnir sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur gætu að óbreyttu endurnýjað samstarf sitt. Góðar líkur eru þó á ýmiskonar fjögurra flokka mynstrum ef vilji er til að breyta. Annar maður Viðreisnar er í hættu á að detta út fyrir öðrum manni Sósíalista.
Litlar breytingar eru á heildarfylgi flokkanna fjögurra sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur milli vikna. Sameiginlegt fylgi Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna mælist nú 49,2 prósent sem er 0,6 prósentustigi minna en flokkarnir mældust með fyrir viku síðan. Þeir myndu halda sama fjölda borgarfulltrúa og þeir eru með nú, tólf talsins, sem dugar til að endurnýja meirihlutasamstarfið ef vilji er til.
Þetta er niðurstaða nýjustu kosningaspár Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, sem fara fram 14, maí næstkomandi.
Flokkarnir fjórir mælast með meira fylgi en þeir fengu í kosningunum 2018 þegar þeir fengu 46,4 prósent. Sú breyting yrði þó á að einn borgarfulltrúi myndi flytjast frá Samfylkingu til Pírata en Viðreisn og Vinstri græn héldu sama fjölda borgarfulltrúa að óbreyttu.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar tveimur borgarfulltrúum frá síðustu kosningum og fengi sex, Framsóknarflokkurinn sem er án fulltrúa í borgarstjórn eins og er fengi þrjá og Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn myndu halda sínum staka borgarfulltrúa hvor að óbreyttu.
Miðflokkurinn er í miklum vandræðum, mælist með hverfandi fylgi og stefnir í að missa þann fulltrúa sem flokkurinn á nú í borgarstjórn.
Sá borgarfulltrúi sem er í mestri hættu á að detta út er annar maður Viðreisnar. Annar maður á lista Sósíalistaflokksins er ansi nálægt því að slá hann út og fella þar með meirihlutann í borginni.
Samfylkingin bætir við sig milli vikna en er undir kjörfylgi
Samfylkingin er eini meirihlutaflokkurinn sem bætir við sig fylgi milli vikna og fer úr 23 í 23,7 prósent fylgi. Það skilar henni sex borgarfulltrúum, fimm sem eru þegar borgarfulltrúar og Guðný Maju Riba, sem situr í sjötta sæti listans. Píratar standa nánast í stað og mælast með 12,8 prósent fylgi sem myndi duga til að bæta Magnúsi Davíð Norðdahl við borgarstjórnarflokk þeirra sem þær Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, og Alexandra Briem skipa nú þegar.
Viðreisn missir hálft prósentustig sem skilar þeim í 6,7 prósent fylgi. Borgarfulltrúar flokksins yrðu áfram sem áður þau Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek.
Vinstri græn tapa mest meirihlutaflokka milli vikna, 0,6 prósentustigum, og mælast með slétt sex prósent. Líf Magneudóttir yrði áfram eini borgarfulltrúi flokksins að óbreyttu.
Sjálfstæðisflokkurinn enn stærstur í borginni
Sá flokkur sem er á mestu flugi í borginni er Framsóknarflokkurinn. Hann beið afhroð 2018 þegar hann fékk einungis 1.780 atkvæði í höfuðborginni sem skilaði 3,2 prósent fylgi og engum borgarfulltrúa. Nú mælist hann þriðji stærsti flokkurinn í Reykjavík með 12,9 prósent fylgi sem myndi skila nýjum oddvita, Einari Þorsteinssyni fyrrverandi fréttamanni, örugglega í borgarstjórn ásamt Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, dósent við Háskóla Íslands og rithöfundi, sem skipar annað sætið á lista flokksins, og Magneu Gná Jóhannsdóttur laganema sem situr í því þriðja. Framsókn bætir við sig 1,2 prósentustigi milli vikna.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur nokkurn veginn í stað og mælist með 25 prósent fylgi, sem er 5,8 prósentustigum minna en hann fékk 2018. Enginn einn flokkur í Reykjavík hefur tapað eins miklu fylgi frá síðustu kosningum en Sjálfstæðisflokkurinn er þó enn stærsti flokkur borgarinnar með 1,3 prósentustigi meira en Samfylkingin, sem sækir þó á milli vikna. Auk Hildar Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, myndu tveir sitjandi og einn fyrrverandi borgarfulltrúi ná inn ásamt varaborgarfulltrúanum Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur og varaþingmanninum Friðjóni R. Friðjónssyni.
Sanna Magdalena Mörtudóttir næði ein inn fyrir Sósíalistaflokkinn sem mælist með 6,4 prósent fylgi og Kolbrún Baldursdóttir fyrir Flokk fólksins, sem mælist með 4,9 prósent.
Miðflokkurinn er ansi langt frá því að ná inn manni. Fylgið mælist einungis 1,5 prósent og undir fjórðungslíkur eru á því sem stendur að Ómar Már Jónsson, nýr oddviti sem tók við af Vigdísi Hauksdóttur, setjist í borgarstjórn að loknum kosningum.
Margir möguleikar í stöðunni
Samkvæmt útreikningum kosningaspárinnar eru 47 prósent líkur á því að núverandi meirihluti haldi velli og nái að minnsta kosti þeim tólf sætum sem þarf til að stjórna borginni. Líkurnar á því að Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn gætu myndað meirihluta að óbreyttu eru 26 prósent og líkurnar á því að tveir fyrrnefndu flokkarnir gætu náð tólf borgarfulltrúum án Viðreisnar eru fimm prósent.
Ef Framsóknarflokknum yrði skipt inn í stað Viðreisnar í meirihlutann eru 86 prósent líkur á að slíkur meirihluti Samfylkingar, Pírata, Framsóknar og Vinstri grænna næði meirihluta borgarfulltrúa. Ef Vinstri grænum yrði skipt út fyrir Viðreisn í þeirri jöfnu eru líkurnar á meirihluta enn meiri, en slíkur meirihluti hefði 14 borgarfulltrúa miðað við nýjustu kosningaspánna.
Flokkarnir sem mynda minnihlutann í borgarstjórn í dag, að viðbættri Framsókn eiga litla möguleika á því að ná saman völdum í höfuðborginni. Líkurnar á því að þeir þrír flokkar úr því mengi sem mælast með mann inni nái að minnsta kosti tólf sætum eru sem stendur 16 prósent.
Sjálfstæðisflokkur, Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins eiga hins vegar, sem stendur meiri líkur á að mynda meirihluta en núverandi borgarstjórnarflokkar, eða 49 prósent. Þá er ekki útilokað að mynda vinstrisæknari meirihluta með því að skipta Viðreisn út fyrir Sósíalistaflokkinn. Slíkur meirihluti, sem samanstæði af Samfylkingu, Pírötum, Framsóknarflokknum og Sósíalistum á 45 prósent líkur á því að verða að veruleika.
Kannanir í nýjustu kosningaspá fyrir borgarstjórnarkosningar 14. maí:
- Skoðanakönnun Maskínu 22. – 29. mars (35,8 prósent)
- Þjóðarpúls Gallup 14. mars. – 10. apríl (64,2 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Lestu meira:
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
3. nóvember 2022Framsókn og Vinstri græn hafa tapað um átta prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum
-
31. ágúst 2022Vegglistaverk Libiu og Ólafs þótti óleyfilegur kosningaáróður í Hafnarfirði
-
20. ágúst 2022Laun 30 dýrustu bæjarstjóranna voru samtal 698 milljónir króna í fyrra
-
12. ágúst 2022Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
-
11. ágúst 2022Hildur skilaði uppgjöri vegna prófkjörs í gær
-
6. júlí 2022Vigdís Hauksdóttir vill verða bæjarstjóri
-
18. júní 2022Flokkurinn sem útilokaði sjálfan sig
-
8. júní 2022Dagur ógnar
-
7. júní 2022Næstum fjórum af hverjum tíu kjósendum Framsóknar líst illa á samstarfið í borginni