Bára Huld Beck Tinna Hallgrímsdóttir
Bára Huld Beck

Höfum alla þekkinguna en „það eina sem vantar er viljinn“

Ungt fólk finnur fyrir kvíða og vanlíðan vegna loftslagsbreytinga og hefur margt þeirra verið öflugt við að láta í sér heyra – og krafist harðari aðgerða af stjórnvöldum í málaflokknum. Formaður Ungra umhverfissinna bendir á að ein tegund af loftslagsafneitun sé að afneita alvarleika ástandsins og hvað við þurfum að grípa hratt til aðgerða. „Þetta er ekki eitthvað sem leysist af sjálfu sér heldur þurfum við að taka stór skref núna.“

Ný skýrsla milli­ríkja­nefndar Sam­ein­uðu þjóð­anna um lofts­lags­breyt­ingar leit dags­ins ljós í síð­ustu viku en þar kemur fram að hlýnun jarðar geti haft afdrifa­ríkar afleið­ingar hér á landi, sem og auð­vitað ann­ars stað­ar. Örfáir ára­tugir séu til stefnu til að halda hlýnun jarðar undir tveimur gráð­um.

Kjarn­inn leit­aði til Tinnu Hall­gríms­dóttur for­manns Ungra umhverf­is­sinna til að ræða skýrsl­una, hvað hægt væri að gera og hvernig unga fólkið kæmi inn í umræð­una um lofts­lags­mál.

Hún segir að þrátt fyrir að hún lifi og hrær­ist í þessum mála­flokki þá hafi tekið á að lesa nýju skýrsl­una.

Auglýsing

„Það tekur alltaf á að sjá þetta svona svart á hvítu og með sífellt meiri vís­inda­legri vissu. Sú staða sem við erum í núna fær mig oft til að hugsa til ann­arra ham­fara eða skelfi­legra atburða af manna­völdum í gegnum sög­una. Það er auð­velt að líta til baka og spyrja sig: Af hverju gerði eng­inn neitt? Var ekki hægt að afstýra þessu á ein­hvern máta?

Mun­ur­inn núna er að við sjáum fram á ham­farir sem við erum með gríð­ar­lega mikla vís­inda­lega þekk­ingu á; orsökum þeirra og afleið­ingum og hvernig við eigum að bregð­ast við. Við höfum getu til að bregð­ast við og afstýra þess­ari veg­ferð sem við erum á – það eina sem vantar er vilj­inn.“

Berum einnig ábyrgð á öðrum líf­verum

Tinna segir að í raun­inni sé ekki hægt að rétt­læta á neinn hátt að bregð­ast ekki við með full­nægj­andi hætti – bæði fyrir kom­andi kyn­slóðir og fyrir alla sem uppi eru núna. „Ung­menni dags­ins í dag munu upp­lifa sífellt verri afleið­ingar lofts­lags­breyt­inga út sína ævi. Þetta er handan við horn­ið. Svo má ekki gleyma að lofts­lags­breyt­ingar hafa áhrif á allar aðrar líf­verur sem deila með okkur plánet­unni, svo ábyrgð okkar liggur einnig gagn­vart þeim.”

Tinna er búin að vera í fjögur ár í stjórn Ungra umhverf­is­sinna en sam­tökin hafa verið starf­andi síðan árið 2013. Ungir umhverf­is­sinnar eru frjáls félaga­sam­tök en til­gangur félags­ins er að vera vett­vangur ungs fólks á Íslandi til að láta gott af sér leiða í umhverf­is­mál­um.

Af hverju fórstu að velta fyrir þér lofts­lags­málum á sínum tíma?

„Ég byrj­aði eins og mörg að hafa áhyggjur af ástand­inu og gerði það sem er svona hefð­bundið fyrsta skref, að taka eigin lífs­stíl í gegn í þeim til­gangi að vera sem umhverf­is­væn­ust. Ég reyndi líka að hafa áhrif á aðra í kringum mig með því að vekja athygli á mál­efn­inu en eftir ákveð­inn tíma fann ég að ég var kom­inn á ein­hvern enda­punkt og var föst, og fannst ég ekki vera að gera nægi­lega mikið til að breyta ástand­inu. Ein­stak­lings­mið­aðar aðgerðir hafa ein­ungis áhrif upp á vissu marki, og þess vegna er mik­il­vægt að hafa frjáls félaga­sam­tök og aðrar hreyf­ingar þar sem þú getur fundið mátt­inn í fjöld­anum og þrýst á kerf­is­lægar breyt­ing­ar.“

Hún segir að henni hafi fund­ist hún ekki vera að gera nóg og þess vegna tekið þá ákvörðun að beita sér með mark­vissum hætti fyrir Unga umhverf­is­sinna.

Tinna bendir á að einstaklingsmiðaðar aðgerðir hafa einungis áhrif upp á vissu marki. Meira þurfi til.
Bára Huld Beck

Varð­andi stjórn­völd og aðgerðir þeirra, hvernig finnst þér þau hafa staðið sig und­an­farin ár?

„Við erum búin að sjá miklar úrbætur í lofts­lags­málum núna á þessu kjör­tíma­bili en stað­reyndin er sú að við þurfum að ganga miklu lengra og við þurfum hrað­ari og rót­tæk­ari skref.“

Lofts­lags­málin þurfi að gegn­sýra alla stefnu­mótun stjórn­valda.

Vilja að stjórn­völd lýsi fyrir neyð­ar­á­standi í lofts­lags­málum

Tinna segir að Ungir umhverf­is­sinnar hafi staðið að verk­efni sem kall­ast Sólin og gengur út á það að koma lofts­lags- og umhverf­is­mál­unum almennt í brenni­dep­il­inn í kom­andi kosn­ing­um. „Í byrjun árs gáfum við út kvarða sem verður not­aður til að meta lofts­lags- og umhverf­is­stefnu allra flokka. Við sendum kvarð­ann á flokk­ana og höfum við einnig fundað með þeim flestum – og svo kemur ein­kunn sem við birtum þann 3. sept­em­ber.“

Þannig veiti Ungir umhverf­is­sinnar leið­sögn fyr­ir­fram, haldi sam­tali gang­andi milli ungs fólks og stjórn­mála­fólks og svo komi aðhaldið með þess­ari ein­kunn.

Auglýsing

Hvernig kerf­is­breyt­ingum eruð þið að leita eft­ir?

„Við viljum að stjórn­völd lýsi fyrir neyð­ar­á­standi í lofts­lags­málum og grípi til aðgerða í sam­ræmi við það. Kerfið þarf samt að vera í stakk búið til að takast á við þetta stóra verk­efni, en nauð­syn­legt er að efla stjórn­sýslu lofts­lags­mála og tryggja aðhalds­hlut­verk Lofts­lags­ráðs og vís­inda­ráð­gjafar í stefnu­mót­un.

Við viljum einnig sjá jarð­efna­elds­neyt­is­laust Ísland mun fyrr en nú er áætl­að, end­ur­heimt alls fram­ræsts vot­lendis sem er ekki í notkun sem fyrst, hækkun á kolefn­is­gjaldi og svona mætti áfram telja. Allar aðgerð­irnar má finna í kvarð­anum á heima­síð­unni okk­ar.”

Tinna segir að Íslend­ingar verði einnig að setja sér metn­að­ar­fyllri mark­mið um sam­drátt í losun og upp­færa aðgerða­á­ætlun í sam­ræmi við það.

Tím­inn er að renna út

Hvernig finnst þér stjórn­mála­fólk og flokk­arnir standa sig í þessum mála­flokki?

Hún bendir á að allir flokkar vilji hafa „lofts­lags-front“ og sýna að þeir séu að beita sér fyrir mála­flokkn­um. „Auð­vitað er þetta mál mál­anna núna en svo er mis­mun­andi hversu stór skref fólk er til­búið að taka og hvers konar nálgun það vill.

Við verðum að hafa í huga að ein teg­und af lofts­lagsaf­neitun er að afneita alvar­leika ástands­ins og hvað við þurfum að grípa hratt til aðgerða. Þetta er ekki eitt­hvað sem leys­ist af sjálfu sér heldur þurfum við að taka stór skref núna. Það er ekki nóg að vera umhugað um lofts­lags­málin og ætla að gera eitt­hvað smá hér og þar – heldur þurfum við á rót­tækum aðgerðum að halda. Tím­inn er að renna út.“

Loftslagsmálin valda stanslausum kvíða og áhyggjum hjá mörgum ungmennum, segir Tinna.
Bára Huld Beck
Ungt fólk hefur krafist róttækari aðgerða í loftslagsmálum í hádeginu á föstudögum í yfir tvö ár.
Bára Huld Beck

Upp­lifir þú að það sé vilji fyrir þessum stóru skrefum innan stjórn­mál­anna?

„Það mun koma í ljós þegar við sjáum hvað hver flokkur ætlar að leggja til mál­anna fyrir kom­andi kosn­ing­ar. Hvernig landið liggur í raun og veru.“

Ekki verður um það deilt að unga fólkið hefur sýnt lofts­lags­mál­unum mik­inn áhuga á síð­ast­liðnum árum. Aug­ljósa ástæðan er sú að ungt fólk mun reyna á eigin skinni afleið­ingar breyt­ing­anna – frekar en þeir sem eldri eru. Hver telur þú að ástæðan sé fyrir því að ungt fólk brenni fyrir mál­efn­inu í svo miklum mæli?

„Já, ég held að miklu leyti sé það vegna þessa. Ef við horfum á þessa tak­mörkun á hlýnun við 1,5 gráðu, sem er auð­vitað ekki ákjós­an­legt ástand þótt það sé mark­mið­ið, þá er 1,5 gráðu hlýnun miklu nær en við héld­um. Við sjáum að helm­ings­líkur eru á því að að ná 1,5 gráðu hlýnun á fyrri hluta fjórða ára­tugar þess­arar ald­ar. Svo ef við horfum aðeins lengra fram í tím­ann þá erum við, ef við grípum ekki til nógu rót­tækra aðgerða sem fyrst, að horfa fram á yfir 2 gráðu hlýnun – jafn­vel upp í 3 gráðu hlýnun fyrir árið 2060. Hvernig fram­tíð er það sem bíður ungs fólks í dag?“ spyr hún.

Hlut­verk stjórn­mála­fólks að lyfta kvíða af herðum unga fólks­ins

„Þá fyllist man auð­vitað hræðslu, kvíða og jafn­vel reiði vegna ófull­nægj­andi aðgerða um allan heim en okkur sem sam­fé­lagi hefur ekki tek­ist nægi­lega vel að takast á við þetta stóra vanda­mál. Þá finnst mér mik­il­vægt að beina þessum til­finn­ingum í réttan far­veg sem er þá til dæmis akti­vism­inn. Að finna að man er að minnsta kosti að reyna að gera eitt­hvað til að bæta ástand­ið. En við verðum nátt­úru­lega að gera okkur grein fyrir því að það er hlut­verk stjórn­mála­fólks að lyfta þessum kvíða af herðum unga fólks­ins með því að koma fram með nægi­lega góðar aðgerð­ir, þar liggur ábyrgð­in.“

Ungt fólk hefur haldið svo­kallað lofts­lags­verk­fall á Aust­ur­velli í hádeg­inu á föstu­dögum í yfir tvö ár. Tinna segir að það sé ekki ákjós­an­leg staða að ungt fólk taki sér frí eða skrópi í skóla eða vinnu til að mót­mæla í svona langan tíma. „En okkur líður þannig að við þurfum að gera þetta. Við viljum sýna að okkur er annt um þetta vanda­mál og að þetta sé ekki eitt­hvað sem hefur horfið úr huga ungs fólks þrátt fyrir að það sé margt annað í gangi. Þetta veldur sífelldum kvíða og áhyggj­u­m.“

Upp­lifið þið að hlustað sé á ykk­ur?

„Nei, ekki nægi­lega mik­ið. Það er vilji til sam­tals en þegar kemur að því að mæta kröfum okkar kemur annar tónn í sam­ræð­urn­ar. Til að mynda hafa stjórn­völd ekki lýst yfir neyð­ar­á­standi í lofts­lags­mál­um, né komið fram með aðgerðir sem sam­rým­ast því neyð­ar­á­standi sem við erum í. Sama með kröfu okkar um aukin fram­lög til lofts­lags­mála en þau eru ekki full­nægj­andi að okkar mati, þrátt fyrir nýlega hækk­un.“

Þurfum að grípa tæki­færið núna

Tinna bendir jafn­framt á að stjórn­völd hafi ekki lög­fest mark­mið um sam­drátt í losun fyrir árið 2030 en það er ein af kröfum unga fólks­ins. Þó sé búið að lög­festa mark­mið um kolefn­is­hlut­laust Ísland árið 2040, sem sé vissu­lega fram­för.

Varð­andi lofts­lagskvíð­ann, hvað er hægt að gera til að sporna við honum að þínu mati?

„Mis­mun­andi hlutir virka fyrir mis­mun­andi aðila og fer það líka eftir alvar­leika kvíð­ans. Fyrir mig per­sónu­lega, eins og ég nefndi áðan, þá er það lofts­lagsaktí­vism­inn sem hefur hjálpað mér hvað mest – það er hægt að láta í sér heyra á sam­fé­lags­miðl­um, í fjöl­miðlum og í gegnum sam­ráðs­gátt stjórn­valda; að skrifa umsagnir um mál sem þér er annt um. Og svo hjálpar mikið að finna sér frjáls félaga­sam­tök, eða til dæmis póli­tíska hreyf­ingu, til að finna sam­stöðu í bar­átt­unni eða bara til að hafa ein­hvern til að deila með þeim til­finn­ingum sem þú ert að upp­lifa í tengslum við lofts­lags­mál.”

Auglýsing

Tinna seg­ist binda vonir við að í því neyð­ar­á­standi sem nú geisar muni skap­ast tæki­færi til upp­bygg­ingar og upp­stokk­un­ar. Þá skipti máli að breyt­ing­arnar eigi sér stað sem allra fyrst og þá sé von að við náum þeim mark­miðum sem þarf til að halda verstu afleið­ingum í skefj­um.

„Þetta er mögu­legt en glugg­inn sem við höfum til að gera eitt­hvað í alvör­unni er alltaf að minnka og minnka en hann er ennþá opinn og við þurfum bara að grípa tæki­færið nún­a.“

Hún hvetur allt ungt fólk sem er umhugað um umhverf­is­mál að skrá sig í félagið og taka þátt í starf­inu á þeirra vegum en hægt er að gera það á vef­síðu sam­tak­anna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal