Bára Huld Beck Tinna Hallgrímsdóttir

Höfum alla þekkinguna en „það eina sem vantar er viljinn“

Ungt fólk finnur fyrir kvíða og vanlíðan vegna loftslagsbreytinga og hefur margt þeirra verið öflugt við að láta í sér heyra – og krafist harðari aðgerða af stjórnvöldum í málaflokknum. Formaður Ungra umhverfissinna bendir á að ein tegund af loftslagsafneitun sé að afneita alvarleika ástandsins og hvað við þurfum að grípa hratt til aðgerða. „Þetta er ekki eitthvað sem leysist af sjálfu sér heldur þurfum við að taka stór skref núna.“

Ný skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar leit dagsins ljós í síðustu viku en þar kemur fram að hlýnun jarðar geti haft afdrifaríkar afleiðingar hér á landi, sem og auðvitað annars staðar. Örfáir áratugir séu til stefnu til að halda hlýnun jarðar undir tveimur gráðum.

Kjarninn leitaði til Tinnu Hallgrímsdóttur formanns Ungra umhverfissinna til að ræða skýrsluna, hvað hægt væri að gera og hvernig unga fólkið kæmi inn í umræðuna um loftslagsmál.

Hún segir að þrátt fyrir að hún lifi og hrærist í þessum málaflokki þá hafi tekið á að lesa nýju skýrsluna.

Auglýsing

„Það tekur alltaf á að sjá þetta svona svart á hvítu og með sífellt meiri vísindalegri vissu. Sú staða sem við erum í núna fær mig oft til að hugsa til annarra hamfara eða skelfilegra atburða af mannavöldum í gegnum söguna. Það er auðvelt að líta til baka og spyrja sig: Af hverju gerði enginn neitt? Var ekki hægt að afstýra þessu á einhvern máta?

Munurinn núna er að við sjáum fram á hamfarir sem við erum með gríðarlega mikla vísindalega þekkingu á; orsökum þeirra og afleiðingum og hvernig við eigum að bregðast við. Við höfum getu til að bregðast við og afstýra þessari vegferð sem við erum á – það eina sem vantar er viljinn.“

Berum einnig ábyrgð á öðrum lífverum

Tinna segir að í rauninni sé ekki hægt að réttlæta á neinn hátt að bregðast ekki við með fullnægjandi hætti – bæði fyrir komandi kynslóðir og fyrir alla sem uppi eru núna. „Ungmenni dagsins í dag munu upplifa sífellt verri afleiðingar loftslagsbreytinga út sína ævi. Þetta er handan við hornið. Svo má ekki gleyma að loftslagsbreytingar hafa áhrif á allar aðrar lífverur sem deila með okkur plánetunni, svo ábyrgð okkar liggur einnig gagnvart þeim.”

Tinna er búin að vera í fjögur ár í stjórn Ungra umhverfissinna en samtökin hafa verið starfandi síðan árið 2013. Ungir umhverfissinnar eru frjáls félagasamtök en tilgangur félagsins er að vera vettvangur ungs fólks á Íslandi til að láta gott af sér leiða í umhverfismálum.

Af hverju fórstu að velta fyrir þér loftslagsmálum á sínum tíma?

„Ég byrjaði eins og mörg að hafa áhyggjur af ástandinu og gerði það sem er svona hefðbundið fyrsta skref, að taka eigin lífsstíl í gegn í þeim tilgangi að vera sem umhverfisvænust. Ég reyndi líka að hafa áhrif á aðra í kringum mig með því að vekja athygli á málefninu en eftir ákveðinn tíma fann ég að ég var kominn á einhvern endapunkt og var föst, og fannst ég ekki vera að gera nægilega mikið til að breyta ástandinu. Einstaklingsmiðaðar aðgerðir hafa einungis áhrif upp á vissu marki, og þess vegna er mikilvægt að hafa frjáls félagasamtök og aðrar hreyfingar þar sem þú getur fundið máttinn í fjöldanum og þrýst á kerfislægar breytingar.“

Hún segir að henni hafi fundist hún ekki vera að gera nóg og þess vegna tekið þá ákvörðun að beita sér með markvissum hætti fyrir Unga umhverfissinna.

Tinna bendir á að einstaklingsmiðaðar aðgerðir hafa einungis áhrif upp á vissu marki. Meira þurfi til.
Bára Huld Beck

Varðandi stjórnvöld og aðgerðir þeirra, hvernig finnst þér þau hafa staðið sig undanfarin ár?

„Við erum búin að sjá miklar úrbætur í loftslagsmálum núna á þessu kjörtímabili en staðreyndin er sú að við þurfum að ganga miklu lengra og við þurfum hraðari og róttækari skref.“

Loftslagsmálin þurfi að gegnsýra alla stefnumótun stjórnvalda.

Vilja að stjórnvöld lýsi fyrir neyðarástandi í loftslagsmálum

Tinna segir að Ungir umhverfissinnar hafi staðið að verkefni sem kallast Sólin og gengur út á það að koma loftslags- og umhverfismálunum almennt í brennidepilinn í komandi kosningum. „Í byrjun árs gáfum við út kvarða sem verður notaður til að meta loftslags- og umhverfisstefnu allra flokka. Við sendum kvarðann á flokkana og höfum við einnig fundað með þeim flestum – og svo kemur einkunn sem við birtum þann 3. september.“

Þannig veiti Ungir umhverfissinnar leiðsögn fyrirfram, haldi samtali gangandi milli ungs fólks og stjórnmálafólks og svo komi aðhaldið með þessari einkunn.

Auglýsing

Hvernig kerfisbreytingum eruð þið að leita eftir?

„Við viljum að stjórnvöld lýsi fyrir neyðarástandi í loftslagsmálum og grípi til aðgerða í samræmi við það. Kerfið þarf samt að vera í stakk búið til að takast á við þetta stóra verkefni, en nauðsynlegt er að efla stjórnsýslu loftslagsmála og tryggja aðhaldshlutverk Loftslagsráðs og vísindaráðgjafar í stefnumótun.

Við viljum einnig sjá jarðefnaeldsneytislaust Ísland mun fyrr en nú er áætlað, endurheimt alls framræsts votlendis sem er ekki í notkun sem fyrst, hækkun á kolefnisgjaldi og svona mætti áfram telja. Allar aðgerðirnar má finna í kvarðanum á heimasíðunni okkar.”

Tinna segir að Íslendingar verði einnig að setja sér metnaðarfyllri markmið um samdrátt í losun og uppfæra aðgerðaáætlun í samræmi við það.

Tíminn er að renna út

Hvernig finnst þér stjórnmálafólk og flokkarnir standa sig í þessum málaflokki?

Hún bendir á að allir flokkar vilji hafa „loftslags-front“ og sýna að þeir séu að beita sér fyrir málaflokknum. „Auðvitað er þetta mál málanna núna en svo er mismunandi hversu stór skref fólk er tilbúið að taka og hvers konar nálgun það vill.

Við verðum að hafa í huga að ein tegund af loftslagsafneitun er að afneita alvarleika ástandsins og hvað við þurfum að grípa hratt til aðgerða. Þetta er ekki eitthvað sem leysist af sjálfu sér heldur þurfum við að taka stór skref núna. Það er ekki nóg að vera umhugað um loftslagsmálin og ætla að gera eitthvað smá hér og þar – heldur þurfum við á róttækum aðgerðum að halda. Tíminn er að renna út.“

Loftslagsmálin valda stanslausum kvíða og áhyggjum hjá mörgum ungmennum, segir Tinna.
Bára Huld Beck
Ungt fólk hefur krafist róttækari aðgerða í loftslagsmálum í hádeginu á föstudögum í yfir tvö ár.
Bára Huld Beck

Upplifir þú að það sé vilji fyrir þessum stóru skrefum innan stjórnmálanna?

„Það mun koma í ljós þegar við sjáum hvað hver flokkur ætlar að leggja til málanna fyrir komandi kosningar. Hvernig landið liggur í raun og veru.“

Ekki verður um það deilt að unga fólkið hefur sýnt loftslagsmálunum mikinn áhuga á síðastliðnum árum. Augljósa ástæðan er sú að ungt fólk mun reyna á eigin skinni afleiðingar breytinganna – frekar en þeir sem eldri eru. Hver telur þú að ástæðan sé fyrir því að ungt fólk brenni fyrir málefninu í svo miklum mæli?

„Já, ég held að miklu leyti sé það vegna þessa. Ef við horfum á þessa takmörkun á hlýnun við 1,5 gráðu, sem er auðvitað ekki ákjósanlegt ástand þótt það sé markmiðið, þá er 1,5 gráðu hlýnun miklu nær en við héldum. Við sjáum að helmingslíkur eru á því að að ná 1,5 gráðu hlýnun á fyrri hluta fjórða áratugar þessarar aldar. Svo ef við horfum aðeins lengra fram í tímann þá erum við, ef við grípum ekki til nógu róttækra aðgerða sem fyrst, að horfa fram á yfir 2 gráðu hlýnun – jafnvel upp í 3 gráðu hlýnun fyrir árið 2060. Hvernig framtíð er það sem bíður ungs fólks í dag?“ spyr hún.

Hlutverk stjórnmálafólks að lyfta kvíða af herðum unga fólksins

„Þá fyllist man auðvitað hræðslu, kvíða og jafnvel reiði vegna ófullnægjandi aðgerða um allan heim en okkur sem samfélagi hefur ekki tekist nægilega vel að takast á við þetta stóra vandamál. Þá finnst mér mikilvægt að beina þessum tilfinningum í réttan farveg sem er þá til dæmis aktivisminn. Að finna að man er að minnsta kosti að reyna að gera eitthvað til að bæta ástandið. En við verðum náttúrulega að gera okkur grein fyrir því að það er hlutverk stjórnmálafólks að lyfta þessum kvíða af herðum unga fólksins með því að koma fram með nægilega góðar aðgerðir, þar liggur ábyrgðin.“

Ungt fólk hefur haldið svokallað loftslagsverkfall á Austurvelli í hádeginu á föstudögum í yfir tvö ár. Tinna segir að það sé ekki ákjósanleg staða að ungt fólk taki sér frí eða skrópi í skóla eða vinnu til að mótmæla í svona langan tíma. „En okkur líður þannig að við þurfum að gera þetta. Við viljum sýna að okkur er annt um þetta vandamál og að þetta sé ekki eitthvað sem hefur horfið úr huga ungs fólks þrátt fyrir að það sé margt annað í gangi. Þetta veldur sífelldum kvíða og áhyggjum.“

Upplifið þið að hlustað sé á ykkur?

„Nei, ekki nægilega mikið. Það er vilji til samtals en þegar kemur að því að mæta kröfum okkar kemur annar tónn í samræðurnar. Til að mynda hafa stjórnvöld ekki lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, né komið fram með aðgerðir sem samrýmast því neyðarástandi sem við erum í. Sama með kröfu okkar um aukin framlög til loftslagsmála en þau eru ekki fullnægjandi að okkar mati, þrátt fyrir nýlega hækkun.“

Þurfum að grípa tækifærið núna

Tinna bendir jafnframt á að stjórnvöld hafi ekki lögfest markmið um samdrátt í losun fyrir árið 2030 en það er ein af kröfum unga fólksins. Þó sé búið að lögfesta markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, sem sé vissulega framför.

Varðandi loftslagskvíðann, hvað er hægt að gera til að sporna við honum að þínu mati?

„Mismunandi hlutir virka fyrir mismunandi aðila og fer það líka eftir alvarleika kvíðans. Fyrir mig persónulega, eins og ég nefndi áðan, þá er það loftslagsaktívisminn sem hefur hjálpað mér hvað mest – það er hægt að láta í sér heyra á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og í gegnum samráðsgátt stjórnvalda; að skrifa umsagnir um mál sem þér er annt um. Og svo hjálpar mikið að finna sér frjáls félagasamtök, eða til dæmis pólitíska hreyfingu, til að finna samstöðu í baráttunni eða bara til að hafa einhvern til að deila með þeim tilfinningum sem þú ert að upplifa í tengslum við loftslagsmál.”

Auglýsing

Tinna segist binda vonir við að í því neyðarástandi sem nú geisar muni skapast tækifæri til uppbyggingar og uppstokkunar. Þá skipti máli að breytingarnar eigi sér stað sem allra fyrst og þá sé von að við náum þeim markmiðum sem þarf til að halda verstu afleiðingum í skefjum.

„Þetta er mögulegt en glugginn sem við höfum til að gera eitthvað í alvörunni er alltaf að minnka og minnka en hann er ennþá opinn og við þurfum bara að grípa tækifærið núna.“

Hún hvetur allt ungt fólk sem er umhugað um umhverfismál að skrá sig í félagið og taka þátt í starfinu á þeirra vegum en hægt er að gera það á vefsíðu samtakanna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal