Hverjir eru æskilegir eigendur að íslenskum viðskiptabanka og hvernig er best að selja hann?
Í rúmlega níu ár hafa verið í gildi lög um hvernig selja eigi banka í eigu íslenska ríkisins. Það hefur tekið mun lengri tíma en lagt var upp með að hefja það ferli og mikillar tortryggni gætir gagnvart hverju skrefi sem er stigið. Hverjir eru æskilegir eigendur að íslenskum banka, hvernig eru þeir valdir og eru þeir til þess fallnir að auka traust á fjármálakerfi sem meginþorri þjóðarinnar vantreystir? Kjarninn rekur söguna alla.
Alls 22,5 prósent hlutur í Íslandsbanka var seldur í vikunni fyrir 52,65 milljarða króna, með 2,25 milljarða króna afslætti frá markaðsvirði bankans. Almenningi stóð ekki til boða að taka þátt en fyrir liggur að 430 svokallaðir „fagfjárfestar“ skipta hinum keypta hlut á milli sín.
Það mun ekki liggja fyrir fyrr en eftir helgi hverjir nákvæmlega keyptu og sennilega mun það aldrei verða upplýst að fullu. Lög gera einungis ráð fyrir því að allra stærstu eigendur séu opinberaðir.
Fyrir liggur að innlendir aðilar keyptu þorra þess sem selt var. Því er ljóst að stór erlendur banki, sem lengi hefur verið talin eftirsóknarverðasti kosturinn sem til staðar væri þegar kæmi að því að selja íslenska banka, er ekki á meðal kaupenda. Stórir lífeyrissjóðir keyptu mest og margir aðrir stofnanafjárfestar, innlendir og erlendir, skráðu sig líka fyrir eins miklu og þeir fengu að kaupa. Þá keyptu fjársterkir einstaklingar líka fyrir umtalsverðar fjárhæðir.
Þótt salan hafi farið fram í samræmi við boðaða framkvæmd þá virðist hún hafa komið mörgum í opna skjöldu. Stjórnvöld telja að hún hafi verið vel heppnuð og náð settum markmiðum. Stjórnarandstaðan, verkalýðsleiðtogar og fjölmargir aðrir hafa hins vegar gagnrýnt hana og kallað eftir upplýsingum um hvernig jafnræði bjóðanda hafi verið tryggt, hvaða „fagfjárfestar“ það hafi verið sem voru valdir til að kaupa ríkiseign og hvernig það hafi verið tryggt að allur hópurinn uppfylli skilyrði til að teljast slíkur.
Þá hefur verið kallað eftir frekari rökstuðningi fyrir þeim afslætti sem var gefinn í ljósi þess að umframeftirspurn eftir hlutum í Íslandsbanka var margföld.
Þótt annað skref í sölu Íslandsbanka hafi verið stigið, og íslenska ríkið sé orðið minnihlutaeigandi í bankanum með 42,5 prósent hlut, liggur fyrir að enn er mikið starf óunnið til að slá á gagnrýnisraddir í samfélagi þar sem einungis 23 prósent landsmanna bera traust til fjármálakerfisins.
Lagaheimild fyrir sölu frá 2013
Salan á bönkum í ríkiseigu á sér langan aðdraganda. Lög um sölumeðferð þeirra tóku gildi í byrjun árs 2013.
Síðar það ár urðu ríkisstjórnarskipti og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur haft það á stefnuskránni alla tíð síðan að selja eignarhluti ríkissjóðs í bönkum, í samræmi við stefnu síns flokks.
Á árinu 2015 var langstærsti eignarhlutinn í fjármálakerfinu sem ríkið hélt á nánast allt hlutafé í Landsbankanum. Í apríl á því ári lagði Bjarni fram frumvarp sem fól í sér að eignarhlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjum yrðu færði beint undir hann og að Bankasýsla ríkisins, stofnun sem stofnuð hafði verið eftir bankahrunið til að halda á hlutunum til að skapa armslengdarfjarlægð milli ríkis og banka, yrði samhliða lögð niður.
Eignarhald ríkisins á fjármálakerfinu breyttist síðar það ár, þegar þrotabú glitni afsalaði sér eignarhaldi á Íslandsbanka til ríkisins á grundvelli stöðugleikasamninganna.
Skyndilega átti ríkið tvo banka til að selja.
Framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið mótuð
Ferlið hefur hins vegar gengið hægt. Tíðar kosningar á árunum eftir að stöðugleikasamningarnir voru gerðir, sem voru tilkomnar vegna hneykslismála tengdum ráðherrum í ríkisstjórnum, voru hluti þeirrar ástæðu að illa gekk að taka í gikkinn.
Það var ekki fyrr en að fyrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum haustið 2017 að gangur komst á málið.
Til að undirbúa sölu á öllum Íslandsbanka og hluta af Landsbankanum var þá skipaður starfshópur til að skrifa hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Formaður hópsins var Lárus L. Blöndal lögmaður, en hann hefur verið stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, þeirrar stofnunnar sem fer með eignarhluti ríkisins í bankakerfinu, frá árinu 2015. Lárus var skipaður af Bjarna Benediktssyni, þáverandi og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra.
Hvítbókin leit dagsins ljós í desember 2018. Hún var mikið verk og benti á fjölmargar gagnlegar vörður sem hægt væri að byggja til að móta fjármálakerfi Íslands til framtíðar. Á meðal þess sem fjallað var um í henni var æskilegt eignarhald á bönkum og hvernig færi best á því að selja banka í eigu ríkisins.
Í millitíðinni hafði ríkið selt 13 prósent hlut sinn í Arion banka í febrúar 2018 á grunni kaupréttar sem samið var um 2009. Arion banki var þá þegar skráður á markað og salan því annars eðlis en sala á hlutum í Íslandsbanka og Landsbankanum.
„Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi“
Samkvæmt könnunum sem gerðar voru fyrir starfshópinn kom fram að langt væri í það að almenningur hefði traust á fjármálakerfinu. Einungis 16 prósent sagðist treysta því. Þegar fólk var beðið um að segja af hverju það treysti ekki íslenska bankakerfinu var niðurstaðan nokkuð afgerandi. Það sem flestum Íslendingum datt í hug til að lýsa kerfinu voru orð eins og spilling og græðgi. Þeir notuðu hugtök eins og háir vextir, dýrt og okur til að skilgreina kerfið.
Þegar fólk var spurt hvernig væri hægt að auka traust til bankakerfisins þá sagði stór hluti að það væri hægt með minni græðgi, minni ofurlaunum, lægri vöxtum og því almennt að bjóða upp á betri kjör.
Í Hvítbókinni er líka fjallað um eignarhald í bankakerfinu. Þar segir: „Heilbrigt eignarhald er mikilvæg forsenda þess að bankakerfi haldist traust um langa framtíð. Í því felst að eigendur banka séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi.“
Bein aðkoma erlends banka myndi hafa „jákvæð áhrif“
Þar er einnig farið yfir hvað væri ákjósanleg samsetning eignarhalds og sagt að fjölbreytt og dreift eignarhald gæti stuðlað að breiðri sátt um stefnumörkun banka og dregið úr hættu á of nánum beinum og óbeinum innbyrðis tengslum á milli stórra eigenda og stjórnenda banka. Það myndi byggjast í senn á ólíkum hópum fjárfesta og innlendu og erlendu eignarhaldi. „Bein aðkoma erlends banka að einum íslensku bankanna er líkleg til að hafa jákvæð áhrif á samkeppnisumhverfi bankanna til framtíðar, auka stöðugleika og minnka kerfisáhættu með fjölbreyttara eignarhaldi bankakerfisins og minnka þar með hættu á krosseignartengslum. Ef erlendur banki keypti íslenskan banka að fullu mætti leiða líkur að því að íslenska bankanum yrði breytt í útibú, sem væri þá að nokkru leyti undir eftirliti erlends fjármálaeftirlits. Ef um væri að ræða banka og öflugt eftirlit, t.d. á Evrópska efnahagssvæðinu, ætti slíkt að geta dregið enn frekar úr áhættu og kostnaði og aukið samkeppni.“
Það var því niðurstaðan að erlendur langtímafjárfestir, helst banki, væri eftirsóknarverðasti kosturinn sem til staðar væri þegar kæmi að því að selja banka.
Lítill áhugi erlendra banka á að kaupa
Vandamálið er, og hefur ætið verið, að erlendir bankar hafa ekki haft sýnilegan áhuga á að kaupa íslenska viðskiptabanka. Sá eini sem hefur gert það sem einhverju nemur var lítil þýskur einkabanki, Hauck & Aufhäuser, sem keypti stóran hlut í Búnaðarbanka Íslands 2003. Fjórtán árum síðar opinberaði rannsóknarnefnd að hann hefði verið leppur til að tryggja stjórnendum Kaupþings og Ólafi Ólafssyni fjárfesti yfirráð yfir bankanum. Kaupin voru blekking og þýski bankinn tók þóknun fyrir að taka þátt í að framkvæma hana.
Í minnisblaði sem Bankasýsla ríkisins skilaði inn til Hvítbókarhópsins sagði að regluleg samskipti við alþjóðlega fjárfestingabanka hefðu leitt í ljós að „á undanförnum árum og í kjölfar fjármálakreppunnar hefur verið afar lítið um samruna og yfirtökur á bönkum á milli landa í Evrópu. Bitur reynsla af fyrri yfirtökum, lág arðsemi, flóknara regluverk og auknar eiginfjárkröfur hafa átt sinn þátt í því[...]Bankar eru að draga sig út úr fjárfestingum fyrri ára og einbeita sér að kjarnarekstri á eigin heimamarkaði, en ekki að frekari landvinningum.“
Samtöl Kjarnans við bæði innlenda og erlenda aðila innan fjármálakerfisins á undanförnum árum hafa leitt í ljós að sú áhætta sem fylgir íslensku krónunni hafi líka leikið lykilhlutverk í því að erlendir bankar vilja ekki kaupa ráðandi hlut í íslenskum viðskiptabanka. Áður en íslenskra ríkið tók yfir Íslandsbanka eftir stöðugleikasamninganna voru það helst hópar frá löndunum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og Kína sem höfðu lýst yfir áhuga á að eignast bankann.
Faraldur frestar sölu
Í september 2019 lagði Bankasýsla ríkisins til að fjórðungshlutur í Íslandsbanka yrði seldur. Bjarni Benediktsson sagði í viðtali við Morgunblaðið í byrjun febrúar 2020 að söluferlið myndi hefjast innan nokkurra vikna.
Í kjölfarið var gerð málamiðlun milli stjórnarflokkanna sem í fólst að ríkið myndi eiga áfram „verulegan hlut“ í Landsbankanum til langframa og ákvörðun um að selja eitthvað í honum yrði ekki tekin fyrr en Íslandsbanki yrði að öllu leyti seldur. Þessi málamiðlun birtist í breyttri eigendastefnu ríkisins sem var gerð opinber 1. mars 2020. Nú er heimild til staðar til að selja allt að 30 prósent hlut í Landsbankanum.
Svo kom kórónuveirufaraldurinn og söluferlið var sett á ís. Það þótti ekki raunhæft að selja banka á þeim tíma vegna efnahagslegra aðstæðna á Íslandi og alþjóðavettvangi.
Hætt við að tvískrá erlendis
Málið var svo sett aftur í gang 17. desember 2020, degi áður en Alþingi fór í jólafrí. Það gerðist þannig að Bankasýsla ríkisins – stjórn hennar og forstjóri – sendu tillögu til Bjarna Benediktssonar um að selja hlut í Íslandsbanka í gegnum skráningu á íslenskan markað. Meginrökin sem voru sett fram fyrir þessu í minnisblaði sem fylgdi með voru þau að hlutabréfamarkaðir hefðu hækkað í kórónuveirufaraldrinum.
Fjórum dögum síðar, þegar þingmenn voru komnir í jólafrí, sendi Bjarni, ásamt ráðuneytisstjóra sínum, bréf til Bankasýslunnar og samþykkti tillöguna. Samhliða var send greinargerð til Alþingis og nefndarmönnum í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd gefin mánuður til að skila inn umsögn um málið. Hún átti að berast 20. janúar 2021, eða tveimur dögum eftir að fyrsti þingfundur eftir jólafrí fór fram.
Greinargerðin opinberaði það að ekki átti lengur að freista þess að finna erlenda aðila til að kaupa í Íslandsbanka. Það þætti ekki líklegt til árangurs. Svokallað samhliða söluferli var því aflagt og ákveðið að skrá Íslandsbanka einungis á markað á Íslandi, ekki tvískrá líka erlendis eins og upp var lagt með til að byrja með.
Kaupendur yrðu því, að uppistöðu, íslenskir fjárfestar.
Selt á lágu verði og hluthöfum hefur fækkað um meira en þriðjung
Fyrsta skrefið var stigið í fyrrasumar. Þá var haldið útboð og 35 prósent hlutur seldur á genginu 79 krónur á hlut. Verðið var gagnrýnt harðlega víða að í aðdraganda útboðsins þar sem það þótti of lágt, sérstaklega í samanburði við markaðsvirði Arion banka, banka af nánast sömu stærð sem var þegar skráður á markað. Níföld umframeftirspurn staðfesti það að fjárfestum fannst hlutabréf í bankanum á þessu verði vera eftirsóknarverður fjárfestingarkostur.
Almenningi var boðið að taka þátt og gat keypt fyrir eina milljón króna án þess að hlutur hans yrði skertur. Fyrir vikið voru hluthafar í bankanum um 24 þúsund þegar hann var skráður á hlutabréfamarkað í byrjun júní. Stærstur hluti var keyptur af lífeyrissjóðum og innlendir fagfjárfestar keyptu einnig töluvert. Einu sýnilegu erlendur aðilarnir sem keyptu voru tveir fjárfestingasjóðir, Capital World Investors og RWC Asset Management LLP, sem samanlagt keyptu 10,5 prósent hlut.
Frá því að þessi sala átti sér stað hefur markaðsvirði hlutabréfa í Íslandsbanka hækkað um næstum 60 prósent. Á nokkrum mánuðum leystu margir út hagnað vegna þessarar hækkunar. Erlenda eignarhaldið hefur til að mynda lækkað um þriðjung og annar sjóðanna sem keypti hefur selt nánast allt sitt í Íslandsbanka. Hluthöfum í bankanum fækkaði á tæpu hálfu ári um 35 prósent, um 8.400, og hluthafahópurinn telur í dag um 15.600 manns. Því er ljóst að margir litu á kaup í Íslandsbanka sem skammtíma gróðatækifæri, ekki langtímafjárfestingu.
Ákveðið að selja til „hæfra fjárfesta“
Næsta skref í sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka hófst formlega 20. janúar 2022 þegar Bankasýslan lagði fram tillögu um að stór hlutur yrði seldur með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi.
Slíkt fyrirkomulag felur í sér að söluráðgjafar kanna áhuga „hæfra fjárfesta“ á að taka þátt í útboði. Þeir verða samhliða tímabundnir innherjar. Ef slíkur áhugi er til staðar fá þeir möguleika á að kaupa hlutabréf í bankanum á gengi sem væri nokkru undir markaðsverði þeirra daginn fyrr. Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra frá 11. febrúar sagði að ástæða þess að „hæfir fjárfestar“ myndu fá afslátt væri vegna þess að þeir væru að kaupa stærri hlut í bankanum en aðrir, auk þess sem óvissa væri um nákvæma þróun hlutabréfaverðsins á vikunum eftir útboðið.
Þingnefndir Alþingis fjölluðu í kjölfarið um málið og síðdegis síðasta föstudag, eftir lokun markaða, var birt tilkynning um að fjármála- og efnahagsráðherra hefði ákveðið að hefja framhald sölumeðferðar á hlutum í Íslandsbanka í samræmi við tillögu Bankasýslu ríkisins.
Haft samband við þá sem talið væri að hefðu áhuga
Á þriðjudag, ellefu mínútum eftir að markaðir lokuðu, var svo látið til skara skríða. Í aðdraganda þess höfðu söluráðgjafar sem fengnir voru að sölunni rætt við stóra fjárfesta á borð við lífeyrissjóði um kaup og fengið óskuldbindandi vilyrði fyrir því að þeir myndu vera tilbúnir til að kaupa þann 20 prósent hlut sem til stóð að selja að lágmarki. Almennum fjárfestum var ekki boðið að taka þátt í viðskiptunum en söluráðgjafar stjórnvalda höfðu samband við þá skilgreindu fagfjárfesta sem þeir töldu að hefðu áhuga og buðu þeim að kaupa.
Klukkan rúmlega tíu sama kvöld, sex klukkutímum eftir að tilkynnt var um söluferlið og 40 mínútum eftir að frestur til að skila inn tilboðum rann út, birtist ný tilkynning um að seldur yrði 22,5 prósent hlutur á 52,65 milljarða króna, með 2,25 milljarða króna afslætti. Afslátturinn var veittur þrátt fyrir að margföld umfram eftirspurn hefði verið í útboðinu og að bæði „innlendir og erlendir hæfir fjárfestar sýndu útboðinu mikinn áhuga.“
Umsjónaraðilum þótti það lítill afsláttur í samanburði við sambærilegar sölur erlendis á árinu 2022, sérstaklega eftir þann markaðsóróa sem skapaðist þegar Rússland réðst inn í Úkraínu fyrir rúmum mánuði síðan.
Snemma morguns á miðvikudag lá fyrir að Bjarni Benediktsson hafði samþykkt söluna og íslenska ríkið var orðið minnihlutaeigandi í Íslandsbanka með 42,5 prósent eignarhlut.
430 skráðu sig fyrir hlut
En hverjir fengu að taka þátt og hverjir keyptu? Því verður ekki svarað að hluta fyrr en á mánudag eða þriðjudag, þegar þeir sem skráðu sig fyrir hlut borga fyrir hann. Sennilegast er þó að almenningur fái aldrei að vita nákvæmlega hverjir það eru sem fengu að kaupa. Lög gera einungis ráð fyrir því að þeir sem eiga eitt prósent eða meira í skráðu félagi séu birtir á hluthafalista þess. Fáir þeirra sem tóku þátt munu uppfylla það skilyrði.
Einn ráðgjafa stjórnvalda, STJ Advisors, birti tilkynningu á heimasíðu sinni á miðvikudag þar sem kom fram að 430 aðilar hafi skráð sig fyrir hlut. Þetta er hópurinn sem uppfyllti það skilyrði stjórnvalda að teljast til „hæfra fjárfesta“.
Það var því ljóst að um afmarkaðan hóp var að ræða. Fyrir liggur að íslenskir lífeyrissjóðir keyptu stóran hlut. Þar fóru fremstir í flokki þrír stærstu sjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi. Samkvæmt flöggun til Kauphallar Íslands er eignarhlutur LSR til að mynda nú kominn í 5,23 prósent. Samkvæmt frétt Innherja frá því á miðvikudag fengu þeir að kaupa um 30 prósent af því sem þeir skráðu sig fyrir.
Íslenskir verðbréfasjóðir og tryggingafélög keyptu einnig töluvert og einhverjir erlendir sjóðir líka. Það gerðu líka fjársterkir einstaklingar sem töldust „hæfir fjárfestar“. Þeir sem voru metnir langtímafjárfestar fengu að kaupa fyrir rúmlega 40 prósent þeirra upphæðar sem þeir skráð sig fyrir, samkvæmt Innherja.
Vegna þess að umframeftirspurn var þá skertust allir sem gerðu tilboð, en mismunandi mikið. Það byggði meðal annars á huglægu mati ráðgjafa á því hvort viðkomandi var talinn vera skammtíma- eða langtímafjárfestir.
Ferlið harðlega gagnrýnt
Um sölu á hlut íslenska ríkisins í fjármálafyrirtækjum gilda sérstök lög sem tóku gildi í byrjun árs 2013. Í þriðju grein laganna er fjallað um meginreglur við sölumeðferð. Þar segir meðal annars að áhersla skuli vera lögð á „opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis.“
Hörð gagnrýni hefur verið sett fram á stjórnvöld um að þessum ákvæðum hafi ekki verið mætt í sölunni sem fór fram í vikunni, meðal annars af þingmönnum stjórnarandstöðuflokka.
Gefin hafi verið afsláttur upp á 2,25 milljarða króna að óþörfu í ljósi þess að umframeftirspurn var margföld.
Þótt þeir sem eru virkir á markaði hafi áttað sig á að sala væri yfirvofandi út frá bréfasendingum milli Bankasýslunnar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem birtar höfðu verið opinberlega hafi almenningur ekki gert það og framkvæmdin því komið mörgum sérkennilega fyrir sjónir, að stór ríkiseign hafi verið seld á einni kvöldstund. Í ljósi þess að nýjustu mælingar Gallup sýna að traust til fjármálakerfisins er enn afar lítið, 23 prósent, þá hefði átt að vanda betur til verka við að koma almenningi, eiganda bankans, í skilning um hvað væri að fara að gerast.
Þá hafa margir þátttakendur á fjármálamarkaði gagnrýnt fyrirkomulagið fyrir ógagnsæi og að ekki hafi verið gætt jafnræðis þegar þeir sem fengu að kaupa voru valdir.
Kjarninn beindi fyrirspurn til Seðlabanka Íslands og spurði hvort hann hafi haft hlutverki að gegna til að gæta jafnræðis bjóðenda í hinu lokaða útboði. Í svari bankans segir að það sé ekki hlutverk hans að „taka út bjóðendur nema eignarhlutur þeirra við kaupin verði virkur eignarhlutur í bankanum.“
Ráðgjafar valdir úr hópi áhugasamra
En hvernig voru þeir valdir? Í stuttu máli þá voru það umsjónaraðilar útboðsins sem það gerðu. Þeim var gert að líta einungis á Bankasýslu ríkisins sem viðskiptavin sinn í tengslum við viðskiptin en ekki kaupendur, sem þó eru margir hverjir viðskiptavinir þeirra til margra ára og sterk persónuleg tengsl eru við.
Umsjónaraðilar og söluráðgjafar geta átt von á hárri þóknun fyrir sína aðkomu að sölunni. Beinn kostnaður íslenska ríkisins við skráningu og hlutafjárútboð Íslandsbanka um mitt síðasta ár nam til að mynda 1.704 milljónum króna, að stærstum hluta vegna söluþóknunar til fjölda erlendra og íslenskra ráðgjafa. Ekki hefur verið greint frá því hvað ráðgjafarnir fá fyrir annað skrefið í sölu Íslandsbanka.
Í tilkynningu sem Bankasýslan birti á miðvikudagsmorgun kom fram að „Citigroup, Fyrirtækjaráðgjöf og Verðbréfamiðlun Íslandsbanka og J.P. Morgan höfðu umsjón með viðskiptunum. HSBC Continental Europe og Fossar markaðir, höfðu aðkomu að viðskiptunum sem söluráðgjafar.“
Kjarninn beindi fyrirspurn til Jóns Gunnars Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, um hvernig viðkomandi umsjónaraðilar og söluráðgjafar voru valdir. Í svari hans sagði að þeir hefðu verið valdir úr hópi þeirra sem lýstu yfir áhuga á mögulegu hlutverki fjármálaráðgjafa og umsjónaraðila með sölumeðferð á eignarhlutum í Íslandsbanka í byrjun árs 2021, þegar þessi hlutverk voru boðin út. Hlutverkin voru ekki boðin út nú, þar sem að salan féll undir undantekningarákvæði laga um opinber innkaup.
Hvenær er fjárfestir „hæfur“?
Hvað skilgreinir þá sem eru taldir „hæfir fjárfestar“? Samkvæmt lögum verða fjárfestar sem hyggjast fara með virkan eignarhlut í banka að standast hæfismat sem byggist á ítarlegri greiningu og gagnaöflun. Þeir þurfa að hafa gott orðspor og búa við sterka fjárhagsstöðu, en auk þess ætti eignarhaldið ekki að torvelda eftirliti eða leiða til peningaþvættis eða annarrar ólöglegrar starfsemi.
Eignarhlutur telst virkur ef hann er tíu prósent eða meira og því á ofangreint ekki við um þá sem tóku þátt í kaupum á hlutum í Íslandsbanka í vikunni.
Í lögum um markaði fyrir fjármálagerninga sem samþykkt voru í fyrrasumar er að finna skilgreiningu á þeim sem teljast fagfjárfestar. Það eru viðskiptavinir sem búa „yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfur ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir.“ Á meðal þeirra sem teljast lagalega uppfylla það skilyrði eru stórir þátttakendur á markaði, t.d. bankar, verðbréfafyrirtæki, tryggingafélög, sjóðstýringarfélög og lífeyrissjóðir. Sömu sögu er að segja um stór fyrirtæki sem uppfylla tvo af þremur skilyrðum: að vera með efnahagsreikning sem er yfir 20 milljónir evra, ársveltu yfir 40 milljónum evra eða eiga eigið fé sem er tvær milljónir evra eða meira. Ríkisstjórnir, héraðsstjórnir, seðlabankar og alþjóðastofnanir teljast líka til fagfjárfesta.
Þeir sem eru metnir af verðbréfafyrirtækjunum
Svo eru það þeir sem geta óskað eftir því að vera fagfjárfestar án þess að tilheyra ofangreindum hópi. Þetta á aðallega við um einstaklinga eða litla hópa sem stunda verðbréfaviðskipti í meira mæli en almennt tíðkast.
Þeir geta kallað eftir því að verðbréfafyrirtæki sem þeir eigi í viðskiptum við flokki þá sem slíka. Verðbréfafyrirtækið á þá að leggja mat á sérfræðikunnáttu, þekkingu og reynslu viðkomandi og hvort hún veiti nægilega vissu fyrir því að hann geti sjálfur tekið ákvarðanir um fjárfestingar og skilji áhættuna sem í þeim felst.
Til að þessir einstaklingar geti talist fagfjárfestar þurfa þeir að uppfylla að minnsta kosti tvö af þremur skilyrðum: í fyrsta lagi að hafa átt umtalsverð viðskipti á viðeigandi síðastliðið ár, eða að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi, í öðru lagi að fjármálagerningar þeirra og innistæður séu samanlagt virði 500 þúsund evra (71 milljón króna) eða meira eða í þriðja lagi að fjárfestir hafi gegnt eða gegni, í að minnsta eitt ár, stöðu í fjármálageiranum sem krefst þekkingar á fyrirhuguðum viðskiptum eða þjónustu.
Þrír keyptu fyrir um 93 milljónir
Einu aðilarnir sem tóku þátt í kaupum á hlut í Íslandsbanka sem hafa verið skilgreindir sem fagfjárfestar af verðbréfafyrirtækjunum sem þeir eiga viðskipti við á grundvelli ofangreindra krafna sem opinberlega er búið að greina frá eru stjórnarmaður í Íslandsbanka, framkvæmdastjóra í bankanum og sambýlismaður stjórnanda innan hans. Ástæðan er sú að birtar voru tilkynningar um kaup aðila tengdum stjórn og yfirstjórn bankans á hlut.
Um var ræða Ara Daníelsson, stjórnarmann í Íslandsbanka, sem keypti fyrir 55 milljónir króna, Ríkharð Daðason, sambýlismann Eddu Hermannsdóttur markaðs- og samskiptastjóra bankans, sem keypti fyrir tæpar 27 milljónir króna og Ásmund Tryggvason, framkvæmdastjóra fyrirtækja og fjárfestingasviðs, sem keypti fyrir rúmar 11 milljónir króna.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði kaup mannanna þriggja að umtalsefni á Alþingi í gær, og minntist sérstaklega á kaup félags Ríkharðs, RD Invest ehf., sem er með neikvætt eigið fé upp á rúmlega 135 milljónir króna samkvæmt síðasta birta ársreikningi þess, vegna ársins 2020. Jóhann Páll sagði þetta vekja upp spurningar um hvernig fagfjárfestar voru valdir og að það þyrfti að ræða á Alþingi.
Þrír innherjar tengdir stjórn og yfirstjórn Íslandsbanka voru í hópi þeirra sem keyptu hlutabréf í bankanum. Einn þessara innherja, sambýlismaður millistjórnanda í bankanum, keypti hlut gegnum eignarhaldsfélag sem er með neikvætt eigið fé upp á 135 milljónir samkvæmt síðasta ársreikningi – og þar af eru 120 milljónir vegna skulda við tengda aðila.
Posted by Jóhann Páll Jóhannsson on Thursday, March 24, 2022
Kjarninn kallaði eftir upplýsingum frá Íslandsbanka um hvort einhverjar takmarkanir hafi verið settar á þátttöku stjórnarmanna eða starfsmanna bankans í útboðinu á þriðjudag. Í svari frá bankanum sagði að svo væri ekki en allir þátttakendur þyrfti að vera skilgreindir fagfjárfestar. Það hafi útilokað flesta starfsmenn frá þátttöku.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði