Flestir Danir eru áhugasamir um allt sem við kemur dönsku konungsfjölskyldunni. Um Margréti Þórhildi drottningu, synina, tengdadæturnar tvær, og eina fyrrverandi, og barnabörnin átta. Það er í raun sama hvert tilefnið er, Danir fylgjast grannt með fjölskyldunni. Margir Danir eru yfirlýstir „royalistar“ og Billed-bladet „Danmarks royale ugeblad“ eins og það kallar sig fylgist nánast með hverju fótmáli fjölskyldunnar á Amalíuborg.
Billed-bladet kemur út vikulega. Þótt ekki séu ætíð einhverjar stórfréttir af drottningunni og hennar fólki leggur starfsfólk blaðsins sig í framkróka í „fréttaöfluninni“ til að hafa frá einhverju að segja. Afmæli, upphaf skólagöngu, ferðalög í fríum, sýningaropnanir, frumsýningar á Konunglega leikhúsinu, þingsetningar, heimsóknir erlendra þjóðhöfðingja, nýársfagnaðir drottningar og fleira og fleira. Allt ratar þetta, og margt fleira, á síður Billed-bladet og annarra miðla og stærri viðburðir sem drottningin eða aðrir úr fjölskyldunni eru viðstaddir má iðulega sjá í sjónvarpsfréttum.
Prinsa- og prinsessu ofgnótt
Margrét Þórhildur á tvo syni. Sá eldri, ríkisarfinn Friðrik, ber titilinn krónprins en sá yngri Jóakim verður að láta sér prinstitilinn nægja. Mary eiginkona ríkisarfans er krónprinsessa, Marie eiginkona Jóakims ber prinsessutitil. Bræðurnir eiga samtals átta börn, þrjár stúlkur og fimm drengi. Stúlkurnar eru prinsessur, drengirnir prinsar. Margrét Þórhildur á tvær systur, Benediktu prinsessu og Önnu sem ber drottningartitil, hún er gift Konstantin 2. fyrrverandi Grikklandskonungi. Þetta gerir einn krónprins, eina krónprinsessu, fimm prinsessur og sex prinsa. Samtals þrettán. Alexandra, fyrri eiginkona Jóakims missti prinsessutitilinn við skilnaðinn en ber þess í stað titilinn greifynja.
Rétt er að geta þess að Margrét drottning heitir fjórum nöfnum: Margrethe Alexandrine Þórhildur Ingrid og synirnir og börn þeirra bera einnig fjögur nöfn. Að auki var Monpezat nafnið tekið upp í dönsku konungsfjölskylduna árið 2008 og kemur aftast í nafnarununni, eftir kyni greifi (greve) eða greifynja (grevinde). Fullt nafn Friðriks krónprins er því Frederik André Henrik Christian greve af Monpezat. Synir Margrétar Þórhildar, tengdadætur hennar og barnabörn bera öll Monpezat nafnið, sem er fjölskyldunafn Henriks drottningarmanns. Hann lést árið 2018.
Margrét Þórhildur gerir kunnugt
Síðastliðinn þriðjudag, 27. september, birtist á heimasíðu hallarinnar (Kongehuset) tilkynning. Yfirskrift tilkynningarinnar var „Ændringer i titler og tiltaleformer i den kongelige familie“ þ.e breytingar á titlum og ávarpsorðum í konungsfjölskyldunni.
Í tilkynningunni segir fyrst að árið 2008 hafi drottningin veitt sonum sínum, tengdadætrum og afkomendum þeirra heimild til að nota Monpezat titilinn. Hann kemur eins og áður sagði aftast í nafnarununni hjá prinsunum greve af Monpezat, hjá tengdadætrum og giftum sonardætrum, þegar og ef að því kemur, grevinde af Monpezat og hjá ógiftum sonardætrum komtesse af Monpezat. Þá segir í tilkynningunni að eins og greint hafi verið frá árið 2016 verði prins Christian, elsta barnabarn Margrétar Þórhildar og tilvonandi ríkisarfi, eina barnabarnið sem muni fá ,,apanage“ árlegan framfærslueyri frá ríkinu.
Excellence í stað højhed
En það var ekki þetta framangreinda, heldur það sem á eftir fór, sem vakti athygli og hefur sett allt í háaloft hjá fjölskyldunni á Amalíuborg.
Í tilkynningunni segir að í eðlilegu framhaldi af Monpezat titlunum hafi drottningin ákveðið að frá og með næstu áramótum geti börn Jóakims einungis notað greifa og komtesse titlana, prinsa og prinsessutitlar falli brott. Börn Jóakims verði þannig ávörpuð sem „excellence“ hágöfgi. Þetta ávarp kemur í stað „højhed“ hátign. Ávarpið er sem sé skref niður á við.
Fram hefur komið að áður hafi verið ákveðið að titlarnir þrír „greve“, „grevinde“ og „komtesse“ skyldu falla niður þegar börn Jóakims ná 25 ára aldri. Nikolai er þeirra elstur, nýorðinn 23 ára, Felix er tvítugur, Henrik er 13 ára og Athena 10 ára. Jóakim eignaðist Nikolai og Felix með Alexöndru fyrri konu sinni, hún missti prinsessutitilinn þegar þau Jóakim skildu en ber þess í stað titilinn greifynja. Marie seinni kona Jóakims er móðir þeirra Henriks og Athenu.
Eldri synirnir tveir stunda nám við CBS, danska viðskiptaháskólann, en yngri börnin búa hjá foreldrum sínum í París og ganga þar í skóla. Jóakim vinnur í varnarmáladeild danska sendiráðsins í borginni og Marie vinnur einnig í sendiráðinu, í menningarmáladeildinni.
Sama og aðrir hafa gert
Í tilkynningunni áðurnefndu, frá höllinni, segir að ákvörðun Margrétar Þórhildar sé á svipuðum nótum og átt hafi sér stað á nokkrum undanförnum árum í öðrum konungsríkjum. Ennfremur segir að með þessari ákvörðun óski drottningin þess að barnabörnin fjögur geti sjálf mótað sína eigin framtíð án þess að vera háð þeim sérstöku skyldum sem tengjast hirðinni.
Jóakim mjög ósáttur
Það er afar sjaldgæft að fjölskyldan á Amalíuborg beri ágreining og innbyrðis deilur á torg. Undantekningar frá slíku er óánægja Henriks drottningarmanns með að fá ekki konungstign. Jóakim prins lá hinsvegar ekki á skoðun sinni þegar blaðamenn sátu fyrir honum á leið í vinnuna morguninn eftir að tilkynning hallarinnar var birt. Hann sagði að börn sín væru afar vonsvikin og fyndist þau hafa verið svikin. Hann hefði fengið vitneskju um ákvörðun móður sinnar með fimm daga fyrirvara. Þegar blaðamaður spurði hvaða áhrif ákvörðun móður hans hefði á samband þeirra, sonar og móður svaraði Jóakim að hann teldi að hann þyrfti ekki að útskýra það.
Sýnir klofning í fjölskyldunni
Danskir fjölmiðlar hafa eytt miklu púðri í umfjöllun um þetta mál. Og sýnist sitt hverjum. Sumir fréttaskýrendur hafa talið ákvörðun drottningar rétta og eðlilega. Hún hafi líka, í ljósi þess að hennar eigin skapadægur nálgast (hún er 82 ára), viljað losa ríkisarfann við að þurfa að taka ákvörðun af þessu tagi. Aðrir hafa bent á að hægt hefði verið að fara aðra leið, til dæmis að halda sig við 25 ára viðmiðið eins og nefnt var hér að framan. Enn aðrir hafa bent á að börn Jóakims séu ekkert frjálsari að ákveða sína eigin framtíð þótt titlarnir prins, prinsesse og komtesse hverfi. Allir fréttaskýrendur virðast á einu máli um að ákvörðun drottningar sýni klofning og ágreining innan fjölskyldunnar á Amalíuborg. Þeir eru líka sammála um að drottningin muni ekki draga ákvörðun sína til baka, gert sé gert og sagt sé sagt.
Dregur þetta mál dilk á eftir sér?
Þessari spurningu hafa danskir blaðamenn, og fréttaskýrendur velt fyrir sér. Án þess að hafa svar á reiðum höndum. Gamalreyndur blaðamaður sagði að sá stirðleiki sem greinilega væri kominn upp í fjölskyldu Margrétar Þórhildar yrði ekki leystur annars staðar en við eldhúsborðið á Amalíuborg. Bætti við að gaman væri að geta verið fluga á eldhúsveggnum þegar fjölskyldan öll kemur næst saman.