Skattkröfur namibískra stjórnvalda á hendur Samherja Holding um þrír milljarðar króna
Í nýbirtum ársreikningi Samherja Holding kemur fram að yfirvöld í Namibíu hafi stofnað til nokkurra skatta- og annarra lögfræðilegra krafna á hendur samstæðunni. Óvissa um áhrif málareksturs í Namibíu á starfsemi Samherja Holding gerði það að verkum að ársreikningurinn er undirritaður með fyrirvara bæði stjórnar og endurskoðanda.
Stjórnvöld í Namibíu hafa stofnað til nokkurra skatta- og annarra lögfræðilegra krafna á hendur namibískum dótturfélögum Samherja Holding. Þar á meðal sé mögulegt endurmat á skattgreiðslum upp á 318 milljón Namibíudali, alls 20,2 milljónir evra, sem eru um þrír milljarðar króna á núvirði. Niðurstöðu þess og tengdan málskostnað sé ekki hægt að áætla með nægilegri vissu, en tiltekið er að stjórnendur Samherja Holding hafi mótmælt þessum kröfum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársreikningi Samherja Holding vegna ársins 2020 sem skilað var inn til Skattsins 30. desember síðastliðinn og var gerður aðgengilegur almenningi í gær, fimmtudaginn 6. janúar. Í ársreikningnum er farið yfir þann málarekstur sem stofnað hefur verið til vegna starfsemi Samherja Holding í Namibíu og þær kröfur sem þegar eru komnar fram vegna hennar.
Greiddu mörg hundruð milljónir til færeyskra skattyfirvalda
Þá er þar greint frá því að Samherji hf., systurfélag Samherja Holding, hafi greitt fyrir hönd Sp/f Tindhólms, dótturfélags Samherja Holding, samtals um 17 milljónir danskra króna, um 335 milljónir króna á núvirði, til færeyskra skattyfirvalda vegna óvissu um gildi skattfrelsis fyrir ákveðna áhafnarmeðlimi. Málið kom upp í mars í fyrra þegar fyrri hluti heimildarmyndar um umsvif Samherja í Færeyjum var sýnd er í færeyska sjónvarpinu. Hún var unnin í samstarfi við Kveik og Wikileaks.
Þar kom fram að Íslendingur úr áhöfn togara í eigu Samherja, sem gerður var út í Namibíu, fékk laun sín greidd frá færeyska félaginu Spf Tindholmur, sem Samherji stofnaði þar í landi árið 2011. Gögn sýndu að hann hafi auk þess verið ranglega skráður í áhöfn færeysks flutningaskips í eigu Samherja, en útgerðum býðst 100 prósent endurgreiðsla á skattgreiðslum áhafna slíkra skipa.
Þannig er talið að málum hafi verið háttað með fleiri sjómenn sem unnu fyrir Samherja í Namibíu. Fyrir vikið greiddu sjómennirnir ekki skatta í Namibíu og Samherji þurfti því ekki að bæta þeim upp tekjutap vegna slíkra skattgreiðslna.
Skattyfirvöld í Færeyjum hafa tilkynnt dótturfélagið SpF Tindhólm til lögreglu. Í ársreikningi Samherja Holding segir að óljóst sé hvort eða hvernig færeysk skattayfirvöld og lögregla muni fylgja málinu eftir.
Rannsókn stendur yfir í Namibíu og á Íslandi
Í reikningnum er tiltekið að rannsókn á meintum lögbrotum Samherja Holding og starfsmanna samstæðunnar sem tengjast meðal annars starfseminni í Namibíu standi yfir hjá yfirvöldum í Namibíu og á Íslandi, en að ekki hefur verið höfðað mál á hendur félaginu. Í ársreikningnum segir: „Félagið hefur mótmælt öllum ásökunum um lögbrot og gert grein fyrir sjónarmiðum sínum opinberlega.“
Í Namibíu er rekið umfangsmikið sakamál vegna meintra mútugreiðslna, svika, spillingar, peningaþvættis og skattaundanskota í tengslum við kvótaviðskipti Samherja í landinu. Það snýr að að mestu að namibískum áhrifamönnum sem hafa flestir setið í gæsluvarðhaldi allt frá því málið kom upp á yfirborðið í umfjöllunum Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og fleiri miðla í nóvember 2019, sem unnar voru með aðkomu WikiLeaks, sem birti frumgögn málsins. Auk þess hefur ríkissaksóknari Namibíu sagt að hún ætli sér að ákæra þrjá íslenska ríkisborgara sem stýrðu félögum fyrir hönd Samherja, en ekki hefur tekist að birta þeim ákærur og enginn framsalssamningur er í gildi milli Namibíu og Íslands.
Fyrir liggur að á Íslandi eru átta manns hið minnsta með réttarstöðu sakborning við rannsókn embættis héraðssaksóknara á meintu peningaþvætti, mútugreiðslum og skattasniðgöngu Samherjasamstæðunnar. Á meðal þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, en allir hinir annað hvort starfa fyrir samstæðuna eða hafa gert það. Kjarninn greindi frá því í október að rannsókn á meintum skattalagabrotum Samherjasamstæðunnar hefði færst yfir til embættis héraðssaksóknara skömmu áður.
Bankar, birgjar og viðskiptavinir haldið tryggð
Í ársreikningi Samherja Holding er sagt að fjallað hafi verið ítarlega um hvað fór úrskeiðis í rekstrinum í Namibíu og hvers vegna. „Gripið hefur verið til víðtækra ráðstafana til að koma í veg fyrir að slík atvik geti hent á ný. Mikilvægir hagsmunaaðilar sem félagið á í samskiptum við, bankar, birgjar og stórir viðskiptavinir hafa haldið tryggð við félagið.“
Starfsemi dótturfélaga samstæðunnar í Namibíu var lögð niður í árslok 2019 og í ársreikningnum segir að lögð hafi verið áhersla á að dótturfélög Samherja í landinu muni uppfylla skyldur sínar gagnvart namibískum yfirvöldum.
Samherja skipt upp í tvö fyrirtæki árið 2018
Á árinu 2018 gerðist það að Samherja var skipt upp í tvö fyrirtæki. Það var samþykkt 11. maí 2018 á hluthafafundi og skiptingin látin miða við 30. september 2017.
Eftir það er þorri innlendrar starfsemi Samherja og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum undir hatti Samherja hf. en önnur erlend starfsemi og hluti af fjárfestingarstarfsemi á Íslandi í félaginu Samherji Holding ehf.
Samherji Holding er að uppistöðu í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar, Helgu S. Guðmundsdóttur fyrrverandi eiginkonu hans og Kristjáns Vilhelmssonar, útgerðarstjóra Samherjasamstæðunnar. Inni í þeim hluta starfseminnar eru eignarhlutir Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi. Þar eru þó einnig íslenskir hagsmunir, meðal annars 34,22 prósent hlutur í Eimskip, sem hefur rúmlega tvöfaldast í virði síðastliðið ár.
Í byrjun árs 2021 var greint frá því að Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más og Helgu, hafi verið falið að leiða útgerðarstarfsemi Samherja í Evrópu, sem fer fram í gegnum Samherja Holding. Til að vera nákvæmari þá fer hún fram í gegnum dótturfélagið Alda Seafood Holding BV. Í ársreikningi Samherja Holding fyrir árið 2020 segir að í desember það ár hafi félagið öll önnur hlutabréf sín í CR Cuxhavener Reederei GmbH, Icefresh GmbH, Nergård Invest Samherji AS, Onward Fishing Company Limited, Sæbóli fjárfestingafélagi ehf. og Seagold Limited inn sem hlutafjárframlag í Alda Seafood Holding BV, sem er í 100 prósent eigu Samherja Holding.
Fjárfestingafélagið Sæból hét áður Polar Seafood. Það félag á tvö dótturfélög, Esju Shipping Ltd. og Esju Seafood Ltd. sem bæði eru með heimilisfesti á Kýpur. Þau félög héldu meðal annars utan um veiðar Samherja í Namibíu, þar sem samstæðan og stjórnendur hennar eru nú grunaðir um að hafa greitt mútur til að komast yfir ódýran kvóta.
Auk þess á Sæból þrjú dótturfélög í Færeyjum, þar á meðal Spf Tindhólm.
Samt sem áður er gerður fyrirvari við undirritun ársreikninginn bæði úr hendi stjórnar og forstjóra Samherja Holding og endurskoðanda samstæðunnar. Fyrirvarinn er gerður vegna þess að enn sé óvissa um áhrif málareksturs í Namibíu á starfsemi samstæðunnar og að ekki hagi tekist með fullnægjandi hætti að sannreyna skuldbindingar Hermono samstæðunnar, sem fór með reksturinn Í Namibíu fyrir hönd Samherja Holding.
Í áritun endurskoðanda segir að starfsemi Hermono samstæðunnar sé flokkuð sem aflögð starfsemi í efnahags- og rekstrarreikningi samstæðunnar. „Við gátum ekki aflað nægjanlegra og viðeigandi endurskoðunargagna til að staðfesta þær fjárhæðir sem fram koma í aflagðri starfsemi en tap aflagðrar starfsemi var 8.592 þúsund evrur, eignir í aflagðri starfsemi voru 16.391 þúsund evrur og skuldir vegna aflagðrar starfsemi voru 10.515 þúsund evrur. Ennfremur ríkir óvissa um áhrif ásakana og rannsókna á starfsemi samstæðunnar í Namibíu á skuldbindingar Hermono samstæðunnar.“
Ekki hafi reynst unnt að bregðast við því í endurskoðuninni. Þar af leiðandi var ekki lagt mat á réttmæti ofangreindra fjárhæða.
Söluandvirði Heinaste geymt á sameiginlegum reikningi
Hluti af eignum aflagðrar starfsemi var skipið Heinaste, en skipið var selt í nóvember 2020 til þriðja aðila fyrir 18 milljónir Bandaríkjadala, sem eru á núvirði rúmlega 2,3 milljarðar króna. Þriðjungur söluverðsins er ógreiddur en kemur til greiðslu á árunum 2022 til 2023. „Sá hluti sem hefur verið greiddur, samkvæmt sérstöku samkomulagi við namibísk stjórnvöld, er geymdur á sameiginlegum reikningi með ríkissjóði Namibíu, þar til niðurstöður dómsmáls í Namibíu liggja fyrir. Það er því óljóst hvenær andvirði sölunnar verður tiltækt til notkunar fyrir samstæðuna.“
Heinaste var kyrrsett síðla árs 2019 og lá við bryggju í Walvis Bay í Namibíu að kröfu namibískra yfirvalda í rúmt ár. Þeirri kyrrsetningu var aflétt í nóvember 2020 og það í kjölfarið selt til namibíska útgerðarfyrirtækisins Tunacor Fisheries. Martha Imalwa, ríkissaksóknari í Namibíu, sagði við við vefritið Republikein að þessu tilefni að það hefði ekki verið hennar ákvörðun að aflétta kyrrsetningu Heinaste, heldur lögreglunnar, sem var með skipið kyrrsett á grundvelli laga um skipulagða glæpastarfsemi. Það hafi bæði verið kostnaðarsamt fyrir namibíska ríkið að halda verksmiðjutogaranum við bryggju í Walvis Bay og einnig hafi þetta verðmæta atvinnutæki verið að drabbast niður við hafnarkantinn í stað þess að nýtast við að sækja fisk á namibísk fiskimið.
Skiluðu ársreikningum löngu eftir að lögbundinn frestur var útrunninn
Samkvæmt lögum eiga félög með heimilisfesti á Íslandi að skila ársreikningum inn fyrir lok ágústmánaðar á ári hverju. Samherji Holding, sem er eitt stærsta fyrirtæki landsins með eigið fé upp á 61,3 milljarða króna í lok árs 2020, skilaði hins vegar ekki ársreikningum fyrir árið 2019 og 2020 til Skattsins fyrr en 30. desember 2021. Sama dag voru birtar valdar upplýsingar úr reikningunum á heimasíðu systurfélagsins Samherja hf.
Í tilkynningunni á heimasíðu Samherja sama dag og reikningunum var skilað inn sagði að óvissa vegna Namibíustarfseminnar og fjárhagslegra áhrifa hennar hafi „valdið þeim drætti sem orðið hefur á gerð ársreikninganna en stjórnin taldi mikilvægt að freista þess að fá sem gleggstar upplýsingar um þessa þætti áður en gengið yrði frá frá reikningunum.“
Ákvæði sem heimilar slit á félögum sem sinna ekki lögbundinni skilaskyldu á ársreikningum hefur verið til staðar í lögum frá árinu 2016. Kjarninn greindi frá því í haust að henni hefði aldrei verið beitt, vegna þess að það ráðuneyti sem stýrir málaflokknum,, sá hluti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem heyrir undir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, hafi ekki gefið út reglugerð sem virkjar það.
Því hafði ákvæðið verið dauður stafur í fimm ár og engu félagi sem virt hefur lögin um skil á ársreikningi að vettugi hafði fyrir vikið verið slitið.
Ákvæðið varð virkt 18. október 2021, eftir að reglugerðin var loks gefin út.
Kjarninn greindi frá því 10. nóvember síðastliðinn að ársreikningaskrá hefði þá enn sem komið er ekki krafist skipta neinu félagi sem hefði ekki skilað ársreikningi innan lögboðins frests.
Lestu meira um Samherja:
-
2. nóvember 2022BÍ sendir umboðsmanni Alþingis ábendingu vegna máls gegn fjórum blaðamönnum
-
22. júlí 2022Hagnaður Samherja nam 17,8 milljörðum
-
15. júlí 2022„Guð minn góður, af hverju hefði ég átt að fá greiddar mútur?“
-
15. júlí 2022Fitty segir milljónirnar hafa verið ráðgjafagreiðslur frá Samherja
-
20. febrúar 2022Endalausar tilraunir til þöggunar
-
19. febrúar 2022Yfirheyrslum yfir blaðamönnum frestað
-
18. febrúar 2022Ákvæði til að verjast stafrænu kynferðisofbeldi nýtt til að gera blaðamenn að sakborningum
-
15. febrúar 2022Bjarni: „Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu?“
-
15. febrúar 2022Lýsa yfir áhyggjum og undrun yfir því að blaða- og fréttamenn fái stöðu sakborninga vegna starfa sinna
-
14. febrúar 2022Blaðamenn með stöðu sakbornings fyrir að skrifa fréttir um „skæruliðadeild Samherja“