Slegist um átta pláss í sérdeildum grunnskóla Reykjavíkurborgar – Foreldrar búnir að fá nóg
Mikið færri komast að en vilja í sérdeildir í þeim sex grunnskólum Reykjavíkurborgar sem bjóða upp á slík úrræði. Foreldrar 30 barna með einhverfu hafa fengið „fyrirhugaða synjun“ um pláss næsta skólaár og nú tekur við ferli þar sem þeir ákveða að andmæla synjuninni eða sætti sig við að barnið fari í hverfisskólann með stuðningi. Mikið og erfitt ferli, segja sumir foreldrar – og óskýrt og ruglingslegt.
Fá útvalin börn fá laus pláss í sérdeild fyrir börn með einhverfu næsta skólaár í Reykjavík. Alls bárust 38 umsóknir í slíkt úrræði – sem er metfjöldi – en einungis 8 pláss eru laus þetta árið. Nú hafa foreldrar margra barna fengið svokallaða „fyrirhugaða synjun“ frá Reykjavíkurborg og má greina mikla reiði og örvæntingu hjá þeim.
Einhverfugreiningum barna á grunnskólaaldri hefur fjölgað mikið síðasta áratuginn. Árið 2010 voru þær 213 en á þessu ári alls 433. Í Reykjavík eru sérdeildir fyrir einhverf börn í sex grunnskólum en í þeim eru alls 58 pláss. Foreldrar gagnrýna úrræðaleysi, skort á upplýsingagjöf og það að plássum í sérdeild hafi ekki fjölgað í samræmi við greiningar.
Öll eiga skilið að fá þá aðstoð sem þau þurfa
Ellen Harpa Kristinsdóttir, móðir 6 ára drengs með dæmigerða einhverfugreiningu, málþroskaröskun og væga þroskaröskun, lýsir áhyggjum sínum af ástandinu í skólakerfinu í samtali við Kjarnann. Sonur hennar fékk á dögunum fyrirhugaða synjun fyrir næsta skólaár og hefur það valdið fjölskyldunni miklum áhyggjum.
Umsækjendum gefst tækifæri til að andmæla synjuninni og það ætlar Ellen að gera. Hún segir að staðan sé þó erfið og lýsir hún ástandinu sem vonlausu. Eins og fram hefur komið munu einungis 8 börn af 38 fá pláss í sérdeild og þýðir það þá að þessi 38 berjist um sömu plássin. Einnig er vert að nefna að þessi 8 pláss eru ekki einungis fyrir 1. bekkjar nema heldur fyrir nemendur á öllum grunnskólaaldri.
„Auðvitað vil ég að barnið mitt fái pláss en ég veit að aðrir foreldrar eru í mjög svipaðri stöðu. Það að við andmælum þessari niðurstöðu þýðir ekki að mitt barn eigi þetta endilega eitthvað meira skilið en önnur börn. Þau eiga öll skilið að fá þá aðstoð sem þau þurfa.“
Upplýsingagjöf í molum
Ellen segir að allir sérfræðingar sem hún hafi talað við hafi metið það þannig að drengurinn hennar þyrfti á stuðningi að halda og mæltu með því fyrir hann að fara í sérdeild eða í sérskóla.
Þannig stóðu tveir möguleikar, fyrir utan almennan skóla, drengnum til boða; að fara í sérdeild eða í Klettaskóla, sem er sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun og viðbótarfatlanir. Ellen segir að drengurinn hennar hafi sýnt miklar framfarir í ýmsum sviðum undanfarið og því myndi sérdeild henta honum einkar vel. „Þar gæti hann fengið að vera með krökkum og að skipta um umhverfi. Fyrir mér var þetta augljóst val. Í Klettaskóla eru krakkar aftur á móti með svo mikinn stuðning að ég sé ekki fyrir mér að strákurinn minn myndi passa þar inn.“
Ellen gagnrýnir harðlega að ekki sé meiri upplýsingagjöf til foreldra. Hún segist í raun ekki vita hvað tekur við næst eða hvað standi til boða fyrir son hennar í staðinn fyrir sérdeildina. Gert er ráð fyrir því að þau börn sem fá synjun um pláss í sérdeild fari í hverfisskóla með stuðningi.
Þetta telur hún skjóta skökku við.
„Þetta er bara orðið lottó“
Hvernig líst þér á að strákurinn þinn fari í hverfisskólann með stuðningi?
„Bara mjög illa,“ svarar Ellen um hæl og viðrar áhyggjur sínar vegna þessa. „Ef þau ætla að segja nei við 30 krakka og bjóða stuðning í hverfisskóla þá skil ég ekki hvernig þau ætla að manna þær stöður. Er til svona mikið af fagfólki í borginni sem getur sinnt 30 mismunandi börnum í staðinn fyrir að hafa sérdeild með fagaðila sem sér um þennan stuðning? Þetta er bara orðið lottó – hvort þú fáir góðan stuðning eða ekki.“
Ellen óskaði eftir fundi þegar fjölskyldan fékk þessa fyrirhuguðu synjun til þess að óska eftir svörum varðandi framhaldið. Sá fundur verður í byrjun næstu viku en á mánudaginn næstkomandi rennur út frestur til að andmæla synjuninni.
Fólk búið að fá nóg
Þroskahjálp hélt opinn fund um málið í vikunni og þar komu fram hin ýmsu sjónarmið foreldra barna með sérþarfir. Margir lýstu yfir áhyggjum sínum af ástandinu og óttuðust að börn þeirra fengju ekki þá aðstoð sem þau þyrftu. Uppi voru vangaveltur hvort gott væri fyrir börn með einhverfu að vera inn í almennum bekk ef stuðningsaðilar hefðu ekki sérstaka menntun eða reynslu til að sinna þessum börnum.
Fólk er búið að fá nóg, að mati Ellenar. Hún segir að fólk kvíði framtíðinni. Öll upplýsingagjöf sé af skornum skammti, bæði hvað umsóknarferli varðar sem og eftirmála. „Allt er þetta rosalega óskýrt. Þú veist ekkert hvort eða hvenær þú eigir von á plássi.“
Verður að vera val um úrræði
Ellen segir að hugmyndin um „skóla án aðgreiningar“ hljómi vel ef til staðar sé nægilegur stuðningur. „Við búum á litlu landi og það er bara ákveðið margt fagfólk í þessu fagi, þroskaþjálfar og aðrir. Mér finnst persónulega að það væri skynsamlegra að sérdeildir væru til staðar með pottþéttu fólki. Svo þetta væri ekki svona mikið lotterí.“
Bendir hún enn fremur á að hópur einhverfra sé mjög fjölbreyttur – og þess vegna sé gott að geta valið á milli úrræða. „Það er flott að hafa alla þessa þrjá kosti: Sérskóla, sérdeild eða stuðning í bekk. En það verður að vera hægt að velja um þessa kosti. Ekki að öllum sé bara hent í eitthvað.“
Skóli án aðgreiningar
Með skóla án aðgreiningar er átt við grunnskóla í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.
Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að í skóla án aðgreiningar sé sérhverju barni mætt í námi og félagsstarfi óháð atgervi þess og stöðu. Fullgild og virk þátttaka allra barna og virðing fyrir réttindum þeirra sé leiðarljós reykvískra grunnskóla.
Að allir nemendur eigi kost á að sækja hverfisskóla sinn þar sem þeir fá kennslu við sitt hæfi. Þetta merki meðal annars að foreldrar barna með alvarlegar fatlanir geta valið um það hvort börn þeirra sæki hverfisskóla, sérskóla eða sérdeildir.
Fólki býðst að halda umsókn sinni virkri
Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Kjarnans hvernig valið sé á milli umsókna segir að við innritun í einhverfudeild sé nemendum forgangsraðað eftir hamlandi einkennum einhverfu og að tekið sé mið af innsendum gögnum frá foreldrum með umsókninni, svo og vettvangsathugun fagfólks.
Áréttað er í svarinu að engri umsókn í einhverfudeild hafi formlega verið synjað en umsóknir fyrir næsta skólaár séu nú í vinnslu. Bent er á að vel á fimmta hundrað börn á einhverfurófi séu í almennum bekkjardeildum í grunnskólum borgarinnar.
„Foreldrar sem sótt hafa um inngöngu fyrir börn sín í einhverfudeild fengu tilkynningu um fyrirhugaða synjun en hafa andmælarétt til og með 3. maí næstkomandi og því er ekki enn búið að synja neinum formlega né bjóða neinum pláss. Það verður gert eftir 3. maí. Öllum umsækjendum býðst að halda umsókn sinni virkri þegar pláss í einhverfudeild losnar en tekið er inn í þær árlega og eru nemendur á öllum aldri. Þeir nemendur sem fá synjun munu geta innritast í almennan grunnskóla og býðst þeim þar mikill stuðningur. Einhverjir þessara nemenda munu komast í sérdeild síðar en ljóst er að synja þarf 30 af 38 umsækjendum á næsta skólaári,“ segir í svarinu.
Þá kemur jafnframt fram að reynslan sýni að margir foreldrar nemenda sem ekki komast inn í einhverfudeild og fara í almennan skóla dragi umsókn sína síðar til baka því reynslan af almennum skóla komi þeim mjög á óvart og nemendum líði yfirleitt mjög vel í almennri bekkjardeild.
„Misskilningur“ að einhverfudeild sé framtíðarúrræði
Fulltrúar Reykjavíkurborgar voru á fundinum með Þroskahjálp í vikunni og segir í fyrrnefndu svari að tilgangur fundarins hafi verið samtal við foreldra um málefni einhverfra barna og framtíð þeirra í almennum skólum. Í þeim sé unnið samkvæmt stefnu og alþjóðasamþykktum um menntun án aðgreiningar, og eins og komið hefur fram eru vel á fimmta hundrað einhverf börn í grunnskólum Reykjavíkur.
„Varðandi metfjölda umsókna í einhverfudeild þetta haustið þá er margt sem kemur til, svo sem auknar greiningar og að hluta til misskilningur um að einhverfudeild sé framtíðarúrræði, en markmið þeirra er að nemendur þeirra fari í almennar bekkjardeildir,“ segir í svari Reykjavíkurborgar.
Stendur til að fjölga plássum í einhverfudeild vegna þessarar eftirspurnar?
„Þessi mál eru í stöðugri skoðun og nú er unnið að stofnun einhverfudeildar í Réttarholtsskóla.“
Almennt skortur á sérmenntuðu starfsfólki í skólum
Kjarninn hafði samband við Einhverfusamtökin og spurði hvað virkaði vel í skólakerfinu fyrir einhverf börn, að þeirra mati, og hvað mætti betur fara.
Framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna, Sigrún Birgisdóttir, segir að svarið sé ekki einfalt – það sé einstaklingsbundið hvað virkar.
„Fyrir sum börn er nóg að fá stuðning inn í bekk, þ.e. ef aðstæður þar eru góðar og bekkurinn ekki of fjölmennur. Önnur börn þurfa sérdeild í sumum tímum en geta verið inni í bekk í öðrum. Svo eru sum börn með miklar og flóknar stuðningsþarfir og ná engan veginn að höndla daginn inni í almennum bekk,“ segir hún í skriflegu svari til Kjarnans.
Bendir hún á að almennt sé skortur á sérmenntuðu starfsfólki í skólum en þar er hún að tala um þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og sérkennara. Æskilegt væri að einnig færi fram sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun í skólum svo ekki þyrfti að sækja börnin og slíta sundur daginn til að fara í þessa tíma.
Mikil vinna sem þarf að fara fram í skólum ef þeir eiga að vera fyrir alla
Sigrún segir að hér séu bekkir almennt of fjölmennir, stuðningur of lítill og aðstæður þar sem eru opin rými og kennt í stórum hópum henti í raun ekki neinum börnum. Bekkir þurfi að vera fámennir og húsnæðið hentugt, þ.e. líta verði til hljóðvistar og lýsingar. Nauðsynlegt sé að hafa afdrep eða herbergi þangað sem börnin geta farið þegar áreitið inni í bekk er orðið of mikið.
„Það er mismunandi eftir skólum hvernig aðbúnaður er. Ef skólinn á að vera fyrir alla, án aðgreiningar, þá er ansi mikil vinna sem þarf að fara fram í flestum ef ekki öllum skólum,“ segir hún að lokum í svari sínu.
Lesa meira
-
27. desember 2022Góð orð eru eitt – en aðgerðirnar telja
-
10. desember 2022Skólastarf verðskuldar virðingu í umfjöllun
-
24. október 2022Hvíta húsið, UNESCO og endurbætt rannsóknamat
-
28. september 2022Píratar vilja að Menntasjóður fái heimild til að fella niður námslánaskuldir
-
1. september 2022Hvar eru strákarnir?
-
5. júlí 2022Vilja netöryggiskennslu inn í námskrá grunnskólanna
-
8. júní 2022Halda ekki utan um tölur um kvartanir er varða kynþáttafordóma
-
2. maí 2022Afborganir námslána í aukinni dýrtíð: Hvar er stefna stjórnvalda?
-
7. apríl 2022Áskorun og tækifæri í hversdagsleikanum
-
6. apríl 2022Hugsað til framtíðar