Ég styð fyrst og fremst stéttarfélagið. Allar deilur á milli starfsfólks og fyrrum forystu félagsins voru um aðferðir við framkvæmdir innan skrifstofunnar. Það voru aldrei neinar kvartanir sem vörðuðu mig eða mína hegðun. Ég styð róttæka nálgun gagnvart baráttunni fyrir félagsmenn okkar og í kjarabaráttunni. Ég studdi Sólveigu Önnu og Viðar í baráttu þeirra en starfsfólkið hér hjá Eflingu veit að ég stend líka með þeim.“
Þetta segir nýr formaður Eflingar, Agnieszka Ewa Ziólkowska, í samtali við Kjarnann en það hefur heldur betur gustað í kringum stéttarfélagið eftir skyndilega uppsögn fyrrverandi formanns, Sólveigar Önnu Jónsdóttur, og framkvæmdastjóra félagsins, Viðars Þorsteinssonar, í lok október.
Agnieszka segist ekki ætla að taka afstöðu með eða á móti fyrrum forystu eða starfsfólki Eflingar – hún segir að hún virði skoðanir allra sem hlut eiga að máli. Hún telur enn fremur að öldurnar hafi tekið að lægja og finnur hún ótvírætt fyrir stuðningi innan stéttarfélagsins til að halda áfram baráttunni. Hennar áhersla varði fyrst og fremst félagsmenn Eflingar og þjónustu við þá.
Agnieszka er 37 ára gömul og fæddist í Póllandi. Hún hefur búið hér á landi í 15 ár og segist hún alla tíð hafa unnið láglaunastörf – og verið í Eflingu lengst af.
Faðir hennar bjó á Íslandi og bauð henni að koma hingað í frí fyrir hálfum öðrum áratug. „Ég bara elskaði Ísland þegar ég sá landið og ég ákvað að ég vildi eiga hér heima. Áður en ég flutti hafði ég í huga að kaupa mér íbúð í Póllandi og safna fyrir henni með einhverjum hætti. En þegar ég kom til Íslands gerði ég mér grein fyrir því að ég vildi ekki íbúð í Póllandi heldur var draumur minn að festa rætur hér í staðinn.“
Hún segir að lengi hafi hún þó verið á leigumarkaði en verðið hafi hækkað gríðarlega frá því hún flutti hingað til lands. „Mér fannst ég vera neydd til að kaupa mér mitt eigið húsnæði og ég gerði mér grein fyrir því að það væri ódýrara fyrir mig að borga af láni en af leiguíbúð. Það var mun hagstæðara að finna íbúð til að kaupa fyrir utan Reykjavík en að leigja í bænum.“
Yfirmenn hennar hjá Kynnisferðum hótuðu henni
Agnieszka býr því nú fyrir utan Reykjavík, ásamt tveimur sonum, eiginmanni og nokkrum kanínum. Hún var trúnaðarmaður í fjögur ár á árunum 2015 til 2019 og segist hún hafa barist fyrir réttindum samstarfsfélaga sinna á þessum tíma. Hún vann sem strætóbílstjóri hjá Almenningsvögnum Kynnisferða.
Raunverulegir mótherjar okkar eru atvinnurekendur sem svindla á fólki og stela af því. Þeir eru hinir raunverulegu óvinir okkar.
„Á einum tímapunkti var mér hótað af yfirmönnum mínum hjá Kynnisferðum. Þeir báðu mig um að draga til baka kröfur okkar gagnvart fyrirtækinu. Ég samþykkti það ekki og ég var ekki hrædd við þá.“
Hún segist hafa kunnað vel við sig sem trúnaðarmaður vegna þess að hún vildi hjálpa fólki. „Mér leið vel í því hlutverki og þegar ég var trúnaðarmaður gerði ég mér grein fyrir því að í framtíðinni vildi ég hjálpa öðrum í fullu starfi – ekki einungis í pásunum á milli stoppistöðva,“ segir hún og hlær.
Agnieszka var mjög virkur trúnaðarmaður og segist hún meðal annars hafa skipulagt verkföll fyrir síðustu kjaraviðræður. Í gegnum það ferli kynntist hún verkalýðshreyfingunni enn frekar og einnig starfsfólki Eflingar. „Þetta leiddi mig að þeim tímapunkti að ég var kjörin varaformaður stéttarfélagsins árið 2019.“ Hún hafði þá nýlega eignast barn og því hóf hún störf hjá Eflingu stuttu seinna eftir fæðingarorlof.
Styður ákvörðun Sólveigar Önnu að hætta
Það hefur eflaust komið mörgum á óvart þegar Sólveig Anna skrifaði stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sína sunnudagskvöldið 31. október þar sem hún greindi frá því að hún hygðist segja starfi sínu lausu sem formaður Eflingar. Ástæðan var sú að hún sagði starfsfólk félagsins hafa hrakið sig úr starfi. Atburðarásin var hröð næstu daga og sagði framkvæmdastjórinn einnig af sér daginn eftir. En hvernig snýr þessi atburðarás við þér?
„Stjórnin hefur stutt ákvarðanir Sólveigar Önnu en hún er sú eina sem getur tekið ákvörðun um það hvort hún vilji halda þessari baráttu áfram hér innan Eflingar. Það var augljóst að á þessum tímapunkti sem hún segir af sér að allt hafi gengið aðeins of langt. Við styðjum hennar ákvörðun, eins og ég sagði áðan. Hún hefur rétt á því að hætta,“ segir Agnieszka og bætir því að við þessar aðstæður séu einstaklega erfiðar fyrir alla meðal annars vegna þess að enginn hafi verið undirbúinn fyrir þær.
„En megináhersla okkar er að tryggja að félagsmenn Eflingar fái áfram þá þjónustu sem þeir eiga skilið og að baráttan fyrir láglaunafólk haldi áfram. Efling er stéttarfélag og við verðum að vera sterk og sameinuð. Það verður að ríkja samstaða hér innan húss til þess að við getum haldið áfram að berjast. Raunverulegir mótherjar okkar eru atvinnurekendur sem svindla á fólki og stela af því. Þeir eru hinir raunverulegu óvinir okkar.“
Aðspurð hvernig henni líði persónulega með það sem gerðist og hvort henni finnist starfsfólkið hafa verið ósanngjart við fyrrum forystu segir Agnieszka að þetta snúist um einstaklingana sem um ræðir og atferli þeirra. „Ég tel að við munum stíga nauðsynlegt skref til að leysa málin farsællega. Við verðum að tryggja það að stéttarfélagið geti haldið áfram að starfa fyrir félagsmenn sína.“
Hún telur að allir eigi rétt á því að hafa sína eigin skoðun. „Ég einbeiti mér núna að því að tryggja það að félagsmenn okkar í Eflingu séu mikilvægastir í okkar störfum – eftir allt sem á undan er gengið. Eina afstaðan sem ég get tekið er með Eflingu – stéttarfélagi. Það er mikilvægast fyrir mig núna, þess vegna tek ég ekki afstöðu í þessu máli.“
Hvernig er mórallinn á skrifstofu Eflingar eftir þessi átök? Hvernig líður fólki í fyrsta lagi gagnvart þér og í öðru lagi gagnvart starfinu?
„Auðvitað líður fólki ekki vel vegna þess að flestir starfa hér af heilindum. Starfsfólkið leggur sig mikið fram til að þjónusta félagsmenn okkar.“
Að sögn Agnieszku hafa þau leitað sér utanaðkomandi aðstoðar til þess að sjá hvað farið hefur aflaga en gerð verður svokölluð vinnustaðaúttekt. Hún segir að það muni taka tíma að fara yfir þessi mál innan Eflingar og að þau vilji ekki flýta sér með það ferli. „Við viljum að allt verði gert með réttum hætti.“
Erlent fólk hluti af íslensku samfélagi
Nú lendir þú mjög óvænt í þessari stöðu – að vera allt í einu formaður eins stærsta stéttarfélags á Íslandi. Hvernig líður þér með það?
„Þetta var auðvitað mjög erfitt fyrst – að taka að sér öll þessi verkefni vegna þess að aðstæður eru mjög óvenjulegar. Þó er ég mjög ánægð með það að fá að þjónusta félagsmenn Eflingar en meira en helmingur 27.000 félagsmanna Eflingar er af erlendu bergi brotinn.”
Agnieszka er ánægð með að formaður Eflingar sé nú aðfluttur vegna þess að þá hafi fólk í þeim hóp fulltrúa úr sínum röðum.
Hún gefur lítið fyrir umræðu á samfélagsmiðlum um íslenskukunnáttu hennar. „Í fyrsta lagi vinna útlendingar á Íslandi flestir í láglaunastörfum – og vinna innan um aðra útlendinga sem einnig tala enga íslensku. Í öðru lagi skil ég íslensku og ég trúi því að það sé mjög mikilvægt að láta íslensk samfélag gera sér grein fyrir því að útlendingar eru hluti af þessu samfélagi. Við verðum að eiga rétt á því að taka þátt í samfélaginu – sama hversu lengi við dveljum hér. Þrátt fyrir að við tölum ekki fullkomna íslensku þá eigum við skilið að vera þátttakendur hér.“
Hún telur að þetta sé ekki og verði ekki vandamál í hennar störfum.
Agnieszka segist ekki hafa heyrt í Sólveigu Önnu eða Viðari síðan þau sögðu af sér. „Ég hef verið mjög upptekin af verkefnum mínum hér hjá Eflingu og í hreinskilni sagt hef ég ekki haft tíma til þess að heyra í þeim. Ég hef ekki einu sinni heyrt í vinum mínum á þessu tímabili.“
Hún segist bera mikla virðingu fyrir störfum Sólveigar Önnu og Viðars fyrir láglaunafólk og erlent launafólk. „Bara vegna þess hvað þau hafa gert í sinni baráttu þá geta útlendingar haft sinn málsvara í Eflingu.“
Er einhverra stefnubreytinga að vænta nú þegar þú hefur tekið við formannsstólnum í Eflingu – sérstaklega hvað samskipti varðar á skrifstofunni?
„Við ætlum að fá utanaðkomandi aðstoð til að kanna starfsandann, eins og ég sagði áðan, og spyrja hvað þurfi að laga. Hvar eru vandamálin og hvernig er hægt að leysa þau? Það er of snemmt að segja til um það hvort einhverjar breytingar verða á vinnulagi eða ekki.“
Hún segir að starfsfólkið styðji hana 100 prósent í hennar störfum.
Enn liggur ekki ljóst fyrir hvenær nýr framkvæmdastjóri tekur til starfa. Agnieszka segir að augljóslega þurfi að ræða málið innan stjórnar Eflingar og að ákvörðun muni liggja fyrir í framhaldinu. Ekki sé hægt að segja neitt til um tímasetninguna.
Halda áfram róttækri stefnu
En telur þú að það verði stefnubreyting varðandi baráttu Eflingar í kjaramálum nú þegar þú ert formaður?
Svarið er einfalt: „Nei.“
Hún segir að þau muni halda þeirri róttæku stefnu í kjaramálum sem Sólveig Anna talaði fyrir í sinni formannstíð. „Félagsmenn okkar eiga það skilið að það sé áfram barist fyrir þeirra kjörum og við viljum gera það áfram.“
Að hennar sögn eru starfsmenn Eflingar á sama máli og segir Agnieszka að fyrir síðustu kjaraviðræður og vinnu í kringum lífskjarasamningana þá hafi það komið í ljós. „Svo ég trúi því að við getum haldið áfram að berjast fyrir sömu góðu gildunum.“
Og þú telur að þessi átök innan Eflingar muni ekki breyta því?
„Ég held ekki. Ég held að þeir atburðir muni ekki hafa nein áhrif á hvernig skrifstofan starfar vegna þess að þetta er stéttarfélag. Mikilvægasta verkefnið á skrifstofunni er að þjónusta félagsmenn Eflingar. Þeir munu halda áfram sinni baráttu og verkföllum ef þeir þurfa þess. Skrifstofan mun standa við bakið á þeim í þeirri baráttu. Ég tel að starfsfólkið muni gera það heilshugar.“
Við höfum sömu stefnumál og Sólveig Anna hafði og einbeitum okkur að láglaunafólki. Við viljum halda áfram baráttunni fyrir þetta fólk.
Agnieszka segist telja að starfsfólkið hafi almennt stutt þessar róttæku hugmyndir. „Flestir myndu samþykkja að Sólveig Anna hafi sett málefni erlends launafólks á dagskrá í íslensku samfélagi. Hér höfum við einnig fólk af erlendum uppruna sem vinnur á skrifstofunni.“
Hvað með framtíðina? Hverjar eru áherslur Eflingar varðandi komandi kjarabaráttu?
„Við höfum sömu stefnumál og Sólveig Anna hafði og einbeitum okkur að láglaunafólki. Við viljum halda áfram baráttunni fyrir þetta fólk.“
Hún segist þannig ætla að vera með sömu áherslumál og fyrrum formaður. „Ég sé til þess þessa dagana að stéttarfélagið nái að starfa með eðlilegum hætti með öllum þeim verkefnum sem því fylgir. Við einblínum á að laga þau vandamál sem upp hafa komið og passa upp á að félagsmenn okkar fái þá þjónustu sem þeir þurfa.“
Hvað er mikilvægt að þínu mati að leggja áherslu á núna?
„Ég hef verið félagsmaður í Eflingu megnið af þeim tíma sem ég hef búið á Íslandi. Ég veit hversu mikilvægt það er að félagsmenn fái þá þjónustu sem þeir eiga skilið. Ég sé formannsembættið sem sameiningartákn fyrir félagsmenn. Efling verður að geta staðið með þeim þegar þeir þurfa á að halda vegna þess að láglaunafólk hefur ekki tök á að ráða lögfræðing til að berjast fyrir rétti sínum. Og trúðu mér, atvinnurekendur ganga stundum allt of langt. Svo þess vegna er svo mikilvægt að halda stéttarfélaginu gangandi – það er okkar markmið,“ segir hún að lokum.
Lesa meira
-
9. janúar 2023Hvernig má nýta helming mannauðs með skilvirkari hætti?
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Búast við lýðheilsulegum ávinningi af Borgarlínu
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
7. janúar 2023Blessað barnalán
-
6. janúar 2023Vin – Faglegt hugsjónastarf
-
6. janúar 2023Þriðjungur kostnaðar til kominn vegna þjónustu við fatlað fólk með vímuefnavanda
-
5. janúar 2023Íslendingar vilja að læknar veiti dánaraðstoð
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
4. janúar 2023Ekki færri ungmenni í foreldrahúsum frá upphafi mælinga