Bára Huld Beck

Tekur ekki afstöðu í deilum innan Eflingar – Það eru félagsmenn sem skipta mestu máli

Efling mun halda áfram róttækri stefnu sinni í málefnum verka- og láglaunafólks, að sögn nýs formanns stéttarfélagsins sem tók við eftir miklar sviptingar undanfarnar vikur. Agnieszka Ewa Ziólkowska segist ekki geta tekið afstöðu í þeim deilum sem upp hafa komið í stéttarfélaginu og kveðst hafa fullan stuðning starfsfólks félagsins.

Ég styð fyrst og fremst stétt­ar­fé­lag­ið. Allar deilur á milli starfs­fólks og fyrrum for­ystu félags­ins voru um aðferðir við fram­kvæmdir innan skrif­stof­unn­ar. Það voru aldrei neinar kvart­anir sem vörð­uðu mig eða mína hegð­un. Ég styð rót­tæka nálgun gagn­vart bar­átt­unni fyrir félags­menn okkar og í kjara­bar­átt­unni. Ég studdi Sól­veigu Önnu og Viðar í bar­áttu þeirra en starfs­fólkið hér hjá Efl­ingu veit að ég stend líka með þeim.“

Þetta segir nýr for­maður Efl­ing­ar, Agnieszka Ewa Ziólkowska, í sam­tali við Kjarn­ann en það hefur heldur betur gustað í kringum stétt­ar­fé­lagið eftir skyndi­lega upp­sögn fyrr­ver­andi for­manns, Sól­veigar Önnu Jóns­dótt­ur, og fram­kvæmda­stjóra félags­ins, Við­ars Þor­steins­son­ar, í lok októ­ber.

Agnieszka seg­ist ekki ætla að taka afstöðu með eða á móti fyrrum for­ystu eða starfs­fólki Efl­ingar – hún segir að hún virði skoð­anir allra sem hlut eiga að máli. Hún telur enn fremur að öld­urnar hafi tekið að lægja og finnur hún ótví­rætt fyrir stuðn­ingi innan stétt­ar­fé­lags­ins til að halda áfram bar­átt­unni. Hennar áhersla varði fyrst og fremst félags­menn Efl­ingar og þjón­ustu við þá.

Agnieszka er 37 ára gömul og fædd­ist í Pól­landi. Hún hefur búið hér á landi í 15 ár og seg­ist hún alla tíð hafa unnið lág­launa­störf – og verið í Efl­ingu lengst af.

Faðir hennar bjó á Íslandi og bauð henni að koma hingað í frí fyrir hálfum öðrum ára­tug. „Ég bara elskaði Ísland þegar ég sá landið og ég ákvað að ég vildi eiga hér heima. Áður en ég flutti hafði ég í huga að kaupa mér íbúð í Pól­landi og safna fyrir henni með ein­hverjum hætti. En þegar ég kom til Íslands gerði ég mér grein fyrir því að ég vildi ekki íbúð í Pól­landi heldur var draumur minn að festa rætur hér í stað­inn.“

Hún segir að lengi hafi hún þó verið á leigu­mark­aði en verðið hafi hækkað gríð­ar­lega frá því hún flutti hingað til lands. „Mér fannst ég vera neydd til að kaupa mér mitt eigið hús­næði og ég gerði mér grein fyrir því að það væri ódýr­ara fyrir mig að borga af láni en af leigu­í­búð. Það var mun hag­stæð­ara að finna íbúð til að kaupa fyrir utan Reykja­vík en að leigja í bæn­um.“

Yfir­menn hennar hjá Kynn­is­ferðum hót­uðu henni

Agnieszka býr því nú fyrir utan Reykja­vík, ásamt tveimur son­um, eig­in­manni og nokkrum kan­ín­um. Hún var trún­að­ar­maður í fjögur ár á árunum 2015 til 2019 og seg­ist hún hafa barist fyrir rétt­indum sam­starfs­fé­laga sinna á þessum tíma. Hún vann sem strætó­bíl­stjóri hjá Almenn­ings­vögnum Kynn­is­ferða.

Raunverulegir mótherjar okkar eru atvinnurekendur sem svindla á fólki og stela af því. Þeir eru hinir raunverulegu óvinir okkar.
Agnieszka segir að samstaða verði að ríkja innan Eflingar til þess að þau geti haldið áfram að berjast.
Bára Huld Beck

„Á einum tíma­punkti var mér hótað af yfir­mönnum mínum hjá Kynn­is­ferð­um. Þeir báðu mig um að draga til baka kröfur okkar gagn­vart fyr­ir­tæk­inu. Ég sam­þykkti það ekki og ég var ekki hrædd við þá.“

Hún seg­ist hafa kunnað vel við sig sem trún­að­ar­maður vegna þess að hún vildi hjálpa fólki. „Mér leið vel í því hlut­verki og þegar ég var trún­að­ar­maður gerði ég mér grein fyrir því að í fram­tíð­inni vildi ég hjálpa öðrum í fullu starfi – ekki ein­ungis í pás­unum á milli stoppi­stöðv­a,“ segir hún og hlær.

Agnieszka var mjög virkur trún­að­ar­maður og seg­ist hún meðal ann­ars hafa skipu­lagt verk­föll fyrir síð­ustu kjara­við­ræð­ur. Í gegnum það ferli kynnt­ist hún verka­lýðs­hreyf­ing­unni enn frekar og einnig starfs­fólki Efl­ing­ar. „Þetta leiddi mig að þeim tíma­punkti að ég var kjörin vara­for­maður stétt­ar­fé­lags­ins árið 2019.“ Hún hafði þá nýlega eign­ast barn og því hóf hún störf hjá Efl­ingu stuttu seinna eftir fæð­ing­ar­or­lof.

Styður ákvörðun Sól­veigar Önnu að hætta

Það hefur eflaust komið mörgum á óvart þegar Sól­veig Anna skrif­aði stöðu­upp­færslu á Face­book-­síðu sína sunnu­dags­kvöldið 31. októ­ber þar sem hún greindi frá því að hún hygð­ist segja starfi sínu lausu sem for­maður Efl­ing­ar. Ástæðan var sú að hún sagði starfs­fólk félags­ins hafa hrakið sig úr starfi. Atburða­rásin var hröð næstu daga og sagði fram­kvæmda­stjór­inn einnig af sér dag­inn eft­ir. En hvernig snýr þessi atburða­rás við þér?

„Stjórnin hefur stutt ákvarð­anir Sól­veigar Önnu en hún er sú eina sem getur tekið ákvörðun um það hvort hún vilji halda þess­ari bar­áttu áfram hér innan Efl­ing­ar. Það var aug­ljóst að á þessum tíma­punkti sem hún segir af sér að allt hafi gengið aðeins of langt. Við styðjum hennar ákvörð­un, eins og ég sagði áðan. Hún hefur rétt á því að hætta,“ segir Agnieszka og bætir því að við þessar aðstæður séu ein­stak­lega erf­iðar fyrir alla meðal ann­ars vegna þess að eng­inn hafi verið und­ir­bú­inn fyrir þær.

„En meg­in­á­hersla okkar er að tryggja að félags­menn Efl­ingar fái áfram þá þjón­ustu sem þeir eiga skilið og að bar­áttan fyrir lág­launa­fólk haldi áfram. Efl­ing er stétt­ar­fé­lag og við verðum að vera sterk og sam­ein­uð. Það verður að ríkja sam­staða hér innan húss til þess að við getum haldið áfram að berj­ast. Raun­veru­legir mótherjar okkar eru atvinnu­rek­endur sem svindla á fólki og stela af því. Þeir eru hinir raun­veru­legu óvinir okk­ar.“

Aðspurð hvernig henni líði per­sónu­lega með það sem gerð­ist og hvort henni finn­ist starfs­fólkið hafa verið ósann­gjart við fyrrum for­ystu segir Agnieszka að þetta snú­ist um ein­stak­ling­ana sem um ræðir og atferli þeirra. „Ég tel að við munum stíga nauð­syn­legt skref til að leysa málin far­sæl­lega. Við verðum að tryggja það að stétt­ar­fé­lagið geti haldið áfram að starfa fyrir félags­menn sína.“

Hún telur að allir eigi rétt á því að hafa sína eigin skoð­un. „Ég ein­beiti mér núna að því að tryggja það að félags­menn okkar í Efl­ingu séu mik­il­væg­astir í okkar störfum – eftir allt sem á undan er geng­ið. Eina afstaðan sem ég get tekið er með Efl­ingu – stétt­ar­fé­lagi. Það er mik­il­væg­ast fyrir mig núna, þess vegna tek ég ekki afstöðu í þessu máli.“

Hvernig er mórall­inn á skrif­stofu Efl­ingar eftir þessi átök? Hvernig líður fólki í fyrsta lagi gagn­vart þér og í öðru lagi gagn­vart starf­inu?

„Auð­vitað líður fólki ekki vel vegna þess að flestir starfa hér af heil­ind­um. Starfs­fólkið leggur sig mikið fram til að þjón­usta félags­menn okk­ar.“

Að sögn Agnieszku hafa þau leitað sér utan­að­kom­andi aðstoðar til þess að sjá hvað farið hefur aflaga en gerð verður svokölluð vinnu­staða­út­tekt. Hún segir að það muni taka tíma að fara yfir þessi mál innan Efl­ingar og að þau vilji ekki flýta sér með það ferli. „Við viljum að allt verði gert með réttum hætt­i.“

Erlent fólk hluti af íslensku sam­fé­lagi

Nú lendir þú mjög óvænt í þess­ari stöðu – að vera allt í einu for­maður eins stærsta stétt­ar­fé­lags á Íslandi. Hvernig líður þér með það?

„Þetta var auð­vitað mjög erfitt fyrst – að taka að sér öll þessi verk­efni vegna þess að aðstæður eru mjög óvenju­leg­ar. Þó er ég mjög ánægð með það að fá að þjón­usta félags­menn Efl­ingar en meira en helm­ingur 27.000 félags­manna Efl­ingar er af erlendu bergi brot­inn.”

Agnieszka er ánægð með að for­maður Efl­ingar sé nú aðfluttur vegna þess að þá hafi fólk í þeim hóp full­trúa úr sínum röð­um.

Hún gefur lítið fyrir umræðu á sam­fé­lags­miðlum um íslensku­kunn­áttu henn­ar. „Í fyrsta lagi vinna útlend­ingar á Íslandi flestir í lág­launa­störfum – og vinna innan um aðra útlend­inga sem einnig tala enga íslensku. Í öðru lagi skil ég íslensku og ég trúi því að það sé mjög mik­il­vægt að láta íslensk sam­fé­lag gera sér grein fyrir því að útlend­ingar eru hluti af þessu sam­fé­lagi. Við verðum að eiga rétt á því að taka þátt í sam­fé­lag­inu – sama hversu lengi við dveljum hér. Þrátt fyrir að við tölum ekki full­komna íslensku þá eigum við skilið að vera þátt­tak­endur hér.“

Hún telur að þetta sé ekki og verði ekki vanda­mál í hennar störf­um.

Agnieszka seg­ist ekki hafa heyrt í Sól­veigu Önnu eða Við­ari síðan þau sögðu af sér. „Ég hef verið mjög upp­tekin af verk­efnum mínum hér hjá Efl­ingu og í hrein­skilni sagt hef ég ekki haft tíma til þess að heyra í þeim. Ég hef ekki einu sinni heyrt í vinum mínum á þessu tíma­bil­i.“

Hún seg­ist bera mikla virð­ingu fyrir störfum Sól­veigar Önnu og Við­ars fyrir lág­launa­fólk og erlent launa­fólk. „Bara vegna þess hvað þau hafa gert í sinni bar­áttu þá geta útlend­ingar haft sinn málsvara í Efl­ing­u.“

Er ein­hverra stefnu­breyt­inga að vænta nú þegar þú hefur tekið við for­manns­stólnum í Efl­ingu – sér­stak­lega hvað sam­skipti varðar á skrif­stof­unni?

„Við ætlum að fá utan­að­kom­andi aðstoð til að kanna starfsand­ann, eins og ég sagði áðan, og spyrja hvað þurfi að laga. Hvar eru vanda­málin og hvernig er hægt að leysa þau? Það er of snemmt að segja til um það hvort ein­hverjar breyt­ingar verða á vinnu­lagi eða ekki.“

Hún segir að starfs­fólkið styðji hana 100 pró­sent í hennar störf­um.

Enn liggur ekki ljóst fyrir hvenær nýr fram­kvæmda­stjóri tekur til starfa. Agnieszka segir að aug­ljós­lega þurfi að ræða málið innan stjórnar Efl­ingar og að ákvörðun muni liggja fyrir í fram­hald­inu. Ekki sé hægt að segja neitt til um tíma­setn­ing­una.

Halda áfram rót­tækri stefnu

En telur þú að það verði stefnu­breyt­ing varð­andi bar­áttu Efl­ingar í kjara­málum nú þegar þú ert for­mað­ur?

Svarið er ein­falt: „Nei.“

Hún segir að þau muni halda þeirri rót­tæku stefnu í kjara­málum sem Sól­veig Anna tal­aði fyrir í sinni for­mann­s­tíð. „Fé­lags­menn okkar eiga það skilið að það sé áfram barist fyrir þeirra kjörum og við viljum gera það áfram.“

Að hennar sögn eru starfs­menn Efl­ingar á sama máli og segir Agnieszka að fyrir síð­ustu kjara­við­ræður og vinnu í kringum lífs­kjara­samn­ing­ana þá hafi það komið í ljós. „Svo ég trúi því að við getum haldið áfram að berj­ast fyrir sömu góðu gild­un­um.“

Og þú telur að þessi átök innan Efl­ingar muni ekki breyta því?

„Ég held ekki. Ég held að þeir atburðir muni ekki hafa nein áhrif á hvernig skrif­stofan starfar vegna þess að þetta er stétt­ar­fé­lag. Mik­il­væg­asta verk­efnið á skrif­stof­unni er að þjón­usta félags­menn Efl­ing­ar. Þeir munu halda áfram sinni bar­áttu og verk­föllum ef þeir þurfa þess. Skrif­stofan mun standa við bakið á þeim í þeirri bar­áttu. Ég tel að starfs­fólkið muni gera það heils­hug­ar.“

Við höfum sömu stefnumál og Sólveig Anna hafði og einbeitum okkur að láglaunafólki. Við viljum halda áfram baráttunni fyrir þetta fólk.
Agnieszka segist bera mikla virðingu fyrir störfum Sólveigar Önnu og Viðars fyrir láglaunafólk og erlent launafólk. „Bara vegna þess hvað þau hafa gert í sinni baráttu þá geta útlendingar haft sinn málsvara í Eflingu.“
Efling

Agnieszka seg­ist telja að starfs­fólkið hafi almennt stutt þessar rót­tæku hug­mynd­ir. „Flestir myndu sam­þykkja að Sól­veig Anna hafi sett mál­efni erlends launa­fólks á dag­skrá í íslensku sam­fé­lagi. Hér höfum við einnig fólk af erlendum upp­runa sem vinnur á skrif­stof­unn­i.“

Hvað með fram­tíð­ina? Hverjar eru áherslur Efl­ingar varð­andi kom­andi kjara­bar­áttu?

„Við höfum sömu stefnu­mál og Sól­veig Anna hafði og ein­beitum okkur að lág­launa­fólki. Við viljum halda áfram bar­átt­unni fyrir þetta fólk.“

Hún seg­ist þannig ætla að vera með sömu áherslu­mál og fyrrum for­mað­ur. „Ég sé til þess þessa dag­ana að stétt­ar­fé­lagið nái að starfa með eðli­legum hætti með öllum þeim verk­efnum sem því fylg­ir. Við ein­blínum á að laga þau vanda­mál sem upp hafa komið og passa upp á að félags­menn okkar fái þá þjón­ustu sem þeir þurfa.“

Hvað er mik­il­vægt að þínu mati að leggja áherslu á núna?

„Ég hef verið félags­maður í Efl­ingu megnið af þeim tíma sem ég hef búið á Íslandi. Ég veit hversu mik­il­vægt það er að félags­menn fái þá þjón­ustu sem þeir eiga skil­ið. Ég sé for­manns­emb­ættið sem sam­ein­ing­ar­tákn fyrir félags­menn. Efl­ing verður að geta staðið með þeim þegar þeir þurfa á að halda vegna þess að lág­launa­fólk hefur ekki tök á að ráða lög­fræð­ing til að berj­ast fyrir rétti sín­um. Og trúðu mér, atvinnu­rek­endur ganga stundum allt of langt. Svo þess vegna er svo mik­il­vægt að halda stétt­ar­fé­lag­inu gang­andi – það er okkar mark­mið,“ segir hún að lok­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal