Hvað á ég eiginlega að kjósa?“ spurði Jared Bibler í samtali sínu blaðamann, enda íslenskur ríkisborgari þrátt fyrir bandarískan uppruna og búsetu í Sviss allt frá árinu 2012. Hann fluttist til Íslands árið 2004 eftir að hafa áður hrifist af landinu sem ferðamaður. Þá grunaði hann ekki að hann ætti eftir að festa rætur og í framhaldinu taka þátt í rannsókn á þeim glæpum sem framdir voru í íslenska bankakerfinu á árunum fyrir hrun.
Jared segir frá því í viðtali við Kjarnann að bókina hafi hann ákveðið að skrifa sökum skorts á því að alþjóðlegir fjölmiðlar gerðu íslenska bankahruninu og eftirmálum þess almennileg skil í heild sinni. „Ég var alltaf að bíða eftir að Financial Times myndi covera þetta, en það gerðist aldrei,“ segir Jared. Hann segist einnig hafa skrifað bókina fyrir Huldu Björk, eiginkonu sína, sem lést af slysförum í Sviss árið 2013. Bókin er tileinkuð henni. „Hún var alltaf að hvetja mig áfram í starfinu hjá FME og ég veit að hún mun vita af því að þetta kemur út opinberlega.“
Svefnlausar nætur fylgdu starfinu fyrir Landsbankann
„Við á Íslandi erum alltaf að hugsa svo smátt, að bankarnir okkar hafi ekki verið stórir, en við vorum í rauninni með þrjú „Enron-dæmi“ sem hrundu á einni viku,“ segir Jared, sem skrifaði einmitt grein í Morgunblaðið árið 2010 þar sem hann setti umfang hruns íslensku bankanna í alþjóðlegt samhengi. Hann bendir á að nokkrar bækur hafi verið skrifaðar um hrun Enron, auk þess sem þeirri sögu allri hafi verið gerð skil á hvíta tjaldinu. Að sama skapi sé ógnarvöxtur og hrun íslensku bankanna „saga sem veröldin á að kynnast og læra af“.
Jared, sem er verkfræðingur frá MIT-háskólanum í Bandaríkjunum, lýsir því sem hægt er að kalla vafasama starfshætti eignastýringarsviðs og sjóða Landsbankans í aðdraganda hrunsins. „Landsbankinn var með eignastýringarsvið og svo var líka til Landsvaki, sem var sjóðsstýringarfyrirtæki í 100 prósent eigu Landsbankans. Og við vorum í rauninni í sama herberginu,“ rifjar Jared upp, en fyrir þau sem ekki þekkja til ætti að vera uppreistur Kínamúr á milli þessara tveggja sviða ef allt væri eðlilegt. Sem það var ekki.
Á köflum eru lýsingarnar hreint kostulegar, en Jared starfaði hjá Landsvaka, sem rak verðbréfasjóði bankans. „Já, Jesus Christ. Þetta var ótrúlegt og ég gat ekki sofið í marga mánuði. Ég fékk alltaf viðbrögðin: „Jared minn þú ert að pæla of mikið. Bring me solutions!“
Í bókinni segir auk annars frá fjárfestingu sjóðsins Landsbanki Aquila Real Estate Fund (Laref) í einu tilteknu verkefni í Búkarest í Rúmeníu, sem óhætt er að segja að hafi farið verulega út af sporinu.
Fyrirtækið Askar Capital fór fyrir verkefninu en sjóður Landsbankans kom með fjármagnið að borðinu. „Askar voru að ljúga að okkur á fullu,“ segir Jared um hið mikla fasteignaþróunarverkefni í Búkarest. „Það var alltaf verið að senda okkur tilkynningar, ársfjórðungslega, á ensku, um hvað allt gengi vel í ferlinu,“ en Jared varð engu að síður skeptískur á framvinduna.
„Vinkona mín bjó í Búkarest og fór þangað fyrir mig og tók símamyndir. Og það var bara ekkert í gangi. Í heilt ár. Þetta var bara eitthvað drasl húsnæði í úthverfi Búkarest,“ segir Jared hlæjandi og blaðamaður nánast heyrir hann hrista hausinn á heimili sínu í Zürich í Sviss.
„Það var svo mikið af einhverju svona í gangi, þetta var alls staðar í Landsbankanum á þeim tíma. Þegar ég var að vinna fyrir FME hringdi fyrrverandi starfsmaður Landsbankans í mig og sagði: „Heyrðu, vissir þú að Peningabréf Landsbankans voru með í rauninni tvö uppgjörskerfi, two sets of books?“
Lýsir Jared því að það hafi verið eitt kerfi sem var opinbert og formlega með verð sjóðsins sem voru gefin út dagsdaglega, en sjóðsstjórar voru með Excel-skjal sem var svona „raunhæft“. Þetta segir Jared að hafi verið í gangi í ef til vill sex mánuði, jafnvel ár, áður en allt hrundi og sé nánast skólabókardæmi um fjárdrátt.
„Þetta heyrði ég bara eftir á. Peningabréfin voru á þessum tíma stærsti sjóður á Íslandi. Með fullt af peningum allsstaðar frá á Íslandi. Í raun var sjóðurinn að kaupa skuldabréf útgefin af skúffufyrirtækjum og þessi skúffufyrirtæki voru að kaupa upp eigin bréf Landsbankans. Við vorum að fjármagna það. Þjóðin sjálf. Almenningur,“ segir Jared.
Hann fékk nóg af starfinu og vanlíðaninni sem því fylgdi og ákvað að hætta hjá bankanum. Síðan féllu bankarnir einungis nokkrum dögum seinna. Jared lýsir því í bókinni að skyndilega hafi tilvera hans umturnast, eins og margra annarra Íslendinga. Horfa þurfti í hverja krónu eftir áralangt góðæristímabil, þar sem verslunarferðir til Bandaríkjanna höfðu orðið að þjóðaríþrótt. Og það var ekki einfalt að fá vinnu. Árið 2009 hreppti Jared þó starf hjá FME, sem rannsakandi á verðbréfasviði.
Í starfi sínu kom hann fljótlega auga á þá markaðsmisnotkun sem stunduð var af öllum stóru íslensku bönkunum á árunum fyrir hrun. Hann lýsir því í bókinni að eitt af því fyrsta sem hann hafi verið fenginn til að gera hafi verið að skoða viðskiptagögn úr Kauphöllinni, dagana fyrir hrun. Þar hafi hann hnotið um það að bankarnir sjálfir voru að kaupa nánast öll þau bréf sem hreyfðust á markaðnum. Við frekari eftirgrennslan kom svo í ljós að þetta hafði viðgengist árum saman.
Jared leiddi um meira en tveggja ára skeið annað af tveimur teymum sem fóru með rannsóknir á þessum markaðsmisnotkunarmálum, sem snerust í grunninn um það sama hvort sem það var Kaupþing, Landsbanki eða Glitnir sem áttu í hlut; kaup bankanna á eigin bréfum í þeim tilgangi að halda hlutabréfaverði bankanna háu í þeim tilgangi að geta rakað inn lánsfé erlendis frá.
„Málin voru stærstu markaðsmisnotkunarmál heimssögunnar, og án þeirra hefði lífið á Íslandi verið miklu betra. Fyrir mig eru málin þrjú lykilmálin í góðærinu og kreppunni,“ segir Jared og bætir við að án markaðsmisnotkunarinnar hefðu bankarnir aldrei getað aflað sér alls þess lánsfjár sem þeir sóttu.
Upplifði þrýsting um að „klifra ekki of hátt í Kaupþingi“
Hann segist ánægður með að Íslandi hafi tekist að fara þá leið, öfugt við mörg önnur ríki sem voru að gera upp bresti í sínum fjármálakerfum, að gera stjórnendur í bönkunum ábyrga fyrir ólögmætum starfsháttum bankanna. En lýsir því um leið að það hafi ekki verið sjálfsagt að sú leið hafi verið farin.
Hann segist til dæmis hafa verið „undir þrýstingi“ frá yfirboðurum sínum í FME um „að klifra ekki of hátt í Kaupþingi“. Í bókinni lýsir hann því að hans næsti yfirboðari hafi í upphafi viljað senda markaðsmisnotkunarmál Kaupþings til ákærumeðferðar hjá sérstökum saksóknara undir þeim formerkjum að það hefði einungis verið á ábyrgð ungra og óreyndra starfsmanna bankans sem sáu um að framkvæma sjálf viðskiptin.
„Þá átti ég bara að senda það til saksóknara,“ segir Jared, sem taldi þó rétt og eðlilegt að stjórnendur yrðu látnir sæta ábyrgð og náði að koma því til leiðar.
Á endanum voru níu manns ákærð í málinu, þeirra á meðal Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg. „Ég held að við getum verið ánægð með að hafa strax farið á eftir stærsta fólkinu í stærsta bankanum, því það var ekki gert annarsstaðar, ekki í Bandaríkjunum og ekki í Bretlandi,“ segir Jared.
„Það var alltaf smá þrýstingur settur á mig. Það sem kom á móti var, að þegar ég fór til dæmis í partý úti í bæ og sagði fólki að ég væri að rannsaka hrunmálin fyrir FME fékk ég alltaf viðbrögðin: „Haltu áfram maður, go get them“ og slíkt,“ segir Jared. Hann segist meira að segja einu sinni hafa sagt við yfirmann sinn hjá FME að hann væri ekki að starfa fyrir hann. „Yfirmaðurinn minn er þjóðfélagið,“ segist Jared hafa tjáð yfirmanninum. Hann hafi litið svo á að hann væri með smá umboð frá þjóðinni, þessi tæpu tvö ár sem hann var rannsakandi hjá FME.
Vantar hvata í eftirlitið
Af lestri bókarinnar má ráða að Jared hafi talið FME frekar veikburða stofnun til þess að takast á við þá stöðu sem hér kom upp er bankarnir hrundu og aðstöðumuninn á milli opinbera eftirlitsins og bæði gömlu og nýju bankanna sem reistir voru úr rústum þeirra mikinn. Jared segir ætlun sína ekki hafa verið að gefa til kynna að eftirlit með fjármálastarfsemi hefði verið verra hér á landi en annarsstaðar. Það hafi verið – og sé enn – víða í ólestri, ekki bara á Íslandi.
„Vonandi kemur það skýrt fram í bókinni að þetta er stærra vandamál. Ísland er bara svona test case,“ segir Jared. „Fólk er ekki með reynslu og það er alltaf betra tækifæri innan fjármálakerfisins sjálfs. Góður starfsmaður innan FME getur farið til Kaupþings eða Arion banka eða hvað þetta heitir núna og kannski tvöfaldað launin sín. Þess vegna er aldrei vilji til þess að gera eitthvað stórt, því að starfsmaður sem er góður og vill eitthvað betra tækifæri, hann vill ekki gera Arion banka brjálaðan. Við erum ekki að stilla upp samfélaginu þannig að eftirlitið verði sterkt, það eru engir hvatar fyrir eftirlitið til þess að gera vel,“ segir Jared.
Þetta var svo erfitt á þessum tíma og maður varla átti fyrir mat. Ástandið var svo slæmt á Íslandi. Mér fannst ótrúlegt að Íslendingar væru að halda áfram að plata og svíkja.
Hann nefnir dæmi í bókinni um lögfræðing sem starfaði með honum hjá FME og virtist ekki vilja ganga í málin sem Jared vildi ganga í. „Hann vildi bara komast að því hvernig hann gæti ekki gert neitt. Var ánægður með að lesa lögin og drekka kaffi. En ég hef séð svona dæmi allsstaðar í heiminum,“ segir Jared.
Innan FME segir Jared þó að litlir burðir hafi verið til þess að takast á við allt það sem hefði þurft að skoða eftir hrun bankakerfisins. „Sviðið sem var að sjá um útlán Landsbanka, Kaupþings og Glitni, þetta svið voru 5 eða 6 manns með þrjú „Enron-dæmi“ á móti sér. Það er ekkert hægt.“
Segir stór svikamál hafa átt sér stað eftir hrun
Þrátt fyrir að Jared sé, eins og áður var nefnt, nokkuð sáttur með það sem hann og samstarfsfólk hans hjá FME náði að koma til leiðar frá 2009 til 2011 svíður honum ljóslega hvernig skipulagsbreytingar hjá stofnuninni árið 2011 og niðurlagning rannsóknarteymanna sem þar störfuðu komu í veg fyrir að mörg mál væru rannsökuð til fulls.
Þar á hann við tugi innherjasvikamála, auk annars. Raunar segist Jared telja að einungis 5-10 prósent mála sem hægt hefði verið að rannsaka og ákæra fyrir eftir hrun hafi komist frá eftirlitinu, ef litið er til málafjölda.
Hann segir frá því í bókinni að Unnur Gunnarsdóttir, þá yfirlögfræðingur FME, síðar forstjóri eftirlitsins frá 2012 og nú varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, hafi sagt honum árið 2011 að það væri einfaldlega ekki þörf á frekari rannsóknum á hrunmálunum. Jared fullyrðir að hún hafi kallað hann barnalegan fyrir að halda því fram að mál eins og þau sem áttu sér stað í aðdraganda hruns gætu átt sér stað aftur.
„Hún sagði það við mig. Og þetta voru mikil vonbrigði. Við vorum bara búin að sjá 5 eða 10 prósent af málunum á þeim tíma. Það var miklu meira að gera. Það voru líka í gangi stór glæpamál eftir hrun,“ segir Jared og blaðamaður spyr til hvers hann sé að vísa.
„Það voru innherjamál sem ég sá sem voru mjög slæm á þeim tíma. Og málin með gjaldeyrinn og Seðlabankann. Fólk var að kaupa krónur í Bretlandi og taka aftur til Íslands og nota til þess falska reikninga. Fólk var bara að stela pening út úr Seðlabankanum árin 2008 og 2009,“ segir Jared og rekur síðan fléttur sem hann segir að fyrrverandi bankastarfsmenn hafi nýtt sér í stórum stíl til þess að ná gjaldeyri út úr Seðlabankanum á tímum gjaldeyrishafta.
„Það virkaði þannig að Seðlabankinn borgaði alltaf reikninga ef þeir komu frá til dæmis Bretlandi í pundum eða frá Sviss í frönkum. Menn gátu bara stillt upp einhverju dummy fyrirtæki í Sviss og það gat selt ráðgjafaþjónustu til Íslands, fyrir kannski 100 þúsund franka. Svo er hægt að setja upp skúffufyrirtæki á Íslandi og fyrirtækið mitt í Sviss sendir fyrirtækinu þínu á Íslandi reikning fyrir 100 þúsund franka ráðgjafaþjónustu. Það voru gjaldeyrishöft á Íslandi og ekki hægt að kaupa franka nema maður væri með reikning. Þú gast farið með reikninginn í Seðlabankann og sagt: „Getið þið greitt þessa 100 þúsund franka út til Sviss?“
Seðlabankinn sagði bara: „Já, ekkert mál. Here you go. Hér eru 100 þúsund frankar frá þjóðinni út til Sviss.“ Og ég í Sviss fæ 100 þúsund franka frá þér, frá Íslandi. Núna er ég með 100 þúsund franka úti í Sviss og get núna keypt ríkisskuldabréf og sent aftur til þín. Og þú ert að tvöfalda peninginn þinn í krónum á Íslandi. Og þjóðin er að borga það, Seðlabankinn er að borga það. Þetta var mikið í gangi á Íslandi árið 2009,“ segir Jared.
„Þú gast fengið frankann á kannski 100 krónur á Íslandi. En úti vildi enginn íslensk skuldabréf og í Sviss var hægt að kaupa 250 krónur fyrir einn franka. Þetta var svikamyllan.“
Hann segir að hann viti til þess að það hafi verið „smá teymi innan FME að skoða þetta árið 2009“ og eitthvað hafi verið sent til Seðlabankans vegna þessara mála. „En ég veit ekki hvernig það endaði. Ég treysti ekki Seðlabankanum á þessum tíma. Neyðarlánið, Davíð Oddsson og allt það,“ segir Jared.
„Þetta var svo erfitt á þessum tíma og maður varla átti fyrir mat. Ástandið var svo slæmt á Íslandi. Mér fannst ótrúlegt að Íslendingar væru að halda áfram að plata og svíkja.“
Vildi skoða Seðlabankann og Kauphöllina
Jared segir frá því í bókinni að hann hafi viljað rannsaka 500 milljóna evra neyðarlánið sem Seðlabankinn ákvað að veita Kaupþingi sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi, þann 6. október árið 2008. Honum hafi hins vegar verið sagt að FME gæti ekki rannsakað gjörðir Seðlabankans.
Að sama skapi vildi hann taka Kauphöll Íslands til rannsóknar, sem vettvang markaðmisnotkunarinnar. „Þetta eru stærstu markaðsmisnotkunarmál sögunnar. Og ég vildi bara skoða, hvernig þetta var í Kauphöllinni. Því við sáum viðskiptin úr Kauphöllinni og það var augljóst að það var stundum bara einn maður að sópa upp til dæmis öllum bréfum í Kaupþingi allan daginn. Ég hefði verið til í að sjá tölvupósta innan Kauphallarinnar, var einhver kvíðinn yfir þessu? En það var aldrei gert,“ segir Jared.
Hefði þurft að grípa í bremsuna
Jared segir ljóst að sama hvað líður vandræðunum í alþjóðlega fjármálakerfinu árið 2008 hafi íslensku bankarnir verið orðnir of stórir, of skuldsettir og ósjálfbærir löngu áður, öfugt við þá söguskoðun sem stundum nái jafnvel að verða ráðandi á Íslandi, að íslensku bankarnir hafi verið fórnarlömb aðstæðna sem sköpuðust á erlendum mörkuðum.
Hann segist nýlega hafa fengið tilvitnun senda frá erlendum manni sem var háttsettur í Kaupþingi, en þegar hún barst var bókin farin í prentun. „Hann var einn af topp fimm eða átta manns í Kaupþingi og sagði að árið 2005 hefði Kaupþing verið „þrot“. Þessir bankar voru í vandræðum frá kannski 2002-2003. Þetta er eins og í Ponzi-svikum. Bankinn er að gefa út slæm lán og mikið af þeim. Þá er bara ein leið til að lifa áfram og það er að stækka bankann. Það sem var að gerast 2003-2006 var að þeir voru að skuldsetja sig meira erlendis frá og tvöfalda bankana á hverju ári. Þessir bankar voru alltaf í vandræðum,“ segir Jared.
Hann telur að „mini-krísan“ árið 2006 hefði verið tímapunkturinn fyrir Ísland til þess að taka stöðuna og horfa á það sem var í gangi í bönkunum, sem samfélag. „Það var ekki neitt gert,“ segir Jared, en á þessum tíma hættu evrópskir fjárfesta að miklu leyti að vilja kaupa skuldabréf íslensku bankanna.
„Þá fór Kaupþing til Bandaríkjanna og Mexíkó, Japan og Hong Kong til að selja skuldabréfin. Og Landsbankinn fór í þetta helvítis Icesave-dæmi til að afla peninga, því þetta var alltaf spurning um að tvöfaldast á hverju ári.“
Með falli Lehman-bankans í Bandaríkjunum hafi svo lokast á að möguleika íslensku bankanna til frekari skuldsetningar. „Fjármálakreppan kom loksins til að stöðva þetta, en Ísland var alltaf í vandræðum með þetta fjármálakerfi,“ segir Jared, sem segist raunar efast um að það sé allt við hestaheilsu í fjármálakerfinu á Íslandi í dag.
Og af hverju telur hann það?
„Í raun er þetta bara sama fólkið sem er að sjá um allt,“ svarar hann um hæl.
„Að horfa til framtíðar“ sé versti frasinn
Í samtali við blaðamann segist hann harma það að ekki hafi verið sett upp varanlegt eftirlits- og rannsóknateymi hjá Fjármálaeftirlitinu. Hann hafi fengið að heyra það að ekki væri þörf á slíku teymi á Íslandi þar sem Danir væru ekki með slíkt. „The Danes don’t have it so we don’t need it. Týpískt íslenskt,“ segir Jared og segir engu hafa skipt þó hann benti á að slík teymi væru í fjármálaeftirlitsstofnunum í Bretlandi, Bandaríkjunum og Sviss.
„Ég held að tilfinningin í íslensku elítunni hafi árið 2011 verið að það væri komið nóg. Tími kominn til þess að slökkva og gera eitthvað annað. Versti frasinn í tungumálinu er að „horfa til framtíðar“. Obama var að segja það í Bandaríkjunum þegar hann ákvað að gera bara ekki neitt í fjármálakrísunni þar. Við þurfum að horfa til framtíðar, já. En þegar morð er framið segjumst við ekki þurfa að horfa til framtíðar,“ segir Jared, sem sjálfur sóttist eftir starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins er það var auglýst árið 2012.
Hann segir að það viðhorf hafi orðið ráðandi innan FME að ekki þyrfti að gera mikið meira til þess að gera upp hrunið. Spurður hvort hann viti eitthvað hvað hafi nákvæmlega ráðið því hvernig þar spilaðist úr málum segist Jared ekki vita það.
„Ég veit ekki nákvæmlega hvaðan þrýstingurinn kom. En mér var sagt að það væri kominn tími til að halda áfram með lífið. Ég veit ekki hvaðan það kom.“
Hann segir að mál sem verið var að rannsaka í sparisjóðakerfinu muni vegna þessa aldrei koma upp á yfirborðið og ekki heldur fjölmörg innherjamál. „Sumt var gert, og ég til dæmis nefni í bókinni málið hans Friðfinns hjá Glitni sem var mjög augljóst mál og auðvelt að rannsaka, en það voru kannski 20, 30 eða 50 svipuð mál sem við fórum aldrei í. Við vorum bara með einn mann í að rannsaka innherjamál eftir krísuna,“ segir Jared.
Ábyrgðarleysi íslenskrar tungu
Sjónarhorn Jareds sem höfundar er stundum áhugavert, þar sem sagan er sögð af hálfu innflytjanda í íslensku samfélagi sem var í hringamiðju atburða. Oft og tíðum lýsir Jared því sem honum þótti undarlegt, eins og það ábyrgðarleysi sem stundum einkennir hvernig Íslendingar segja frá einhverju sem betur hefði mátt fara.
Mistök gerast á Íslandi, en órætt er í hverju þau felast eða hver ber ábyrgð á þeim, jafnvel í umfjöllunum fjölmiðla eða í bréfaskriftum á milli opinberra stofnana.
Blaðamaður spyr út í þetta og Jared hlær. „Í málfræðinni heitir það miðmynd, er það ekki? Þetta er kallað middle-voice á ensku,“ segir hann og bætir við að Bandaríkjunum sé frekar notuð germynd („ég gerði mistök“) á meðan að í Bretlandi sé notuð þolmynd („mistök voru gerð“). Á Íslandi er hinsvegar oft sagt frá því mistök hafi einfaldlega gerst.
„Þegar ég var að læra íslensku þótti mér þetta svo merkilegt, hvernig fólk notaði þetta og orðatiltæki eins og „þetta reddast“. En kannski er það nauðsynlegt á Íslandi, af því að það er svo fátt fólk,“ segir Jared.
Vonar að bókin geri eitthvað gott fyrir landið
Bókin Iceland’s Secret kemur út hjá bresku útgáfunni Harriman House í upphafi næsta mánaðar, en íslensk þýðing á bókinni er ekki fyrirhuguð að svo stöddu þrátt fyrir að Jared hafi sett sig í samband við íslenska útgáfu fyrr á þessu ári í von um að hann næði bókinni inn í íslenska jólabókaflóðið.
„Útgefandinn minn var líka í sambandi við Pennann um daginn um að selja bókina á Íslandi en fékk bara svarið nei takk, við höfum ekki áhuga. Sem er áhugavert því ég upplifði það þegar ég bjó á Íslandi að Íslendingar hefðu mjög mikinn áhuga á öllu sem skrifað væri um Ísland í útlöndum,“ segir Jared.
Hann segist þó vona að bókin nái einhverri útbreiðslu hérlendis. „Ég vona að bókin geti gert eitthvað gott fyrir landið, því ég elska landið, ég elska þjóðina og ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi saga komi út á Íslandi.“
Lestu meira
-
19. september 2022Fyrrverandi þingmaður Samfylkingar biðst afsökunar á sínum hlut í Landsdómsmálinu
-
5. maí 2022Unnið að gerð ákæru í Lindsor-málinu í Lúxemborg – Næstum 14 ár frá málsatvikum
-
11. janúar 2022Bók um íslenska hrunið fær glimrandi umsögn í Financial Times
-
10. nóvember 2021Stendur við orð sín um að Seðlabankinn hafi verið misnotaður
-
8. nóvember 2021Viðskiptabankarnir misnotaðir, ekki Seðlabankinn
-
12. október 2021Varaseðlabankastjóri hafnar ummælum sem eftir henni eru höfð í nýrri bók
-
4. október 2021Von á niðurstöðu um hvort ákært verði í Lindsor-málinu næsta vor
-
22. september 2021Fullyrðir að gjaldeyri hafi verið stolið úr Seðlabankanum með fölskum reikningum
-
19. september 2021Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
-
6. ágúst 2021Ólafur Ólafsson vildi fá á fjórða tug milljóna vegna lögmannskostnaðar og miska